23. nóvember 2023

Eimur sækir 15 milljónir í Loftslagssjóð til lífgasvinnslu í Líforkugörðum

Úthlutað hefur verið úr Loftslagssjóði og hlaut Eimur hámarksstyrk fyrir verkefnið Lífgasver í Líforkugörðum við Eyjafjörð, en verkefnið er samstarfsverkefni Eims, SSNE og Bláma.

Markmið verkefnisins er að undirbúa byggingu lífgasvers þar sem framleitt yrði metangas, að drjúgum hluta úr mykju af nálægum kúa- og svínabúum. Lífmassi er afar vannýtt auðlind á Íslandi og lífgas getur leikið mun stærra hlutverk í orkuskiptum.

Meginferlið í lífgasvinnslunni er loftfirrð gerjun lífmassa, en við það ferli verður til metangas sem nýta má sem eldsneyti á farartæki. Til viðbótar við metangasið verður til koltvísýringur í ferlinu sem hreinsa má og nýta til matvælaframleiðslu, en slík starfsemi er vaxandi þáttur í starfsemi lífgasvera víða í Evrópu.

Loftslagsávinningur verkefnisins er talsverður. Annars vegar sparast bruni jarðefnaeldsneytis við framboð á metangasi úr innlendri framleiðslu, og hins vegar verður samdráttur í losun vegna bættrar meðferðar mykjunnar. Þá er ótalið kolefnisspor sem sparast við flutninga á aðföngum; eldsneyti, kolsýru og tilbúnum áburði til landsins.

Samfélagslegur ávinningur verkefnisins er einnig talsverður, en með byggingu versins yrði afhendingaröryggi á metangasi á Norðurlandi tryggt til frambúðar. Metangas yrði þannig raunhæfur kostur til orkuskipta, bæði fyrir heimafólk og fyrirtæki á Norðurlandi eystra en einnig fyrir bændur og flutningafyrirtæki sem standa í flutningum á milli landshluta.

Samhliða úthlutun Loftslagssjóðs hefur Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytið veitt 10 milljónum í verkefnið Orkubændur, sem SSNE heldur utan um. Verkefnið snýr að mögulegri aðkomu bænda að lífgasframleiðslu á svæðinu; hvort og hvernig þeir geti nýtt metangas á eigin vélar og hvernig megi stuðla að sem bestu samstarfi um verkefnið.


Deila frétt

Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 10. apríl 2025
RECET verkefnið og Net Zero Islands Network standa fyrir þessum viðburði, þar sem sérfræðingar, stefnumótendur og hagsmunaaðilar koma saman til að ræða og stuðla að orkuskiptum á eyjum og í dreifðum byggðum. Ráðstefnan er einstakt tækifæri til að miðla þekkingu, skoða nýjar lausnir og efla tengslanet. Dagskráin samanstendur af framsöguerindum og umræðum sem miða að því að styðja við sjálfbæra þróun og grænna samfélag. Ókeypis er á ráðstefnuna sem fer einnig fram í streymi - skráning fer fram hér: https://www.recetproject.eu/events/akureyrienergyseminar Um RECET: RECET (Rural Europe for the Clean Energy Transition) er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi. Verkefnið miðar að því að efla getu sveitarfélaga í dreifðum byggðum í Evrópu og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. RECET er styrkt af LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Um Net Zero Islands Network: Net Zero Islands Network gegnir lykilhlutverki í þróun grænna og sjálfbærra orkulausna fyrir eyjar og afskekkt svæði. Markmið netsins er meðal annars að auðvelda miðlun þekkingar milli eyja og afskekktra svæða, skapa fleiri atvinnutækifæri og kanna möguleika á kolefnisneikvæðum lausnum. Norræna orkurannsóknarstofnunin (Nordic Energy Research) hefur umsjón með verkefninu. 
9. apríl 2025
Nýtt evrópskt samstarf um nýsköpun og þekkingarmiðlun
2. apríl 2025
Um 80 manns tóku þátt í fyrsta fundi í ICEWATER verkefninu, sem haldinn var dagana 24. og 25. mars 2025 í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur í Elliðaárdalnum. Fundurinn markaði upphaf þessa metnaðarfulla verkefnis, sem miðar að því að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi.