18. desember 2024

Nýútkomin skýrsla um olíunotkun sveitarfélaga á Íslandi

RECET verkefnið heldur áfram að gefa af sér ávexti!

Nú er komin út skýrsla unnin undir hatti verkefnisins hjá Eimi, í samstarfi við þau Ágústu Steinunni Loftsdóttur og Sindra Dag Sindrason hjá Eflu verkfræðistofu, en Ágústa situr einmitt í ráðgjafaráði RECET.


Í skýrslunni er byggt á gagnasafni Flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara sem starfræktur var fram til ársins 2020. Hér er olíusala áranna 2010-2020 greind eftir landshlutum og sveitarfélögum og þá er notkunin flokkuð eftir gerðum eldsneytis. Þannig er gerð grein fyrir notkun sem fella má undir sam göngur á landi, skip og báta og svo aðra notkun sem að mestu er tilkomin vegna eldsneytisnotkunar í minni iðnaði og landbúnaði. 


Í orkuskiptum er olíu og öðru jarðefnaeldsneyti skipt út fyrir aðra vistvæna orkugjafa. Besti mælikvarðinn á framgang orkuskipta er magn olíu sem brennt er á hverjum tíma. Við full orkuskipti verður engri olíu brennt. Engin opinber gögn eru til um olíunotkun á Íslandi eftir landshlutum eða sveitarfélögum og þeim gögnum sem áður var safnað er ekki lengur safnað. 


Meginniðurstaða skýrslunnar er að talsverður breytileiki er í olíunotkun samgangna, haftengdrar starfsemi og iðnaðar eftir bæði landshlutum og sveitarfélögum, þar sem olíunotkun er almennt meiri utan höfuðborgarsvæðisins heldur en innan þess. Aðgerðir stjórnvalda í orku- og loftslagsmálum til að styðja við orkuskipti í landinu og skuldbindingar Íslands í þeim efnum, verða að taka þennan breytileika með í myndina til þess að tryggja að öll ákvarðanataka innan málaflokksins komi jafnt við alla íbúa landsins, óháð búsetu.


Þessi greining gefur nýja vídd í umfjöllun um orkuskipti á Íslandi og setur þau í svæðisbundið samhengi, því ekki hafa áður legið fyrir opinberlega upplýsingar um olíusölu og notkun og þar með stöðu orkuskipta innan einstakra landshluta eða sveitarfélaga. Það er okkar trú að þessar upplýsingar verði til að dýpka umræðuna um orkuskipti og varpi betra ljósi á ólíka stöðu sveitarfélaga á Íslandi í þeim efnum.


Verkefnið er styrkt af LIFE styrktarsjóði Evrópusambandsins gegnum verkefnið RECET (Rural Europe for the Clean Energy Transition), sem Eimur tekur þátt í.


Smelltu hér til að lesa skýrsluna

 

 



Deila frétt

11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi
Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 9. september 2025
Eimur hefur fengið öflugan liðsstyrk í Alessöndru Schnider sem bætist nú í hópinn og mun starfa á Norðurlandi vestra með aðsetur á Sauðárkróki. Alessandra lauk nýverið doktorsnámi í líffræði með áherslu á þróunarvistfræði í sameiginlegu námi Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands. ,,Við erum mjög spennt að fá Alessöndru til liðs við okkur hjá Eimi, og verður hennar þekking og reynsla til að efla starfsemi félagsins enn frekar á Norðurlandi vestra”, segir Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri Eims. Alessandra er með meistarapróf í erfðafræði og líffræðilegri mannfræði frá Háskólanum í Zürich í Sviss og BS próf í líffræði frá sama skóla. Á ferli sínum hefur Alessandra sinnt fjölbreyttum verkefnum tengdum fiskrannsóknum, náttúruvernd og vísindamiðlun, meðal annars með því að stofna og reka miðlunarverkefnið Ice Fish Research og framleiða hlaðvarpið Fiskaspjall sem fjallar um íslenskar fiskrannsóknir. Alessandra hefur kennt við Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands og unnið að fjölmörgum rannsóknarverkefnum og fengið til þess styrki. Hún hefur jafnframt birt vísindagreinar og flutt erindi á fjölda ráðstefna hérlendis og erlendis. ,,Það er dýrmætt að fá tækifæri til að nýta þekkingu mína í samfélagi sem tók vel á móti mér fyrir sex árum. Skagafjörður er orðið heimili mitt og mér þykir mikilvægt að geta unnið að verkefnum sem geta haft raunveruleg áhrif og stuðlað að jákvæðum breytingum. Menntun mín og reynsla hefur gefið mér sterka tengingu við náttúruna og ég vona að geta lagt mitt af mörkum með lausnum sem nýta auðlindir á ábyrgan hátt og vernda um leið hina einstöku náttúru Íslands”, segir Alessandra Schnider. Alessandra mun hefja störf 3. nóvember næstkomandi og bjóðum við hana velkomna til starfa. Starfið var auglýst þann 27. júní s.l. og bárust 18 umsóknir. Ráðningarferlið var unnið í samstarfi við ráðningafyrirtækið Hagvang.
3. júlí 2025
Eimur kynnir með stolti gagnvirkt olíumælaborð