20. júní 2022

Hagkvæmnimat fyrir miðlægt frostþurrkunarver

Hagkvæmnimat um rekstur miðlægs frostþurrkunarvers er komið út (sjá neðar) en það var unnið af Hrafnhildi Árnadóttur ásamt systurverkefnunum Eimi og Orkídeu. Markmið þessa verkefnið var að kanna hagkvæmni þess að reisa miðlægt frostþurrkunarver á Íslandi. Frostþurrkun er í dag orðin fremur útbreidd vinnsluaðferð við matvælaframleiðslu víða erlendis, enda þykir hún henta sérstaklega vel til þurrkunar á matvælum vegna þess hversu vel aðferðin varðveitir viðkvæm næringarefni og lífvirk efni þeirra hráefna sem þurrkuð eru. Eiginleikar frostþurrkunar umfram loftþurrkun eru ótvíræðir en aðferðin er þó mun dýrari og orkufrekari verkunaraðferð en hefðbundin loftþurrkun. Á Íslandi er algengast að notast sé við loftþurrkun við þurrkun matvæla en þó hefur umræðan um gagnsemi frostþurrkunar reglulega stungið upp kollinum, ekki síst í tengslum við áform sem nú eru uppi um gífurlegan vöxt smáþörungaframleiðslu.

Árlega senda íslenskir matvælaframleiðendur a.m.k. 28 tonn erlendis til frostþurrkunar. Sterkar vísbendingar eru um að eftirspurnin eftir frostþurrkunarþjónustu muni aukast töluvert á næstu árum meðal innlendra framleiðenda. Miðað við þær hagkvæmnigreiningar sem gerðar voru í þessu verkefni má gera ráð fyrir því að árleg eftirspurn á bilinu 100 til 200 tonn, ætti að geta skilað miðlægu frostþurrkunarveri jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Hér skipta gerð hráefnis, forvinnsla þess, fjárfestingakostnaður tækjabúnaðar og húsakosts jafnt sem nýtingarhlutfall tækja máli til að ná fram hagkvæmni í rekstri. Fullvíst er þó að uppbygging á frostþurrkunarþjónustu yrði afar verðmæt fyrir frumkvöðla í matvæla- og líftæknigeiranum og hefði örvandi áhrif á nýsköpunarumhverfi þeirra. Nýsköpun er lykill að vexti og framþróun fyrirtækja, eykur samkeppnishæfni þeirra og stuðlar þannig að verðmætasköpun í samfélaginu sem eykur hagsæld og eflir þjóðarbúið.


Deila frétt

16. janúar 2026
Eftirfarandi verkefni stóðu uppúr: Grænir iðngarðar á Bakka Eimur leiddi samningaviðræður f.h. Akureyrarbæjar við gagnaver AtNorth um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu við Hlíðarvelli á Akureyri. Afar fjölsótt ráðstefna um framtíðina á Bakka haldin 20. nóvember s.l. með ráðamönnum, fulltrúum þings og sveitarstjórna, atvinnulífsins og áhugasamra fyrirtækja um uppbyggingu á Bakka og almennings á Húsavík. Útkoma skýrslu verkefnastjóra Græns iðngarðs um þróun svæðisins á Bakka, áskoranir og niðurstöður. Sniglarækt og kortlagning hjárennslis í hitaveitum Frábær kynning um sniglarækt og framreiðsla á Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavíka, í september 2025. Afar vel sótt námskeiðaröð um sniglarækt með Peter Monaghan , sem við stóðum fyrir á Norðurlandi vestra og eystra haustið 2025. Samstarf við Mirru Payson SIT nema, Norðurorku, Skagafjarðarveitur um kortlagningu á hjárennsli hitaveitna á Norðurlandi RECET Vefþing í apríl sl. um orkuskipti smábáta í sjávarútvegi haldið með Vestfjarðastofu Alþjóðleg ráðstefna haldin í Hofi í byrjun maí um áskoranir orkuskipta í dreifðum byggðum haldin með Nordic Energy Research, Umhverfis- og orkustofnun og Íslenskri Nýorku Samstarf við SIT nema Inbal Armony, sem kom saman mælaborði um olíusölu eftir landshlutum birt, byggða á greiningu Eims og Eflu á olíusölu eftir landsvæðum á árunum 2010-2020 Þróaður aðgerðabanki í orkuskiptum og loftslagsmálum fyrir sveitarfélög byggðan á reynslu Eims, SSNE og Vestfjarðastofu af vinnustofum um orkuskipti og loftslagsmál. Stofnun orkusamfélags Kelduhverfis. ICEWATER Samningur við Iðnver um leigu á færanlegu hreinsivirki fyrir fráveituvatn Unnið hörðum höndum að hönnun færanlegs hreinsivirkis fyrir fráveituvatn Samkomulag við Kjarnafæði/Norðlenska um uppsetningu á færanlegu hreinsivirki fyrir fráveituvatn við sláturhús þeirra á Húsavík. Metanver á stórum og smáum skala Unnum rekstrar- og fjármögnunarlíkan fyrir metanver, með mögulega staðsetningu á Dysnesi við Eyjafjörð og kynntum fyrir helsta úrgang. Hófum virkt samtal við Akureyrarbæ sem einn helsta úrgangshafa svæðisins um mikilvægi þessarar uppsetningar. Fjölsótt ráðstefna haldin með kollegum okkar í Orkídeu á Hótel Selfossi í júní s.l. um lífgas og áburðarmál. Við höfum rætt við marga kúabændur um þau fjölbreyttu tækifæri til aukinnar rekstarhagkvæmni sem felast í kúamykju, bæði með því að lækka áburðar- og eldsneytiskostnað í gegnum metanvinnslu. Nýting hauggass í Stekkjarvík Unnum mat á leiðum til að nýtingar hauggass frá Stekkjarvík í samstarfi við Norðurá bs. sem rekur urðunarstaðinn í Stekkjarvík, þangað sem mest af okkar heimilissorpi fer til urðunar. Eimur þakkar sínum fjölmörgu samstarfsaðilum fyrir gjöfult ár og hlakkar til að takast á við 2026! - Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri Eims
13. janúar 2026
Eimur hefur hlotið tvo styrki að upphæð 500 þúsund krónur hvorn, annars vegar frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra og hins vegar frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra, til áframhaldandi þróunar sniglaræktarverkefnisins , en næsti áfangi þess er námsferð til Írlands. Verkefnið miðar að því að þróa sniglarækt sem vistvæna og sjálfbæra hliðarbúgrein í íslenskum landbúnaði, með sérstakri áherslu á nýtingu glatvarma og lífrænna hliðarstrauma sem annars fara til spillis. Markmiðið er að byggja upp þekkingu, meta fýsileika ræktunar við íslenskar aðstæður og skapa ný tækifæri til verðmætasköpunar í dreifðum byggðum. Styrkirnir styðja við næsta áfanga verkefnisins sem felur meðal annars í sér staðnám á Írlandi, þar sem íslenskir bændur, ráðgjafar og verkefnisstjóri munu kynnast starfandi sniglabúum og hagnýtum aðferðum í sniglarækt. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og erlenda sérfræðinga og fellur vel að áherslum sóknaráætlana landshlutanna um nýsköpun, sjálfbærni og fjölbreyttara atvinnulíf. Jafnframt hlaut Ísponica styrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra til verkefnisins HringrásHús: Innovating Food Systems , þar sem sniglarækt er skoðuð sem hluti af hringrásarlausnum í matvælaframleiðslu. Í því verkefni er meðal annars unnið með Inis Escargot á Írlandi, sem einnig er samstarfsaðili Eims í sniglaræktarverkefninu og viðkomustaður námsferðarinnar. Verkefnin styðja þannig hvort annað með miðlun þekkingar og þróun sjálfbærra lausna fyrir jákvæða byggðaþróun. Eimur þakkar Uppbyggingarsjóðum Norðurlands vestra og eystra fyrir stuðninginn.
19. desember 2025
Eimur hefur skrifað undir samning við Iðnver ehf. um leigu á færanlegum hreinsibúnaði fyrir fráveituvatn frá iðnaði. Fyrsta verkefnið verður hreinsun á iðnaðarvatni frá sláturhúsi á Norðurlandi, en búnaðinn má einnig nýta við hreinsun fráveitu frá öðrum fyrirtækjum. Samningurinn er liður í verkefninu LIFE ICEWATER , sem er eitt stærsta styrkta umhverfisverkefni sem Ísland hefur tekið þátt í. Eimur mun setja upp og reka færanlegt hreinsivirki sem meðhöndlar fráveituvatn frá matvælavinnslu. Búnaðurinn er sérstaklega hannaður fyrir iðnaðarvatn og gerir kleift að sýna í verki ávinning af bættri hreinsun fráveitu frá sláturhúsum eða annarri matvælavinnslu, bæði með tilliti til umhverfisáhrifa og verðmætasköpunar. Í samstarfi við Orkuveitu Húsavíkur og Gefn verður sótt lífrænt efni úr fráveitu frá matvælaiðnaði og það greint nánar. Fita sem fellur til við hreinsunina verður nýtt af Gefn til framleiðslu á lífdísli, en annað lífrænt efni verður tekið til frekari greiningar. Þar verður meðal annars metið orkugildi efnisins og skoðaðir möguleikar á metanframleiðslu. Samningurinn við Iðnver felur jafnframt í sér tæknilega samvinnu við uppsetningu, gangsetningu og rekstur búnaðarins, sem mun skila dýrmætum gögnum og reynslu fyrir áframhaldandi þróun lausna á sviði hreinsunar iðnaðarfráveitu á Íslandi.