Árbakki - Eco Industrial Park
Þróun og uppbygging Græns iðngarðs á Bakka við Húsavík.
Landsvirkjun og sveitarfélagið Norðurþing undirrituðu samstarfsyfirlýsingu árið 2022 um forathugun á þróun og uppbyggingu Græns iðngarðs á Bakka við Húsavík. Samkvæmt nýútkominni skýrslu, eru tækifæri fyrir fullvinnslu og verðmætasköpun innan græns iðngarðs á Bakka raunveruleg og myndi falla vel innan stefnu og markmiða sem Ísland hefur sett sér bæði í hringrásarhagkerfinu, grænum lausnum og í samfélags og efnahagsmálum.
Sumarið 2022 boðaði Norðurþing opinn íbúafund á Húsavík um mögulega uppbyggingu græns iðngarðs á Bakka enda skiptir vilji nærsamfélagsins miklu máli við alla slíka uppbyggingu. Þátttakendur voru almennt jákvæðir og töldu tækifærin trúverðug. Eimur var Norðurþingi innan handar við skipulagningu viðburðarins sem yfir 70 manns sátu og var haldinn á Fosshóteli þann 27. september 2022. Á fundinum var kynnt vinna undanfarinna mánuða við samstarfsverkefni Íslandsstofu, Landsvirkjunar, Norðurþings og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um tækifæri Íslands og aðgerðir til að efla samkeppnishæfni Íslands á sviði vistvænna iðngarða.
Meginmarkmið verkefnisins var að rýna þau tækifæri sem grænir iðngarðar geta skapað til að auka aðdráttarafl Íslands og einstakra svæða til atvinnuuppbyggingar og gera ferla fjárfestingaverkefna sem þessara einfaldari og skilvirkari. Í verkefninu var horft annars vegar til almennrar samkeppnishæfni Íslands fyrir græna iðngarða og hins vegar verður byggt á skilyrðum og aðstæðum á Bakka við Húsavík sem verkefnis til viðmiðunar af þessu tagi hér á landi. Kynntir voru punktar úr lokaskýrslu M/STUDIO Reykjavík og INNOV sem tóku saman þau tækifæri og áskoranir sem felast í uppbyggingu græns iðngarðar á Bakka.
Síðla árs 2022 var auglýst eftir verkefnastjóra til þess að halda utan um uppbyggingu grænna iðngarða á Bakka við Húsavík. Karen Mist Kristjánsdóttir var ráðin sem verkefnastjóri í lok árs 2022. Norðurþing og Umhverfis-, orku,- og loftslagsráðuneytið standa að verkefninu með ríkri aðkomu Landsvirkjunar.
Hvað eru Grænir Iðngarðar?
Grænn iðngarður tekur til iðnaðarstarfsemi á landfræðilega hentugum stað sem nýtur innviða, t.d., aðgengi að orku, samgöngu- og samskiptakerfum og öðrum efnistökum og innviðum sem gagnast starfseminni. Svæðið er sérstaklega skipulagt sem vettvangur fyrir iðnað sem setur sér skýr markmið um bætta nýtingu auðlinda, en með því að tvinna saman fjölþættan iðnað má skapa tækifæri til enn betri nýtingu auðlinda og frekari verðmætasköpunar.
Ávinningur af grænum iðngarði getur verið margvíslegur t.d. geta fyrirtæki innan iðngarðsins (og eftir aðstæðum utan hans) haft hag af innviðum garðsins t.d, hvað varðar orku, fráveitu, mengunarvarnir, öryggismál og annað sem lög og reglur kveða á um og varða starfsemi fyrirtækjanna. Stofnun og rekstur Grænna Iðngarða er tækifæri til að ná tilætluðum umhverfislegum, efnahagslegum og félagslegum markmiðum. Á Árbakka er árið 2023 aðeins eitt fyrirtæki með starfsleyfi fyrir rekstri á Iðnaðarsvæðinu, en það er PCC Bakki Silicon sem rekur kísilverksmiðju þar sem heimild er til framleiðslu á allt að 66.000 tonnum á ári af hrákísli, allt að 27.000 tonnum af kísildufti/kísilryki, 6.000 tonnum af málmleif og gjalli og 1.500 tonnum af forskiljuryki. Frá PCC Bakka Silicon falla til þónokkrir hráefnisstraumar ásamt gífurlegu magni varma sem myndast í framleiðsluferlunum. Þessi varmi er í dag alveg ónýttur.

Tengiliður verkefnis:
Karen Mist Kristjánsdóttir

