19. desember 2025

Eimur og Iðnver skrifa undir samning um leigu á hreinsibúnaði fyrir fráveitu frá sláturhúsi

Eimur hefur skrifað undir samning við Iðnver ehf. um leigu á færanlegum hreinsibúnaði fyrir fráveituvatn frá iðnaði. Fyrsta verkefnið verður hreinsun á iðnaðarvatni frá sláturhúsi á Norðurlandi, en búnaðinn má einnig nýta við hreinsun fráveitu frá öðrum fyrirtækjum. Samningurinn er liður í verkefninu LIFE ICEWATER, sem er eitt stærsta styrkta umhverfisverkefni sem Ísland hefur tekið þátt í.

Eimur mun setja upp og reka færanlegt hreinsivirki sem meðhöndlar fráveituvatn frá matvælavinnslu. Búnaðurinn er sérstaklega hannaður fyrir iðnaðarvatn og gerir kleift að sýna í verki ávinning af bættri hreinsun fráveitu frá sláturhúsum eða annarri matvælavinnslu, bæði með tilliti til umhverfisáhrifa og verðmætasköpunar.

Í samstarfi við Orkuveitu Húsavíkur og Gefn verður sótt lífrænt efni úr fráveitu frá matvælaiðnaði og það greint nánar. Fita sem fellur til við hreinsunina verður nýtt af Gefn til framleiðslu á lífdísli, en annað lífrænt efni verður tekið til frekari greiningar. Þar verður meðal annars metið orkugildi efnisins og skoðaðir möguleikar á metanframleiðslu.

Samningurinn við Iðnver felur jafnframt í sér tæknilega samvinnu við uppsetningu, gangsetningu og rekstur búnaðarins, sem mun skila dýrmætum gögnum og reynslu fyrir áframhaldandi þróun lausna á sviði hreinsunar iðnaðarfráveitu á Íslandi.

Deila frétt

Grænn iðngarður á Bakka
18. desember 2025
Undanfarin ár hefur Eimur sinnt þróun græns iðngarðs á Bakka í samstarfi við Norðurþing, Landsvirkjun, Orkuveitu Húsavíkur og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Í þeirri vinnu voru dregnir saman helstu styrkleikar og tækifæri svæðisins, þar á meðal um kosti Bakka fyrir varmasækinn iðnað, möguleika í nýtingu glatvarma og mikilvægi samhæfðrar uppbyggingar iðnaðar og samfélags. Nú stendur yfir ráðning á nýjum verkefnastjóra sem tekur við keflinu af Eimi sem mun starfa undir hatti þróunarfélagsins Grænn iðngarður á Bakka ehf. Á þessum tímamótum hefur fyrrum verkefnastjóri græns iðngarðs tekið saman skýrslu um afrakstur verkefnisins hingað til. Skýrsluna má nálgast undir útgefið efni hér á vefsíðu Eims. Í skýrslunni er dregin upp mynd af stöðu mála, áskorunum, tækifærum og forsendum fyrir áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu, ásamt heildstæðri framtíðarsýn fyrir Bakka. Skýrslan markar jafnframt þáttaskil fyrir þróun svæðisins þar sem farið er frá hugmyndavinnu og stefnumótun yfir í markvissa framkvæmd, í kjölfar stofnunar þróunarfélagins.
Laust starf hjá Eimi
8. desember 2025
Eimur leitar að öflugum og hugmyndaríkum einstaklingi til að vinna að kynningarmálum, miðlun og viðburðahaldi á vegum félagsins. Viðkomandi kemur að fjölmörgum og krefjandi verkefnum og verður hluti af skemmtilegum vinnustað. Verkefnastjóri vinnur náið með starfsfólki og samstarfsaðilum Eims. Um tímabundið starf er að ræða, út árið 2026 með möguleika á framlengingu. Helstu verkefni og ábyrgð Umsjón markaðs- og kynningarmála fyrir Eim Efnissköpun og miðlun gegnum vef og samfélagsmiðla Markaðsgreiningar, stefnumótun og eftirfylgni Skipulag og framkvæmd viðburða Fjölbreytt samskipti við samstarfsaðila og aðra hagaðila Skrifstofustjórn Stuðningur við gerð bókhalds Vinna með teyminu að þróun nýrra verkefna á starfssvæði Eims Þátttaka í fjölbreyttum verkefnum vinnustaðarins Menntunar og hæfniskröfur Háskólamenntun sem nýtist í starfi Reynsla af upplýsingamiðlun, markaðssetningu og verkefnastjórnun Góð þekking á vefumsjón, samfélagsmiðlum og stafrænni markaðssetningu Reynsla af greinarskrifum, gerð kynningarefnis og miðlunar Hæfni til að koma fram og halda kynningar er kostur Mjög góð færni í íslensku og ensku, bæði í rituðu og töluðu máli Góð almenn tölvufærni og hæfni til að tileinka sér nýjungar Frumkvæði, skipulagshæfni, sjálfstæði og sveigjanleiki í vinnubrögðum Rík hæfni í samskiptum og samstarfi, vönduð og öguð vinnubrögð Starfstöð verkefnastjóra er á Akureyri. Starfið krefst ferðalaga um starfssvæðið og býður upp á sveigjanlegan vinnutíma. Eimur er samstarfsverkefni sem snýr að bættri nýtingu auðlinda á Norðurlandi með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Að verkefninu standa Landsvirkjun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur. Sótt er um starfið á www.mognum.is Nánari upplýsingar veita Telma Eiðsdóttir; telma@mognum.is og Sigríður Ólafsdóttir; sigga@mognum.is Umsóknarfrestur er til 18. desember 2025 Með umsókn skal fylgja ítarleg ferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni umsækjanda.
27. nóvember 2025
Loftslags- og orkusjóður hefur úthlutað rúmlega 1,3 milljörðum króna til 109 verkefna sem miða að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eða fela í sér nýsköpun á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála. Eimur er meðal þeirra sem hljóta styrk að þessu sinni. Verkefni ber heitið Nýting lífræns efnis úr fráveituvatni til orkuframleiðslu . Það felur í sér uppsetningu færanlegs hreinsibúnaðar við sláturhús Kjarnafæðis/Norðlenska á Húsavík, í samstarfi við Orkuveitu Húsavíkur og Kjarnafæði Norðlenska. Markmið verkefnisins er að sýna fram á kosti þess að koma upp forhreinsivirki fyrir fráveituvatn frá matvælafyrirtækjum, draga úr lífrænu álagi og nýta efni sem annars færu til spillis, meðal annars til framleiðslu á lífdísil og lífgasi í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Gefn . Verkefnið er fyrst og fremst ætlað sem sýnidæmi sem getur orðið stjórnvöldum og fyrirtækjum hvatning til frekari aðgerða í fráveitumálum. Með því að hreinsa vatnið þar sem mengunin fellur til skapast betri möguleikar til að sækja verðmæt efni í fráveituna, auk þess sem álag á innviði sveitarfélaga minnkar verulega. Verkefnið er einnig hluti af ICEWATER verkefninu, sem að hluta er fjármagnað af LIFE styrktarsjóði Evrópusambandsins. Með styrknum frá Loftslags- og orkusjóði er tryggt að hefja uppsetningu búnaðarins fyrir sláturtíð 2026. Við hlökkum til að segja frá framgangi verkefnisins. Nánar um úthlutun Loftslags- og orkusjóðs og þau 109 verkefni sem hlutu styrk má finna á vef sjóðsins.