29. ágúst 2023

Ísland leiðir LIFE verkefni um orkuskiptaáætlanir sveitarfélaga

Verkefnið Rural Europe for the Clean Energy Transition (RECET) hefur hlotið styrk sem nemur um 1,5 milljónum evra (225 M ISK) úr LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. „RECET verkefnið sem hefst nú í október mun efla getu sveitarfélaga á fimm svæðum í Evrópu til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir í sátt við hagsmunaaðila og samstarfi við atvinnulíf.“, segir Dimitris Sofianopoulos, verkefnastjóri hjá CINEA, Framkvæmdastofnun Evrópu um loftslags-, innviða- og umhverfismál, og er hann spenntur að fylgjast með framgangi verkefnising. RECET er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi. 

Sveitarfélög í dreifðum byggðum munu gegna lykilhlutverki í orkuskiptum og innleiðingu aðgerða sem miða að markmiði Evrópusambandsins um kolefnishlutleysi 2050 og lögfest markmið Íslands um kolefnishlutleysi 2040. Umtalsverð uppbygging innviða til orkuöflunar, flutnings og dreifingar þarf að eiga sér stað sem krefst aðkomu sveitarfélaga meðal annars í gegnum skipulagsgerð og leyfisveitingar.

RECET miðar að því að efla getu sveitarfélaganna og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. Stuðst verður við reynslu og aðferðir Energiakademiet frá eyjunni Samsø í Danmörku við mótun og þróun aðgerða til orkuskipta á hverju landsvæði fyrir sig. Energiakademiet hefur áratuga reynslu af því að þróa og innleiða svæðisbundnar orkuskiptaáætlanir.

Íslensk Nýorka og Eimur leiða verkefnið hér á landi en Vestfjarðastofa og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra eru einnig þátttakendur. Utan Íslands koma einnig að RECET: Sveitarfélagið Postojna í Slóveníu, Blekinge sýsla í Suðaustur-Svíþjóð og sveitarfélög á eyjunni Menorca á Spáni.

Að auki hafa fleiri lýst yfir stuðningi við verkefnið, og þar á meðal er Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS). Gyða Einarsdóttir verkefnastjóri grænna og snjallra verkefna hjá SÍS segir að: „Þátttaka sveitarfélaga er lykilatriði í því að Ísland nái loftslagsmarkmiðum sínum. RECET verkefnið er gríðarlega spennandi verkefni, sem mun styðja við sveitarfélög á Íslandi og hjálpa þeim til þess að setja markmið og gera raunhæfar áætlanir um það hvernig við getum orðið jarðefnaeldsneytislaus 2040.“

Sú þekking sem mun skapast í RECET verkefninu og niðurstöður þessu verða aðgengileg öllum sveitarfélögum jafnt á Íslandi sem og annars staðar í Evrópu. Vilji sveitarfélög eða landshlutasamtök þeirra taka þátt, eru þau eindregið hvött til að hafa samband við verkefnastjóra.

Verkefnið hefst 1. október 2023 og stendur yfir í þrjú ár.

  Nánari upplýsingar veita 

 


Deila frétt

19. desember 2025
Eimur hefur skrifað undir samning við Iðnver ehf. um leigu á færanlegum hreinsibúnaði fyrir fráveituvatn frá iðnaði. Fyrsta verkefnið verður hreinsun á iðnaðarvatni frá sláturhúsi á Norðurlandi, en búnaðinn má einnig nýta við hreinsun fráveitu frá öðrum fyrirtækjum. Samningurinn er liður í verkefninu LIFE ICEWATER , sem er eitt stærsta styrkta umhverfisverkefni sem Ísland hefur tekið þátt í. Eimur mun setja upp og reka færanlegt hreinsivirki sem meðhöndlar fráveituvatn frá matvælavinnslu. Búnaðurinn er sérstaklega hannaður fyrir iðnaðarvatn og gerir kleift að sýna í verki ávinning af bættri hreinsun fráveitu frá sláturhúsum eða annarri matvælavinnslu, bæði með tilliti til umhverfisáhrifa og verðmætasköpunar. Í samstarfi við Orkuveitu Húsavíkur og Gefn verður sótt lífrænt efni úr fráveitu frá matvælaiðnaði og það greint nánar. Fita sem fellur til við hreinsunina verður nýtt af Gefn til framleiðslu á lífdísli, en annað lífrænt efni verður tekið til frekari greiningar. Þar verður meðal annars metið orkugildi efnisins og skoðaðir möguleikar á metanframleiðslu. Samningurinn við Iðnver felur jafnframt í sér tæknilega samvinnu við uppsetningu, gangsetningu og rekstur búnaðarins, sem mun skila dýrmætum gögnum og reynslu fyrir áframhaldandi þróun lausna á sviði hreinsunar iðnaðarfráveitu á Íslandi.
Grænn iðngarður á Bakka
18. desember 2025
Undanfarin ár hefur Eimur sinnt þróun græns iðngarðs á Bakka í samstarfi við Norðurþing, Landsvirkjun, Orkuveitu Húsavíkur og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Í þeirri vinnu voru dregnir saman helstu styrkleikar og tækifæri svæðisins, þar á meðal um kosti Bakka fyrir varmasækinn iðnað, möguleika í nýtingu glatvarma og mikilvægi samhæfðrar uppbyggingar iðnaðar og samfélags. Nú stendur yfir ráðning á nýjum verkefnastjóra sem tekur við keflinu af Eimi sem mun starfa undir hatti þróunarfélagsins Grænn iðngarður á Bakka ehf. Á þessum tímamótum hefur fyrrum verkefnastjóri græns iðngarðs tekið saman skýrslu um afrakstur verkefnisins hingað til. Skýrsluna má nálgast undir útgefið efni hér á vefsíðu Eims. Í skýrslunni er dregin upp mynd af stöðu mála, áskorunum, tækifærum og forsendum fyrir áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu, ásamt heildstæðri framtíðarsýn fyrir Bakka. Skýrslan markar jafnframt þáttaskil fyrir þróun svæðisins þar sem farið er frá hugmyndavinnu og stefnumótun yfir í markvissa framkvæmd, í kjölfar stofnunar þróunarfélagins.
Laust starf hjá Eimi
8. desember 2025
Eimur leitar að öflugum og hugmyndaríkum einstaklingi til að vinna að kynningarmálum, miðlun og viðburðahaldi á vegum félagsins. Viðkomandi kemur að fjölmörgum og krefjandi verkefnum og verður hluti af skemmtilegum vinnustað. Verkefnastjóri vinnur náið með starfsfólki og samstarfsaðilum Eims. Um tímabundið starf er að ræða, út árið 2026 með möguleika á framlengingu. Helstu verkefni og ábyrgð Umsjón markaðs- og kynningarmála fyrir Eim Efnissköpun og miðlun gegnum vef og samfélagsmiðla Markaðsgreiningar, stefnumótun og eftirfylgni Skipulag og framkvæmd viðburða Fjölbreytt samskipti við samstarfsaðila og aðra hagaðila Skrifstofustjórn Stuðningur við gerð bókhalds Vinna með teyminu að þróun nýrra verkefna á starfssvæði Eims Þátttaka í fjölbreyttum verkefnum vinnustaðarins Menntunar og hæfniskröfur Háskólamenntun sem nýtist í starfi Reynsla af upplýsingamiðlun, markaðssetningu og verkefnastjórnun Góð þekking á vefumsjón, samfélagsmiðlum og stafrænni markaðssetningu Reynsla af greinarskrifum, gerð kynningarefnis og miðlunar Hæfni til að koma fram og halda kynningar er kostur Mjög góð færni í íslensku og ensku, bæði í rituðu og töluðu máli Góð almenn tölvufærni og hæfni til að tileinka sér nýjungar Frumkvæði, skipulagshæfni, sjálfstæði og sveigjanleiki í vinnubrögðum Rík hæfni í samskiptum og samstarfi, vönduð og öguð vinnubrögð Starfstöð verkefnastjóra er á Akureyri. Starfið krefst ferðalaga um starfssvæðið og býður upp á sveigjanlegan vinnutíma. Eimur er samstarfsverkefni sem snýr að bættri nýtingu auðlinda á Norðurlandi með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Að verkefninu standa Landsvirkjun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur. Sótt er um starfið á www.mognum.is Nánari upplýsingar veita Telma Eiðsdóttir; telma@mognum.is og Sigríður Ólafsdóttir; sigga@mognum.is Umsóknarfrestur er til 18. desember 2025 Með umsókn skal fylgja ítarleg ferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni umsækjanda.