Fara í efni

Græni túrinn prufukeyrður

Græni túrinn prufukeyrður

Eitt af samstarfsverkefnum EIMS er þróun ferðaþjónustupakka sem nefnist: "Græni Túrinn". Hann snýst um að vinna með aðilum í ferða- og orkugeiranum að því að þróa pakkaferðir sem byggja á sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda á NA-landi. Í október kom til landsins rýnihópur sem prufukeyrði túrinn til að safna gögnum og reynslu til frekari þróun verkefnisins.

Töluverður áhugi er meðal tiltekins markhóps ferðamanna um að upplifa sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og samspil manns og náttúru á jarðhitasvæðum. Meðal þess sem NA-land hefur upp á að bjóða í þeim efnum er fjölbreytt orkuframleiðslameð jarðhita og vatnsafli til rafmagnsframleiðslu sem og lífdísil- og metanframleiðslu þar sem úragngi er breytt í eldsneyti. Nýting jarðhita til ræktunar á grænmeti á sér einnig langa sögu á svæðinu og er sífellt verið að leita nýrra leiða til að nýta jarðhitann enn frekar til matvælaframleiðslu. Þetta samspil manns og náttúru finnst mörgum áhugavert og vilja kynna sér það nánar. Til að mæta þeim áhuga, og ekki síður til að auka fjölbreytni í nýtingu jarðhitans, hófst þróun "Græna Túrsins" í samvinnu við aðila í ferða- og orkugeiranum. Þrjár útgáfur af túrnum hafa verið skilgreindar og voru þær prufukeyrðar í október með rýnihóp sem endurspeglar markhópinn sem horft er til. Ein útgáfa túrsins fól í sér að skoða jarðfræði Mývatnssveitar, fara í Kröflu, Laxárvirkjun, gróðurhúsin að Hveravöllum, kíkja á vilta gullfiska, snæða jarðhitamat á Sölku á Húsavík og fara í Sjóböðin. Önnur útgáfa snýst um Akureyri og nágrenni þar sem farið var yfir starfsemi Norðurorku, kíkt heimsókn í Orkey til að skoða lífdíselframleiðslu, farið í Moltu, Glerárvirkjun skoðuð sem og metanvinnsla í Glerárdal, farið á Kaffi Kú og kíkt við í Laugalandi.

Þessa dagana er unnið úr gögnum sem safnað var í ferðinni og verða þau nýtt til frekari þróunar túrsins.

Hér má sjá nokkrar myndir úr túrnum:

Gróðurhús Hveravöllum
Páll Ólafsson fór yfir ylrækt á Hveravöllum sem á sér meira en aldarlanga sögu /Mynd: Gunnar Jóhannesson-Travel North

Hverarönd við Námaskarð
Hverarönd austan við Námaskarð vekur ávalt athygli ferðamanna /Mynd: Gunnar Jóhannesson-Travel North

Holutoppur við Kröflu
Holutoppur í grennd við Kröflu /Mynd: Gunnar Jóhannesson-Travel North