23. nóvember 2023

Eimur sækir 15 milljónir í Loftslagssjóð til lífgasvinnslu í Líforkugörðum

Úthlutað hefur verið úr Loftslagssjóði og hlaut Eimur hámarksstyrk fyrir verkefnið Lífgasver í Líforkugörðum við Eyjafjörð, en verkefnið er samstarfsverkefni Eims, SSNE og Bláma.

Markmið verkefnisins er að undirbúa byggingu lífgasvers þar sem framleitt yrði metangas, að drjúgum hluta úr mykju af nálægum kúa- og svínabúum. Lífmassi er afar vannýtt auðlind á Íslandi og lífgas getur leikið mun stærra hlutverk í orkuskiptum.

Meginferlið í lífgasvinnslunni er loftfirrð gerjun lífmassa, en við það ferli verður til metangas sem nýta má sem eldsneyti á farartæki. Til viðbótar við metangasið verður til koltvísýringur í ferlinu sem hreinsa má og nýta til matvælaframleiðslu, en slík starfsemi er vaxandi þáttur í starfsemi lífgasvera víða í Evrópu.

Loftslagsávinningur verkefnisins er talsverður. Annars vegar sparast bruni jarðefnaeldsneytis við framboð á metangasi úr innlendri framleiðslu, og hins vegar verður samdráttur í losun vegna bættrar meðferðar mykjunnar. Þá er ótalið kolefnisspor sem sparast við flutninga á aðföngum; eldsneyti, kolsýru og tilbúnum áburði til landsins.

Samfélagslegur ávinningur verkefnisins er einnig talsverður, en með byggingu versins yrði afhendingaröryggi á metangasi á Norðurlandi tryggt til frambúðar. Metangas yrði þannig raunhæfur kostur til orkuskipta, bæði fyrir heimafólk og fyrirtæki á Norðurlandi eystra en einnig fyrir bændur og flutningafyrirtæki sem standa í flutningum á milli landshluta.

Samhliða úthlutun Loftslagssjóðs hefur Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytið veitt 10 milljónum í verkefnið Orkubændur, sem SSNE heldur utan um. Verkefnið snýr að mögulegri aðkomu bænda að lífgasframleiðslu á svæðinu; hvort og hvernig þeir geti nýtt metangas á eigin vélar og hvernig megi stuðla að sem bestu samstarfi um verkefnið.


Deila frétt

17. október 2025
Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og er liður í að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Meðal fundarefna verður: • Hvernig orka, varmi og innviðir skapa ný tækifæri á Bakka • Hvernig hringrásarhagkerfi getur stutt við atvinnuþróun og alþjóðlega ímynd Íslands • Hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í sjálfbærri uppbyggingu Dagskrá: Húsið opnar kl. 12:00 – Skráning og súpuhlaðborð fyrir gesti á Fosshótel Húsavík Ráðstefna kl. 13:00 – 17:00 Fundarliður 1: Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni Fundarliður 2: Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni Fundarliður 3: Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða (Nánari dagskrá verður birt þegar nær dregur) Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið á Bakka fyrir hádegi frá kl. 10:30 - 12:00 þann 20. nóvember og er sú ferð opin öllum. Rútan fer frá Fosshótel á Húsavík og er nauðsynlegt að skrá sig því það er takmarkað pláss. Ráðstefnan er opin öllum en skráning er nauðsynleg - www.eimur.is/bakkiradstefna
30. september 2025
Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.
11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi