20. ágúst 2020

Nýtt starfsfólk hjá Eimi

Sesselja Ingibjörg Barðdal hefur verið ráðin framkvæmdastjóri nýsköpunarverkefnisins Eims. „Ég tel að nýsköpun á Norðausturlandi eigi mikið inni. Hér eru mikil tækifæri til þess að skapa verðmæti og atvinnu á svæðinu, bæði í orku- og matvælaiðnaði. Tækifærin liggja í að byggja upp kraftmikið samfélag fyrir frumkvöðla með spennandi hugmyndir,“ segir Sesselja sem er spennt að takast á við ný og spennandi verkefni. 

Sesselja starfaði áður sem framkvæmdastjóri Kaffi Kú í Eyjafjarðarsveit þar sem hún er jafnframt eigandi. Sesselja situr í stjórn Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar og í stjórn Stefnumótunar heilsárferðaþjónustu í Eyjafjarðarsveit. Sesselja útskrifaðist með BA gráðu í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri og er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Áður lauk Sesselja sveinsprófi í framreiðslu frá Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi. 

Ottó Elíasson var samhliða Sesselju ráðinn sem rannsókna- og þróunarstjóri EIMS. Ottó er með doktorspróf (Ph.D.) og M.Sc. gráðu í tilraunaeðlisfræði frá Árósarháskóla í Danmörku. Áður útskrifaðist Ottó með B.Sc. gráðu í eðlisfræði frá Háskóla Íslands.

„Við verðum að ganga vel um jörðina svo börnin okkar fái notið gæða hennar rétt eins og við. Hér á Norðurlandi eystra liggja mikil tækifæri í betri nýtingu orkuauðlinda og hráefnis sem hér er unnið. EIMUR mun starfa með fyrirtækjum svæðisins, skólum hérlendis og erlendis og almenningi að verkefnum sem miða að því að samfélagið okkar verði sjálfbært. Ég hlakka mikið til að veita kröftum mínum og þekkingu í þá vinnu“, segir Ottó.

Sunna Guðmundsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri, heldur á vit nýrra ævintýra í orkugeiranum og við þökkum henni fyrir vel unnin störf hjá Eimi.


Deila frétt

Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 10. apríl 2025
RECET verkefnið og Net Zero Islands Network standa fyrir þessum viðburði, þar sem sérfræðingar, stefnumótendur og hagsmunaaðilar koma saman til að ræða og stuðla að orkuskiptum á eyjum og í dreifðum byggðum. Ráðstefnan er einstakt tækifæri til að miðla þekkingu, skoða nýjar lausnir og efla tengslanet. Dagskráin samanstendur af framsöguerindum og umræðum sem miða að því að styðja við sjálfbæra þróun og grænna samfélag. Ókeypis er á ráðstefnuna sem fer einnig fram í streymi - skráning fer fram hér: https://www.recetproject.eu/events/akureyrienergyseminar Um RECET: RECET (Rural Europe for the Clean Energy Transition) er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi. Verkefnið miðar að því að efla getu sveitarfélaga í dreifðum byggðum í Evrópu og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. RECET er styrkt af LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Um Net Zero Islands Network: Net Zero Islands Network gegnir lykilhlutverki í þróun grænna og sjálfbærra orkulausna fyrir eyjar og afskekkt svæði. Markmið netsins er meðal annars að auðvelda miðlun þekkingar milli eyja og afskekktra svæða, skapa fleiri atvinnutækifæri og kanna möguleika á kolefnisneikvæðum lausnum. Norræna orkurannsóknarstofnunin (Nordic Energy Research) hefur umsjón með verkefninu. 
9. apríl 2025
Nýtt evrópskt samstarf um nýsköpun og þekkingarmiðlun
2. apríl 2025
Um 80 manns tóku þátt í fyrsta fundi í ICEWATER verkefninu, sem haldinn var dagana 24. og 25. mars 2025 í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur í Elliðaárdalnum. Fundurinn markaði upphaf þessa metnaðarfulla verkefnis, sem miðar að því að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi.