22. nóvember 2018

Skordýr, eldfjöll og ull

Skordýraræktun, jarðhita- og eldfjallasýning í Mývatnssveit og vinnsla á lanolini úr íslenskri ull eru allt frumkvöðlaverkefni sem hlutu verðlaun í atvinnu- og nýsköpunarhraðli ANA sem lauk í nýverið. Hraðallinn spannaði átta vikur og var tilgangur hans að hvetja til nýsköpunar og styðja frumkvöðla við  þróun og mótun viðskiptahugmynda sinna.

Atvinnu- og nýsköpunarhraðallinn er samstarfsverkefni sem byggir á því að styðja við frumkvöðla og aðstoða þá við að þróa hugmyndir sínar þannig að þær geti orðið að veruleika. Að hraðlinum standa Tækifæri, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Atvinnuþróunarfélögin á Norðurlandi eystra, EIMUR, Háskólinn á Akureyri og atvinnulífið. Hraðallinn er frumkvöðlasamkeppni á norðausturlandi sem gefur þátttakendum tækifæri til þess að koma hugmyndum sínum á framfæri og gera úr þeim markvissar áætlanir. Hraðallinn hófst með Atvinnu- og nýsköpunardeginum þann 15. september þar sem öllum áhugasömum bauðst að koma í frumkvöðlasetrið Verksmiðjuna við Glerárgötu á Akureyri og skrá sig til leiks. Þá tók við átta vikna hraðall þar sem þátttakendum var boðið upp á námskeið, ráðgjöf og aðstoð frá sérfræðingum á sviði nýsköpunar og viðskipta.

Föstudaginn 9. nóvember lauk hraðlinum með kynningu allra verkefnanna sem tóku þátt og verðlaunaafhendingu fyrir bestu hugmyndirnar. Þrjár hugmyndir fengu verðlaun að þessu sinni. Nýsköpunarverðlaunin fengu Christin Irma Schröder og Torsten Ullrich fyrir hugmynd sína TULCIS sem gengur út á ræktun skordýra til fóðurframleiðslu. Sigurlaun þeirra voru peningaverðlaun að upphæð ein milljón króna. Sérstök hvatningarverðlaun hlaut Páll B. Guðmundsson fyrir hugmynd sína Ærlegur um vinnslu á fitu úr íslenskri ull, lanolini, sem svo er hægt að nýta í hágæðavörur. Hann hlaut einnig 300 þúsund krónur í peningaverðlaun fyrir vikið. Sérstök verðlaun, Eimurinn, voru veitt fyrir bestu hugmyndina sem tengist sjálfbærni, aukinni nýtingu auðlindastrauma og/eða samspili orku, umhverfis og samfélags. Þau verðlaun hlutu Júlía Katrín Björke og Helgi Arnar Alfreðsson fyrir sýninguna sína ‚Living on a Volcano‘ þar sem jarðhitinn, eldfjöllin og samspil manns og náttúru er í aðalhlutverki. Þeirra sigurlaun voru Eimurinn, sem Sigrún Björg Aradóttir hjá Agndofa hönnunarhúsi hannaði sérstaklega fyrir þennan viðburð, sem og peningaverðlaun að upphæð ein milljón króna.

Dómnefndina skipuðu Kristrún Lind Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Tröppu ráðgjafar, Sigurður Steingrímsson frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Sunna Guðmundsdóttir sérfræðingur hjá Eim og Jón Steindór Árnason, framkvæmdastjóri Tækifæris.

Christin Irma Schröder og Torsten Ullrich
Christin Irma Schröder og Torsten Ullrich hlutu Nýsköpunarverðlaunin fyrir verkefnið TULCIS

Páll B. Guðmundsson fékk sérstök hvatningarverðlaun fyrir verkefni um vinnslu á lanolini úr ull
Páll B. Guðmundsson fékk sérstök hvatningarverðlaun fyrir verkefni um vinnslu á lanolini úr ull 

Helgi Arnar Alfreðsson og Júlía Katrín Björke sigruðu Eiminn fyrir sýninguna sína ‚Living on a Volcano‘ þar sem jarðhitinn, eldfjöllin og samspil manns og náttúru er í aðalhlutverki.
Helgi Arnar Alfreðsson og Júlía Katrín Björke sigruðu Eiminn fyrir sýninguna sína ‚Living on a Volcano‘ þar sem jarðhitinn, eldfjöllin og samspil manns og náttúru er í aðalhlutverki. 

Eimurinn, verðlaunagripur fyrir bestu hugmyndinasem tengist sjálfbærni, aukinni nýtingu auðlindastrauma og/eða samspili orku, umhverfis og samfélags.
Eimurinn, verðlaunagripur fyrir bestu hugmyndinasem tengist sjálfbærni, aukinni nýtingu auðlindastrauma og/eða samspili orku, umhverfis og samfélags. Sigrún Björg Aradóttir hjá Agndofa hönnunarhúsi hannaði gripinn sérstaklega fyrir þennan viðburð, 


Deila frétt

17. október 2025
Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og er liður í að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Meðal fundarefna verður: • Hvernig orka, varmi og innviðir skapa ný tækifæri á Bakka • Hvernig hringrásarhagkerfi getur stutt við atvinnuþróun og alþjóðlega ímynd Íslands • Hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í sjálfbærri uppbyggingu Dagskrá: Húsið opnar kl. 12:00 – Skráning og súpuhlaðborð fyrir gesti á Fosshótel Húsavík Ráðstefna kl. 13:00 – 17:00 Fundarliður 1: Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni Fundarliður 2: Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni Fundarliður 3: Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða (Nánari dagskrá verður birt þegar nær dregur) Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið á Bakka fyrir hádegi frá kl. 10:30 - 12:00 þann 20. nóvember og er sú ferð opin öllum. Rútan fer frá Fosshótel á Húsavík og er nauðsynlegt að skrá sig því það er takmarkað pláss. Ráðstefnan er opin öllum en skráning er nauðsynleg - www.eimur.is/bakkiradstefna
30. september 2025
Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.
11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi