27. febrúar 2024

Mikill áhugi um næstu skref orkuskipta á Norðurlandi

Þann 21. febrúar sl. héldu Eimur, SSNE og Íslensk Nýorka málstofu í Hofi og í streymi. Efni málþingsins var staða mála í orkuskiptum á Norðurlandi, olíunotkun svæðisins ásamt sérstakri umfjöllun um orkuskipti í þungaflutningum og við hafnir.  Erindi málstofunnar markaði gott upphaf að þeirri vinnu sem er nú hafin með RECET á Norðurlandi eystra.  Málstofan var afar vel sótt, en um 70 gestir sóttu málstofuna í Hofi og um 50 fylgdust með í beinu streymi.

Ottó Elíasson fór með fyrsta erindi dagsins þar sem hann sagði gestum stuttlega frá RECET verkefninu, en Sigurborg Ósk hjá SSNE stýrði svo fundi.

Birgir Ásgeirsson frá Umhverfisstofnun fór yfir losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og minnti á að verkefnið framundan væri ærið og krefðist þess að við brettum öll upp ermar. Magnús Örn frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu fór yfir ferlið á bakvið nýja aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem verður gerð opinber í marsmánuði.

Sigurður Friðleifsson frá Orkustofnun fór yfir langlífar mýtur um rafmagnsbíla og skerpti á því að hagkvæmustu orkuskiptin væru að minnka notkun einkabílsins. Hann fór einnig yfir stöðuna á hraðhleðslutengingum um allt land og hvar helstu áskoranirnar væru í því að tengja allan hringveginn við hraðhleðslustöðvar.

Skúli Gunnar frá Eimi fór yfir nákvæmar tölur um alla olíunotkun á Norðurlandi eystra, og í hvað olían færi í mismunandi sveitarfélögum. Anna Margrét frá Íslenskri Nýorku fjallaði sérstaklega um þá rafmagnsvörubíla sem væru komnir í almenna sölu og fór yfir fyrstu kaup Íslands á þeim. Í hennar umfjöllun kom skýrt í ljós, að skortur er á hleðslustöðvum fyrir þungaflutninga og hún kallaði eftir auknum stuðningi opinbera aðila við að byggja þær upp.

Að lokum fór Þorsteinn Másson frá Bláma á Vestfjörðum yfir þær fjölbreyttu lausnir sem hafnir landsins eru þegar farnar að nýta sér og teiknaði upp skýra mynd af þeim umfangsmiklu breytingum sem orkuskiptin munu hafa á skipulag og rekstur hafna á Íslandi.

Mikill hugur var í fundargestum og miðað við þá einstaklega góðu þátttöku sem var á málþinginu er ljóst að orkuskiptin eru fólki ofarlega í huga. Það verður spennandi að fylgjast með næstu skrefum í orkuskiptum á Norðurlandi.

Upptöku af fundi má nálgast hér :  https://www.youtube.com/watch?v=iqWMucqNJ38  
Einnig er athygli vakin á viðtali við Ottó Elíasson við RÚV frá málþinginu  „Eins og við fylltum Akureyrarlaug af olíu tvisvar í viku“ - RÚV.is (ruv.is)


Deila frétt

11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi
Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 9. september 2025
Eimur hefur fengið öflugan liðsstyrk í Alessöndru Schnider sem bætist nú í hópinn og mun starfa á Norðurlandi vestra með aðsetur á Sauðárkróki. Alessandra lauk nýverið doktorsnámi í líffræði með áherslu á þróunarvistfræði í sameiginlegu námi Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands. ,,Við erum mjög spennt að fá Alessöndru til liðs við okkur hjá Eimi, og verður hennar þekking og reynsla til að efla starfsemi félagsins enn frekar á Norðurlandi vestra”, segir Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri Eims. Alessandra er með meistarapróf í erfðafræði og líffræðilegri mannfræði frá Háskólanum í Zürich í Sviss og BS próf í líffræði frá sama skóla. Á ferli sínum hefur Alessandra sinnt fjölbreyttum verkefnum tengdum fiskrannsóknum, náttúruvernd og vísindamiðlun, meðal annars með því að stofna og reka miðlunarverkefnið Ice Fish Research og framleiða hlaðvarpið Fiskaspjall sem fjallar um íslenskar fiskrannsóknir. Alessandra hefur kennt við Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands og unnið að fjölmörgum rannsóknarverkefnum og fengið til þess styrki. Hún hefur jafnframt birt vísindagreinar og flutt erindi á fjölda ráðstefna hérlendis og erlendis. ,,Það er dýrmætt að fá tækifæri til að nýta þekkingu mína í samfélagi sem tók vel á móti mér fyrir sex árum. Skagafjörður er orðið heimili mitt og mér þykir mikilvægt að geta unnið að verkefnum sem geta haft raunveruleg áhrif og stuðlað að jákvæðum breytingum. Menntun mín og reynsla hefur gefið mér sterka tengingu við náttúruna og ég vona að geta lagt mitt af mörkum með lausnum sem nýta auðlindir á ábyrgan hátt og vernda um leið hina einstöku náttúru Íslands”, segir Alessandra Schnider. Alessandra mun hefja störf 3. nóvember næstkomandi og bjóðum við hana velkomna til starfa. Starfið var auglýst þann 27. júní s.l. og bárust 18 umsóknir. Ráðningarferlið var unnið í samstarfi við ráðningafyrirtækið Hagvang.
3. júlí 2025
Eimur kynnir með stolti gagnvirkt olíumælaborð