14. júní 2017

Úrslit í Hugmyndasamkeppni um nýtingu lághitavatns á Norðurlandi eystra

Í gær fóru fram úrslit og kynning á tillögum sem bárust í Hugmyndasamkeppni EIMS um nýtingu lághitavatns á Norðurlandi eystra, haldin í samstarfi við Íslensk verðbréf og Vaðlaheiðargöng hf. Alls bárust 14 mjög ólíkar og metnaðarfullar tillögur í samkeppnina, sem sýndu vel fram á fjölbreytta nýtingarmöguleika á svæðinu.

Dómnefnd hafði áður valið fjórar bestu tillögurnar og fór fram kynning á þeim í Menningarhúsinu Hofi í gær. Í kjölfarið valdi dómnefnd bestu tillöguna, auk þess sem veitt voru verðlaun fyrir annað sæti, en fyrsta sætið hlaut 1.500.000 kr í verðlaun og annað sæti 500.000 kr. Dómnefnd skipuðu Arnheiður Jóhannsdóttir, Markaðsstofu Norðurlands, Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, Ágúst Torfi Hauksson, stjórn Vaðlaheiðarganga hf., Sigríður Ingvarsdóttir, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, og Jón Steindór Árnason, Íslenskum verðbréfum.

Í fyrsta sæti varð tillagan Svörtu loft frá Stefáni Tryggva- og Sigríðarsyni. Vinningshugmyndin tengist vatninu í Vaðlaheiðargöngum og gengur út á að nýta umhverfið í nánd við göngin til hellagerðar og einstakrar baðupplifunar. Í tillögunni sem send var inn um svörtu loft kom vel fram hvernig frumkvöðlarnir sjá heildaruppbygginguna fyrir sér og hvernig hún fellur að landslaginu, og tengist uppbyggingu gangna með jákvæðum hætti. Dómnefndin vonar sannarlega að innan skamms tíma getum við fengið að njóta heita vatnsins úr Vaðlaheiðargöngum í einstöku umhverfi með útsýni yfir Eyjafjörðinn og Akureyri.

Tillagan sem dómnefndin valdi í annað sæti var mjög nýstárleg hugmynd fyrir svæðið, og jafnvel Ísland í heild. Hugmyndin gengur út á að nýta lághitann í Öxarfirði til framleiðslu á þungu vatni, vetni og súrefni, sem hægt er að nýta í margskonar framleiðslu. Ljóst er að þegar er búið að verja miklum tíma og talsverðum fjármunum í að móta hugmyndina. Vonandi verður þetta hvatning til að taka hugmyndina á næsta stig og athuga enn frekar með fýsileika hennar og hún verði að veruleika í Öxarfirði þar sem er bæði mikið af heitu og köldu vatni eins og til þarf. Tillagan kom frá Hafsteini Hafsteinssyni/EFLU verkfræðistofu.

Þó þessar tvær tillögur hafi unnið samkeppnina þá er rétt að koma því á framfæri að allt voru þetta góðar hugmyndir sem raungerast vonandi sem flestar, en til þess var samkeppnin hugsuð – að auka verðmætasköpun á svæðinu og vekja athygli á þeim tækifærum sem liggja í nýtingu lághitavatns á Norðurlandi eystra. 

Skoða má tillögurnar sem bárust hér:


Deila frétt

27. nóvember 2025
Loftslags- og orkusjóður hefur úthlutað rúmlega 1,3 milljörðum króna til 109 verkefna sem miða að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eða fela í sér nýsköpun á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála. Eimur er meðal þeirra sem hljóta styrk að þessu sinni. Verkefni ber heitið Nýting lífræns efnis úr fráveituvatni til orkuframleiðslu . Það felur í sér uppsetningu færanlegs hreinsibúnaðar við sláturhús Kjarnafæðis/Norðlenska á Húsavík, í samstarfi við Orkuveitu Húsavíkur og Kjarnafæði Norðlenska. Markmið verkefnisins er að sýna fram á kosti þess að koma upp forhreinsivirki fyrir fráveituvatn frá matvælafyrirtækjum, draga úr lífrænu álagi og nýta efni sem annars færu til spillis, meðal annars til framleiðslu á lífdísil og lífgasi í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Gefn . Verkefnið er fyrst og fremst ætlað sem sýnidæmi sem getur orðið stjórnvöldum og fyrirtækjum hvatning til frekari aðgerða í fráveitumálum. Með því að hreinsa vatnið þar sem mengunin fellur til skapast betri möguleikar til að sækja verðmæt efni í fráveituna, auk þess sem álag á innviði sveitarfélaga minnkar verulega. Verkefnið er einnig hluti af ICEWATER verkefninu, sem að hluta er fjármagnað af LIFE styrktarsjóði Evrópusambandsins. Með styrknum frá Loftslags- og orkusjóði er tryggt að hefja uppsetningu búnaðarins fyrir sláturtíð 2026. Við hlökkum til að segja frá framgangi verkefnisins. Nánar um úthlutun Loftslags- og orkusjóðs og þau 109 verkefni sem hlutu styrk má finna á vef sjóðsins.
25. nóvember 2025
Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri
13. nóvember 2025
Undanfarnar vikur hefur Eimur staðið fyrir kynningarstarfi um möguleika sniglaræktar á Íslandi. Verkefnið hefur verið kynnt fyrir fjölmörgum aðilum víða um Norðurland meðal annars á Hönnunarþingi á Húsavík, Vegagerðinni, Landsvirkjun og fleiri stofnunum og fyrirtækjum. Markmiðið hefur verið að vekja athygli á tækifærum til nýsköpunar í landbúnaði og benda á hvernig vistvæn og sjálfbær ræktun gæti orðið áhugaverð viðbót við íslenskan landbúnað. Vinnustofur um sniglarækt sem haldnar voru á Norðurlandi í október vöktu mikla athygli og voru afar ánægjulegar í alla staði. Fjöldi bænda, frumkvöðla og annarra áhugasamra einstaklinga lagði leið sína á kynningarfundi þar sem fjallað var um möguleika sniglaræktar sem nýrrar vistvænnar hliðarbúgreinar á Íslandi. Á fundunum fóru yfir efnið þeir Sigurður Líndal frá Eimi og Peter Monaghan frá írska fyrirtækinu Inis Escargot, sem hefur mikla og farsæla reynslu af sniglarækt sem hágæða matvöru í Evrópu. Þeir kynntu hugmyndir sínar um hvernig hægt er að nýta íslenskar aðstæður, svo sem jarðhita, hrein auðlindakerfi og vannýttan húsakost til sveita, til að skapa sjálfbært rekstrarumhverfi fyrir sniglarækt. Áhugi á viðfangsefninu reyndist mikill og spurningar komu úr öllum áttum, bæði frá bændum sem sjá tækifæri til að renna styrkari stoðum undir búskap sinn og frá frumkvöðlum í leit að nýjum leiðum til að nýta staðbundnar auðlindir á skapandi hátt. Þátttakendur ræddu meðal annars um húsakost, fóðrun, ræktunarlotur, markaði og möguleg notagildi sniglaafurða á Íslandi, auk leiða til meginmarkaða í Evrópu. Sigurður og Peter voru báðir hæstánægðir með móttökurnar og áhugann sem blasti við alls staðar. „Ísland stendur frammi fyrir einstöku tækifæri á heimsvísu þegar kemur að sniglarækt, því stöðugt hitastig og trygg hitastjórnun er lykillinn að árangursríku sniglaeldi. Þar kemur íslenskur jarðhiti með nýja vídd inn á heimsmarkaðinn,“ sagði sniglasérfræðingurinn að loknum fundunum. Næstu skref eru þegar farin að taka á sig mynd, og ljóst er að langtum fleiri munu sækja um þátttöku í staðnámi á Írlandi en sæti verða í boði. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með framhaldinu og fá upplýsingar um næstu skref geta haft samband við Sigurð Líndal hjá Eimi á netfangið s.lindal@eimur.is eða fylgst með fréttum á eimur.is. Vinnustofurnar sýndu glöggt að nýsköpun í landbúnaði lifir góðu lífi á Norðurlandi – og að þó sniglar séu smávaxnir geti þeir orðið stór hluti af framtíðinni.