14. júní 2017

Úrslit í Hugmyndasamkeppni um nýtingu lághitavatns á Norðurlandi eystra

Í gær fóru fram úrslit og kynning á tillögum sem bárust í Hugmyndasamkeppni EIMS um nýtingu lághitavatns á Norðurlandi eystra, haldin í samstarfi við Íslensk verðbréf og Vaðlaheiðargöng hf. Alls bárust 14 mjög ólíkar og metnaðarfullar tillögur í samkeppnina, sem sýndu vel fram á fjölbreytta nýtingarmöguleika á svæðinu.

Dómnefnd hafði áður valið fjórar bestu tillögurnar og fór fram kynning á þeim í Menningarhúsinu Hofi í gær. Í kjölfarið valdi dómnefnd bestu tillöguna, auk þess sem veitt voru verðlaun fyrir annað sæti, en fyrsta sætið hlaut 1.500.000 kr í verðlaun og annað sæti 500.000 kr. Dómnefnd skipuðu Arnheiður Jóhannsdóttir, Markaðsstofu Norðurlands, Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, Ágúst Torfi Hauksson, stjórn Vaðlaheiðarganga hf., Sigríður Ingvarsdóttir, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, og Jón Steindór Árnason, Íslenskum verðbréfum.

Í fyrsta sæti varð tillagan Svörtu loft frá Stefáni Tryggva- og Sigríðarsyni. Vinningshugmyndin tengist vatninu í Vaðlaheiðargöngum og gengur út á að nýta umhverfið í nánd við göngin til hellagerðar og einstakrar baðupplifunar. Í tillögunni sem send var inn um svörtu loft kom vel fram hvernig frumkvöðlarnir sjá heildaruppbygginguna fyrir sér og hvernig hún fellur að landslaginu, og tengist uppbyggingu gangna með jákvæðum hætti. Dómnefndin vonar sannarlega að innan skamms tíma getum við fengið að njóta heita vatnsins úr Vaðlaheiðargöngum í einstöku umhverfi með útsýni yfir Eyjafjörðinn og Akureyri.

Tillagan sem dómnefndin valdi í annað sæti var mjög nýstárleg hugmynd fyrir svæðið, og jafnvel Ísland í heild. Hugmyndin gengur út á að nýta lághitann í Öxarfirði til framleiðslu á þungu vatni, vetni og súrefni, sem hægt er að nýta í margskonar framleiðslu. Ljóst er að þegar er búið að verja miklum tíma og talsverðum fjármunum í að móta hugmyndina. Vonandi verður þetta hvatning til að taka hugmyndina á næsta stig og athuga enn frekar með fýsileika hennar og hún verði að veruleika í Öxarfirði þar sem er bæði mikið af heitu og köldu vatni eins og til þarf. Tillagan kom frá Hafsteini Hafsteinssyni/EFLU verkfræðistofu.

Þó þessar tvær tillögur hafi unnið samkeppnina þá er rétt að koma því á framfæri að allt voru þetta góðar hugmyndir sem raungerast vonandi sem flestar, en til þess var samkeppnin hugsuð – að auka verðmætasköpun á svæðinu og vekja athygli á þeim tækifærum sem liggja í nýtingu lághitavatns á Norðurlandi eystra. 

Skoða má tillögurnar sem bárust hér:


Deila frétt

Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 10. apríl 2025
RECET verkefnið og Net Zero Islands Network standa fyrir þessum viðburði, þar sem sérfræðingar, stefnumótendur og hagsmunaaðilar koma saman til að ræða og stuðla að orkuskiptum á eyjum og í dreifðum byggðum. Ráðstefnan er einstakt tækifæri til að miðla þekkingu, skoða nýjar lausnir og efla tengslanet. Dagskráin samanstendur af framsöguerindum og umræðum sem miða að því að styðja við sjálfbæra þróun og grænna samfélag. Ókeypis er á ráðstefnuna sem fer einnig fram í streymi - skráning fer fram hér: https://www.recetproject.eu/events/akureyrienergyseminar Um RECET: RECET (Rural Europe for the Clean Energy Transition) er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi. Verkefnið miðar að því að efla getu sveitarfélaga í dreifðum byggðum í Evrópu og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. RECET er styrkt af LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Um Net Zero Islands Network: Net Zero Islands Network gegnir lykilhlutverki í þróun grænna og sjálfbærra orkulausna fyrir eyjar og afskekkt svæði. Markmið netsins er meðal annars að auðvelda miðlun þekkingar milli eyja og afskekktra svæða, skapa fleiri atvinnutækifæri og kanna möguleika á kolefnisneikvæðum lausnum. Norræna orkurannsóknarstofnunin (Nordic Energy Research) hefur umsjón með verkefninu. 
9. apríl 2025
Nýtt evrópskt samstarf um nýsköpun og þekkingarmiðlun
2. apríl 2025
Um 80 manns tóku þátt í fyrsta fundi í ICEWATER verkefninu, sem haldinn var dagana 24. og 25. mars 2025 í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur í Elliðaárdalnum. Fundurinn markaði upphaf þessa metnaðarfulla verkefnis, sem miðar að því að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi.