30. maí 2022

Nýsköpunarverkefnið Roðleður er Norðansprotinn 2022

Lokaviðburður Norðansprota 2022 fór fram föstudaginn 20. maí sl. þar sem leitað var að áhugaverðustu nýsköpunarhugmyndum Norðurlands á sviði matar, vatns og orku. Að viðburðinum stóðu samstarfsaðilar að nýsköpunarverkefninu  Norðanátt , Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Hólum.

Þrettán fjölbreyttar umsóknir bárust í hugmyndasamkeppnina, sem jafnframt var upphaf á nýrri hringrás nýsköpunarsstarfs hjá Norðanátt og voru sex teymi valin af dómnefnd til að kynna verkefni sín á lokaviðburðinum sem fór fram í Háskólanum á Akureyri. Viðburðurinn var einnig í streymi og er hægt að nálgast upptöku  hér.

María Dís Ólafsdóttir lífverkfræðingur og framkvæmdastjóri AMC ehf bar sigur úr býtum með nýsköpunarverkefnið Roðleður og hlaut titilinn Norðansprotinn 2022 ásamt 500.000 kr. í verðlaunafé, en með henni í teymi er Leonard Jóhannson.

,,Ég hef alltaf haft rosalega mikinn áhuga á hliðarafurðum frá því ég var lítil og ég endaði svolítið á roðinu af því ég hef komið að rannsóknum á roði og fengið að kynnast þessu magnaða hráefni og sá bara tækifæri, “ sagði María Dís meðal annars í kynningu sinni sem hefst á mín 42:00.  ,,Verkefnið Roðleður snýst um að þróa nýja aðferð til að búa til leður úr roði í stærri einingum en áður hefur fengist. Roðleður verður fáanlegt í metravís, í mörgum litum og þykktum”, segir María Dís.

Í dómnefnd Norðansprota 2022 sátu Hólmfríður Sveinsdóttir, verkefnastjóri og verðandi rektor Háskólans á Hólum, Hreinn Þór Hauksson, framkvæmdastjóri viðskipta- og vöruþróunar hjá Íslenskum verðbréfum, Rannveig Björnsdóttir, dósent hjá Háskólanum á Akureyri, Lilja Pálmadóttir hjá Horfstorfu, Eyrún Gígja Káradóttir verkefnastjóri hjá Vistorku og Svava Björk Ólafsdóttir, stofnandi RATA.

Liðin sex sem valin voru í úrslit voru:

  • Roðleður – Sigurvegari Norðansprota 2022
  • Tólgarsmiðjan
  • Pelliscol
  • Ylur
  • Nordic Wine & View
  • Ísponica

Á viðburðinum var skrifað undir samning við Háskólann á Akureyri um að vera virkur samstarfsaðili Norðanáttar í þeirri nýsköpunarhringrás sem nú er að hefjast. Þá var einnig undirrituð viljayfirlýsing við Háskólann á Hólum fyrr í þessum mánuði um samstarf og samvinnu með það að markmiði að skapa öflugt vistkerfi nýsköpunar á svæðinu.

Næsti viðburður í hringrás Norðanáttar verður viðskiptahraðallinn Vaxtarrými sem fer fram í haust.

Um Norðanátt
Samstarfsverkefnið Norðanátt er hreyfiafl sem miðar að því að skapa kraftmikið umhverfi á Norðurlandi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Norðanátt samanstendur af viðburðum sem styðja við frumkvöðla með hugmyndir á ólíkum stigum. Að  Norðanátt  standa Eimur, SSNE, SSNV, RATA, Nýsköpun í Norðri og Hraðið Húsavík. 


Deila frétt

11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi
Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 9. september 2025
Eimur hefur fengið öflugan liðsstyrk í Alessöndru Schnider sem bætist nú í hópinn og mun starfa á Norðurlandi vestra með aðsetur á Sauðárkróki. Alessandra lauk nýverið doktorsnámi í líffræði með áherslu á þróunarvistfræði í sameiginlegu námi Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands. ,,Við erum mjög spennt að fá Alessöndru til liðs við okkur hjá Eimi, og verður hennar þekking og reynsla til að efla starfsemi félagsins enn frekar á Norðurlandi vestra”, segir Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri Eims. Alessandra er með meistarapróf í erfðafræði og líffræðilegri mannfræði frá Háskólanum í Zürich í Sviss og BS próf í líffræði frá sama skóla. Á ferli sínum hefur Alessandra sinnt fjölbreyttum verkefnum tengdum fiskrannsóknum, náttúruvernd og vísindamiðlun, meðal annars með því að stofna og reka miðlunarverkefnið Ice Fish Research og framleiða hlaðvarpið Fiskaspjall sem fjallar um íslenskar fiskrannsóknir. Alessandra hefur kennt við Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands og unnið að fjölmörgum rannsóknarverkefnum og fengið til þess styrki. Hún hefur jafnframt birt vísindagreinar og flutt erindi á fjölda ráðstefna hérlendis og erlendis. ,,Það er dýrmætt að fá tækifæri til að nýta þekkingu mína í samfélagi sem tók vel á móti mér fyrir sex árum. Skagafjörður er orðið heimili mitt og mér þykir mikilvægt að geta unnið að verkefnum sem geta haft raunveruleg áhrif og stuðlað að jákvæðum breytingum. Menntun mín og reynsla hefur gefið mér sterka tengingu við náttúruna og ég vona að geta lagt mitt af mörkum með lausnum sem nýta auðlindir á ábyrgan hátt og vernda um leið hina einstöku náttúru Íslands”, segir Alessandra Schnider. Alessandra mun hefja störf 3. nóvember næstkomandi og bjóðum við hana velkomna til starfa. Starfið var auglýst þann 27. júní s.l. og bárust 18 umsóknir. Ráðningarferlið var unnið í samstarfi við ráðningafyrirtækið Hagvang.
3. júlí 2025
Eimur kynnir með stolti gagnvirkt olíumælaborð