4. apríl 2022

Fjárfestahátíð Norðanáttar 2022

Á dögunum var haldin glæsileg fjárfestahátíð á Siglufirði. Nýsköpunarhreyfingin Norðanátt stóð fyrir hátíðinni og var hún lokaskref í nýsköpunarhringrás sem hófst á hraðli, að honum loknum tók við vaxtarrými – 8 vikna þjálfunarbúðir þar sem átta fyrirtæki fengu stuðning við að þróa sínar hugmyndir og móta enn frekar. Lokaskrefið var svo fjárfestahátíðin. Norðanátt var styrkt af Lóu, nýsköpunarsjóði fyrir landsbyggðina.

Á hátíðinni, sem hefur fengið verðskuldaða athygli um land allt, kynntu 10 teymi verkefni sín sem snerta orkuskipti, hringrásarhagkerfið eða fullnýtingu auðlinda í takt við áherslur Norðanáttar; matur, orka, vatn. Viðburðurinn er eingöngu ætlaður fjárfestum sem horfa til landsbyggðarinnar sem ákjósanlegs fjárfestingakosts og voru um 30 fjárfestar mætti til leiks auk aðila úr stoðkerfi nýsköpunar, fulltrúar sveitarfélaga og annarra hagaðila. 

Norðanátt er öflugt samstarf SSNE, Eims, SSNV, Nýsköpun í Norðri, Hraðinu og RATA sem sá um þjálfun fjárfestateymanna fyrir kynningarnar á hátíðinni. Samstarfið nær því yfir Norðurland allt og hefur gengið afar vel.

,,Saman ætlum við að finna frekari tækifæri og skapa lausnir framtíðarinnar."  - Norðanátt

Auk fjárfestakynninga fluttu ráðherrar kraftmikil og hvetjandi erindi. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra opnaði hátíðina, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og lofslagsráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fluttu einnig ávörp. Einnig héldu Josh Klein, athafnamaður og frumkvöðull, Þór Sigfússon stofnandi Sjávarklasans og Hólmfríður Sveinsdóttir nýskipaður rektor Háskólans á Hólum erindi.

,, Hér gæti verið að fæðast eitt af stóru fyrirtækjum framtíðarinnar",  sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra í samtali við fréttastofu Rúv.

Fréttaumfjöllun um fjárfestahátíðina:

 


Deila frétt

17. október 2025
Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og er liður í að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Meðal fundarefna verður: • Hvernig orka, varmi og innviðir skapa ný tækifæri á Bakka • Hvernig hringrásarhagkerfi getur stutt við atvinnuþróun og alþjóðlega ímynd Íslands • Hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í sjálfbærri uppbyggingu Dagskrá: Húsið opnar kl. 12:00 – Skráning og súpuhlaðborð fyrir gesti á Fosshótel Húsavík Ráðstefna kl. 13:00 – 17:00 Fundarliður 1: Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni Fundarliður 2: Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni Fundarliður 3: Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða (Nánari dagskrá verður birt þegar nær dregur) Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið á Bakka fyrir hádegi frá kl. 10:30 - 12:00 þann 20. nóvember og er sú ferð opin öllum. Rútan fer frá Fosshótel á Húsavík og er nauðsynlegt að skrá sig því það er takmarkað pláss. Ráðstefnan er opin öllum en skráning er nauðsynleg - www.eimur.is/bakkiradstefna
30. september 2025
Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.
11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi