22. október 2024

Ragnhildur og Sigurður ráðin til Eims

Tvö ný störf á Norðurlandi vestra

Eimur hefur ráðið Ragnhildi Friðriksdóttur og Sigurð Líndal Þórisson sem verkefnastjóra félagsins á Norðurlandi vestra.


Ragnhildur býr yfir mikilli reynslu á innlendum og erlendum vettvangi. Hún hefur unnið við fjölbreytt verkefni tengd sjálfbærni, nýsköpun, auðlindanýtingu, byggðaþróun og sjávarútveg, bæði fyrir stofnanir og félagasamtök á borð við Matís og World Wildlife Fund (WWF) í Þýskalandi og býr yfir víðtækri reynslu í að leiða rannsóknir, fræðsluverkefni og samræmingu við fjölbreytta hagaðila á sviði umhverfismála.


Ragnhildur er með MSc. gráðu í umhverfis- og auðlindafræðum sjávar frá University of York á Englandi og BSc. í líffræði frá Háskóla Íslands. Ragnhildur býr yfir mikilli þekkingu á sjávarvistkerfum og áhrifum loftslagsbreytinga á samfélög og náttúru. Hún hefur jafnframt tekið þátt í stefnumótun og verkefnum tengdum innleiðingu á Evrópureglugerðum í málefnum hafsins.

Áður starfaði Ragnhildur hjá Byggðastofnun þar sem hún var hafði umsjón með verkefnum í tengslum við atvinnu- og byggðaþróun, auk þess að sinna umhverfis- og loftslagsverkefnum stofnunarinnar.


„Ég er þakklát fyrir að fá þetta tækifæri til að nýta þekkingu mína og reynslu í þágu samfélags og atvinnulífs á Norðurlandi. Landshlutinn á heilmikið inni þegar kemur að nýsköpun, atvinnuþróun og auðlindanýtingu og það á ekki síst við um Norðurland vestra, mína heimabyggð, sem nú er hluti af starfssvæði Eims. Ég hlakka mikið til að vinna með öflugu teymi Eims að því að móta spennandi verkefni á svæðinu og virkja með þeim þann kraft og hugvit sem býr í fólki, fyrirtækjum og auðlindum hér allt í kringum okkur”, segir Ragnhildur Friðriksdóttir.


Sigurður býr yfir víðtækri reynslu á sviðum lista, menningar, byggðaþróunar og stefnumótunar, auk stafrænna viðskipta. Hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands, verkefnastjóri Sterkra Stranda á Vestfjörðum og gegnt ábyrgðarmiklum stöðum hjá alþjóðlegum fyrirtækjum eins og Expedia.


Sigurður er með MA-gráðu í menningarstefnumótun og stjórnun frá Birkbeck College, University of London, auk leikaraprófs frá Arts Educational London School of Drama. Með þessu bakgrunni hefur hann verið leiðandi á ýmsum sviðum og tekið þátt í stjórnarstörfum á Norðurlandi vestra og verið virkur í samfélagsstörfum.
 

„Við erum gríðarlega heppin að fá þetta öfluga fólks til liðs við okkur hjá Eimi. Með þeim kemur áhersla á þróun nýrra verkefna á Norðurlandi vestra sem snúa að orkuskiptum í samfélagi og atvinnulífi og eflingu hringrásarhagkerfis á svæðinu. Jafnframt efla ráðningarnar samstarf yfir Tröllaskagann sem verður Norðurlandi öllu til mikilla hagsbóta. Við bjóðum þau hjartanlega velkomin í hópinn”, segir Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri hjá Eimi.


Ragnildur hefur störf þann 1. nóvember næstkomandi og Sigurður í byrjun janúar 2025.


Störfin voru auglýst þann 29. ágúst s.l. og bárust þrjátíu umsóknir. Ráðningarferlið var unnið í samstarfi við ráðningafyrirtækið Hagvang.




Deila frétt

17. október 2025
Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og er liður í að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Meðal fundarefna verður: • Hvernig orka, varmi og innviðir skapa ný tækifæri á Bakka • Hvernig hringrásarhagkerfi getur stutt við atvinnuþróun og alþjóðlega ímynd Íslands • Hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í sjálfbærri uppbyggingu Dagskrá: Húsið opnar kl. 12:00 – Skráning og súpuhlaðborð fyrir gesti á Fosshótel Húsavík Ráðstefna kl. 13:00 – 17:00 Fundarliður 1: Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni Fundarliður 2: Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni Fundarliður 3: Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða (Nánari dagskrá verður birt þegar nær dregur) Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið á Bakka fyrir hádegi frá kl. 10:30 - 12:00 þann 20. nóvember og er sú ferð opin öllum. Rútan fer frá Fosshótel á Húsavík og er nauðsynlegt að skrá sig því það er takmarkað pláss. Ráðstefnan er opin öllum en skráning er nauðsynleg - www.eimur.is/bakkiradstefna
30. september 2025
Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.
11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi