Fara í efni

Nemendaverkefni

Frá upphafi hefur Eimur ráðið til sín háskólanema til að sinna skemmtilegum og krefjandi sumarverkefnum sem tengjast tilgangi félagsins. Verkefnin hafa falist í rannsóknum, kortlagningu auðlinda og öðru sem tengist jarðhita, fjölnýtingar og sjálfbærni. Afrakstur starfsins nýtist til að stækka þekkingargrunn Eims og styrkja þannig starfsemi félagsins. Eimur hefur átt gott samstarf við Háskólann á Akureyri við að finna efnilega nemendur til starfans.

Fyrstu verkefnin fóru fram sumarið 2016, samhliða því að Eimur var að hefja starfsemi sína. Verkefnin fólu í sér að safna saman mikilvægum upplýsingum um starfssvæði Eims, m.a. kortleggja jarðhitanýtingu, kanna orku- og massflæði innan svæðisins og afla upplýsinga um stöðu rafbílavæðingar á NA-landi. Til verksins voru ráðnar Vera Sólveig og Sandra Dögg sem báðar stunduðu nám við Háskólann á Akureyri.

Sumarið 2017 var Alma Stefánsdóttir ráðin til Eims í sumarverkefni. Meðal þeirra verkefna sem Alma sinnti voru öflun gagna um framleiðslu innlends eldsneytis og orkugjafa, bæði í dag og áætlanir næstu áratuga, sem og kortlagningu á hvernig jarðvarminn er nýttur á svæðinu. Út úr þeirri vinnu kom m.a. þessi mynd þar sem nýting ársins 2016 er sett fram með myndrænum hætti.

Bein nýting jarðvarma á NA-landi 2016

Auk þess vann Alma við undirbúning og framkvæmd verðlaunaviðburðar í Hofi þegar úrslit úr samkeppni um nýtingu lághitavatns voru kynnt.

Sumarið 2018 kom til starfa Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir, einnig nemandi frá Háskólanum á Akureyri. Hennar verkefni fólst í að kortleggja þjóðhagslegan ávinning íbúa á NA-landi af jarðhitaauðlindinni.  Ávinningur verkefnisins felst í að kortleggja sparnað samfélagsins t.d. á innflutningi á orkugjöfum og sparnaður í útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Verkefninu er einnig ætlað að vekja fólk til umhugsunar um verðmæti auðlindastraumanna okkar sem og að hvetja til enn frekari og betri nýtingar jarðvarmans. Með þessu er stuðlað að efnahagslegri hagsæld, samfélagslegri framþróun og ekki síst vistfræðilegu jafnvægi. Afrakstur sumarstarfsins verður settur fram í formi skýrslu sem hægt verður að nálgast hér á vefnum.