Leiftrandi áhugi og hugur í fólki um sniglarækt á Norðurlandi

Vinnustofur og kynningarherferð um sniglarækt á Norðurlandi
Undanfarnar vikur hefur Eimur staðið fyrir kynningarstarfi um möguleika sniglaræktar á Íslandi. Verkefnið hefur verið kynnt fyrir fjölmörgum aðilum víða um Norðurland meðal annars á Hönnunarþingi á Húsavík, Vegagerðinni, Landsvirkjun og fleiri stofnunum og fyrirtækjum. Markmiðið hefur verið að vekja athygli á tækifærum til nýsköpunar í landbúnaði og benda á hvernig vistvæn og sjálfbær ræktun gæti orðið áhugaverð viðbót við íslenskan landbúnað.
Vinnustofur um sniglarækt sem haldnar voru á Norðurlandi í október vöktu mikla athygli og voru afar ánægjulegar í alla staði. Fjöldi bænda, frumkvöðla og annarra áhugasamra einstaklinga lagði leið sína á kynningarfundi þar sem fjallað var um möguleika sniglaræktar sem nýrrar vistvænnar hliðarbúgreinar á Íslandi.
Á fundunum fóru yfir efnið þeir Sigurður Líndal frá Eimi og Peter Monaghan frá írska fyrirtækinu Inis Escargot, sem hefur mikla og farsæla reynslu af sniglarækt sem hágæða matvöru í Evrópu. Þeir kynntu hugmyndir sínar um hvernig hægt er að nýta íslenskar aðstæður, svo sem jarðhita, hrein auðlindakerfi og vannýttan húsakost til sveita, til að skapa sjálfbært rekstrarumhverfi fyrir sniglarækt.
Áhugi á viðfangsefninu reyndist mikill og spurningar komu úr öllum áttum, bæði frá bændum sem sjá tækifæri til að renna styrkari stoðum undir búskap sinn og frá frumkvöðlum í leit að nýjum leiðum til að nýta staðbundnar auðlindir á skapandi hátt. Þátttakendur ræddu meðal annars um húsakost, fóðrun, ræktunarlotur, markaði og möguleg notagildi sniglaafurða á Íslandi, auk leiða til meginmarkaða í Evrópu.
Sigurður og Peter voru báðir hæstánægðir með móttökurnar og áhugann sem blasti við alls staðar. „Ísland stendur frammi fyrir einstöku tækifæri á heimsvísu þegar kemur að sniglarækt, því stöðugt hitastig og trygg hitastjórnun er lykillinn að árangursríku sniglaeldi. Þar kemur íslenskur jarðhiti með nýja vídd inn á heimsmarkaðinn,“ sagði sniglasérfræðingurinn að loknum fundunum.
Næstu skref eru þegar farin að taka á sig mynd, og ljóst er að langtum fleiri munu sækja um þátttöku í staðnámi á Írlandi en sæti verða í boði. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með framhaldinu og fá upplýsingar um næstu skref geta haft samband við Sigurð Líndal hjá Eimi á netfangið s.lindal@eimur.is eða fylgst með fréttum á eimur.is.
Vinnustofurnar sýndu glöggt að nýsköpun í landbúnaði lifir góðu lífi á Norðurlandi – og að þó sniglar séu smávaxnir geti þeir orðið stór hluti af framtíðinni.
Deila frétt









