9. október 2024

Áframhaldandi rekstur Krafla Magma Testbed tryggður

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Landsvirkjun, Orkuveitan og Krafla Magma Testbed (KMT) hafa undirritað samkomulag sem tryggir fjármögnun KMT næstu tvö árin. Samkomulagið markar ákveðin tímamót fyrir KMT þar sem Orkuveitan gengur til liðs við verkefnið, auk þess sem áframhaldandi stuðningur frá stjórnvöldum og Landsvirkjun er tryggður.


KMT er frumkvöðlaverkefni sem miðar að því að byggja upp alþjóðlega rannsóknarmiðstöð í eldfjalla- og orkurannsóknum í Kröflu sem verður einstök á heimsvísu. Verkefnið byggir á fyrstu djúpborunarholunni sem boruð var í Kröflu árið 2009 þar sem borað var óvænt í kviku á 2,1 km dýpi. Holan reyndist vera allt að tíu sinnum öflugri en meðal vinnsluholan í Kröflu og fljótlega var ljóst að mikil tækifæri fólust í þessari uppgötvun.


Markmið KMT er að þróa tækni til að nýta þessa gríðarlegu orkumöguleika með hönnun næstu kynslóðar jarðhitahola sem þola þann mikla hita og þrýsting sem liggur næst kvikuhólfum. Verkefnið gengur einnig út á að skapa einstaka aðstöðu til eldfjallarannsókna þar sem vísindamenn munu í fyrsta skipti fá beinan aðgang að kviku. Möguleikarnir sem í því felast geta breytt skilningi okkar á hegðun eldfjalla og er það von vísindamanna KMT að hægt verði að þróa aðferðir til að stórbæta eldgosaspár.


KMT er samstarfsverkefni íslenskra og erlendra vísindamanna og verkfræðinga með höfuðstöðvar á Íslandi. Með þeim stuðningi sem tryggður var með samkomulaginu er KMT vel í stakk búið til að halda áfram því brautryðjendastarfi að þróa bættar aðferðir til jarðhitavinnslu og að byggja upp rannsóknarinnviði sem munu valda straumhvörfum í rannsóknum og skilningi okkar á eldfjöllum.


Einstakt á heimsvísu

Eimur hefur í gegnum tíðina stutt við verkefnið eftir fremsta megni og fagnar þessum áfanga.


„Krafla Magma Testbed er gríðarlega spennandi verkefni með heimahöfn í Þingeyjarsveit. Það gæti fært með sér miklar byltingar í þekkingu okkar í eldfjalla- og kvikufræðum og á orkuvinnslu úr jarðhitageymum sem liggja nærri kviku. Þarna eru tækifæri fyrir Norðurland til að vera í farabroddi á heimsvísu í þessum málum og mikilvægt að fólk og fyrirtæki styðji eftir megni við þetta metnaðarfulla ævintýri sem þarna er í uppsiglingu“, segir Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri hjá Eimi. 




Deila frétt

11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi
Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 9. september 2025
Eimur hefur fengið öflugan liðsstyrk í Alessöndru Schnider sem bætist nú í hópinn og mun starfa á Norðurlandi vestra með aðsetur á Sauðárkróki. Alessandra lauk nýverið doktorsnámi í líffræði með áherslu á þróunarvistfræði í sameiginlegu námi Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands. ,,Við erum mjög spennt að fá Alessöndru til liðs við okkur hjá Eimi, og verður hennar þekking og reynsla til að efla starfsemi félagsins enn frekar á Norðurlandi vestra”, segir Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri Eims. Alessandra er með meistarapróf í erfðafræði og líffræðilegri mannfræði frá Háskólanum í Zürich í Sviss og BS próf í líffræði frá sama skóla. Á ferli sínum hefur Alessandra sinnt fjölbreyttum verkefnum tengdum fiskrannsóknum, náttúruvernd og vísindamiðlun, meðal annars með því að stofna og reka miðlunarverkefnið Ice Fish Research og framleiða hlaðvarpið Fiskaspjall sem fjallar um íslenskar fiskrannsóknir. Alessandra hefur kennt við Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands og unnið að fjölmörgum rannsóknarverkefnum og fengið til þess styrki. Hún hefur jafnframt birt vísindagreinar og flutt erindi á fjölda ráðstefna hérlendis og erlendis. ,,Það er dýrmætt að fá tækifæri til að nýta þekkingu mína í samfélagi sem tók vel á móti mér fyrir sex árum. Skagafjörður er orðið heimili mitt og mér þykir mikilvægt að geta unnið að verkefnum sem geta haft raunveruleg áhrif og stuðlað að jákvæðum breytingum. Menntun mín og reynsla hefur gefið mér sterka tengingu við náttúruna og ég vona að geta lagt mitt af mörkum með lausnum sem nýta auðlindir á ábyrgan hátt og vernda um leið hina einstöku náttúru Íslands”, segir Alessandra Schnider. Alessandra mun hefja störf 3. nóvember næstkomandi og bjóðum við hana velkomna til starfa. Starfið var auglýst þann 27. júní s.l. og bárust 18 umsóknir. Ráðningarferlið var unnið í samstarfi við ráðningafyrirtækið Hagvang.
3. júlí 2025
Eimur kynnir með stolti gagnvirkt olíumælaborð