14. júlí 2022
Norðanátt hlýtur styrk úr Lóunni

Það eru sannarlega spennandi tímar framundan í frumkvöðlaumhverfi Norðurlands en í vikunni tilkynnti háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið úthlutanir úr Lóu – nýsköpunarstyrkjum fyrir landsbyggðina.
Norðanátt hlaut styrk úr sjóðnum uppá 3,9 milljónir króna fyrir verkefnið Norðanátt í Víking til Noregs en samtals var tæpum 100 m.kr. úthlutað til þeirra verkefna sem matshópur um veitingu Lóu nýsköpunarstyrkja taldi skara fram úr. Hlutverk Lóu er að styðja við nýsköpun, eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni, á forsendum svæða á landsbyggðinni. Styrkirnir veita aukinn slagkraft inn í nýsköpunarverkefni og stuðla að auknu samstarfi um land allt.
Verkefnið, sem er samstarfsverkefni Norðanáttar og Innovasjon Norge, er tvíþætt. Í fyrsta lagi er frumkvöðlum af landsbyggðinni veitt tækifæri til að vinna í norsku frumkvöðlaumhverfi og tengslanet þannig eflt til muna. Í öðru lagi mun Norðanátt samhliða þessu eflast með auknum tengslum við norska nýsköpunargeirann með uppbyggingu grænnar atvinnustarfsemi í dreifðum byggðum að markmiði.
Hér
getur þú lesið um þau 21 verkefni sem hlutu styrk í ár.
Við óskum öllum styrkhöfum til hamingju.
Deila frétt

RECET verkefnið og Net Zero Islands Network standa fyrir þessum viðburði, þar sem sérfræðingar, stefnumótendur og hagsmunaaðilar koma saman til að ræða og stuðla að orkuskiptum á eyjum og í dreifðum byggðum. Ráðstefnan er einstakt tækifæri til að miðla þekkingu, skoða nýjar lausnir og efla tengslanet. Dagskráin samanstendur af framsöguerindum og umræðum sem miða að því að styðja við sjálfbæra þróun og grænna samfélag. Ókeypis er á ráðstefnuna sem fer einnig fram í streymi - skráning fer fram hér: https://www.recetproject.eu/events/akureyrienergyseminar Um RECET: RECET (Rural Europe for the Clean Energy Transition) er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi. Verkefnið miðar að því að efla getu sveitarfélaga í dreifðum byggðum í Evrópu og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. RECET er styrkt af LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Um Net Zero Islands Network: Net Zero Islands Network gegnir lykilhlutverki í þróun grænna og sjálfbærra orkulausna fyrir eyjar og afskekkt svæði. Markmið netsins er meðal annars að auðvelda miðlun þekkingar milli eyja og afskekktra svæða, skapa fleiri atvinnutækifæri og kanna möguleika á kolefnisneikvæðum lausnum. Norræna orkurannsóknarstofnunin (Nordic Energy Research) hefur umsjón með verkefninu.