9. október 2024

Áframhaldandi rekstur Krafla Magma Testbed tryggður

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Landsvirkjun, Orkuveitan og Krafla Magma Testbed (KMT) hafa undirritað samkomulag sem tryggir fjármögnun KMT næstu tvö árin. Samkomulagið markar ákveðin tímamót fyrir KMT þar sem Orkuveitan gengur til liðs við verkefnið, auk þess sem áframhaldandi stuðningur frá stjórnvöldum og Landsvirkjun er tryggður.


KMT er frumkvöðlaverkefni sem miðar að því að byggja upp alþjóðlega rannsóknarmiðstöð í eldfjalla- og orkurannsóknum í Kröflu sem verður einstök á heimsvísu. Verkefnið byggir á fyrstu djúpborunarholunni sem boruð var í Kröflu árið 2009 þar sem borað var óvænt í kviku á 2,1 km dýpi. Holan reyndist vera allt að tíu sinnum öflugri en meðal vinnsluholan í Kröflu og fljótlega var ljóst að mikil tækifæri fólust í þessari uppgötvun.


Markmið KMT er að þróa tækni til að nýta þessa gríðarlegu orkumöguleika með hönnun næstu kynslóðar jarðhitahola sem þola þann mikla hita og þrýsting sem liggur næst kvikuhólfum. Verkefnið gengur einnig út á að skapa einstaka aðstöðu til eldfjallarannsókna þar sem vísindamenn munu í fyrsta skipti fá beinan aðgang að kviku. Möguleikarnir sem í því felast geta breytt skilningi okkar á hegðun eldfjalla og er það von vísindamanna KMT að hægt verði að þróa aðferðir til að stórbæta eldgosaspár.


KMT er samstarfsverkefni íslenskra og erlendra vísindamanna og verkfræðinga með höfuðstöðvar á Íslandi. Með þeim stuðningi sem tryggður var með samkomulaginu er KMT vel í stakk búið til að halda áfram því brautryðjendastarfi að þróa bættar aðferðir til jarðhitavinnslu og að byggja upp rannsóknarinnviði sem munu valda straumhvörfum í rannsóknum og skilningi okkar á eldfjöllum.


Einstakt á heimsvísu

Eimur hefur í gegnum tíðina stutt við verkefnið eftir fremsta megni og fagnar þessum áfanga.


„Krafla Magma Testbed er gríðarlega spennandi verkefni með heimahöfn í Þingeyjarsveit. Það gæti fært með sér miklar byltingar í þekkingu okkar í eldfjalla- og kvikufræðum og á orkuvinnslu úr jarðhitageymum sem liggja nærri kviku. Þarna eru tækifæri fyrir Norðurland til að vera í farabroddi á heimsvísu í þessum málum og mikilvægt að fólk og fyrirtæki styðji eftir megni við þetta metnaðarfulla ævintýri sem þarna er í uppsiglingu“, segir Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri hjá Eimi. 




Deila frétt

Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 10. apríl 2025
RECET verkefnið og Net Zero Islands Network standa fyrir þessum viðburði, þar sem sérfræðingar, stefnumótendur og hagsmunaaðilar koma saman til að ræða og stuðla að orkuskiptum á eyjum og í dreifðum byggðum. Ráðstefnan er einstakt tækifæri til að miðla þekkingu, skoða nýjar lausnir og efla tengslanet. Dagskráin samanstendur af framsöguerindum og umræðum sem miða að því að styðja við sjálfbæra þróun og grænna samfélag. Ókeypis er á ráðstefnuna sem fer einnig fram í streymi - skráning fer fram hér: https://www.recetproject.eu/events/akureyrienergyseminar Um RECET: RECET (Rural Europe for the Clean Energy Transition) er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi. Verkefnið miðar að því að efla getu sveitarfélaga í dreifðum byggðum í Evrópu og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. RECET er styrkt af LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Um Net Zero Islands Network: Net Zero Islands Network gegnir lykilhlutverki í þróun grænna og sjálfbærra orkulausna fyrir eyjar og afskekkt svæði. Markmið netsins er meðal annars að auðvelda miðlun þekkingar milli eyja og afskekktra svæða, skapa fleiri atvinnutækifæri og kanna möguleika á kolefnisneikvæðum lausnum. Norræna orkurannsóknarstofnunin (Nordic Energy Research) hefur umsjón með verkefninu. 
9. apríl 2025
Nýtt evrópskt samstarf um nýsköpun og þekkingarmiðlun
2. apríl 2025
Um 80 manns tóku þátt í fyrsta fundi í ICEWATER verkefninu, sem haldinn var dagana 24. og 25. mars 2025 í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur í Elliðaárdalnum. Fundurinn markaði upphaf þessa metnaðarfulla verkefnis, sem miðar að því að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi.