20. ágúst 2020

Nýtt starfsfólk hjá Eimi

Sesselja Ingibjörg Barðdal hefur verið ráðin framkvæmdastjóri nýsköpunarverkefnisins Eims. „Ég tel að nýsköpun á Norðausturlandi eigi mikið inni. Hér eru mikil tækifæri til þess að skapa verðmæti og atvinnu á svæðinu, bæði í orku- og matvælaiðnaði. Tækifærin liggja í að byggja upp kraftmikið samfélag fyrir frumkvöðla með spennandi hugmyndir,“ segir Sesselja sem er spennt að takast á við ný og spennandi verkefni. 

Sesselja starfaði áður sem framkvæmdastjóri Kaffi Kú í Eyjafjarðarsveit þar sem hún er jafnframt eigandi. Sesselja situr í stjórn Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar og í stjórn Stefnumótunar heilsárferðaþjónustu í Eyjafjarðarsveit. Sesselja útskrifaðist með BA gráðu í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri og er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Áður lauk Sesselja sveinsprófi í framreiðslu frá Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi. 

Ottó Elíasson var samhliða Sesselju ráðinn sem rannsókna- og þróunarstjóri EIMS. Ottó er með doktorspróf (Ph.D.) og M.Sc. gráðu í tilraunaeðlisfræði frá Árósarháskóla í Danmörku. Áður útskrifaðist Ottó með B.Sc. gráðu í eðlisfræði frá Háskóla Íslands.

„Við verðum að ganga vel um jörðina svo börnin okkar fái notið gæða hennar rétt eins og við. Hér á Norðurlandi eystra liggja mikil tækifæri í betri nýtingu orkuauðlinda og hráefnis sem hér er unnið. EIMUR mun starfa með fyrirtækjum svæðisins, skólum hérlendis og erlendis og almenningi að verkefnum sem miða að því að samfélagið okkar verði sjálfbært. Ég hlakka mikið til að veita kröftum mínum og þekkingu í þá vinnu“, segir Ottó.

Sunna Guðmundsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri, heldur á vit nýrra ævintýra í orkugeiranum og við þökkum henni fyrir vel unnin störf hjá Eimi.


Deila frétt

17. október 2025
Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og er liður í að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Meðal fundarefna verður: • Hvernig orka, varmi og innviðir skapa ný tækifæri á Bakka • Hvernig hringrásarhagkerfi getur stutt við atvinnuþróun og alþjóðlega ímynd Íslands • Hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í sjálfbærri uppbyggingu Dagskrá: Húsið opnar kl. 12:00 – Skráning og súpuhlaðborð fyrir gesti á Fosshótel Húsavík Ráðstefna kl. 13:00 – 17:00 Fundarliður 1: Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni Fundarliður 2: Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni Fundarliður 3: Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða (Nánari dagskrá verður birt þegar nær dregur) Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið á Bakka fyrir hádegi frá kl. 10:30 - 12:00 þann 20. nóvember og er sú ferð opin öllum. Rútan fer frá Fosshótel á Húsavík og er nauðsynlegt að skrá sig því það er takmarkað pláss. Ráðstefnan er opin öllum en skráning er nauðsynleg - www.eimur.is/bakkiradstefna
30. september 2025
Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.
11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi