4. júní 2024

Ársskýrsla Eims er komin út

Ársskýrsla Eims fyrir starfsárið 2023 er komin út. Í ársskýrslunni er farið yfir starfsemi og helstu verkefni Eims á síðasta ári. 


Ávarp framkvæmdastjóra: 

Árið 2023 var sannarlega viðburðaríkt hjá Eimi. Norðanáttin hélt áfram að blása hressilegum gusti nýsköpunar um landsbyggðina; tannhjólin í Grænum iðngörðum á Bakka við Húsavík tóku að snúast; og verkefninu „Orkuskipti í dreifðum byggðum“ (Rural Europe for the Clean Energy Transtition, RECET) sem fjallar um að efla getu sveitarfélaganna til að takast á við orkuskipti, var ýtt úr vör.  

Kröftug Norðanátt
Í janúar lagðist Norðanáttin í víking til Noregs, að kynna sér hvernig frændur okkar standa að stuðningi við frumkvöðla og nýsköpun. Við sóttum sérstaklega heim norðurhluta Noregs, en þau svæði deila um margt þeim áskorunum sem við þekkjum þegar kemur að atvinnuþróun og byggðamálum, enda eru grunnatvinnuvegirnir mikið til hinir sömu. Í mars fylltist svo Siglufjörður af frumkvöðlum og fjárfestum, á fjárfestahátíð Norðanáttar sem þá var haldin í annað sinn við góðan orðstír. Undirrituðum er sérstaklega minnisstætt þegar fyrirtækið Mýsköpun sem ræktar þörunga til manneldis í Mývatnssveit og kynnti starfsemi sína á hátíðinni 2021, undirritaði hressilegan fjárfestingasamning við Nýsköpunarsjóð Atvinnulífsins uppi á sviði. Þetta var í mínum huga ein skýrasta birtingarmynd þess hversu miklu máli það skiptir að styðja við framgang frumkvöðlastarfsemi á svæðinu með virkum og öflugum hætti. Um haustið skall hann á með Startup Stormi þar sem spennandi fyrirtæki framtíðarinnar fengu leiðsögn og stuðning til að þróa vörur sínar og þjónustu.

Grænir iðngarðar 
Norðan Húsavíkur er Árbakki, 200 hektara deiliskipulagt svæði fyrir iðnaðarstarfsemi. Þar stendur í dag eitt fyrirtæki, PCC, sem framleiðir kísilmálm en skilar frá sér umtalsverðu magni af koltvísýringi og varma, en hvorugur þessara strauma er nýttur. 

Á Árbakka stendur til að koma á fót grænum iðngörðum, þar sem fyrirtækin í garðinum reiða sig hvort á annað þegar kemur að hráefnisstaumum. Úrgangur úr ferli eins verður hrávara í framleiðslu hjá öðru fyrirtæki. Glatorka á einum stað nýtist öðrum. Markmiðið er að lágmarka sóun á auðlindum, og bæta þannig nýtingu þeirra og jafnframt auka hagkvæmni í rekstri fyrirtækja á svæðinu. Það á að verða eftirsóknarvert að komast inn, og krafan verður að standa vel að umhverfis og auðlindamálum. Þetta verkefni hefur farið vel af stað þó árangur þess sé að mörgu leyti falinn þeim sem standa utanvið það. Mikil vinna hefur átt sér stað með starfsfólki Norðurþings við að finna og greina þær upplýsingar sem liggja fyrir um svæðið og koma á heppilegu rekstrarformi fyrir þróunarfélag um Árbakka. Undir lok árs fór m.a. í loftið vefsíðan www.arbakkiecopark.is , þar sem finna má allar helstu upplýsingar um svæðið, hugmyndafræði Árbakka og þær auðlindir sem unnt er að kaupa aðgang að. 

Life í höfn
Eimi bárust stórar fréttir í mars 2023 þegar ljóst var að við, ásamt Íslenskri Nýorku, SSNE og Vestfjarðastofu, auk og góðra samstarfsaðila í Evrópu hefðum hlotið styrk úr LIFE styrkaráætlun Evrópusambandsins. Þetta var sérstaklega sætt, enda höfðum við hjá Eimi borið hitann og þungan af umsóknarferlinu og útfærslu verkefnisins. Verkefnið ber skammstöfunina RECET og snýr að því ad efla getu sveitarfélaganna til að takast á við orkuskipti. Í verkefninu verða haldnar vinnustofur fyrir stjórnmálafólk og starfsfólk sveitarfélaganna um orku- og loftslagsmál jafnframt sem til stendur að koma á samstarfsvettvangi fyrir atvinnulífið um þessi mál á Norðurlandi eystra. Verkefnið hófst formlega í byrjun október og stendur í þrjú ár. Það á að skila aukinni getu og þekkingu á svæðinu til að koma á fót loftslags- og orkuskiptaverkefnum auk þess sem við ætlum að hjálpa öllum sveitarfélögum á Norðurlandi eystra til að gera raunhæfar áætlanir í málaflokknum. 

Fjölbreytt samstarfsverkefni
Auk þessa komum við að ýmsum öðrum verkefnum. Norðanátt lauk vinnu með Háskólanum á Akureyri um eflingu nýsköpunarumhverfisins innan skólans, við sóttum styrk í nýsköpunarsjóð námsmanna með HA, Matís og Slippnum um nýtingu blóðs frá eldislöxum í samstarfi við fiskeldi Samherja í Öxarfirði, tókum þátt í að skipuleggja hugmyndahraðhlaupið Krubb með Hraðinu á Húsavík og unnum með nýsköpunarfyrirtækinu Hringvarma um nýtingu glatvarma frá gagnaveri AtNorth á Akureyri til matvælaframleiðslu, svo eitthvað sé nefnt.

Mannabreytingar á árinu
Til að takast á við verkefnin um Græna iðngarða og RECET, voru ráðin til þess þau Karen Mist Kristjánsdóttir og Skúli Gunnar Árnason. Til að efla sóknina i sjóði Evrópusambandins var ráðinn til Eims Sigurður Grétar Bogason, en hann er mikill reynslubolti þegar kemur að styrkjasókn.

Þetta voru þó ekki einu breytingarnar, því fyrrum framkvæmdastjóri Eims, Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir hvarf til annarra starfa á árinu og undirritaður tók svo við sem framkvæmdastjóri um miðjan október. Ég vil nota tækifærið og þakka henni sérstaklega fyrir afar gott samstarf þrjú árin þar á undan, sem voru sannarlega viðburðarík, kröfuglega drifin áfram af eljusemi og framkvæmdagleði.

Eimur kveður Norðanátt
Eimur hefur á undanförnum þremur árum stýrt verkefninu Norðanátt, sem er samstarfsverkefni Eims, SSNE og SSNV. Að auki hafa komið að því á undanförnum árum Hraðið á Húsavík, ráðgjafafyrirtækið RATA og Nýsköpun í Norðri. Norðanátt hefur staðið fyrir Hringrás nýsköpunar, viðburðaseríu með hugmyndasamkeppnum, hakkaþonum, viðskiptahröðlum og fjárfestahátíðum leitast við að bjóða uppá þjónustu fyrir frumkvöðla á öllum stigum í þróunarferlinu. Mikið hefur verið lagt uppúr sjálfbærni, en „matur, orka, vatn“ hefur verið þema Norðanáttarinnar. Yfir 60 frumkvöðlateymi og meira en 600 gestir hafa sótt viðburði Norðanáttar, og hefur verið eftir því tekið út um allt land, og út fyrir landsteinana. Við erum afar stolt að hafa hrundið þessu verkefni af stað sem hefur sannarlega hrist upp í nýsköpunarsenunni á landsbyggðinni. En allt hefur sinn tíma og frá og með sumri komanda mun Eimur ekki lengur sitja í stjórnsætinu í Norðanátt og verður framkvæmd þess í höndum landshlutasamtakanna á Norðurlandi eystra og vestra. Þess í stað verður hjá Eimi lagður enn meiri þungi í verkefni sem snúa með beinum hætti að auðlinda- og loftslagsmálum, orkuskiptum og hringrásarhagkerfinu. 

Það eru spennandi tímar framundan og við hjá Eimi munum halda áfram að sinna verkefnum fyrir Norðurland í þágu umhverfis og samfélags.

Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri


Deila frétt

19. desember 2025
Eimur hefur skrifað undir samning við Iðnver ehf. um leigu á færanlegum hreinsibúnaði fyrir fráveituvatn frá iðnaði. Fyrsta verkefnið verður hreinsun á iðnaðarvatni frá sláturhúsi á Norðurlandi, en búnaðinn má einnig nýta við hreinsun fráveitu frá öðrum fyrirtækjum. Samningurinn er liður í verkefninu LIFE ICEWATER , sem er eitt stærsta styrkta umhverfisverkefni sem Ísland hefur tekið þátt í. Eimur mun setja upp og reka færanlegt hreinsivirki sem meðhöndlar fráveituvatn frá matvælavinnslu. Búnaðurinn er sérstaklega hannaður fyrir iðnaðarvatn og gerir kleift að sýna í verki ávinning af bættri hreinsun fráveitu frá sláturhúsum eða annarri matvælavinnslu, bæði með tilliti til umhverfisáhrifa og verðmætasköpunar. Í samstarfi við Orkuveitu Húsavíkur og Gefn verður sótt lífrænt efni úr fráveitu frá matvælaiðnaði og það greint nánar. Fita sem fellur til við hreinsunina verður nýtt af Gefn til framleiðslu á lífdísli, en annað lífrænt efni verður tekið til frekari greiningar. Þar verður meðal annars metið orkugildi efnisins og skoðaðir möguleikar á metanframleiðslu. Samningurinn við Iðnver felur jafnframt í sér tæknilega samvinnu við uppsetningu, gangsetningu og rekstur búnaðarins, sem mun skila dýrmætum gögnum og reynslu fyrir áframhaldandi þróun lausna á sviði hreinsunar iðnaðarfráveitu á Íslandi.
Grænn iðngarður á Bakka
18. desember 2025
Undanfarin ár hefur Eimur sinnt þróun græns iðngarðs á Bakka í samstarfi við Norðurþing, Landsvirkjun, Orkuveitu Húsavíkur og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Í þeirri vinnu voru dregnir saman helstu styrkleikar og tækifæri svæðisins, þar á meðal um kosti Bakka fyrir varmasækinn iðnað, möguleika í nýtingu glatvarma og mikilvægi samhæfðrar uppbyggingar iðnaðar og samfélags. Nú stendur yfir ráðning á nýjum verkefnastjóra sem tekur við keflinu af Eimi sem mun starfa undir hatti þróunarfélagsins Grænn iðngarður á Bakka ehf. Á þessum tímamótum hefur fyrrum verkefnastjóri græns iðngarðs tekið saman skýrslu um afrakstur verkefnisins hingað til. Skýrsluna má nálgast undir útgefið efni hér á vefsíðu Eims. Í skýrslunni er dregin upp mynd af stöðu mála, áskorunum, tækifærum og forsendum fyrir áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu, ásamt heildstæðri framtíðarsýn fyrir Bakka. Skýrslan markar jafnframt þáttaskil fyrir þróun svæðisins þar sem farið er frá hugmyndavinnu og stefnumótun yfir í markvissa framkvæmd, í kjölfar stofnunar þróunarfélagins.
Laust starf hjá Eimi
8. desember 2025
Eimur leitar að öflugum og hugmyndaríkum einstaklingi til að vinna að kynningarmálum, miðlun og viðburðahaldi á vegum félagsins. Viðkomandi kemur að fjölmörgum og krefjandi verkefnum og verður hluti af skemmtilegum vinnustað. Verkefnastjóri vinnur náið með starfsfólki og samstarfsaðilum Eims. Um tímabundið starf er að ræða, út árið 2026 með möguleika á framlengingu. Helstu verkefni og ábyrgð Umsjón markaðs- og kynningarmála fyrir Eim Efnissköpun og miðlun gegnum vef og samfélagsmiðla Markaðsgreiningar, stefnumótun og eftirfylgni Skipulag og framkvæmd viðburða Fjölbreytt samskipti við samstarfsaðila og aðra hagaðila Skrifstofustjórn Stuðningur við gerð bókhalds Vinna með teyminu að þróun nýrra verkefna á starfssvæði Eims Þátttaka í fjölbreyttum verkefnum vinnustaðarins Menntunar og hæfniskröfur Háskólamenntun sem nýtist í starfi Reynsla af upplýsingamiðlun, markaðssetningu og verkefnastjórnun Góð þekking á vefumsjón, samfélagsmiðlum og stafrænni markaðssetningu Reynsla af greinarskrifum, gerð kynningarefnis og miðlunar Hæfni til að koma fram og halda kynningar er kostur Mjög góð færni í íslensku og ensku, bæði í rituðu og töluðu máli Góð almenn tölvufærni og hæfni til að tileinka sér nýjungar Frumkvæði, skipulagshæfni, sjálfstæði og sveigjanleiki í vinnubrögðum Rík hæfni í samskiptum og samstarfi, vönduð og öguð vinnubrögð Starfstöð verkefnastjóra er á Akureyri. Starfið krefst ferðalaga um starfssvæðið og býður upp á sveigjanlegan vinnutíma. Eimur er samstarfsverkefni sem snýr að bættri nýtingu auðlinda á Norðurlandi með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Að verkefninu standa Landsvirkjun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur. Sótt er um starfið á www.mognum.is Nánari upplýsingar veita Telma Eiðsdóttir; telma@mognum.is og Sigríður Ólafsdóttir; sigga@mognum.is Umsóknarfrestur er til 18. desember 2025 Með umsókn skal fylgja ítarleg ferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni umsækjanda.