27. febrúar 2024

Mikill áhugi um næstu skref orkuskipta á Norðurlandi

Þann 21. febrúar sl. héldu Eimur, SSNE og Íslensk Nýorka málstofu í Hofi og í streymi. Efni málþingsins var staða mála í orkuskiptum á Norðurlandi, olíunotkun svæðisins ásamt sérstakri umfjöllun um orkuskipti í þungaflutningum og við hafnir.  Erindi málstofunnar markaði gott upphaf að þeirri vinnu sem er nú hafin með RECET á Norðurlandi eystra.  Málstofan var afar vel sótt, en um 70 gestir sóttu málstofuna í Hofi og um 50 fylgdust með í beinu streymi.

Ottó Elíasson fór með fyrsta erindi dagsins þar sem hann sagði gestum stuttlega frá RECET verkefninu, en Sigurborg Ósk hjá SSNE stýrði svo fundi.

Birgir Ásgeirsson frá Umhverfisstofnun fór yfir losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og minnti á að verkefnið framundan væri ærið og krefðist þess að við brettum öll upp ermar. Magnús Örn frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu fór yfir ferlið á bakvið nýja aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem verður gerð opinber í marsmánuði.

Sigurður Friðleifsson frá Orkustofnun fór yfir langlífar mýtur um rafmagnsbíla og skerpti á því að hagkvæmustu orkuskiptin væru að minnka notkun einkabílsins. Hann fór einnig yfir stöðuna á hraðhleðslutengingum um allt land og hvar helstu áskoranirnar væru í því að tengja allan hringveginn við hraðhleðslustöðvar.

Skúli Gunnar frá Eimi fór yfir nákvæmar tölur um alla olíunotkun á Norðurlandi eystra, og í hvað olían færi í mismunandi sveitarfélögum. Anna Margrét frá Íslenskri Nýorku fjallaði sérstaklega um þá rafmagnsvörubíla sem væru komnir í almenna sölu og fór yfir fyrstu kaup Íslands á þeim. Í hennar umfjöllun kom skýrt í ljós, að skortur er á hleðslustöðvum fyrir þungaflutninga og hún kallaði eftir auknum stuðningi opinbera aðila við að byggja þær upp.

Að lokum fór Þorsteinn Másson frá Bláma á Vestfjörðum yfir þær fjölbreyttu lausnir sem hafnir landsins eru þegar farnar að nýta sér og teiknaði upp skýra mynd af þeim umfangsmiklu breytingum sem orkuskiptin munu hafa á skipulag og rekstur hafna á Íslandi.

Mikill hugur var í fundargestum og miðað við þá einstaklega góðu þátttöku sem var á málþinginu er ljóst að orkuskiptin eru fólki ofarlega í huga. Það verður spennandi að fylgjast með næstu skrefum í orkuskiptum á Norðurlandi.

Upptöku af fundi má nálgast hér :  https://www.youtube.com/watch?v=iqWMucqNJ38  
Einnig er athygli vakin á viðtali við Ottó Elíasson við RÚV frá málþinginu  „Eins og við fylltum Akureyrarlaug af olíu tvisvar í viku“ - RÚV.is (ruv.is)


Deila frétt

17. október 2025
Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og er liður í að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Meðal fundarefna verður: • Hvernig orka, varmi og innviðir skapa ný tækifæri á Bakka • Hvernig hringrásarhagkerfi getur stutt við atvinnuþróun og alþjóðlega ímynd Íslands • Hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í sjálfbærri uppbyggingu Dagskrá: Húsið opnar kl. 12:00 – Skráning og súpuhlaðborð fyrir gesti á Fosshótel Húsavík Ráðstefna kl. 13:00 – 17:00 Fundarliður 1: Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni Fundarliður 2: Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni Fundarliður 3: Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða (Nánari dagskrá verður birt þegar nær dregur) Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið á Bakka fyrir hádegi frá kl. 10:30 - 12:00 þann 20. nóvember og er sú ferð opin öllum. Rútan fer frá Fosshótel á Húsavík og er nauðsynlegt að skrá sig því það er takmarkað pláss. Ráðstefnan er opin öllum en skráning er nauðsynleg - www.eimur.is/bakkiradstefna
30. september 2025
Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.
11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi