11. júní 2024
Ódýr varmaöflun með glatvarma frá kælikerfi PCC

Eitt af þeim verkefnum sem hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði árið 2024, var verkefnið Glatvarmi á Bakka. Verkefnið Glatvarmi í Grænum iðngarði á Bakka er samstarfsverkefni Eims, PCC BakkiSilicon
og Orkuveitu Húsavíkur. Markmið verkefnisins var að svara því hvort hagkvæmt sé að nýta glatvarma frá verksmiðju PCC BakkiSilicon á Bakka við Húsavík, ýmist í aðra iðnaðarstarfsemi eða fyrir hitaveitu á svæðinu.
Vinna af þessu tagi er kjarninn í starfsemi Græns iðngarðs á Bakka, þar sem markmiðið er að nýta alla auðlindastrauma, sem þegar hafa verið virkjaðir, til fulls, og að þeir nýtist inn í aðra starfsemi á svæðinu. Þetta er fyrsta skrefið í því að leggja grunn að samstarfi fyrirtækja innan garðsins um nýtingu orku og hráefna sem falla til við vinnslu fyrirtækja.
Verkefnið var unnið í samvinnu við Eflu verkfræðistofu sem sá um að greina gögn sem aðrir aðilar innan verkefnisins tóku saman, fyrir hagkvæmnigreiningu á föngun glatvarma sem myndast í kælikerfi PCC BakkiSilicon. Þessi varmi kemur úr kælikerfi ljósbogaofna PCC, sem kældir eru með vatni í lokaðri hringrás, en í dag er þessi varmi algjörlega ónýttur.
Niðurstöður verkefnisins sýna að með auðveldum hætti og lítilli fjárfestingarþörf má sækja 8-9 MW af varma eða 100 l/s af 50 °C vatni, án breytingar á núverandi kælikerfi. Þar með geta skapast stór tækifæri fyrir ýmiskonar rekstur innan Græns iðngarðs. Grófir útreikningar sýna fram á hagkvæmni þess að nýta þennan varma samanborið við það að bora eftir heitu vatni, sem er hin hefðbundna leið til varmaöflunar.
PCC BakkiSilicon hefur nú þegar sett í stað áframhaldandi vinnu á hagkvæmnigreiningu þar sem skoða á fýsileikann á því að sækja meiri varma annarsstaðar í framleiðsluferlinu. Þetta verkefni hefur sýnt fram á, svo ekki verður um villst að það getur líka borgað sig fjárhagslega að fullnýta auðlindir sem við erum alltof gjörn á að sóa.
Frekari upplýsingar um verkefnið veitir verkefnastjóri Græns Iðngarðs á Bakka, Karen Mist Kristjánsdóttir - karen@eimur.is

Deila frétt

RECET verkefnið og Net Zero Islands Network standa fyrir þessum viðburði, þar sem sérfræðingar, stefnumótendur og hagsmunaaðilar koma saman til að ræða og stuðla að orkuskiptum á eyjum og í dreifðum byggðum. Ráðstefnan er einstakt tækifæri til að miðla þekkingu, skoða nýjar lausnir og efla tengslanet. Dagskráin samanstendur af framsöguerindum og umræðum sem miða að því að styðja við sjálfbæra þróun og grænna samfélag. Ókeypis er á ráðstefnuna sem fer einnig fram í streymi - skráning fer fram hér: https://www.recetproject.eu/events/akureyrienergyseminar Um RECET: RECET (Rural Europe for the Clean Energy Transition) er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi. Verkefnið miðar að því að efla getu sveitarfélaga í dreifðum byggðum í Evrópu og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. RECET er styrkt af LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Um Net Zero Islands Network: Net Zero Islands Network gegnir lykilhlutverki í þróun grænna og sjálfbærra orkulausna fyrir eyjar og afskekkt svæði. Markmið netsins er meðal annars að auðvelda miðlun þekkingar milli eyja og afskekktra svæða, skapa fleiri atvinnutækifæri og kanna möguleika á kolefnisneikvæðum lausnum. Norræna orkurannsóknarstofnunin (Nordic Energy Research) hefur umsjón með verkefninu.