Fara í efni

Níu verkefni klára Vaxtarrými Norðanáttar

Níu verkefni klára Vaxtarrými Norðanáttar
Viðburðir

Níu verkefni klára Vaxtarrými Norðanáttar

Vaxtarrými er átta vikna viðskiptahraðall með fókus á sjálfbærni, rammað inn af þemanu “mat, orka, vatn”, þar sem þátttakendur fá tækifæri til að efla sig og sín fyrirtæki og vaxa með vindinn í bakið.

Þetta er í annað sinn sem Norðanátt stendur fyrir hraðlinum. Vaxtarrými hófst 3. október en þátttakendur hafa síðastliðnar átta vikur fengið fræðslu, setið vinnustofur á Dalvík, Skagaströnd, Húsavík og Akureyri og tengst reynslumiklum aðilum víða úr atvinnulífinu á svokölluðum mentorafundum.

Lokaviðburður Vaxtarrýmis var haldinn með pompi og prakt fimmtudaginn 24. nóvember síðastliðinn í Listasafni Akureyrar þar sem nýsköpunarteymin stigu á stokk og kynntu verkefni sín fyrir fullum sal boðsgesta en um 80 manns sóttu viðburðinn og hlýddu á þeirra kraftmiklu kynningar.

Kolfinna María Níelsdóttir, verkefnastjóri Norðanáttar opnaði viðburðinn og stýrði dagskrá og í kjölfar hennar fóru Lára Halldóra Eiríksdóttir, stjórnarformaður SSNE, Katrín Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV og Sesselja Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Eims með innblásturserindi.

Teymi Vaxtarrýmis 2022:

 

PELLISCOL 
Íris Björk Marteinsdóttir & Ívar Örn Marteinsson: PellisCol ætlar að þróa náttúrulegar Spa húðvörur með íslensku kollageni og færa þannig kollagenið nær húðinni með áherslu á afslöppun og endurnýjun.

 

SNOÐBREIÐA 
Kristín S. Gunnarsdóttir: Snoðbreiða er umhverfisvæn lausn unnin úr ull til notkunar við ræktun á matjurtum, blómum og öðrum gróðri.

 

EARTH TRACKER
Jean-Pierre Lanckman: Earth Tracker answers the need for accurate climate impact study by developing high resolution models, online tools and localclimate adaptation strategies.

 

SKARFAKÁL ARCTIC CIRCLE
Mayflor Perez Cajes: Skarfakál Arcrtic Circle mun efla og fjölga atvinnutækifærum í Grímsey, nýta auðlindina, stuðla að nýsköpun og auka framleiðslu af nýju hráefni í matvælaframleiðslu á Íslandi.

 

GRIÐUNGR
Hildur Leonardsdóttir & Brynja Hlíf Þorsteinsdóttir: Griðungr framleiðir hágæða húðvörur án allra skaðlegra efna úr nautatólg og íslenskum jurtum.

 

LOGN
Vilhjálmur Jónasson: Landhreinsun og nýting.

 

BURNIRÓT 
María Eymundsdóttir & Pálmi Jónsson (Hulduland): Hágæðavara sem ræktuð er á sjálfbæran hátt, hefur jákvæð áhrif á andlega líðan og er orkugefandi.

 

AMC ROÐLEÐUR
María Dís Ólafsdóttir:  Gríðarlegt magn af roði fellur til sem hliðarafurð frá sjávarútveginum, á sama tíma fyllast landfyllingar af endingarlitlum textíl. Með því að framleiða leður úr roði í stærri einingum má leysa þessi vandamál.

 

GRÆNAFL
Kolbeinn Óttarsson Proppé: Grænafl ehf. berst gegn loftslagsvánni með því að vinna að rafvæðingu strandveiðibáta og stuðla að orkuskiptum.

 

Norðanátt byggir á hringrás nýsköpunar þar sem frumkvöðlar fá tækifæri til að þróa hugmyndir sínar, vaxa og ná lengra. Hringrásin samanstendur af hugmyndasamkeppninni Norðansprotanum, viðskiptahraðlinum Vaxtarrými og fjárfestahátíð sem haldin er á Siglufirði á vorin. Að Norðanátt standa Eimur, landshlutasamtökin SSNE og SSNV og stuðningsfyrirtækið RATA. Bakhjarl Norðanáttar er Umhverfis-, orku, og loftslagsráðuneytið.