20. júní 2022

Hagkvæmnimat fyrir miðlægt frostþurrkunarver

Hagkvæmnimat um rekstur miðlægs frostþurrkunarvers er komið út (sjá neðar) en það var unnið af Hrafnhildi Árnadóttur ásamt systurverkefnunum Eimi og Orkídeu. Markmið þessa verkefnið var að kanna hagkvæmni þess að reisa miðlægt frostþurrkunarver á Íslandi. Frostþurrkun er í dag orðin fremur útbreidd vinnsluaðferð við matvælaframleiðslu víða erlendis, enda þykir hún henta sérstaklega vel til þurrkunar á matvælum vegna þess hversu vel aðferðin varðveitir viðkvæm næringarefni og lífvirk efni þeirra hráefna sem þurrkuð eru. Eiginleikar frostþurrkunar umfram loftþurrkun eru ótvíræðir en aðferðin er þó mun dýrari og orkufrekari verkunaraðferð en hefðbundin loftþurrkun. Á Íslandi er algengast að notast sé við loftþurrkun við þurrkun matvæla en þó hefur umræðan um gagnsemi frostþurrkunar reglulega stungið upp kollinum, ekki síst í tengslum við áform sem nú eru uppi um gífurlegan vöxt smáþörungaframleiðslu.

Árlega senda íslenskir matvælaframleiðendur a.m.k. 28 tonn erlendis til frostþurrkunar. Sterkar vísbendingar eru um að eftirspurnin eftir frostþurrkunarþjónustu muni aukast töluvert á næstu árum meðal innlendra framleiðenda. Miðað við þær hagkvæmnigreiningar sem gerðar voru í þessu verkefni má gera ráð fyrir því að árleg eftirspurn á bilinu 100 til 200 tonn, ætti að geta skilað miðlægu frostþurrkunarveri jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Hér skipta gerð hráefnis, forvinnsla þess, fjárfestingakostnaður tækjabúnaðar og húsakosts jafnt sem nýtingarhlutfall tækja máli til að ná fram hagkvæmni í rekstri. Fullvíst er þó að uppbygging á frostþurrkunarþjónustu yrði afar verðmæt fyrir frumkvöðla í matvæla- og líftæknigeiranum og hefði örvandi áhrif á nýsköpunarumhverfi þeirra. Nýsköpun er lykill að vexti og framþróun fyrirtækja, eykur samkeppnishæfni þeirra og stuðlar þannig að verðmætasköpun í samfélaginu sem eykur hagsæld og eflir þjóðarbúið.


Deila frétt

17. október 2025
Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og er liður í að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Meðal fundarefna verður: • Hvernig orka, varmi og innviðir skapa ný tækifæri á Bakka • Hvernig hringrásarhagkerfi getur stutt við atvinnuþróun og alþjóðlega ímynd Íslands • Hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í sjálfbærri uppbyggingu Dagskrá: Húsið opnar kl. 12:00 – Skráning og súpuhlaðborð fyrir gesti á Fosshótel Húsavík Ráðstefna kl. 13:00 – 17:00 Fundarliður 1: Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni Fundarliður 2: Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni Fundarliður 3: Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða (Nánari dagskrá verður birt þegar nær dregur) Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið á Bakka fyrir hádegi frá kl. 10:30 - 12:00 þann 20. nóvember og er sú ferð opin öllum. Rútan fer frá Fosshótel á Húsavík og er nauðsynlegt að skrá sig því það er takmarkað pláss. Ráðstefnan er opin öllum en skráning er nauðsynleg - www.eimur.is/bakkiradstefna
30. september 2025
Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.
11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi