27. febrúar 2024

Mikill áhugi um næstu skref orkuskipta á Norðurlandi

Þann 21. febrúar sl. héldu Eimur, SSNE og Íslensk Nýorka málstofu í Hofi og í streymi. Efni málþingsins var staða mála í orkuskiptum á Norðurlandi, olíunotkun svæðisins ásamt sérstakri umfjöllun um orkuskipti í þungaflutningum og við hafnir.  Erindi málstofunnar markaði gott upphaf að þeirri vinnu sem er nú hafin með RECET á Norðurlandi eystra.  Málstofan var afar vel sótt, en um 70 gestir sóttu málstofuna í Hofi og um 50 fylgdust með í beinu streymi.

Ottó Elíasson fór með fyrsta erindi dagsins þar sem hann sagði gestum stuttlega frá RECET verkefninu, en Sigurborg Ósk hjá SSNE stýrði svo fundi.

Birgir Ásgeirsson frá Umhverfisstofnun fór yfir losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og minnti á að verkefnið framundan væri ærið og krefðist þess að við brettum öll upp ermar. Magnús Örn frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu fór yfir ferlið á bakvið nýja aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem verður gerð opinber í marsmánuði.

Sigurður Friðleifsson frá Orkustofnun fór yfir langlífar mýtur um rafmagnsbíla og skerpti á því að hagkvæmustu orkuskiptin væru að minnka notkun einkabílsins. Hann fór einnig yfir stöðuna á hraðhleðslutengingum um allt land og hvar helstu áskoranirnar væru í því að tengja allan hringveginn við hraðhleðslustöðvar.

Skúli Gunnar frá Eimi fór yfir nákvæmar tölur um alla olíunotkun á Norðurlandi eystra, og í hvað olían færi í mismunandi sveitarfélögum. Anna Margrét frá Íslenskri Nýorku fjallaði sérstaklega um þá rafmagnsvörubíla sem væru komnir í almenna sölu og fór yfir fyrstu kaup Íslands á þeim. Í hennar umfjöllun kom skýrt í ljós, að skortur er á hleðslustöðvum fyrir þungaflutninga og hún kallaði eftir auknum stuðningi opinbera aðila við að byggja þær upp.

Að lokum fór Þorsteinn Másson frá Bláma á Vestfjörðum yfir þær fjölbreyttu lausnir sem hafnir landsins eru þegar farnar að nýta sér og teiknaði upp skýra mynd af þeim umfangsmiklu breytingum sem orkuskiptin munu hafa á skipulag og rekstur hafna á Íslandi.

Mikill hugur var í fundargestum og miðað við þá einstaklega góðu þátttöku sem var á málþinginu er ljóst að orkuskiptin eru fólki ofarlega í huga. Það verður spennandi að fylgjast með næstu skrefum í orkuskiptum á Norðurlandi.

Upptöku af fundi má nálgast hér :  https://www.youtube.com/watch?v=iqWMucqNJ38  
Einnig er athygli vakin á viðtali við Ottó Elíasson við RÚV frá málþinginu  „Eins og við fylltum Akureyrarlaug af olíu tvisvar í viku“ - RÚV.is (ruv.is)


Deila frétt

3. júlí 2025
Eimur kynnir með stolti gagnvirkt olíumælaborð
3. júlí 2025
Akureyrarbær og atNorth hafa undirritað samkomulag um afhendingu glatvarma frá gagnaverinu ICE03 að Hlíðarvöllum í samvinnu við Eim, sem leiddi vinnu við samningsgerðina. Glatvarminn verður afhentur án endurgjalds til þróunarverkefna í samræmi við áherslur Akureyrarbæjar um sjálfbæra þróun og orkunýtingu. Framkvæmdum við 16 milljarða króna stækkun gagnavers atNorth á Akureyri miðar vel og er fyrri áfangi nú tilbúinn í rekstur. Samhliða stækkun gagnavers verður reist þjónustuhús fyrir ört stækkandi hóp starfsmanna félagsins á Akureyri. Fyrsta skóflustungan var tekin í morgun við hátíðlega athöfn. Viðstaddir voru fulltrúar bæjarstjórnar Akureyrar, starfsmenn atNorth, verktakar og aðrir gestir. Nýja þjónustuhúsið verður vestan við núverandi byggingar á athafnasvæði atNorth og er ráðgert að húsið verði tekið í notkun á næsta ári. Anna Kristín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar og nýsköpunar hjá atNorth, hélt um skófluna í morgun og tók fyrstu skóflustunguna ásamt starfsfólki félagsins. „Umsvifin á Akureyri hafa aukist hröðum skrefum og ljóst að við þurfum að reisa nýja þjónustubyggingu til að tryggja framúrskarandi aðstöðu til framtíðar fyrir ört stækkandi starfsmannahóp okkar. Auk mikils fjölda verktaka sem vinna að stækkun rekstursins, erum við með um 80 fasta starfsmenn á Íslandi og þriðjungur þeirra er á Akureyri.“ Samhliða stækkuninni hafa Akureyrarbær og atNorth samið um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu til samfélagsverkefna á Akureyri, m.a. til upphitunar á nýju gróðurhúsi sem reist verður og rekið á samfélagslegum forsendum. Auk bæjarins og atNorth koma Ferro Zink og Gróðrarstöð Akureyrar að verkefninu, en markmiðið er m.a. að skapa lærdómsumhverfi til vistvænnar ræktunar fyrir nemendur á grunn- og framhaldsskólastigi á Akureyri. Vonir standa til að gróðurhúsið verði tilbúið til notkunar strax í haust og ungir Akureyringar fái þá tækifæri til að kynnast sjálfbærri matvælaframleiðslu og betri orkunýtingu í verki. „Við leggjum mikla áherslu á að Akureyri verði leiðandi í orkunýtingu og sjálfbærni,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. „Þetta samstarf við atNorth og Eim er lykilskref í þeirri vegferð og þeir möguleikar sem fylgja samkomulagi um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu eru afar mikilvægir fyrir bæjarfélagið. Sá samningur sem undirritaður var í dag er í takti við þær væntingar sem við höfðum um áhrif þeirra innviðaframkvæmda sem ráðist var í til að tryggja raforkuflutning inn á svæðið.“ Eimur leiddi samningsgerðina fyrir hönd bæjarins. „Við hjá Eimi sjáum þetta sem mikilvægt skref í því að virkja ónýttar auðlindir til raunverulegrar verðmætasköpun á svæðinu. Þessi samningur er einstakur á Íslandi og sýnir greinilega hverju hægt er að ná fram þegar sveitarfélög, fyrirtæki og nýsköpun vinna saman að settum umhverfismarkmiðum“, segir Karen Mist Kristjánsdóttir, forstöðumaður orku og sjálfbærni hjá Eimi. Alls rekur atNorth átta gagnaver á Norðurlöndum, þar af þrjú á Íslandi. Tvö til viðbótar eru í smíðum í Danmörku og Finnlandi, auk þess sem stækkun gagnaversins á Fitjum í Reykjanesbæ er í fullum gangi. Starfsmenn atNorth eru rúmlega 200.
27. júní 2025
Eimur óskar eftir að ráða verkefnastjóra á Norðurlandi Vestra í tímabundið starf út árið 2026, með möguleika á framlengingu. Við leitum að öflugum einstaklingi til að móta og leiða spennandi þróunarverkefni á Norðurlandi vestra á sviði hringrásarhagkerfisins, orkuskipta og nýsköpunar. Verkefnastjóri vinnur náið með framkvæmdastjóra Eims og eftir atvikum öðru starfsfólki og samstarfsaðilum, og ber ábyrgð á framgangi valinna verkefna. Starfsstöð verkefnastjóra er á Norðurlandi vestra, eftir hentugleikum á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd eða Sauðárkróki. Helstu verkefni Verkefnastjórn valinna verkefna Eims með áherslu á innleiðingu hringrásarhagkerfis, orkuskipti, orkunýtni og verðmætasköpun Þróa öflugt samstarf með hagsmunaaðilum, sérstaklega á Norðurlandi vestra Vinna að mótun og fjármögnun nýrra verkefna á starfssvæði Eims Taka virkan þátt í umsóknaskrifum í innlenda og erlenda sjóði Aðstoð við að koma verkefnum Eims á framfæri Teymisvinna með Bláma, Orkídeu og Eygló Hæfnikröfur Háskólamenntun sem nýtist í starfi, raunvísinda- eða tæknimenntun er kostur Frumkvæði, skipulagshæfni og sjálfstæði vinnubrögðum Reynsla af gerð styrkumsókna í innlenda og erlenda sjóði er kostur Reynsla af verkefnastjórn er kostur Rík samskiptahæfni og færni í að koma frá sér efni Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti Eimur er samstarfsverkefni sem snýr að bættri nýtingu auðlinda á Norðurlandi með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Að verkefninu standa Landsvirkjun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur. Með umsókn skal fylgja ferilskrá ásamt kynningarbréfi. Nánari upplýsingar Geirlaug Jóhannsdóttir, geirlaug@hagvangur.is Inga S. Arnardóttir, inga@hagvangur.is