11. júní 2024
Ódýr varmaöflun með glatvarma frá kælikerfi PCC

Eitt af þeim verkefnum sem hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði árið 2024, var verkefnið Glatvarmi á Bakka. Verkefnið Glatvarmi í Grænum iðngarði á Bakka er samstarfsverkefni Eims, PCC BakkiSilicon
og Orkuveitu Húsavíkur. Markmið verkefnisins var að svara því hvort hagkvæmt sé að nýta glatvarma frá verksmiðju PCC BakkiSilicon á Bakka við Húsavík, ýmist í aðra iðnaðarstarfsemi eða fyrir hitaveitu á svæðinu.
Vinna af þessu tagi er kjarninn í starfsemi Græns iðngarðs á Bakka, þar sem markmiðið er að nýta alla auðlindastrauma, sem þegar hafa verið virkjaðir, til fulls, og að þeir nýtist inn í aðra starfsemi á svæðinu. Þetta er fyrsta skrefið í því að leggja grunn að samstarfi fyrirtækja innan garðsins um nýtingu orku og hráefna sem falla til við vinnslu fyrirtækja.
Verkefnið var unnið í samvinnu við Eflu verkfræðistofu sem sá um að greina gögn sem aðrir aðilar innan verkefnisins tóku saman, fyrir hagkvæmnigreiningu á föngun glatvarma sem myndast í kælikerfi PCC BakkiSilicon. Þessi varmi kemur úr kælikerfi ljósbogaofna PCC, sem kældir eru með vatni í lokaðri hringrás, en í dag er þessi varmi algjörlega ónýttur.
Niðurstöður verkefnisins sýna að með auðveldum hætti og lítilli fjárfestingarþörf má sækja 8-9 MW af varma eða 100 l/s af 50 °C vatni, án breytingar á núverandi kælikerfi. Þar með geta skapast stór tækifæri fyrir ýmiskonar rekstur innan Græns iðngarðs. Grófir útreikningar sýna fram á hagkvæmni þess að nýta þennan varma samanborið við það að bora eftir heitu vatni, sem er hin hefðbundna leið til varmaöflunar.
PCC BakkiSilicon hefur nú þegar sett í stað áframhaldandi vinnu á hagkvæmnigreiningu þar sem skoða á fýsileikann á því að sækja meiri varma annarsstaðar í framleiðsluferlinu. Þetta verkefni hefur sýnt fram á, svo ekki verður um villst að það getur líka borgað sig fjárhagslega að fullnýta auðlindir sem við erum alltof gjörn á að sóa.
Frekari upplýsingar um verkefnið veitir verkefnastjóri Græns Iðngarðs á Bakka, Karen Mist Kristjánsdóttir - karen@eimur.is

Deila frétt

Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og er liður í að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Meðal fundarefna verður: • Hvernig orka, varmi og innviðir skapa ný tækifæri á Bakka • Hvernig hringrásarhagkerfi getur stutt við atvinnuþróun og alþjóðlega ímynd Íslands • Hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í sjálfbærri uppbyggingu Dagskrá: Húsið opnar kl. 12:00 – Skráning og súpuhlaðborð fyrir gesti á Fosshótel Húsavík Ráðstefna kl. 13:00 – 17:00 Fundarliður 1: Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni Fundarliður 2: Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni Fundarliður 3: Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða (Nánari dagskrá verður birt þegar nær dregur) Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið á Bakka fyrir hádegi frá kl. 10:30 - 12:00 þann 20. nóvember og er sú ferð opin öllum. Rútan fer frá Fosshótel á Húsavík og er nauðsynlegt að skrá sig því það er takmarkað pláss. Ráðstefnan er opin öllum en skráning er nauðsynleg - www.eimur.is/bakkiradstefna

Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.







