Fara í efni

Hugmyndasamkeppni um nýtingu lághitavatns

EIMUR, í samstarfi við Íslensk verðbréf og Vaðlaheiðargöng hf, efndu í mars 2017 til hugmyndasamkeppni um nýtingu lághitavatns á Norðurlandi eystra. Engar skorður voru settar varðandi það hverskonar nýting er lögð til eða hvar á svæðinu hún væri. Ætlunin var að fá fram fjölbreyttar hugmyndir um hvernig nýta má lághitavatn. 

Aðdragandi

Í febrúar árið 2014 komu bormenn verktaka Vaðlaheiðarganga inn á vatnsæð í göngunum sem er um 46°C heit og ljóst að þarna er um töluverða auðlind að ræða sem í dag rennur ónýtt út i sjó.

Eitt af markmiðum EIMS er að stuðla að aukinni sjálfbærni samfélaga á Norðurlandi eystra með bættri nýtingu auðlinda og þykir vatnið í Vaðlaheiðinni mjög gott dæmi um auðlind sem ekki ætti að láta fara til spillis. Fjölmargar hugmyndir höfðu komið fram um mögulega nýtingu á vatninu í Vaðlaheiðinni en aðstandendur hugmyndasamkeppninnar vildu með henni leggja sitt af mörkum til að auka líkurnar á að vatnið verði nýtt.

Sambærilegar ónýttar lághitaauðlindir liggja víðsvegar um svæðið og var einnig opið á að skila inn hugmyndum um nýtingu þeirra.

Um var að ræða almenna hugmyndasamkeppni og var hún öllum opin. 

Verðlaun

Heildarupphæð verðlauna voru kr. 2.000.000. Þar af nema fyrstu verðlaun ekki lægri upphæð en kr. 1.500.000. Þá buðu Íslensk verðbréf sigurvegaranum aðstoð við:

  • Tillögur um hugsanlegar leiðir til fjármögnunar.
  • Að meta/gera rekstraráætlun ásamt því að meta áætlaða fjárfestingarþörf.
  • Gerð tilboða, endanlegra samninga og annarra löggerninga.

Úrslit

Alls bárust 14 mjög ólíkar og metnaðarfullar tillögur í samkeppnina sem sýndu vel fram á fjölbreytta nýtingarmöguleika á svæðinu. Þann 13. júní 2017 fóru svo fram úrslit og kynning á tillögum sem bárust í hugmyndasamkeppnina í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri, en dómnefnd hafði áður valið fjórar bestu tillögurnar. Á úrslitinum valdi dómnefnd bestu tillöguna sem hlaut 1.500.000 kr í verðlaun, auk þess sem veitt voru verðlaun fyrir annað sæti sem hlaut 500.000 kr. Dómnefnd skipuðu Arnheiður Jóhannsdóttir, Markaðsstofu Norðurlands, Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, Ágúst Torfi Hauksson, stjórn Vaðlaheiðarganga hf., Sigríður Ingvarsdóttir, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, og Jón Steindór Árnason, Íslenskum verðbréfum.

Í fyrsta sæti varð tillagan Svörtu loft frá Stefáni Tryggva- og Sigríðarsyni. Vinningshugmyndin tengist vatninu í Vaðlaheiðargöngum og gengur út á að nýta umhverfið í nánd við göngin til hellagerðar og einstakrar baðupplifunar. Í tillögunni sem send var inn um svörtu loft kom vel fram hvernig frumkvöðlarnir sjá heildaruppbygginguna fyrir sér og hvernig hún fellur að landslaginu, og tengist uppbyggingu gangna með jákvæðum hætti. Dómnefndin vonar sannarlega að innan skamms tíma getum við fengið að njóta heita vatnsins úr Vaðlaheiðargöngum í einstöku umhverfi með útsýni yfir Eyjafjörðinn og Akureyri.

Tillagan sem dómnefndin valdi í annað sæti var mjög nýstárleg hugmynd fyrir svæðið, og jafnvel Ísland í heild. Hugmyndin gengur út á að nýta lághitann í Öxarfirði til framleiðslu á þungu vatni, vetni og súrefni, sem hægt er að nýta í margskonar framleiðslu. Ljóst er að þegar er búið að verja miklum tíma og talsverðum fjármunum í að móta hugmyndina. Vonandi verður þetta hvatning til að taka hugmyndina á næsta stig og athuga enn frekar með fýsileika hennar og hún verði að veruleika í Öxarfirði þar sem er bæði mikið af heitu og köldu vatni eins og til þarf. Tillagan kom frá Hafsteini Hafsteinssyni/EFLU verkfræðistofu.

Þó þessar tvær tillögur hafi unnið samkeppnina þá er rétt að koma því á framfæri að allt voru þetta góðar hugmyndir sem raungerast vonandi sem flestar, en til þess var samkeppnin hugsuð – að auka verðmætasköpun á svæðinu og vekja athygli á þeim tækifærum sem liggja í nýtingu lághitavatns á Norðurlandi eystra. 

Skoða má öll veggspjöldin sem bárust í samkeppnina hér.

Þá má hér fyrir neðan horfa á kynningarnar á verkefnunum fjórum sem kepptu til úrslita, auk þess að horfa á þrjá örfyrirlestra sem tengjast verkefnum EIMS og fluttir voru við sama tækifæri, en þeir voru:

  • Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, Íslenski ferðaklasinn: Hvað felst í ábyrgri ferðaþjónustu?
  • Guðrún Ólafía Brynleifsdóttir, Landsvirkjun: Tækifæri í orkutengdri ferðaþjónustu
  • Sigurður Ingi Friðleifsson, Orkusetur: Fjölnýting jarðvarma

Við biðjumst velvirðingar á gæðum upptökunnar en þetta var tekið upp á síma til að senda út beint frá viðburðinum. 

 

 

 

 

Efni tengt verkefni

Höfundar: Samrækt - Laugarmýri ehf, Ragnheiður Þórarinsdóttir og Dagný Stefánsdóttir
Höfundar: Geislar
Höfundar: Magnús Guðjónsson, Bjarni Hjartarson
Höfundar: Sveinn Gauti Einarsson
Höfundar: Baldur Garðarsson
Höfundar: Þorgeir Jónsson
Höfundar: Orri Filippusson
Höfundur: Guðríður Baldvinsdóttir
Höfundur: Stefán Tryggva- og Sigríðarson
Höfundar: Hafsteinn Helgason/EFLA
Höfundar: JTC Consulting Engineers
Höfundur: Ragnar Ásmundsson
Höfundar: Dark studio
Höfundar: Grænni jörð ehf.