28. ágúst 2024

Eimur vex í vestur

Aukin tækifæri til atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar

Bakhjarlar Eims, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Landsvirkjun, Samtök sveitarfélaga- og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur, ásamt Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra undirrituðu í dag samkomulag um inngöngu samtakana í Eim. Eimur hefur það meginmarkmið að bæta nýtingu auðlinda með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Nú spannar starfsvæði félagsins allt Norðurland.


Með aðild SSNV nær starfssvæði Eims yfir allt Norðurland. Mikil tækifæri eru fólgin í vexti Eims til vesturs. Landshlutinn er mikil matarkista, með framleiðslu á landbúnaðarvörum og öflugri útgerð. Þá er starfsemi Landsvirkjunar umtalsverð á svæðinu og útlit er fyrir aukna orkuvinnslu á Blöndusvæði í náinni framtíð.


Félagið Eimur var stofnað árið 2016 og hefur sinnt verkefnum sem snúa að fjölnýtingu jarðvarma, stuðningi við nýsköpun, orkuskiptum og innleiðingu hringrásarhagkerfis t.a.m. í iðnaði. Í dag starfa fimm hjá Eimi, og með stækkuninni verða ráðnir tveir nýir starfsmenn með skrifstofu á Norðurlandi vestra. Eimur var fyrirmyndin að stofnun sambærilegra verkefna, Orkídeu á Suðurlandi, Bláma á Vestfjörðum og Eygló á Austurlandi.


Eimur miðar að því að leiða saman fólk og fyrirtæki til samstarfs um tilraunir, rannsóknir og þróunarverkefni á sviði orku-, auðlinda-, og loftslagsmála, meðal annars gegnum alþjóðleg samstarfsverkefni. Þetta er besta leiðin til þess að flytja inn þekkingu á því hvernig aðrar þjóðir takast á við áskoranir samtímans, og sú þekking er svo nýtt til að gera slíkt hið sama hér innanlands.


 

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:

„Það er mikið gleðiefni að undirrita stækkun á samstarfssvæði Eims yfir á Norðurland-vestra í dag. Við höfum lagt á það áherslu undanfarin tvö ár að styrkja og styðja við nýsköpunarstarfsemi um land allt. Samvinna ráðuneytisins við landshlutasamtökin og Landsvirkjun í svæðisbundnum samstarfsverkefnum um nýsköpun hefur skilað margfalt meira fjármagni inn á svæðin heldur en við höfum sett inn. Það skiptir máli að nýta hugvit og sköpunarkraft heima í héraði.“



Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Eimur hefur sýnt það í verki á undanförnum árum að góð og vel skilgreind samvinna getur verið lykill að árangri í loftslagsmálum. Með stækkun starfsemi Eims yfir á Norðurland vestra verða til fleiri og fjölbreyttari tækifæri til atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar á landsvæðinu. Það er öllum í hag að nýta auðlindir okkar betur, hvort sem þær tengjast orkuvinnslu eða hliðarstraumum iðnaðar og landbúnaðar. Það er mikill fengur að fá SSNV inn í verkefnið, enda eru tækifærin í landshlutanum fjölbreytt og spennandi. Við hlökkum til samstarfsins.“



Katrín M Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri SSNV:


„Við erum að stíga mikilvægt skref. Nýsköpun er grundvöllur efnahagslegrar velgengni í nútíma samfélagi. Hugvit einstaklinga er mikilvægasta uppspretta nýsköpunar og hér á Norðurlandi vestra höfum við aðgengi að fjölbreyttum auðlindum sem hægt er að nýta til aukinnar verðmætasköpunar. Með tilkomu Eims inn á svæðið getum við virkjað þau fjölmörgu tækifæri sem hér leynast á markvissari hátt en áður“.


Eimur fagnar þessu samkomulagi og auknu samstarfi yfir Tröllaskagann enda mikill kraftur sem býr á Norðurlandinu í heild. 



Deila frétt

3. júlí 2025
Eimur kynnir með stolti gagnvirkt olíumælaborð
3. júlí 2025
Akureyrarbær og atNorth hafa undirritað samkomulag um afhendingu glatvarma frá gagnaverinu ICE03 að Hlíðarvöllum í samvinnu við Eim, sem leiddi vinnu við samningsgerðina. Glatvarminn verður afhentur án endurgjalds til þróunarverkefna í samræmi við áherslur Akureyrarbæjar um sjálfbæra þróun og orkunýtingu. Framkvæmdum við 16 milljarða króna stækkun gagnavers atNorth á Akureyri miðar vel og er fyrri áfangi nú tilbúinn í rekstur. Samhliða stækkun gagnavers verður reist þjónustuhús fyrir ört stækkandi hóp starfsmanna félagsins á Akureyri. Fyrsta skóflustungan var tekin í morgun við hátíðlega athöfn. Viðstaddir voru fulltrúar bæjarstjórnar Akureyrar, starfsmenn atNorth, verktakar og aðrir gestir. Nýja þjónustuhúsið verður vestan við núverandi byggingar á athafnasvæði atNorth og er ráðgert að húsið verði tekið í notkun á næsta ári. Anna Kristín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar og nýsköpunar hjá atNorth, hélt um skófluna í morgun og tók fyrstu skóflustunguna ásamt starfsfólki félagsins. „Umsvifin á Akureyri hafa aukist hröðum skrefum og ljóst að við þurfum að reisa nýja þjónustubyggingu til að tryggja framúrskarandi aðstöðu til framtíðar fyrir ört stækkandi starfsmannahóp okkar. Auk mikils fjölda verktaka sem vinna að stækkun rekstursins, erum við með um 80 fasta starfsmenn á Íslandi og þriðjungur þeirra er á Akureyri.“ Samhliða stækkuninni hafa Akureyrarbær og atNorth samið um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu til samfélagsverkefna á Akureyri, m.a. til upphitunar á nýju gróðurhúsi sem reist verður og rekið á samfélagslegum forsendum. Auk bæjarins og atNorth koma Ferro Zink og Gróðrarstöð Akureyrar að verkefninu, en markmiðið er m.a. að skapa lærdómsumhverfi til vistvænnar ræktunar fyrir nemendur á grunn- og framhaldsskólastigi á Akureyri. Vonir standa til að gróðurhúsið verði tilbúið til notkunar strax í haust og ungir Akureyringar fái þá tækifæri til að kynnast sjálfbærri matvælaframleiðslu og betri orkunýtingu í verki. „Við leggjum mikla áherslu á að Akureyri verði leiðandi í orkunýtingu og sjálfbærni,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. „Þetta samstarf við atNorth og Eim er lykilskref í þeirri vegferð og þeir möguleikar sem fylgja samkomulagi um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu eru afar mikilvægir fyrir bæjarfélagið. Sá samningur sem undirritaður var í dag er í takti við þær væntingar sem við höfðum um áhrif þeirra innviðaframkvæmda sem ráðist var í til að tryggja raforkuflutning inn á svæðið.“ Eimur leiddi samningsgerðina fyrir hönd bæjarins. „Við hjá Eimi sjáum þetta sem mikilvægt skref í því að virkja ónýttar auðlindir til raunverulegrar verðmætasköpun á svæðinu. Þessi samningur er einstakur á Íslandi og sýnir greinilega hverju hægt er að ná fram þegar sveitarfélög, fyrirtæki og nýsköpun vinna saman að settum umhverfismarkmiðum“, segir Karen Mist Kristjánsdóttir, forstöðumaður orku og sjálfbærni hjá Eimi. Alls rekur atNorth átta gagnaver á Norðurlöndum, þar af þrjú á Íslandi. Tvö til viðbótar eru í smíðum í Danmörku og Finnlandi, auk þess sem stækkun gagnaversins á Fitjum í Reykjanesbæ er í fullum gangi. Starfsmenn atNorth eru rúmlega 200.
27. júní 2025
Eimur óskar eftir að ráða verkefnastjóra á Norðurlandi Vestra í tímabundið starf út árið 2026, með möguleika á framlengingu. Við leitum að öflugum einstaklingi til að móta og leiða spennandi þróunarverkefni á Norðurlandi vestra á sviði hringrásarhagkerfisins, orkuskipta og nýsköpunar. Verkefnastjóri vinnur náið með framkvæmdastjóra Eims og eftir atvikum öðru starfsfólki og samstarfsaðilum, og ber ábyrgð á framgangi valinna verkefna. Starfsstöð verkefnastjóra er á Norðurlandi vestra, eftir hentugleikum á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd eða Sauðárkróki. Helstu verkefni Verkefnastjórn valinna verkefna Eims með áherslu á innleiðingu hringrásarhagkerfis, orkuskipti, orkunýtni og verðmætasköpun Þróa öflugt samstarf með hagsmunaaðilum, sérstaklega á Norðurlandi vestra Vinna að mótun og fjármögnun nýrra verkefna á starfssvæði Eims Taka virkan þátt í umsóknaskrifum í innlenda og erlenda sjóði Aðstoð við að koma verkefnum Eims á framfæri Teymisvinna með Bláma, Orkídeu og Eygló Hæfnikröfur Háskólamenntun sem nýtist í starfi, raunvísinda- eða tæknimenntun er kostur Frumkvæði, skipulagshæfni og sjálfstæði vinnubrögðum Reynsla af gerð styrkumsókna í innlenda og erlenda sjóði er kostur Reynsla af verkefnastjórn er kostur Rík samskiptahæfni og færni í að koma frá sér efni Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti Eimur er samstarfsverkefni sem snýr að bættri nýtingu auðlinda á Norðurlandi með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Að verkefninu standa Landsvirkjun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur. Með umsókn skal fylgja ferilskrá ásamt kynningarbréfi. Nánari upplýsingar Geirlaug Jóhannsdóttir, geirlaug@hagvangur.is Inga S. Arnardóttir, inga@hagvangur.is