ICEWATER


Umhverfisstofnun, ásamt 22 samstarfsaðilum, hefur hlotið um 3,5 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu til að vinna að fjölbreyttum verkefnum til að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi.

Verkefnið ber yfirskriftina LIFE ICEWATER og er ætlað að: 

 

  • Auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástandi vatns á Íslandi 
  • Tryggja fumlausa og samhæfða stjórnsýslu þegar kemur að vatnamálum 
  • Bæta vatnsgæði, til dæmis með úrbótum í fráveitu og hreinsun á fráveituvatni 
  • Fræða almenning og hagaðila um mikilvægi vatns 

 

Með LIFE ICEWATER gefast tækifæri til nýsköpunar í stjórnsýslunni með þverfaglegu samstarfi ýmissa aðila með það fyrir augum að bæta vatnsgæði um allt land, auk þess að hámarka ábata samfélagsins af slíkum aðgerðum. 


Styrkurinn fyrir LIFE ICEWATER er einn sá stærsti sem Ísland hefur fengið. Umfang verkefnanna sem samstarfshópurinn hefur sett saman er samtals um 5,8 milljarðar króna. LIFE áætlun Evrópusambandsins styrkir verkefnið um 60% eða samtals um 3,5 milljarða sem dreifast á samstarfshópinn og verða verkefnin unnin á árunum 2025-2030. 


Verkefninu er skipt upp í 7 hluta. Eimur mun vinna verkefni um verðmætasköpun úr lífrænum efnum sem finnast í fráveituvatni með Orkuveitu Húsavíkur og Gefn, með áherslu á framleiðslu á orkugjöfum úr þeim lífmassa. Á mynd hér fyrir neðan má sjá yfirlit aðgerða undir hverjum verkhluta:


Þverfaglegt samstarf 22 hagsmunaaðila

Auk Umhverfisstofnunar eru 22 samstarfsaðilar í verkefninu: Eimur, Gefn, Grundarfjarðarbær, Hafrannsóknastofnun, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Hveragerðisbær, Isavia, Ísafjarðarbær, Kópavogsbær, Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun, Náttúruminjasafn Íslands, Orka náttúrunnar, Orkustofnun, Orkuveita Húsavíkur, Orkuveita Reykjavíkur, Reykjavíkurborg, Ríkisútvarpið, Samband íslenskra sveitarfélaga, umhverfis,- orku og loftslagsráðuneyti, Veðurstofa Íslands og Veitur, ásamt þremur óbeinum þátttakendum: Sveitarfélagið Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

19. desember 2025
Eimur hefur skrifað undir samning við Iðnver ehf. um leigu á færanlegum hreinsibúnaði fyrir fráveituvatn frá iðnaði. Fyrsta verkefnið verður hreinsun á iðnaðarvatni frá sláturhúsi á Norðurlandi, en búnaðinn má einnig nýta við hreinsun fráveitu frá öðrum fyrirtækjum. Samningurinn er liður í verkefninu LIFE ICEWATER , sem er eitt stærsta styrkta umhverfisverkefni sem Ísland hefur tekið þátt í. Eimur mun setja upp og reka færanlegt hreinsivirki sem meðhöndlar fráveituvatn frá matvælavinnslu. Búnaðurinn er sérstaklega hannaður fyrir iðnaðarvatn og gerir kleift að sýna í verki ávinning af bættri hreinsun fráveitu frá sláturhúsum eða annarri matvælavinnslu, bæði með tilliti til umhverfisáhrifa og verðmætasköpunar. Í samstarfi við Orkuveitu Húsavíkur og Gefn verður sótt lífrænt efni úr fráveitu frá matvælaiðnaði og það greint nánar. Fita sem fellur til við hreinsunina verður nýtt af Gefn til framleiðslu á lífdísli, en annað lífrænt efni verður tekið til frekari greiningar. Þar verður meðal annars metið orkugildi efnisins og skoðaðir möguleikar á metanframleiðslu. Samningurinn við Iðnver felur jafnframt í sér tæknilega samvinnu við uppsetningu, gangsetningu og rekstur búnaðarins, sem mun skila dýrmætum gögnum og reynslu fyrir áframhaldandi þróun lausna á sviði hreinsunar iðnaðarfráveitu á Íslandi.
Grænn iðngarður á Bakka
18. desember 2025
Undanfarin ár hefur Eimur sinnt þróun græns iðngarðs á Bakka í samstarfi við Norðurþing, Landsvirkjun, Orkuveitu Húsavíkur og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Í þeirri vinnu voru dregnir saman helstu styrkleikar og tækifæri svæðisins, þar á meðal um kosti Bakka fyrir varmasækinn iðnað, möguleika í nýtingu glatvarma og mikilvægi samhæfðrar uppbyggingar iðnaðar og samfélags. Nú stendur yfir ráðning á nýjum verkefnastjóra sem tekur við keflinu af Eimi sem mun starfa undir hatti þróunarfélagsins Grænn iðngarður á Bakka ehf. Á þessum tímamótum hefur fyrrum verkefnastjóri græns iðngarðs tekið saman skýrslu um afrakstur verkefnisins hingað til. Skýrsluna má nálgast undir útgefið efni hér á vefsíðu Eims. Í skýrslunni er dregin upp mynd af stöðu mála, áskorunum, tækifærum og forsendum fyrir áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu, ásamt heildstæðri framtíðarsýn fyrir Bakka. Skýrslan markar jafnframt þáttaskil fyrir þróun svæðisins þar sem farið er frá hugmyndavinnu og stefnumótun yfir í markvissa framkvæmd, í kjölfar stofnunar þróunarfélagins.
Laust starf hjá Eimi
8. desember 2025
Eimur leitar að öflugum og hugmyndaríkum einstaklingi til að vinna að kynningarmálum, miðlun og viðburðahaldi á vegum félagsins. Viðkomandi kemur að fjölmörgum og krefjandi verkefnum og verður hluti af skemmtilegum vinnustað. Verkefnastjóri vinnur náið með starfsfólki og samstarfsaðilum Eims. Um tímabundið starf er að ræða, út árið 2026 með möguleika á framlengingu. Helstu verkefni og ábyrgð Umsjón markaðs- og kynningarmála fyrir Eim Efnissköpun og miðlun gegnum vef og samfélagsmiðla Markaðsgreiningar, stefnumótun og eftirfylgni Skipulag og framkvæmd viðburða Fjölbreytt samskipti við samstarfsaðila og aðra hagaðila Skrifstofustjórn Stuðningur við gerð bókhalds Vinna með teyminu að þróun nýrra verkefna á starfssvæði Eims Þátttaka í fjölbreyttum verkefnum vinnustaðarins Menntunar og hæfniskröfur Háskólamenntun sem nýtist í starfi Reynsla af upplýsingamiðlun, markaðssetningu og verkefnastjórnun Góð þekking á vefumsjón, samfélagsmiðlum og stafrænni markaðssetningu Reynsla af greinarskrifum, gerð kynningarefnis og miðlunar Hæfni til að koma fram og halda kynningar er kostur Mjög góð færni í íslensku og ensku, bæði í rituðu og töluðu máli Góð almenn tölvufærni og hæfni til að tileinka sér nýjungar Frumkvæði, skipulagshæfni, sjálfstæði og sveigjanleiki í vinnubrögðum Rík hæfni í samskiptum og samstarfi, vönduð og öguð vinnubrögð Starfstöð verkefnastjóra er á Akureyri. Starfið krefst ferðalaga um starfssvæðið og býður upp á sveigjanlegan vinnutíma. Eimur er samstarfsverkefni sem snýr að bættri nýtingu auðlinda á Norðurlandi með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Að verkefninu standa Landsvirkjun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur. Sótt er um starfið á www.mognum.is Nánari upplýsingar veita Telma Eiðsdóttir; telma@mognum.is og Sigríður Ólafsdóttir; sigga@mognum.is Umsóknarfrestur er til 18. desember 2025 Með umsókn skal fylgja ítarleg ferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni umsækjanda.
Skoða fleiri tengdar fréttir

Nánari upplýsingar um verkefnið veita:

Ottó Elíasson - ottoel@eimur.is