29. ágúst 2023

Ísland leiðir LIFE verkefni um orkuskiptaáætlanir sveitarfélaga

Verkefnið Rural Europe for the Clean Energy Transition (RECET) hefur hlotið styrk sem nemur um 1,5 milljónum evra (225 M ISK) úr LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. „RECET verkefnið sem hefst nú í október mun efla getu sveitarfélaga á fimm svæðum í Evrópu til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir í sátt við hagsmunaaðila og samstarfi við atvinnulíf.“, segir Dimitris Sofianopoulos, verkefnastjóri hjá CINEA, Framkvæmdastofnun Evrópu um loftslags-, innviða- og umhverfismál, og er hann spenntur að fylgjast með framgangi verkefnising. RECET er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi. 

Sveitarfélög í dreifðum byggðum munu gegna lykilhlutverki í orkuskiptum og innleiðingu aðgerða sem miða að markmiði Evrópusambandsins um kolefnishlutleysi 2050 og lögfest markmið Íslands um kolefnishlutleysi 2040. Umtalsverð uppbygging innviða til orkuöflunar, flutnings og dreifingar þarf að eiga sér stað sem krefst aðkomu sveitarfélaga meðal annars í gegnum skipulagsgerð og leyfisveitingar.

RECET miðar að því að efla getu sveitarfélaganna og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. Stuðst verður við reynslu og aðferðir Energiakademiet frá eyjunni Samsø í Danmörku við mótun og þróun aðgerða til orkuskipta á hverju landsvæði fyrir sig. Energiakademiet hefur áratuga reynslu af því að þróa og innleiða svæðisbundnar orkuskiptaáætlanir.

Íslensk Nýorka og Eimur leiða verkefnið hér á landi en Vestfjarðastofa og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra eru einnig þátttakendur. Utan Íslands koma einnig að RECET: Sveitarfélagið Postojna í Slóveníu, Blekinge sýsla í Suðaustur-Svíþjóð og sveitarfélög á eyjunni Menorca á Spáni.

Að auki hafa fleiri lýst yfir stuðningi við verkefnið, og þar á meðal er Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS). Gyða Einarsdóttir verkefnastjóri grænna og snjallra verkefna hjá SÍS segir að: „Þátttaka sveitarfélaga er lykilatriði í því að Ísland nái loftslagsmarkmiðum sínum. RECET verkefnið er gríðarlega spennandi verkefni, sem mun styðja við sveitarfélög á Íslandi og hjálpa þeim til þess að setja markmið og gera raunhæfar áætlanir um það hvernig við getum orðið jarðefnaeldsneytislaus 2040.“

Sú þekking sem mun skapast í RECET verkefninu og niðurstöður þessu verða aðgengileg öllum sveitarfélögum jafnt á Íslandi sem og annars staðar í Evrópu. Vilji sveitarfélög eða landshlutasamtök þeirra taka þátt, eru þau eindregið hvött til að hafa samband við verkefnastjóra.

Verkefnið hefst 1. október 2023 og stendur yfir í þrjú ár.

  Nánari upplýsingar veita 

 


Deila frétt

13. nóvember 2025
Undanfarnar vikur hefur Eimur staðið fyrir kynningarstarfi um möguleika sniglaræktar á Íslandi. Verkefnið hefur verið kynnt fyrir fjölmörgum aðilum víða um Norðurland meðal annars á Hönnunarþingi á Húsavík, Vegagerðinni, Landsvirkjun og fleiri stofnunum og fyrirtækjum. Markmiðið hefur verið að vekja athygli á tækifærum til nýsköpunar í landbúnaði og benda á hvernig vistvæn og sjálfbær ræktun gæti orðið áhugaverð viðbót við íslenskan landbúnað. Vinnustofur um sniglarækt sem haldnar voru á Norðurlandi í október vöktu mikla athygli og voru afar ánægjulegar í alla staði. Fjöldi bænda, frumkvöðla og annarra áhugasamra einstaklinga lagði leið sína á kynningarfundi þar sem fjallað var um möguleika sniglaræktar sem nýrrar vistvænnar hliðarbúgreinar á Íslandi. Á fundunum fóru yfir efnið þeir Sigurður Líndal frá Eimi og Peter Monaghan frá írska fyrirtækinu Inis Escargot, sem hefur mikla og farsæla reynslu af sniglarækt sem hágæða matvöru í Evrópu. Þeir kynntu hugmyndir sínar um hvernig hægt er að nýta íslenskar aðstæður, svo sem jarðhita, hrein auðlindakerfi og vannýttan húsakost til sveita, til að skapa sjálfbært rekstrarumhverfi fyrir sniglarækt. Áhugi á viðfangsefninu reyndist mikill og spurningar komu úr öllum áttum, bæði frá bændum sem sjá tækifæri til að renna styrkari stoðum undir búskap sinn og frá frumkvöðlum í leit að nýjum leiðum til að nýta staðbundnar auðlindir á skapandi hátt. Þátttakendur ræddu meðal annars um húsakost, fóðrun, ræktunarlotur, markaði og möguleg notagildi sniglaafurða á Íslandi, auk leiða til meginmarkaða í Evrópu. Sigurður og Peter voru báðir hæstánægðir með móttökurnar og áhugann sem blasti við alls staðar. „Ísland stendur frammi fyrir einstöku tækifæri á heimsvísu þegar kemur að sniglarækt, því stöðugt hitastig og trygg hitastjórnun er lykillinn að árangursríku sniglaeldi. Þar kemur íslenskur jarðhiti með nýja vídd inn á heimsmarkaðinn,“ sagði sniglasérfræðingurinn að loknum fundunum. Næstu skref eru þegar farin að taka á sig mynd, og ljóst er að langtum fleiri munu sækja um þátttöku í staðnámi á Írlandi en sæti verða í boði. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með framhaldinu og fá upplýsingar um næstu skref geta haft samband við Sigurð Líndal hjá Eimi á netfangið s.lindal@eimur.is eða fylgst með fréttum á eimur.is. Vinnustofurnar sýndu glöggt að nýsköpun í landbúnaði lifir góðu lífi á Norðurlandi – og að þó sniglar séu smávaxnir geti þeir orðið stór hluti af framtíðinni.
17. október 2025
Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og er liður í að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Meðal fundarefna verður: • Hvernig orka, varmi og innviðir skapa ný tækifæri á Bakka • Hvernig hringrásarhagkerfi getur stutt við atvinnuþróun og alþjóðlega ímynd Íslands • Hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í sjálfbærri uppbyggingu Dagskrá: Húsið opnar kl. 12:00 – Skráning og súpuhlaðborð fyrir gesti á Fosshótel Húsavík Ráðstefna kl. 13:00 – 17:00 Fundarliður 1: Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni Fundarliður 2: Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni Fundarliður 3: Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið á Bakka fyrir hádegi frá kl. 10:30 - 12:00 þann 20. nóvember og er sú ferð opin öllum. Rútan fer frá Fosshótel á Húsavík og er nauðsynlegt að skrá sig því það er takmarkað pláss. Ráðstefnan er opin öllum en skráning er nauðsynleg - www.eimur.is/bakkiradstefna
30. september 2025
Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.