12. mars 2024

Krubbur - Hugmyndahraðhlaup á Húsavík

Krubbur var haldinn í fyrsta sinn á Húsavík dagana 8. - 9. mars síðastliðinn. Krubbur var settur upp sem tveggja daga hugmyndasmiðja þar sem unnið var að lausnum sem tengjast betri nýtingu auðlinda og lágmörkun úrgangs í Norðurþingi. Þátttaka var opin öllum frá 16 ára og var aldursbil þátttakanda frábært, svo þekking og reynsla ólíkra kynslóða spann spennandi vef.

Hraðið, miðstöð nýsköpunar  stóð fyrir viðburðinum í samvinnu við KLAK-icelandic startups, Eim, SSNE og fleiri aðila. Um er að ræða samstarfsverkefni með fyrirtækjum á svæðinu og stoðkerfi atvinnulífsins og nýsköpunar.

Í Krubbi var unnið í teymum þar sem þátttakendur deildu þekkingu og reynslu og unnu saman að því að útfæra lausnir við áskorunum sem fyrirtæki á svæðinu kynntu. Teymin fengu ráðgjöf frá sérhæfðum leiðbeinendum sem gátu aðstoðað þau við að útfæra hugmyndirnar.

Með þessum nýsköpunarviðburði var markmiðið að efla

--> skapandi hugsun,
--> frumkvöðlastarf á sama tíma og
--> unnið yrði að markmiðum hringrásarhagkerfisins.

Um 70 gestir sóttu viðburðinn og voru þátttakendur 30 í 7 teymum. Hugmyndirnar sem voru kynntar voru afar áhugaverðar og verða vonandi sem flestar að veruleika. Fræjum hefur allavega verið sáð og nú er spurning um jarðveginn. Þær fjórar hugmyndir sem hlutu verðlaun voru eftirfarandi:

STERK STEYPA
sem dómnefnd frá fyrirtækinu PCC BakkiSilicon valdi sem bestu lausnina við þeirra áskorun. Verkefnið snérist um að skapa tækifæri úr þeim 3.000 tonnum af kvartssandi sem fellur til á á hverju ári hjá fyrirtækinu.  

Í teyminu voru Ingibjörg Benediktsdóttir verkefnastjóri ÞÞ og almannavarnarfulltrúi, Methúsalem Hilmarsson, sérfræðingur um áhættumat og öryggismál, Knútur Jónasson löggiltur hönnuður og Sigurður Páll Tryggvason sem hefur áralanga reynslu af byggingavinnu.

Teymið kynnti nýja vöru sem ber hið íslenska heiti Varnarhyrna og er til þess fallin að skapa leiðargarða í náttúruvá, s.s.gegn hraunflæði, vatni og aur. Hyrnan er forsteypt úr kvartsblandaðri steypu, en með því fæst aukin harka á sama tíma og steypan hefur meira slit- og efnaþol en hefðbundin steypa. Hver eining er um 1.400 kg og raðast í varnargarða á sama tíma og hægt er að stafla þeim þétt til að auðvelda flutning þeirra.

Hyrnurnar hefði verið hægt að nota í aurskriðunum í Útkinn til að gera örugga leið á meðan flytja þurfti bændur til að mjólka. Einnig hefði verið hægt að leggja þær yfir vatnslagnir til varnar í hraunflæðinu á Reykjanesskaga. Markhópurinn er ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar og næstu skref teymisins eru að leita að fjármögnun og vinna að frekari þróun eininganna.

NEKT
sem dómnefnd frá fyrirtækinu Íslenska gámfélaginu valdi sem bestu lausnina við þeirra áskorun. Verkefni þeirra snérist um endurvinnslu á textílúrgangi yfir í seljanlega vöru. 

Í teyminu voru Aldey Unnar Traustadóttir hjúkrunarfræðingur og sveitastjórnarfulltrúi, Þóra Katrín Þórsdóttir textíl kennari, Björg Sigurðardóttir kennari á eftirlaunum, Helga Dagný Einarsdóttir brugghússeigandi og Arna Þórarinsdóttir félagsliði, kokkur og yoga kennari.

Teymið kynnti hvernig tæta mætti textílúrgang í sérstökum vélum og búa til trefjahnoðra sem hægt væri t.d. að selja sem troð eða spinna úr honum  þráð til fataframleiðslu. Framtíðarsýn þeirra er að vefa efnið sjálfar en í upphafi verður megináherslan á hreinsun og þráðagerð. Sérstaða verkefnisins er að nýta orku á svæðinu til hreinsunar og þurrkunar á textílnum.

GREENWAVES
sem dómnefnd Ocean Missions og Norðurþings valdi sem bestu lausnina við áskorun Ocean Missions sem snýr að plastmengun í sjónum. Verkefnið snérist um að nota endurunnar plastflöskur til að búa til plastþræði sem síðan verða notaðir til að framleiða fatnað. Markhópur þeirra er ferðamenn sem heimsækja Húsavík og kynningarstarf fatnaðarins er með áherslu á málefni hafsins og umhverfisvernd. Í teyminu voru Michal Maciejewski starfsmaður GeoSea og frumkvöðull, Matteo, Rodrigo, Gaia og Valentina sem öll eru nemendur hjá Rannsóknasetri HÍ á Húsavík þar sem þau vinna að rannsóknaverkefnum á Skjálfanda.

HUGARRÓ
sem hlutu heildarverðlaun Krubbs. Verkefnið snýr að hönnun og framleiðslu á fallegum skynörvunarfatnaði fyrir börn. Afar takmarkað framboð er í dag á vörum sem fullnægja skynþörfum einstaklinga með greiningar eins og einhverfu, ADHD og kvíða. Teymið skipa þær Júlía Margrét Birgisdóttir og Sólveig Ósk Guðmundsdóttur sem báðar búa bæði yfir fagþekkingu og persónulegri reynslu. Sólveig er deildarstjóri og Júlía Margrét í sérkennsluteymi leikskólans Grænuvalla auk þess að halda úti  hugmyndasíðu um sjónrænt skipulag fyrir börn. Samkvæmt tímalínu þeirra myndi fyrsta framleiðsluvaran vera peysa úr endurunnu efni sem býr yfir sérstakri hljóðeinangrun og skyggni í hettu, nag-hálsmáli, fidgets í vösum, þrengingum á ermum og efni sem hentar börnum með skynörvunarvanda.

Á Húsavík hefur mikil uppbygging átt sér stað í nýsköpunargeiranum undanfarið.  Hraðið miðstöð nýsköpunar  opnaði árið 2022 en þar er aðstaða í boði fyrir frumkvöðla og öll þau sem vilja nýta sér vinnuaðstöðu í skapandi og vel tækjum búnu umhverfi.

Hugmyndahraðhlaupið gekk afar vel. Eimur þakkar öllum fyrir gott samstarf og hlakkar til að koma að Krubbi að ári liðnu.


Deila frétt

20. janúar 2026
Í fréttabréfinu er farið yfir þann árangur sem náðst hefur innan verkefnisins á síðustu misserum og varpað ljósi á fjölbreytt og metnaðarfull verkefni samstarfsaðila víðs vegar um Evrópu. Helstu atriði frá íslensku samstarfsaðilunum: Á Íslandi hafa Eimur, SSNE og Vestfjarðastofa unnið með sveitarfélögum á sínum svæðum að gerð svæðisbundinna áætlana fyrir orkuskipti og loftslagsmál. Á Norðurlandi eystra liggur nú fyrir sam eiginleg loftslagsáætlun allra sveitarfélaga SSNE. Í þeirri vinnu var meðal annars nýttur aðgerðabanki RECET, sem er afrakstur vinnustofa sem Eimur og SSNE héldu haustið 2024. Á Vestfjörðum var farin sú leið að flétta orkuskipta- og loftslagsmál inn í svæðisskipulagsgerð, sem nú er í samráðsferli. Vestfjarðastofa hefur haft forgöngu um innleiðingu græns bókhaldskerfis fyrir sveitarfélög á svæðinu, sem auðveldar eftirfylgni og mat á árangri aðgerða í rauntíma. Á tímabilinu voru haldnir nokkrir viðburðir, þar á meðal: Alþjóðleg ráðstefna í Hofi í maí 2025, skipulögð af Eimi í samstarfi við Íslenska Nýorku, Nordic Energy Research og Umhverfis- og orkustofnun, undir yfirskriftinni Akureyri Energy Seminar. Vefþing um orkuskipti smábáta í apríl 2025, haldið af Eimi og Vestfjarðastofu. Eimur birti einnig olíumælaborð á tímabilinu sem er byggt á greiningu Eims og Eflu á olíusölu eftir landsvæðum á árunum 2010-2020. Á næstu vikum verður aðgerðabanki RECET gerður opinber. 🔗 Hægt er að lesa fréttabréfið á netinu eða sækja PDF-útgáfu hér: https://www.recetproject.eu/recetnewsletter-2 Um RECET RECET er samstarfsverkefni fimm landa og fjölda sveitarfélaga víðs vegar um Evrópu, með Ísland í fararbroddi. Verkefnið miðar að því að efla getu sveitarfélaga og atvinnulífs til að takast á við orkuskipti og móta markvissar orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. RECET er styrkt af LIFE-styrktaráætlun Evrópusambandsins, sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál.
16. janúar 2026
Eftirfarandi verkefni stóðu uppúr: Grænir iðngarðar á Bakka Eimur leiddi samningaviðræður f.h. Akureyrarbæjar við gagnaver AtNorth um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu við Hlíðarvelli á Akureyri. Afar fjölsótt ráðstefna um framtíðina á Bakka haldin 20. nóvember s.l. með ráðamönnum, fulltrúum þings og sveitarstjórna, atvinnulífsins og áhugasamra fyrirtækja um uppbyggingu á Bakka og almennings á Húsavík. Útkoma skýrslu verkefnastjóra Græns iðngarðs um þróun svæðisins á Bakka, áskoranir og niðurstöður. Sniglarækt og kortlagning hjárennslis í hitaveitum Frábær kynning um sniglarækt og framreiðsla á Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavíka, í september 2025. Afar vel sótt námskeiðaröð um sniglarækt með Peter Monaghan , sem við stóðum fyrir á Norðurlandi vestra og eystra haustið 2025. Samstarf við Mirru Payson SIT nema, Norðurorku, Skagafjarðarveitur um kortlagningu á hjárennsli hitaveitna á Norðurlandi RECET Vefþing í apríl sl. um orkuskipti smábáta í sjávarútvegi haldið með Vestfjarðastofu Alþjóðleg ráðstefna haldin í Hofi í byrjun maí um áskoranir orkuskipta í dreifðum byggðum haldin með Nordic Energy Research, Umhverfis- og orkustofnun og Íslenskri Nýorku Samstarf við SIT nema Inbal Armony, sem kom saman mælaborði um olíusölu eftir landshlutum birt, byggða á greiningu Eims og Eflu á olíusölu eftir landsvæðum á árunum 2010-2020 Þróaður aðgerðabanki í orkuskiptum og loftslagsmálum fyrir sveitarfélög byggðan á reynslu Eims, SSNE og Vestfjarðastofu af vinnustofum um orkuskipti og loftslagsmál. Stofnun orkusamfélags Kelduhverfis. ICEWATER Samningur við Iðnver um leigu á færanlegu hreinsivirki fyrir fráveituvatn Unnið hörðum höndum að hönnun færanlegs hreinsivirkis fyrir fráveituvatn Samkomulag við Kjarnafæði/Norðlenska um uppsetningu á færanlegu hreinsivirki fyrir fráveituvatn við sláturhús þeirra á Húsavík. Metanver á stórum og smáum skala Unnum rekstrar- og fjármögnunarlíkan fyrir metanver, með mögulega staðsetningu á Dysnesi við Eyjafjörð og kynntum fyrir helsta úrgang. Hófum virkt samtal við Akureyrarbæ sem einn helsta úrgangshafa svæðisins um mikilvægi þessarar uppsetningar. Fjölsótt ráðstefna haldin með kollegum okkar í Orkídeu á Hótel Selfossi í júní s.l. um lífgas og áburðarmál. Við höfum rætt við marga kúabændur um þau fjölbreyttu tækifæri til aukinnar rekstarhagkvæmni sem felast í kúamykju, bæði með því að lækka áburðar- og eldsneytiskostnað í gegnum metanvinnslu. Nýting hauggass í Stekkjarvík Unnum mat á leiðum til að nýtingar hauggass frá Stekkjarvík í samstarfi við Norðurá bs. sem rekur urðunarstaðinn í Stekkjarvík, þangað sem mest af okkar heimilissorpi fer til urðunar. Eimur þakkar sínum fjölmörgu samstarfsaðilum fyrir gjöfult ár og hlakkar til að takast á við 2026! - Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri Eims
13. janúar 2026
Eimur hefur hlotið tvo styrki að upphæð 500 þúsund krónur hvorn, annars vegar frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra og hins vegar frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra, til áframhaldandi þróunar sniglaræktarverkefnisins , en næsti áfangi þess er námsferð til Írlands. Verkefnið miðar að því að þróa sniglarækt sem vistvæna og sjálfbæra hliðarbúgrein í íslenskum landbúnaði, með sérstakri áherslu á nýtingu glatvarma og lífrænna hliðarstrauma sem annars fara til spillis. Markmiðið er að byggja upp þekkingu, meta fýsileika ræktunar við íslenskar aðstæður og skapa ný tækifæri til verðmætasköpunar í dreifðum byggðum. Styrkirnir styðja við næsta áfanga verkefnisins sem felur meðal annars í sér staðnám á Írlandi, þar sem íslenskir bændur, ráðgjafar og verkefnisstjóri munu kynnast starfandi sniglabúum og hagnýtum aðferðum í sniglarækt. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og erlenda sérfræðinga og fellur vel að áherslum sóknaráætlana landshlutanna um nýsköpun, sjálfbærni og fjölbreyttara atvinnulíf. Jafnframt hlaut Ísponica styrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra til verkefnisins HringrásHús: Innovating Food Systems , þar sem sniglarækt er skoðuð sem hluti af hringrásarlausnum í matvælaframleiðslu. Í því verkefni er meðal annars unnið með Inis Escargot á Írlandi, sem einnig er samstarfsaðili Eims í sniglaræktarverkefninu og viðkomustaður námsferðarinnar. Verkefnin styðja þannig hvort annað með miðlun þekkingar og þróun sjálfbærra lausna fyrir jákvæða byggðaþróun. Eimur þakkar Uppbyggingarsjóðum Norðurlands vestra og eystra fyrir stuðninginn.