25. nóvember 2025

Hátt í 300 manns sóttu ráðstefnu um framtíð Bakka

Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri

Eimur, Norðurþing, Landsvirkjun og Íslandsstofa stóðu fyrir opinni ráðstefnu á Fosshótel Húsavík fimmtudaginn 20. nóvember, s.l. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri“, og markmið hennar var að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Bakka við Húsavík og á öllu Norðurlandi.


Ráðstefnan vakti mikla athygli, en heimamenn ásamt fulltrúum stjórnvalda, fyrirtækja og fjölbreyttra verkefna sem hafa áhuga á uppbyggingu á Bakka fjölmenntu á viðburðinn. Alls mættu um eða yfir 250 gestir. 


Fyrr um morgun ráðstefnudagsins fóru um 60 gestir í skoðunarferð um svæðið á Bakka. Ferðin var undir leiðsögn Hjálmars Boga Hafliðarsonar, forseta sveitarstjórnar Norðurþings, sem kynnti sögu svæðisins og helstu innviði. Gestir fengu að sjá aðstæður á vettvangi og ræða um þau tækifæri sem felast í grænni orku, hugmyndum um hringrás í iðnaði og fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu á Bakka.


Fundinum var skipt upp í þrjá fundarliði: Í fyrstu tveimur fundarliðunum „Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni“ og „Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni“, var boðið upp á framsöguerindi og stutt innslög sem vörpuðu ljósi á innviði svæðisins. Í þriðja fundarliðnum „Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða“, tóku við pallborðsumræður þar sem gestir gátu sent inn spurningar til pallborðsins.

Sterk framtíðarsýn kynnt á Bakka

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri SSNE, stýrði fundinum og opnaði fyrsta fundarlið með því að leggja áherslu á að Bakki væri tilbúinn til uppbyggingar og opinn fyrir nýjum verkefnum.


Forsætisráðherra Kristrún Frostadóttir ávarpaði ráðstefnuna og greindi frá því að ríkisstjórnin hefði þegar stigið mikilvæg skref til að styðja við atvinnuuppbyggingu á svæðinu, meðal annars með ráðningu verkefnastjóra og eflingu raforkukerfisins. Hún lagði áherslu á að stjórnvöld væru staðráðin í að styðja við fjölbreytt verkefni og efla samkeppnishæfni svæðisins:


„Við erum að stíga inn. Við höfum nú þegar stigið inn og staðið þétt með Norðurþingi. Og við munum fylgja því eftir — það er algjörlega á hreinu... Við erum að vinna þétt með atvinnulífinu um land allt, liðka fyrir og einfalda... Höldum áfram að byggja upp atvinnulífið, trú, von og traust á samfélagið.“


Lesa má ávarp forsætisráðherra í heild sinni hér.

Kristrún Frostadóttir ávarpaði gesti á ráðstefnu um framtíðina á Bakka

Karen Mist Kristjánsdóttir, sviðsstjóri orku og sjálfbærni hjá Eimi, kynnti þróun hringrásargarðs á Bakka og lagði fram tímalínu verkefnisins. Hún lýsti vinnu sinni sem verkefnastjóri græns iðngarðs, sem fólst meðal annars í að samhæfa ólíka hagsmunaaðila, móta sameiginlega framtíðar og gera þær upplýsingar sem áður lágu á dreif í stjórnkerfinu og hjá fyrirtækjum aðgengilega fyrir þá sem vilja þróa verkefni á Bakka. Hún undirstrikaði að markmiðið væri að gera svæðið eins fýsilegt og hægt er fyrir fjárfesta og fyrirtæki sem vilja nýta græna orku og öfluga innviði.


Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri Eims, fjallaði um „verkfærakistu hringrásargarða“ og hvernig úrgangur eins fyrirtækis geti orðið auðlind annars. Hann nefndi fyrirmyndir á borð við Kalundborg í Danmörku og benti á að slík samvinna geti ýtt undir nýsköpun og aukið seiglu samfélagsins.


Að lokum fóru Helena Eydís Ingólfsdóttir og Bergþór Bjarnason, stjórnendur þróunarfélagsins Græns iðngarðs á Bakka ehf., yfir mikilvægi undirbúningsvinnunnar og kynntu næstu skref í uppbyggingu svæðisins. Þau lögðu áherslu á að Bakki væri í einstaklega góðri stöðu til að taka á móti fjölbreyttum verkefnum, þar á meðal landeldi, gagnaverum og matvælaframleiðslu.


Grunnstoðir Bakka – orka og innviðir

Í öðrum fundarlið var sjónum beint að grunnstoðum svæðisins, orkuöflun, innviðum og þeim forsendum sem þarf til að skapa stöðuga og sjálfbæra atvinnuuppbyggingu. Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, hóf umræðuna með því að leggja áherslu á að Bakki hefði alla burði til að verða leiðandi í grænni uppbyggingu og að fjölbreyttu atvinnulífi. Hún minnti á að fjölbreytt atvinnulíf væri grundvallarforsenda fyrir stöðugleika samfélagsins.Þrátt fyrir áföll á borð við rekstrarstöðvun PCC, taldi hún svæðið vel í stakk búið til að halda áfram uppbyggingu og tengdi það nýrri atvinnustefnu stjórnvalda sem nú er í samráðsferli og byggir á sjálfbærri nýtingu auðlinda, aukinni framleiðni og alþjóðlegri samkeppnishæfni:


„Bakki og Norðurþing geta orðið í forgrunni sjálfbærrar atvinnustefnu. Það er full ástæða til að horfa með bjartsýnum augum fram á veginn – saman munum við stjórnvöld, einkaaðilar, fyrirtæki og íbúar vinna okkur fram veginn.“


Helgi Valberg Jensson, formaður starfshóps um atvinnumál á Húsavík hjá forsætisráðuneytinu, kynnti niðurstöður nýrrar skýrslu starfshópsins. Hann fjallaði meðal annars um tillögur um einfaldari leyfisferla, styrkingu raforkuinnviða og samhæfðan stuðning við verkefni á svæðinu. Helgi lagði ríka áherslu á mikilvægi áfallaþols samfélagsins og sagði Norðurþing vera í sóknarstöðu fremur en varnarstöðu.


Gnýr Guðmundsson, fulltrúi Landsnets, fór yfir áform fyrirtækisins um að styrkja raforkuflutningskerfið á norðausturhorninu, meðal annars með fyrirhugaða uppbyggingu annars tengivirkis á Bakka. Slík efling raforkuinnviða er talin lykilforsenda fyrir auknu afhendingaröryggi og áframhaldandi atvinnuuppbyggingu.


Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri hjá Landsvirkjun, sagði fyrirtækið hafa lengi haft áhuga á Bakka og uppbyggingu iðnaðar á svæðinu. Landsvirkjun hefur stutt við vinnu Eims og SSNE síðustu ár og sér mikil tækifæri í aukinni verðmætasköpun á Norðausturlandi. Hún kynnti jafnframt áform um aukna nýtingu jarðvarma á Þeistareykjum, þar sem uppsetning nýrrar toppvélar er áætluð árið 2028 og möguleg þriðja vél árið 2030. Þá er til skoðunar að veita varma til Bakka með varmalögn, sem gæti skapað fjölbreytt tækifæri í atvinnurekstri. Hún benti á að mikilvægir innviðir séu þegar til staðar og að hringrásarhugsun og sjálfbærni séu lykilatriði í framtíðarsýn svæðisins.


Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings, ræddi mikilvægi virkrar þátttöku samfélagsins í uppbyggingunni. Hann benti á sterkar stoðir í menntun, heilbrigðisþjónustu og fjölbreyttu atvinnulífi sem geri Norðurþing að aðlaðandi kosti fyrir fjölskyldur og fyrirtæki. Að hans mati er eindregin samstaða meðal íbúa sveitarfélagsins um áframhaldandi atvinnuuppbyggingu, og þótt að á móti blási séu mikil tækifærin fjölmörg.


Birta Kristín Helgadóttir, fagstjóri orku og grænna lausna hjá Íslandsstofu flutti lokaerindi dagsins. Hún lagði áherslu á að markviss undirbúningur og sterk liðsheild væru lykilatriði í að laða að erlenda fjárfestingu. Bakki gegni lykilhlutverki í slíkri sókn, og Íslandsstofa styðji við markaðssetningu svæðisins á alþjóðavettvangi, sem auðveldi samskipti við fyrirtæki og fjárfesta. 


Bjartsýni og samstaða einkenndu daginn

Í lok dagskrár fór fram pallborðsumræða undir stjórn Ottós Elíassonar. Umræðurnar voru jákvæðar og einkenndust af bjartsýni og sterkum vilja til áframhaldandi uppbyggingar á Bakka, þrátt fyrir áskoranir sem samfélagið hefur þurft að takast á við.

Í pallborðinu tóku þátt Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Norðurþingi, Haraldur Hallgrímsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, Karl Guðmundsson verkefnastjóri stórfjárfestinga hjá forsætisráðuneytinu og Marella Steinsdóttir, verkefnastjóri mannauðsmála hjá Norðurþingi og fyrrv. mannauðsstjóri PCC.


Katrín Sigurjónsdóttir lýsti því hvernig rekstrarstöðvun PCC hefði haft veruleg áhrif á samfélagið, en lagði um leið áherslu á að Norðurþing byggi yfir sterkum stoðum, aðgengi að orku, grænum iðngörðum og öflugu tengslaneti. Marella Steinsdóttir lagði áherslu á mikilvægi mannauðs og minnti á að fjölskyldur sem fluttust til Húsavíkur vegna iðnaðaruppbyggingar væru nú orðnir rótgrónir og virkir samfélagsmeðlimir. Haraldur fjallaði um samkeppnishæfni svæðisins og minnti á að það hefðu verið heimamenn sem höfðu frumkvæði að byggingu Þeistareykjavirkjunar sem skilaði sér svo í uppbyggingu kísiliðjunnar á Bakka. Hann benti einnig á að fjárfestar væru ekki endilega að „fletta upp á Bakka“, það þyrfti að benda þeim á svæðið og sýna að hér væri til staðar atvinnusóknarsvæði með fólki, alþjóðaflugi, heilbrigðisþjónustu og öflugum innviðum. Þá snerti Karl Guðmundsson einnig á mikilvægi gagna og undirbúnings en með markvissri miðlun og skýrum upplýsingum um kosti svæðisins mætti draga úr óvissu og gera svæðið aðlaðandi fyrir fjárfesta.


Umræðurnar snerust einnig um nýjan verkefnastjóra þróunarfélagsins sem allir töldu lykilatriði til að samhæfa verkefni og svara fyrirspurnum fyrirtækja hratt og vel. Þátttakendur voru sammála um að áherslan á græna iðngarða væri samkeppnisforskot og að framtíðarsýn Bakka ætti að byggja á fjölbreyttum verkefnum sem nýta græna orku og hliðarstrauma.


Heildarumræðurnar einkenndust af samstöðu, ákveðni og trú á framtíðina. Þrátt fyrir talsverðar áskoranir er ljóst að mikill hugur og drifkraftur býr í samfélaginu. Framtíðin á Bakka felst í fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu, öflugum innviðum og samfélagi sem tekur virkan þátt í þróuninni.


Ráðstefnan var túlkuð jafnóðum á ensku með sérstökum heyrnartólum og tveir túlkar tryggðu að erlendir gestir gætu fylgst með í rauntíma. Við þökkum Hraðinu á Húsavík og Geosea fyrir búnaðinn sem gerði okkur kleift að tryggja jafnræði í samskiptum.


Við þökkum öllum gestum kærlega fyrir komuna. 


Fleiri myndir frá ráðstefnu má nálgast á Facebook síðu Eims hér.

  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button
  • Slide title

    Write your caption here
    Button

Deila frétt

13. nóvember 2025
Undanfarnar vikur hefur Eimur staðið fyrir kynningarstarfi um möguleika sniglaræktar á Íslandi. Verkefnið hefur verið kynnt fyrir fjölmörgum aðilum víða um Norðurland meðal annars á Hönnunarþingi á Húsavík, Vegagerðinni, Landsvirkjun og fleiri stofnunum og fyrirtækjum. Markmiðið hefur verið að vekja athygli á tækifærum til nýsköpunar í landbúnaði og benda á hvernig vistvæn og sjálfbær ræktun gæti orðið áhugaverð viðbót við íslenskan landbúnað. Vinnustofur um sniglarækt sem haldnar voru á Norðurlandi í október vöktu mikla athygli og voru afar ánægjulegar í alla staði. Fjöldi bænda, frumkvöðla og annarra áhugasamra einstaklinga lagði leið sína á kynningarfundi þar sem fjallað var um möguleika sniglaræktar sem nýrrar vistvænnar hliðarbúgreinar á Íslandi. Á fundunum fóru yfir efnið þeir Sigurður Líndal frá Eimi og Peter Monaghan frá írska fyrirtækinu Inis Escargot, sem hefur mikla og farsæla reynslu af sniglarækt sem hágæða matvöru í Evrópu. Þeir kynntu hugmyndir sínar um hvernig hægt er að nýta íslenskar aðstæður, svo sem jarðhita, hrein auðlindakerfi og vannýttan húsakost til sveita, til að skapa sjálfbært rekstrarumhverfi fyrir sniglarækt. Áhugi á viðfangsefninu reyndist mikill og spurningar komu úr öllum áttum, bæði frá bændum sem sjá tækifæri til að renna styrkari stoðum undir búskap sinn og frá frumkvöðlum í leit að nýjum leiðum til að nýta staðbundnar auðlindir á skapandi hátt. Þátttakendur ræddu meðal annars um húsakost, fóðrun, ræktunarlotur, markaði og möguleg notagildi sniglaafurða á Íslandi, auk leiða til meginmarkaða í Evrópu. Sigurður og Peter voru báðir hæstánægðir með móttökurnar og áhugann sem blasti við alls staðar. „Ísland stendur frammi fyrir einstöku tækifæri á heimsvísu þegar kemur að sniglarækt, því stöðugt hitastig og trygg hitastjórnun er lykillinn að árangursríku sniglaeldi. Þar kemur íslenskur jarðhiti með nýja vídd inn á heimsmarkaðinn,“ sagði sniglasérfræðingurinn að loknum fundunum. Næstu skref eru þegar farin að taka á sig mynd, og ljóst er að langtum fleiri munu sækja um þátttöku í staðnámi á Írlandi en sæti verða í boði. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með framhaldinu og fá upplýsingar um næstu skref geta haft samband við Sigurð Líndal hjá Eimi á netfangið s.lindal@eimur.is eða fylgst með fréttum á eimur.is. Vinnustofurnar sýndu glöggt að nýsköpun í landbúnaði lifir góðu lífi á Norðurlandi – og að þó sniglar séu smávaxnir geti þeir orðið stór hluti af framtíðinni.
17. október 2025
Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og er liður í að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Meðal fundarefna verður: • Hvernig orka, varmi og innviðir skapa ný tækifæri á Bakka • Hvernig hringrásarhagkerfi getur stutt við atvinnuþróun og alþjóðlega ímynd Íslands • Hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í sjálfbærri uppbyggingu Dagskrá: Húsið opnar kl. 12:00 – Skráning og súpuhlaðborð fyrir gesti á Fosshótel Húsavík Ráðstefna kl. 13:00 – 17:00 Fundarliður 1: Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni Fundarliður 2: Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni Fundarliður 3: Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið á Bakka fyrir hádegi frá kl. 10:30 - 12:00 þann 20. nóvember og er sú ferð opin öllum. Rútan fer frá Fosshótel á Húsavík og er nauðsynlegt að skrá sig því það er takmarkað pláss. Ráðstefnan er opin öllum en skráning er nauðsynleg - www.eimur.is/bakkiradstefna
30. september 2025
Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.