Fara í efni

Á meðal markmiða EIMS er að kortleggja og markaðssetja orkuauðlindir á starfssvæðinu með áherslu á fjölþætta nýtingu hliðarstrauma þeirra. Þetta er gert til að stuðla að aukinni þekkingu, nýtingu og verðmætasköpun.

EIMUR er þátttakandi í áhersluverkefni sóknaráætlunar sem nefnist: "Innviðagreinina á Norðurlandi eystra". Að því standa Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, EIMUR og Íslandsstofa. Innviðagreiningin byggir að hluta til á fyrri greiningum sem unnar voru á félagssvæðum atvinnuþróunarfélaganna. Áherslur EIMS í verkefninu snúa að því að greiningin taki með yfirgripsmiklum hætti til jarðahitaauðlinda svæðisins, innviða sem þeim tengjast og dragi fram helstu möguleika til sjálfbærrar og skynsamlegar nýtingar, sérstaklega þegar kemur að vannýttum hliðarstraumum.

Innviðagreiningunni er ætlað að bæta úr brýnni þörf á að safna saman upplýsingum um svæðið og miðla þeim með skilvirkari hætti en áður hefur verið gert. Með þessu verkefni verður innviðagreiningu fyrir Norðurland eystra komið á veflægt form og verða þá upplýsingarnar aðgengilegri, gefa möguleika á gagnvirkni og jafnframt verður hægt að uppfæra gögnin með einföldum hætti. Einnig opnast sá möguleiki að önnur landsvæði geti nýtt sér þessa vinnu til að framkvæmda sambærilega innviðagreiningu á sínum svæðum.