Fara í efni

Norðanátt kynnir Vaxtarrými

Norðanátt kynnir Vaxtarrými

Norðanátt kynnir Vaxtarrými fyrir frumkvöðla, ný fyrirtæki og nýsköpun innan rótgróinna fyrirtækja á Norðurlandi. Vaxtarrými er átta vikna viðskiptahraðall með fókus á sjálfbærni, mat, vatn og orku þar sem þátttakendur fá tækifæri til að efla sig og sín fyrirtæki og vaxa með vindinn í bakið.

Opnað verður fyrir umsóknir í hraðalinn 16. ágúst og lýkur umsóknarfresti 20. september. Í framhaldinu verða valin sex til átta teymi til þátttöku. Verkefnið er byggt upp að fyrirmynd viðskiptahraðla en þó sérhannað með þarfir þátttöku fyrirtækjanna í huga og hafa þau þannig áhrif á þá fræðslu sem stendur þeim til boða. Teymin hitta reynslumikla leiðbeinendur, frumkvöðla, fjárfesta og stjórnendur fyrirtækja á Norðurlandi og víða á ráðgjafafundum, sitja vinnustofur og fræðslufundi og mynda sterkt tengslanet sín á milli. Vaxtarrými hefst 4. október og lýkur 26. nóvember og fer fram á netinu. Jafnframt hittast teymin fjórum sinnum meðan á verkefninu stendur á vinnustofum á völdum stöðum á Norðurlandi. 

Leitað er eftir öflugum fyrirtækjum og verkefnum sem eru komin af hugmyndastigi og vilja nýta Norðanáttina til að vaxa. 

Samstarfsverkefnið Norðanátt er hreyfiafl sem miðar að því að skapa kraftmikið umhverfi á Norðurlandi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Norðanátt samanstendur af viðburðum sem styðja við frumkvöðla með hugmyndir á ólíkum stigum. Fyrsti viðburðurinn er Vaxtarrými sem fer fram í haust og miðar að því að efla þau fyrirtæki sem eru nú þegar komin af stað. Í byrjun næsta árs fer fram vinnusmiðja sem styður við bakið á frumkvöðlum á fyrstu stigum og verður hún auglýst í nóvember. Í framhaldinu verður haldið Stefnumót fjárfesta á Norðurlandi þar sem fjárfestar og frumkvöðlar koma saman og kynnast öflugri nýsköpun og fjárfestatækifærum á svæðinu. Að verkefninu Norðanátt koma Eimur, SSNV, SSNE, Nýsköpun í norðri og RATA. Hópurinn vinnur í anda nýrrar klasastefnu, þvert á stofnanir samfélagsins og hraðar framþróun og nýsköpun.