22. mars 2024

Fjárfestahátíð Norðanáttar í sérflokki

Þriðja árið röð komu allir helstu fjárfestar landsins saman á Siglufirði til fundar við frumkvöðla sem vinna að verkefnum tengdum auðlinda-, orku- og umhverfismálum. 

Fjárfestahátíð Norðanáttar var haldin í fyrsta skipti árið 2022 en þá var áherslan eingöngu á sprotaverkefni á Norðurlandi. Vegna þess hversu vel tókst til var ákveðið að bjóða og höfða til sprotafyrirtækja hvaðanæva að landinu. Í ár væri engin breyting þar á og voru níu fyrirtæki valin á hátíðina úr hóp fjölda umsókna, þar af eitt gestaverkefni frá Færeyjum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ávarpaði hátíðina og brýndi gesti til verka í málaflokknum en áskoranirnar eru miklar.

,,Markmiðin um græn orkuskipti og samdrátt í losun eru skýr.  Við stefnum á allsherjar græna vegferð og enginn landshluti má vera skilinn eftir…” , sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ávarpi sínu. Mikilvægt væri að virkja hugvitið í öllum landshlutum og að hátíð sem þessi væri góður vettvangur til að tengja fjármagn við  lausnir sem myndi hjálpa okkur að takast á við þessar aðgerðir.

Guðmundur Gunnarsson, stýrði umræðum í pallborðum dagsins. Haraldur Hallgrímsson hjá Landsvirkjun, Katrín Sigurjónsdóttir hjá Norðurþingi, Sigríður V. Vigfúsdóttir hjá Primex, Pétur Arason hjá Húnabyggð og Daði Valdimarsson hjá Rotovia stikluðu á stóru um mikilvægi þess að taka frumkvæði og forystu þegar kemur að atvinnumálum og nýsköpun og því að sveitarfélög og svæði marki sér stefnu og fylgi þeim eftir þegar kemur að verðmætasköpun. Breyttir tímar væru frá því sem áður var og að samfélög þurfi að gera upp við sig hvað þau vilja og vinna markvisst að því búa til sín eigin tækifæri.

Seinna pallborðið ávarpaði mikilvægi fjölbreytileika og jafnréttis í nýsköpunar og fjármögnunarumhverfinu. Hekla Arnardóttir hjá Crowberry Capital, Arne Vagn Olsen hjá Lífeyrissjóð verzlunarmanna, Ragnheiður H. Magnúsdóttir hjá Nordic Ignite og Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé hjá Öldu ræddu þar að þó ýmislegt gott sé í gangi og að margt sé á réttir leið, þurfum við að ávarpa með markvissum hætti, hvernig fjárfestar geta stutt við fjölbreytileika t.d. í nýjum fyrirtækjum, hvað snertir stjórnir, eignarhald osfrv. Jafnrétti og fjölbreytileiki eykur getu og hæfni fyrirtækja til að ná árangri. 

Lilja Dögg Alfreðsdóttir,  menningar- og viðskiptaráðherra ávarpaði gesti í seinni hluta dagskrá þar sem frumkvöðlar voru með fjárfestakynningar í bátahúsi Síldarminjasafnsins. Í framhaldi fjárfestakynninga fór fram stefnumót frumkvöðla og fjárfesta og annarra lykilaðila í stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi í Salthúsinu, nýjum safnkosti Síldarminjasafnsins og er þetta í fyrsta sinn sem viðburður er haldinn þar. 

Það var samdóma álit gesta og þátttakenda að svona vettvangur sé gríðarlega mikilvægur fyrir verkefni í leit að fjárfestingum þar sem þarna gefst gott tækifæri til þess að mynda tengingar og eiga fyrsta skrefið í átt að framtíðarsamvinnu. 

Að verkefninu Norðanátt standa EIMUR og landshlutasamtökin á Norðurlandi SSNE og SSNV með stuðningi frá Umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytinu.  

Bakhjarlar Fjárfestahátíðarinnar 2024 eru Tækniþróunarsjóður, KPMG, Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins og KEA.






















Deila frétt

27. nóvember 2025
Loftslags- og orkusjóður hefur úthlutað rúmlega 1,3 milljörðum króna til 109 verkefna sem miða að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eða fela í sér nýsköpun á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála. Eimur er meðal þeirra sem hljóta styrk að þessu sinni. Verkefni ber heitið Nýting lífræns efnis úr fráveituvatni til orkuframleiðslu . Það felur í sér uppsetningu færanlegs hreinsibúnaðar við sláturhús Kjarnafæðis/Norðlenska á Húsavík, í samstarfi við Orkuveitu Húsavíkur og Kjarnafæði Norðlenska. Markmið verkefnisins er að sýna fram á kosti þess að koma upp forhreinsivirki fyrir fráveituvatn frá matvælafyrirtækjum, draga úr lífrænu álagi og nýta efni sem annars færu til spillis, meðal annars til framleiðslu á lífdísil og lífgasi í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Gefn . Verkefnið er fyrst og fremst ætlað sem sýnidæmi sem getur orðið stjórnvöldum og fyrirtækjum hvatning til frekari aðgerða í fráveitumálum. Með því að hreinsa vatnið þar sem mengunin fellur til skapast betri möguleikar til að sækja verðmæt efni í fráveituna, auk þess sem álag á innviði sveitarfélaga minnkar verulega. Verkefnið er einnig hluti af ICEWATER verkefninu, sem að hluta er fjármagnað af LIFE styrktarsjóði Evrópusambandsins. Með styrknum frá Loftslags- og orkusjóði er tryggt að hefja uppsetningu búnaðarins fyrir sláturtíð 2026. Við hlökkum til að segja frá framgangi verkefnisins. Nánar um úthlutun Loftslags- og orkusjóðs og þau 109 verkefni sem hlutu styrk má finna á vef sjóðsins.
25. nóvember 2025
Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri
13. nóvember 2025
Undanfarnar vikur hefur Eimur staðið fyrir kynningarstarfi um möguleika sniglaræktar á Íslandi. Verkefnið hefur verið kynnt fyrir fjölmörgum aðilum víða um Norðurland meðal annars á Hönnunarþingi á Húsavík, Vegagerðinni, Landsvirkjun og fleiri stofnunum og fyrirtækjum. Markmiðið hefur verið að vekja athygli á tækifærum til nýsköpunar í landbúnaði og benda á hvernig vistvæn og sjálfbær ræktun gæti orðið áhugaverð viðbót við íslenskan landbúnað. Vinnustofur um sniglarækt sem haldnar voru á Norðurlandi í október vöktu mikla athygli og voru afar ánægjulegar í alla staði. Fjöldi bænda, frumkvöðla og annarra áhugasamra einstaklinga lagði leið sína á kynningarfundi þar sem fjallað var um möguleika sniglaræktar sem nýrrar vistvænnar hliðarbúgreinar á Íslandi. Á fundunum fóru yfir efnið þeir Sigurður Líndal frá Eimi og Peter Monaghan frá írska fyrirtækinu Inis Escargot, sem hefur mikla og farsæla reynslu af sniglarækt sem hágæða matvöru í Evrópu. Þeir kynntu hugmyndir sínar um hvernig hægt er að nýta íslenskar aðstæður, svo sem jarðhita, hrein auðlindakerfi og vannýttan húsakost til sveita, til að skapa sjálfbært rekstrarumhverfi fyrir sniglarækt. Áhugi á viðfangsefninu reyndist mikill og spurningar komu úr öllum áttum, bæði frá bændum sem sjá tækifæri til að renna styrkari stoðum undir búskap sinn og frá frumkvöðlum í leit að nýjum leiðum til að nýta staðbundnar auðlindir á skapandi hátt. Þátttakendur ræddu meðal annars um húsakost, fóðrun, ræktunarlotur, markaði og möguleg notagildi sniglaafurða á Íslandi, auk leiða til meginmarkaða í Evrópu. Sigurður og Peter voru báðir hæstánægðir með móttökurnar og áhugann sem blasti við alls staðar. „Ísland stendur frammi fyrir einstöku tækifæri á heimsvísu þegar kemur að sniglarækt, því stöðugt hitastig og trygg hitastjórnun er lykillinn að árangursríku sniglaeldi. Þar kemur íslenskur jarðhiti með nýja vídd inn á heimsmarkaðinn,“ sagði sniglasérfræðingurinn að loknum fundunum. Næstu skref eru þegar farin að taka á sig mynd, og ljóst er að langtum fleiri munu sækja um þátttöku í staðnámi á Írlandi en sæti verða í boði. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með framhaldinu og fá upplýsingar um næstu skref geta haft samband við Sigurð Líndal hjá Eimi á netfangið s.lindal@eimur.is eða fylgst með fréttum á eimur.is. Vinnustofurnar sýndu glöggt að nýsköpun í landbúnaði lifir góðu lífi á Norðurlandi – og að þó sniglar séu smávaxnir geti þeir orðið stór hluti af framtíðinni.