14. júní 2017

Úrslit í Hugmyndasamkeppni um nýtingu lághitavatns á Norðurlandi eystra

Í gær fóru fram úrslit og kynning á tillögum sem bárust í Hugmyndasamkeppni EIMS um nýtingu lághitavatns á Norðurlandi eystra, haldin í samstarfi við Íslensk verðbréf og Vaðlaheiðargöng hf. Alls bárust 14 mjög ólíkar og metnaðarfullar tillögur í samkeppnina, sem sýndu vel fram á fjölbreytta nýtingarmöguleika á svæðinu.

Dómnefnd hafði áður valið fjórar bestu tillögurnar og fór fram kynning á þeim í Menningarhúsinu Hofi í gær. Í kjölfarið valdi dómnefnd bestu tillöguna, auk þess sem veitt voru verðlaun fyrir annað sæti, en fyrsta sætið hlaut 1.500.000 kr í verðlaun og annað sæti 500.000 kr. Dómnefnd skipuðu Arnheiður Jóhannsdóttir, Markaðsstofu Norðurlands, Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, Ágúst Torfi Hauksson, stjórn Vaðlaheiðarganga hf., Sigríður Ingvarsdóttir, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, og Jón Steindór Árnason, Íslenskum verðbréfum.

Í fyrsta sæti varð tillagan Svörtu loft frá Stefáni Tryggva- og Sigríðarsyni. Vinningshugmyndin tengist vatninu í Vaðlaheiðargöngum og gengur út á að nýta umhverfið í nánd við göngin til hellagerðar og einstakrar baðupplifunar. Í tillögunni sem send var inn um svörtu loft kom vel fram hvernig frumkvöðlarnir sjá heildaruppbygginguna fyrir sér og hvernig hún fellur að landslaginu, og tengist uppbyggingu gangna með jákvæðum hætti. Dómnefndin vonar sannarlega að innan skamms tíma getum við fengið að njóta heita vatnsins úr Vaðlaheiðargöngum í einstöku umhverfi með útsýni yfir Eyjafjörðinn og Akureyri.

Tillagan sem dómnefndin valdi í annað sæti var mjög nýstárleg hugmynd fyrir svæðið, og jafnvel Ísland í heild. Hugmyndin gengur út á að nýta lághitann í Öxarfirði til framleiðslu á þungu vatni, vetni og súrefni, sem hægt er að nýta í margskonar framleiðslu. Ljóst er að þegar er búið að verja miklum tíma og talsverðum fjármunum í að móta hugmyndina. Vonandi verður þetta hvatning til að taka hugmyndina á næsta stig og athuga enn frekar með fýsileika hennar og hún verði að veruleika í Öxarfirði þar sem er bæði mikið af heitu og köldu vatni eins og til þarf. Tillagan kom frá Hafsteini Hafsteinssyni/EFLU verkfræðistofu.

Þó þessar tvær tillögur hafi unnið samkeppnina þá er rétt að koma því á framfæri að allt voru þetta góðar hugmyndir sem raungerast vonandi sem flestar, en til þess var samkeppnin hugsuð – að auka verðmætasköpun á svæðinu og vekja athygli á þeim tækifærum sem liggja í nýtingu lághitavatns á Norðurlandi eystra. 

Skoða má tillögurnar sem bárust hér:


Deila frétt

11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi
Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 9. september 2025
Eimur hefur fengið öflugan liðsstyrk í Alessöndru Schnider sem bætist nú í hópinn og mun starfa á Norðurlandi vestra með aðsetur á Sauðárkróki. Alessandra lauk nýverið doktorsnámi í líffræði með áherslu á þróunarvistfræði í sameiginlegu námi Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands. ,,Við erum mjög spennt að fá Alessöndru til liðs við okkur hjá Eimi, og verður hennar þekking og reynsla til að efla starfsemi félagsins enn frekar á Norðurlandi vestra”, segir Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri Eims. Alessandra er með meistarapróf í erfðafræði og líffræðilegri mannfræði frá Háskólanum í Zürich í Sviss og BS próf í líffræði frá sama skóla. Á ferli sínum hefur Alessandra sinnt fjölbreyttum verkefnum tengdum fiskrannsóknum, náttúruvernd og vísindamiðlun, meðal annars með því að stofna og reka miðlunarverkefnið Ice Fish Research og framleiða hlaðvarpið Fiskaspjall sem fjallar um íslenskar fiskrannsóknir. Alessandra hefur kennt við Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands og unnið að fjölmörgum rannsóknarverkefnum og fengið til þess styrki. Hún hefur jafnframt birt vísindagreinar og flutt erindi á fjölda ráðstefna hérlendis og erlendis. ,,Það er dýrmætt að fá tækifæri til að nýta þekkingu mína í samfélagi sem tók vel á móti mér fyrir sex árum. Skagafjörður er orðið heimili mitt og mér þykir mikilvægt að geta unnið að verkefnum sem geta haft raunveruleg áhrif og stuðlað að jákvæðum breytingum. Menntun mín og reynsla hefur gefið mér sterka tengingu við náttúruna og ég vona að geta lagt mitt af mörkum með lausnum sem nýta auðlindir á ábyrgan hátt og vernda um leið hina einstöku náttúru Íslands”, segir Alessandra Schnider. Alessandra mun hefja störf 3. nóvember næstkomandi og bjóðum við hana velkomna til starfa. Starfið var auglýst þann 27. júní s.l. og bárust 18 umsóknir. Ráðningarferlið var unnið í samstarfi við ráðningafyrirtækið Hagvang.
3. júlí 2025
Eimur kynnir með stolti gagnvirkt olíumælaborð