19. ágúst 2024
Orkusjóður úthlutar 20 milljónum í uppbyggingu metanvers á Dysnesi

Á föstudaginn voru kynntar úthlutanir úr Orkusjóð, en sjóðurinn úthlutaði 1,342 milljónum króna í almenna styrki til orkuskipta á þessu ári og hefur heildarupphæð fyrir almenna auglýsingu aldrei verið hærri. Verkefnin sem hlutu styrk eru af ýmsum stærðum og koma til framkvæmda víða um land og hafa það að markmiði að draga hratt úr losun.
Eimur hlaut 20 milljón kr. í styrk til að vinna áfram að uppbyggingu metanvers á Dysnesi, og tryggja þannig stöðugt framboð að metangasi á samgöngutæki á Norðurlandi.
Orkuskipti hafa verið í brennidepli undanfarin misseri. Þau eru óhjákvæmileg ef Ísland ætlar að standast skuldbindingar sínar í loftslagsmálum um 55% samdrátt í losun 2030, og jarðefnaeldsneytislaust Ísland 2040. Til að ná þessu markmiði þarf að framleiða meiri orku á Íslandi, en í umræðunni hefur nánast verið einblínt á aukna raforkuframleiðslu til þess að anna þessum orkuskiptum, þar sem því er ýmist hlaðið beint á rafhlöður eða umbreytt í rafeldsneyti.
Önnur leið, sem umtalsvert minni gaumur hefur verið gefinn er að framleiða lífeldsneyti úr lífmassa, sem er afar vannýtt auðlind á Íslandi og getur leikið mun stærra hlutverk í orkuskiptum.
,,Það býr mikil orka í lífmassanum á svæðinu sem nýta má til orkuskipta, en raunhæft er að líforka geti staðið undir um 10% af orkuþörf samgangna svæðisins”, segir Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri hjá Eimi.
Eimur vinnur að uppbyggingu á metanveri í góðu samstarfi við Líforkuver ehf.
sem undirbýr vinnslu fyrir dýrahræ á Dysnesi. Að auki verður unnið með Orkídeu, systurverkefni Eims á Suðurlandi, sem hafa unnið að uppbyggingu metanvers á suðurlandsundirlendinu og Vistorku
á Akureyri.
Sjá nánar um úthlutun úr orkusjóði á heimasíðu Orkustofnunar.
Deila frétt

Eimur hefur fengið öflugan liðsstyrk í Alessöndru Schnider sem bætist nú í hópinn og mun starfa á Norðurlandi vestra með aðsetur á Sauðárkróki. Alessandra lauk nýverið doktorsnámi í líffræði með áherslu á þróunarvistfræði í sameiginlegu námi Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands. ,,Við erum mjög spennt að fá Alessöndru til liðs við okkur hjá Eimi, og verður hennar þekking og reynsla til að efla starfsemi félagsins enn frekar á Norðurlandi vestra”, segir Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri Eims. Alessandra er með meistarapróf í erfðafræði og líffræðilegri mannfræði frá Háskólanum í Zürich í Sviss og BS próf í líffræði frá sama skóla. Á ferli sínum hefur Alessandra sinnt fjölbreyttum verkefnum tengdum fiskrannsóknum, náttúruvernd og vísindamiðlun, meðal annars með því að stofna og reka miðlunarverkefnið Ice Fish Research og framleiða hlaðvarpið Fiskaspjall sem fjallar um íslenskar fiskrannsóknir. Alessandra hefur kennt við Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands og unnið að fjölmörgum rannsóknarverkefnum og fengið til þess styrki. Hún hefur jafnframt birt vísindagreinar og flutt erindi á fjölda ráðstefna hérlendis og erlendis. ,,Það er dýrmætt að fá tækifæri til að nýta þekkingu mína í samfélagi sem tók vel á móti mér fyrir sex árum. Skagafjörður er orðið heimili mitt og mér þykir mikilvægt að geta unnið að verkefnum sem geta haft raunveruleg áhrif og stuðlað að jákvæðum breytingum. Menntun mín og reynsla hefur gefið mér sterka tengingu við náttúruna og ég vona að geta lagt mitt af mörkum með lausnum sem nýta auðlindir á ábyrgan hátt og vernda um leið hina einstöku náttúru Íslands”, segir Alessandra Schnider. Alessandra mun hefja störf 3. nóvember næstkomandi og bjóðum við hana velkomna til starfa. Starfið var auglýst þann 27. júní s.l. og bárust 18 umsóknir. Ráðningarferlið var unnið í samstarfi við ráðningafyrirtækið Hagvang.