20. júní 2022

Hagkvæmnimat fyrir miðlægt frostþurrkunarver

Hagkvæmnimat um rekstur miðlægs frostþurrkunarvers er komið út (sjá neðar) en það var unnið af Hrafnhildi Árnadóttur ásamt systurverkefnunum Eimi og Orkídeu. Markmið þessa verkefnið var að kanna hagkvæmni þess að reisa miðlægt frostþurrkunarver á Íslandi. Frostþurrkun er í dag orðin fremur útbreidd vinnsluaðferð við matvælaframleiðslu víða erlendis, enda þykir hún henta sérstaklega vel til þurrkunar á matvælum vegna þess hversu vel aðferðin varðveitir viðkvæm næringarefni og lífvirk efni þeirra hráefna sem þurrkuð eru. Eiginleikar frostþurrkunar umfram loftþurrkun eru ótvíræðir en aðferðin er þó mun dýrari og orkufrekari verkunaraðferð en hefðbundin loftþurrkun. Á Íslandi er algengast að notast sé við loftþurrkun við þurrkun matvæla en þó hefur umræðan um gagnsemi frostþurrkunar reglulega stungið upp kollinum, ekki síst í tengslum við áform sem nú eru uppi um gífurlegan vöxt smáþörungaframleiðslu.

Árlega senda íslenskir matvælaframleiðendur a.m.k. 28 tonn erlendis til frostþurrkunar. Sterkar vísbendingar eru um að eftirspurnin eftir frostþurrkunarþjónustu muni aukast töluvert á næstu árum meðal innlendra framleiðenda. Miðað við þær hagkvæmnigreiningar sem gerðar voru í þessu verkefni má gera ráð fyrir því að árleg eftirspurn á bilinu 100 til 200 tonn, ætti að geta skilað miðlægu frostþurrkunarveri jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Hér skipta gerð hráefnis, forvinnsla þess, fjárfestingakostnaður tækjabúnaðar og húsakosts jafnt sem nýtingarhlutfall tækja máli til að ná fram hagkvæmni í rekstri. Fullvíst er þó að uppbygging á frostþurrkunarþjónustu yrði afar verðmæt fyrir frumkvöðla í matvæla- og líftæknigeiranum og hefði örvandi áhrif á nýsköpunarumhverfi þeirra. Nýsköpun er lykill að vexti og framþróun fyrirtækja, eykur samkeppnishæfni þeirra og stuðlar þannig að verðmætasköpun í samfélaginu sem eykur hagsæld og eflir þjóðarbúið.


Deila frétt

Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 10. apríl 2025
RECET verkefnið og Net Zero Islands Network standa fyrir þessum viðburði, þar sem sérfræðingar, stefnumótendur og hagsmunaaðilar koma saman til að ræða og stuðla að orkuskiptum á eyjum og í dreifðum byggðum. Ráðstefnan er einstakt tækifæri til að miðla þekkingu, skoða nýjar lausnir og efla tengslanet. Dagskráin samanstendur af framsöguerindum og umræðum sem miða að því að styðja við sjálfbæra þróun og grænna samfélag. Ókeypis er á ráðstefnuna sem fer einnig fram í streymi - skráning fer fram hér: https://www.recetproject.eu/events/akureyrienergyseminar Um RECET: RECET (Rural Europe for the Clean Energy Transition) er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi. Verkefnið miðar að því að efla getu sveitarfélaga í dreifðum byggðum í Evrópu og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. RECET er styrkt af LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Um Net Zero Islands Network: Net Zero Islands Network gegnir lykilhlutverki í þróun grænna og sjálfbærra orkulausna fyrir eyjar og afskekkt svæði. Markmið netsins er meðal annars að auðvelda miðlun þekkingar milli eyja og afskekktra svæða, skapa fleiri atvinnutækifæri og kanna möguleika á kolefnisneikvæðum lausnum. Norræna orkurannsóknarstofnunin (Nordic Energy Research) hefur umsjón með verkefninu. 
9. apríl 2025
Nýtt evrópskt samstarf um nýsköpun og þekkingarmiðlun
2. apríl 2025
Um 80 manns tóku þátt í fyrsta fundi í ICEWATER verkefninu, sem haldinn var dagana 24. og 25. mars 2025 í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur í Elliðaárdalnum. Fundurinn markaði upphaf þessa metnaðarfulla verkefnis, sem miðar að því að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi.