12. mars 2024

Krubbur - Hugmyndahraðhlaup á Húsavík

Krubbur var haldinn í fyrsta sinn á Húsavík dagana 8. - 9. mars síðastliðinn. Krubbur var settur upp sem tveggja daga hugmyndasmiðja þar sem unnið var að lausnum sem tengjast betri nýtingu auðlinda og lágmörkun úrgangs í Norðurþingi. Þátttaka var opin öllum frá 16 ára og var aldursbil þátttakanda frábært, svo þekking og reynsla ólíkra kynslóða spann spennandi vef.

Hraðið, miðstöð nýsköpunar  stóð fyrir viðburðinum í samvinnu við KLAK-icelandic startups, Eim, SSNE og fleiri aðila. Um er að ræða samstarfsverkefni með fyrirtækjum á svæðinu og stoðkerfi atvinnulífsins og nýsköpunar.

Í Krubbi var unnið í teymum þar sem þátttakendur deildu þekkingu og reynslu og unnu saman að því að útfæra lausnir við áskorunum sem fyrirtæki á svæðinu kynntu. Teymin fengu ráðgjöf frá sérhæfðum leiðbeinendum sem gátu aðstoðað þau við að útfæra hugmyndirnar.

Með þessum nýsköpunarviðburði var markmiðið að efla

--> skapandi hugsun,
--> frumkvöðlastarf á sama tíma og
--> unnið yrði að markmiðum hringrásarhagkerfisins.

Um 70 gestir sóttu viðburðinn og voru þátttakendur 30 í 7 teymum. Hugmyndirnar sem voru kynntar voru afar áhugaverðar og verða vonandi sem flestar að veruleika. Fræjum hefur allavega verið sáð og nú er spurning um jarðveginn. Þær fjórar hugmyndir sem hlutu verðlaun voru eftirfarandi:

STERK STEYPA
sem dómnefnd frá fyrirtækinu PCC BakkiSilicon valdi sem bestu lausnina við þeirra áskorun. Verkefnið snérist um að skapa tækifæri úr þeim 3.000 tonnum af kvartssandi sem fellur til á á hverju ári hjá fyrirtækinu.  

Í teyminu voru Ingibjörg Benediktsdóttir verkefnastjóri ÞÞ og almannavarnarfulltrúi, Methúsalem Hilmarsson, sérfræðingur um áhættumat og öryggismál, Knútur Jónasson löggiltur hönnuður og Sigurður Páll Tryggvason sem hefur áralanga reynslu af byggingavinnu.

Teymið kynnti nýja vöru sem ber hið íslenska heiti Varnarhyrna og er til þess fallin að skapa leiðargarða í náttúruvá, s.s.gegn hraunflæði, vatni og aur. Hyrnan er forsteypt úr kvartsblandaðri steypu, en með því fæst aukin harka á sama tíma og steypan hefur meira slit- og efnaþol en hefðbundin steypa. Hver eining er um 1.400 kg og raðast í varnargarða á sama tíma og hægt er að stafla þeim þétt til að auðvelda flutning þeirra.

Hyrnurnar hefði verið hægt að nota í aurskriðunum í Útkinn til að gera örugga leið á meðan flytja þurfti bændur til að mjólka. Einnig hefði verið hægt að leggja þær yfir vatnslagnir til varnar í hraunflæðinu á Reykjanesskaga. Markhópurinn er ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar og næstu skref teymisins eru að leita að fjármögnun og vinna að frekari þróun eininganna.

NEKT
sem dómnefnd frá fyrirtækinu Íslenska gámfélaginu valdi sem bestu lausnina við þeirra áskorun. Verkefni þeirra snérist um endurvinnslu á textílúrgangi yfir í seljanlega vöru. 

Í teyminu voru Aldey Unnar Traustadóttir hjúkrunarfræðingur og sveitastjórnarfulltrúi, Þóra Katrín Þórsdóttir textíl kennari, Björg Sigurðardóttir kennari á eftirlaunum, Helga Dagný Einarsdóttir brugghússeigandi og Arna Þórarinsdóttir félagsliði, kokkur og yoga kennari.

Teymið kynnti hvernig tæta mætti textílúrgang í sérstökum vélum og búa til trefjahnoðra sem hægt væri t.d. að selja sem troð eða spinna úr honum  þráð til fataframleiðslu. Framtíðarsýn þeirra er að vefa efnið sjálfar en í upphafi verður megináherslan á hreinsun og þráðagerð. Sérstaða verkefnisins er að nýta orku á svæðinu til hreinsunar og þurrkunar á textílnum.

GREENWAVES
sem dómnefnd Ocean Missions og Norðurþings valdi sem bestu lausnina við áskorun Ocean Missions sem snýr að plastmengun í sjónum. Verkefnið snérist um að nota endurunnar plastflöskur til að búa til plastþræði sem síðan verða notaðir til að framleiða fatnað. Markhópur þeirra er ferðamenn sem heimsækja Húsavík og kynningarstarf fatnaðarins er með áherslu á málefni hafsins og umhverfisvernd. Í teyminu voru Michal Maciejewski starfsmaður GeoSea og frumkvöðull, Matteo, Rodrigo, Gaia og Valentina sem öll eru nemendur hjá Rannsóknasetri HÍ á Húsavík þar sem þau vinna að rannsóknaverkefnum á Skjálfanda.

HUGARRÓ
sem hlutu heildarverðlaun Krubbs. Verkefnið snýr að hönnun og framleiðslu á fallegum skynörvunarfatnaði fyrir börn. Afar takmarkað framboð er í dag á vörum sem fullnægja skynþörfum einstaklinga með greiningar eins og einhverfu, ADHD og kvíða. Teymið skipa þær Júlía Margrét Birgisdóttir og Sólveig Ósk Guðmundsdóttur sem báðar búa bæði yfir fagþekkingu og persónulegri reynslu. Sólveig er deildarstjóri og Júlía Margrét í sérkennsluteymi leikskólans Grænuvalla auk þess að halda úti  hugmyndasíðu um sjónrænt skipulag fyrir börn. Samkvæmt tímalínu þeirra myndi fyrsta framleiðsluvaran vera peysa úr endurunnu efni sem býr yfir sérstakri hljóðeinangrun og skyggni í hettu, nag-hálsmáli, fidgets í vösum, þrengingum á ermum og efni sem hentar börnum með skynörvunarvanda.

Á Húsavík hefur mikil uppbygging átt sér stað í nýsköpunargeiranum undanfarið.  Hraðið miðstöð nýsköpunar  opnaði árið 2022 en þar er aðstaða í boði fyrir frumkvöðla og öll þau sem vilja nýta sér vinnuaðstöðu í skapandi og vel tækjum búnu umhverfi.

Hugmyndahraðhlaupið gekk afar vel. Eimur þakkar öllum fyrir gott samstarf og hlakkar til að koma að Krubbi að ári liðnu.


Deila frétt

3. júlí 2025
Eimur kynnir með stolti gagnvirkt olíumælaborð
3. júlí 2025
Akureyrarbær og atNorth hafa undirritað samkomulag um afhendingu glatvarma frá gagnaverinu ICE03 að Hlíðarvöllum í samvinnu við Eim, sem leiddi vinnu við samningsgerðina. Glatvarminn verður afhentur án endurgjalds til þróunarverkefna í samræmi við áherslur Akureyrarbæjar um sjálfbæra þróun og orkunýtingu. Framkvæmdum við 16 milljarða króna stækkun gagnavers atNorth á Akureyri miðar vel og er fyrri áfangi nú tilbúinn í rekstur. Samhliða stækkun gagnavers verður reist þjónustuhús fyrir ört stækkandi hóp starfsmanna félagsins á Akureyri. Fyrsta skóflustungan var tekin í morgun við hátíðlega athöfn. Viðstaddir voru fulltrúar bæjarstjórnar Akureyrar, starfsmenn atNorth, verktakar og aðrir gestir. Nýja þjónustuhúsið verður vestan við núverandi byggingar á athafnasvæði atNorth og er ráðgert að húsið verði tekið í notkun á næsta ári. Anna Kristín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar og nýsköpunar hjá atNorth, hélt um skófluna í morgun og tók fyrstu skóflustunguna ásamt starfsfólki félagsins. „Umsvifin á Akureyri hafa aukist hröðum skrefum og ljóst að við þurfum að reisa nýja þjónustubyggingu til að tryggja framúrskarandi aðstöðu til framtíðar fyrir ört stækkandi starfsmannahóp okkar. Auk mikils fjölda verktaka sem vinna að stækkun rekstursins, erum við með um 80 fasta starfsmenn á Íslandi og þriðjungur þeirra er á Akureyri.“ Samhliða stækkuninni hafa Akureyrarbær og atNorth samið um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu til samfélagsverkefna á Akureyri, m.a. til upphitunar á nýju gróðurhúsi sem reist verður og rekið á samfélagslegum forsendum. Auk bæjarins og atNorth koma Ferro Zink og Gróðrarstöð Akureyrar að verkefninu, en markmiðið er m.a. að skapa lærdómsumhverfi til vistvænnar ræktunar fyrir nemendur á grunn- og framhaldsskólastigi á Akureyri. Vonir standa til að gróðurhúsið verði tilbúið til notkunar strax í haust og ungir Akureyringar fái þá tækifæri til að kynnast sjálfbærri matvælaframleiðslu og betri orkunýtingu í verki. „Við leggjum mikla áherslu á að Akureyri verði leiðandi í orkunýtingu og sjálfbærni,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. „Þetta samstarf við atNorth og Eim er lykilskref í þeirri vegferð og þeir möguleikar sem fylgja samkomulagi um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu eru afar mikilvægir fyrir bæjarfélagið. Sá samningur sem undirritaður var í dag er í takti við þær væntingar sem við höfðum um áhrif þeirra innviðaframkvæmda sem ráðist var í til að tryggja raforkuflutning inn á svæðið.“ Eimur leiddi samningsgerðina fyrir hönd bæjarins. „Við hjá Eimi sjáum þetta sem mikilvægt skref í því að virkja ónýttar auðlindir til raunverulegrar verðmætasköpun á svæðinu. Þessi samningur er einstakur á Íslandi og sýnir greinilega hverju hægt er að ná fram þegar sveitarfélög, fyrirtæki og nýsköpun vinna saman að settum umhverfismarkmiðum“, segir Karen Mist Kristjánsdóttir, forstöðumaður orku og sjálfbærni hjá Eimi. Alls rekur atNorth átta gagnaver á Norðurlöndum, þar af þrjú á Íslandi. Tvö til viðbótar eru í smíðum í Danmörku og Finnlandi, auk þess sem stækkun gagnaversins á Fitjum í Reykjanesbæ er í fullum gangi. Starfsmenn atNorth eru rúmlega 200.
27. júní 2025
Eimur óskar eftir að ráða verkefnastjóra á Norðurlandi Vestra í tímabundið starf út árið 2026, með möguleika á framlengingu. Við leitum að öflugum einstaklingi til að móta og leiða spennandi þróunarverkefni á Norðurlandi vestra á sviði hringrásarhagkerfisins, orkuskipta og nýsköpunar. Verkefnastjóri vinnur náið með framkvæmdastjóra Eims og eftir atvikum öðru starfsfólki og samstarfsaðilum, og ber ábyrgð á framgangi valinna verkefna. Starfsstöð verkefnastjóra er á Norðurlandi vestra, eftir hentugleikum á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd eða Sauðárkróki. Helstu verkefni Verkefnastjórn valinna verkefna Eims með áherslu á innleiðingu hringrásarhagkerfis, orkuskipti, orkunýtni og verðmætasköpun Þróa öflugt samstarf með hagsmunaaðilum, sérstaklega á Norðurlandi vestra Vinna að mótun og fjármögnun nýrra verkefna á starfssvæði Eims Taka virkan þátt í umsóknaskrifum í innlenda og erlenda sjóði Aðstoð við að koma verkefnum Eims á framfæri Teymisvinna með Bláma, Orkídeu og Eygló Hæfnikröfur Háskólamenntun sem nýtist í starfi, raunvísinda- eða tæknimenntun er kostur Frumkvæði, skipulagshæfni og sjálfstæði vinnubrögðum Reynsla af gerð styrkumsókna í innlenda og erlenda sjóði er kostur Reynsla af verkefnastjórn er kostur Rík samskiptahæfni og færni í að koma frá sér efni Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti Eimur er samstarfsverkefni sem snýr að bættri nýtingu auðlinda á Norðurlandi með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Að verkefninu standa Landsvirkjun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur. Með umsókn skal fylgja ferilskrá ásamt kynningarbréfi. Nánari upplýsingar Geirlaug Jóhannsdóttir, geirlaug@hagvangur.is Inga S. Arnardóttir, inga@hagvangur.is