Fara í efni

Hacking Norðurland 2021 gert upp

Hacking Norðurland 2021 gert upp

Lausnamótið Hacking Norðurland fór fram dagana 15. - 18. apríl 2021 þar sem unnið var með sjálfbæra nýtingu auðlinda svæðisins með tilliti til orku, vatns og matar. Markmið lausnamótsins var að efla frumkvöðlastarf og sköpunarkraft á Norðurlandi og þannig stuðla að nýjum viðskiptatækifærum og verkefnum. Lausnamótið var samstarfsverkefni Hacking Hekla, Eims, Nordic Food in Tourism, SSNE, SSNV og Nýsköpun í norðri. Verkefnið var einnig styrkt af Íslandsbanka. Um 100 manns komu að verkefninu á einn eða annan hátt.

En hvað er lausnamót? Lausnamót eða Hackathon, er nýsköpunarkeppni þar sem fólk kemur saman og skapar lausnir yfir stuttan tíma - venjulega 24-48 klukkustundir. Segja má að Hacking Norðurland sé afbrigði af Hackathoni þar sem ekki er verið að vinna að hugbúnaðarlausnum heldur er það vettvangur þar sem fólk getur fengið aðstoð við að þróa og móta hugmyndir sínar. Þar með má segja að viðburðurinn sé svokallaður Nýsköpunarvettvangur. 

Lausnamótið fór að mestu leyti fram í gegnum samsköpunarlausnina Hugmyndaþorp sem þróuð er af sprotafyrirtækinu Austan mána í samstarfi við Hacking Hekla. Um 70 einstaklingar tóku þátt í viðburðinum og mynduðu fjölbreytt og skemmtileg teymi sem unnu að þróun verkefna sinna yfir helgina. Teymin gátu leitað ráðgjafar hjá reynlumiklum mentorum ásamt því að sækja innblástur í áhugaverða fyrirlestra. Hluta af fyrirlestrum lausnamótsins má finna hér.

Lausnamótið hófst fimmtudaginn 15. apríl með vefstofu með yfirskriftinni Matur-orka-vatn: Leiðin að sjálfbærni. Markmið vefstofunnar var að beina augum fólks að samspili matar, vatns og orku, og þeim tækifærum sem felast í auðlindum Norðurlands. Hópur af innlendum og erlendum sérfræðingum á ýmsum sviðum atvinnulífsins skipuðu mælendaskrá vefstofunnar og tóku fjölbreyttar nálganir á viðfangsefni viðburðarins. Í kjölfarið fór svo launsamótið á fulla ferð. Teymin nýttu helgina í að betrumbæta verkefni sín sem voru svo kynnt fyrir dómnefnd á lokadegi lausnamótsins. Upptöku af kynningunum má finna hér. Eftir kynningarnar bar dómnefndin bækur sínar saman og valdi sigurvegara. 

Sigurvegari Hacking Norðurland var verkefnið Grænlamb - Keldhverfskt kjöt af algrónu landi, en verkefnið felur í sér að búa til vörumerki fyrir keldhverfska sauðfjárbændur sem er vottun um að féð gangi á velgrónu og sjálfbæru landi. Samhliða því er ætlunin að auka verðmæti sauðfjárafurða Kelduhverfis og um leið gefa neytendum tækifæri til þess að kaupa kolefnislausan íslenskan próteingjafa. Að baki hugmyndarinnar standa frumkvöðlarnir Berglind Ýr Ingvarsdóttir, Guðríður Baldvinsdóttir og Salbjörg Matthíasdóttir sem eiga það allt sameiginlegt að vera sauðfjárbændur í Kelduhverfi.

Auk þess að veita viðurkenningu fyrir besta verkefnið var einnig veitt verðlaun fyrir Frumlegasta verkefnið, Vinsælasta verkefnið og Virkasta þátttakandan. 

Verkefnið Geothermal Ginger hlaut viðurkenninguna Frumlegasta verkefnið. Markmið verkefnisins er að rækta engifer og vinna úr því vörur sem og opna augu fleiri fyrir ræktun áður innfluttum vörum.

Viðurkenningu fyrir Vinsælasta verkefnið hlaut verkefnið Automated container farms for fresh and healthy vegetables. Verkefnið byggist á því að þróa fullkomlega sjálfvirkar ræktunareiningar í flutningagáma.

Að lokum hlaut Amber Monroe viðurkenningu fyrir Virkasta þátttakanda lausnamótsins en Amber var í forsvari fyrir verkefnið Ísponica. Áherslur verkefnisins er að samtvinna fiskeldi og ræktun á matjurtum í vatni (e. aquaponics). 

Önnur verkefni sem tóku þátt í lausnamótinu má finna hér.