Fara í efni

Ársskýrsla Eims er komin út

Ársskýrsla Eims er komin út

Ársskýrsla Eims fyrir starfsárið 2023 er komin út. Í ársskýrslunni er farið yfir starfsemi og helstu verkefni Eims á síðasta ári. 

Smelltu hér til að lesa ársskýrslu Eims 2023


Ávarp framkvæmdastjóra: 

Árið 2023 var sannarlega viðburðaríkt hjá Eimi. Norðanáttin hélt áfram að blása hressilegum gusti nýsköpunar um landsbyggðina; tannhjólin í Grænum iðngörðum á Bakka við Húsavík tóku að snúast; og verkefninu „Orkuskipti í dreifðum byggðum“ (Rural Europe for the Clean Energy Transtition, RECET) sem fjallar um að efla getu sveitarfélaganna til að takast á við orkuskipti, var ýtt úr vör. 

Kröftug Norðanátt
Í janúar lagðist Norðanáttin í víking til Noregs, að kynna sér hvernig frændur okkar standa að stuðningi við frumkvöðla og nýsköpun. Við sóttum sérstaklega heim norðurhluta Noregs, en þau svæði deila um margt þeim áskorunum sem við þekkjum þegar kemur að atvinnuþróun og byggðamálum, enda eru grunnatvinnuvegirnir mikið til hinir sömu. Í mars fylltist svo Siglufjörður af frumkvöðlum og fjárfestum, á fjárfestahátíð Norðanáttar sem þá var haldin í annað sinn við góðan orðstír. Undirrituðum er sérstaklega minnisstætt þegar fyrirtækið Mýsköpun sem ræktar þörunga til manneldis í Mývatnssveit og kynnti starfsemi sína á hátíðinni 2021, undirritaði hressilegan fjárfestingasamning við Nýsköpunarsjóð Atvinnulífsins uppi á sviði. Þetta var í mínum huga ein skýrasta birtingarmynd þess hversu miklu máli það skiptir að styðja við framgang frumkvöðlastarfsemi á svæðinu með virkum og öflugum hætti. Um haustið skall hann á með Startup Stormi þar sem spennandi fyrirtæki framtíðarinnar fengu leiðsögn og stuðning til að þróa vörur sínar og þjónustu.

Grænir iðngarðar 
Norðan Húsavíkur er Árbakki, 200 hektara deiliskipulagt svæði fyrir iðnaðarstarfsemi. Þar stendur í dag eitt fyrirtæki, PCC, sem framleiðir kísilmálm en skilar frá sér umtalsverðu magni af koltvísýringi og varma, en hvorugur þessara strauma er nýttur. 

Á Árbakka stendur til að koma á fót grænum iðngörðum, þar sem fyrirtækin í garðinum reiða sig hvort á annað þegar kemur að hráefnisstaumum. Úrgangur úr ferli eins verður hrávara í framleiðslu hjá öðru fyrirtæki. Glatorka á einum stað nýtist öðrum. Markmiðið er að lágmarka sóun á auðlindum, og bæta þannig nýtingu þeirra og jafnframt auka hagkvæmni í rekstri fyrirtækja á svæðinu. Það á að verða eftirsóknarvert að komast inn, og krafan verður að standa vel að umhverfis og auðlindamálum. Þetta verkefni hefur farið vel af stað þó árangur þess sé að mörgu leyti falinn þeim sem standa utanvið það. Mikil vinna hefur átt sér stað með starfsfólki Norðurþings við að finna og greina þær upplýsingar sem liggja fyrir um svæðið og koma á heppilegu rekstrarformi fyrir þróunarfélag um Árbakka. Undir lok árs fór m.a. í loftið vefsíðan www.arbakkiecopark.is, þar sem finna má allar helstu upplýsingar um svæðið, hugmyndafræði Árbakka og þær auðlindir sem unnt er að kaupa aðgang að. 

Life í höfn
Eimi bárust stórar fréttir í mars 2023 þegar ljóst var að við, ásamt Íslenskri Nýorku, SSNE og Vestfjarðastofu, auk og góðra samstarfsaðila í Evrópu hefðum hlotið styrk úr LIFE styrkaráætlun Evrópusambandsins. Þetta var sérstaklega sætt, enda höfðum við hjá Eimi borið hitann og þungan af umsóknarferlinu og útfærslu verkefnisins. Verkefnið ber skammstöfunina RECET og snýr að því ad efla getu sveitarfélaganna til að takast á við orkuskipti. Í verkefninu verða haldnar vinnustofur fyrir stjórnmálafólk og starfsfólk sveitarfélaganna um orku- og loftslagsmál jafnframt sem til stendur að koma á samstarfsvettvangi fyrir atvinnulífið um þessi mál á Norðurlandi eystra. Verkefnið hófst formlega í byrjun október og stendur í þrjú ár. Það á að skila aukinni getu og þekkingu á svæðinu til að koma á fót loftslags- og orkuskiptaverkefnum auk þess sem við ætlum að hjálpa öllum sveitarfélögum á Norðurlandi eystra til að gera raunhæfar áætlanir í málaflokknum. 

Fjölbreytt samstarfsverkefni
Auk þessa komum við að ýmsum öðrum verkefnum. Norðanátt lauk vinnu með Háskólanum á Akureyri um eflingu nýsköpunarumhverfisins innan skólans, við sóttum styrk í nýsköpunarsjóð námsmanna með HA, Matís og Slippnum um nýtingu blóðs frá eldislöxum í samstarfi við fiskeldi Samherja í Öxarfirði, tókum þátt í að skipuleggja hugmyndahraðhlaupið Krubb með Hraðinu á Húsavík og unnum með nýsköpunarfyrirtækinu Hringvarma um nýtingu glatvarma frá gagnaveri AtNorth á Akureyri til matvælaframleiðslu, svo eitthvað sé nefnt.

Mannabreytingar á árinu
Til að takast á við verkefnin um Græna iðngarða og RECET, voru ráðin til þess þau Karen Mist Kristjánsdóttir og Skúli Gunnar Árnason. Til að efla sóknina i sjóði Evrópusambandins var ráðinn til Eims Sigurður Grétar Bogason, en hann er mikill reynslubolti þegar kemur að styrkjasókn.

Þetta voru þó ekki einu breytingarnar, því fyrrum framkvæmdastjóri Eims, Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir hvarf til annarra starfa á árinu og undirritaður tók svo við sem framkvæmdastjóri um miðjan október. Ég vil nota tækifærið og þakka henni sérstaklega fyrir afar gott samstarf þrjú árin þar á undan, sem voru sannarlega viðburðarík, kröfuglega drifin áfram af eljusemi og framkvæmdagleði.

Eimur kveður Norðanátt
Eimur hefur á undanförnum þremur árum stýrt verkefninu Norðanátt, sem er samstarfsverkefni Eims, SSNE og SSNV. Að auki hafa komið að því á undanförnum árum Hraðið á Húsavík, ráðgjafafyrirtækið RATA og Nýsköpun í Norðri. Norðanátt hefur staðið fyrir Hringrás nýsköpunar, viðburðaseríu með hugmyndasamkeppnum, hakkaþonum, viðskiptahröðlum og fjárfestahátíðum leitast við að bjóða uppá þjónustu fyrir frumkvöðla á öllum stigum í þróunarferlinu. Mikið hefur verið lagt uppúr sjálfbærni, en „matur, orka, vatn“ hefur verið þema Norðanáttarinnar. Yfir 60 frumkvöðlateymi og meira en 600 gestir hafa sótt viðburði Norðanáttar, og hefur verið eftir því tekið út um allt land, og út fyrir landsteinana. Við erum afar stolt að hafa hrundið þessu verkefni af stað sem hefur sannarlega hrist upp í nýsköpunarsenunni á landsbyggðinni. En allt hefur sinn tíma og frá og með sumri komanda mun Eimur ekki lengur sitja í stjórnsætinu í Norðanátt og verður framkvæmd þess í höndum landshlutasamtakanna á Norðurlandi eystra og vestra. Þess í stað verður hjá Eimi lagður enn meiri þungi í verkefni sem snúa með beinum hætti að auðlinda- og loftslagsmálum, orkuskiptum og hringrásarhagkerfinu. 

Það eru spennandi tímar framundan og við hjá Eimi munum halda áfram að sinna verkefnum fyrir Norðurland í þágu umhverfis og samfélags.

Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri