28. september 2021

Átta þátttökuteymi í Vaxtarrými

Átta kraftmikil nýsköpunarteymi af Norðurlandi hafa verið valin til þátttöku í viðskiptahraðalinn Vaxtarrými sem mun hefja göngu sína 4. október næstkomandi. Fjölmargar umsóknir bárust víðsvegar af Norðurlandi af fjölbreyttum verkefnum.

Vaxtarrými er fyrsta verkefni nýstofnaðra regnhlífasamtaka nýsköpunar á Norðurlandi en að þeim koma SSNV, SSNE, Eimur, Nýsköpun í norðri, Hraðið og RATA. Stuðningsaðili Vaxtarrýmis er Fallorka. Norðanátt byggir á hringrás árlegra viðburða þar sem frumkvöðlar fá tækifæri til að þróa hugmyndir sínar, vaxa og ná lengra. Hringrásin samanstendur af lausnamóti, vinnusmiðju, viðskiptahraðli og fjárfestamóti.

Markmið Vaxtarrýmisins er að hjálpa teymunum að vaxa hratt á þessum átta vikum og á þeirra forsendum. Dagskráin er sérhönnuð með þarfir þátttökuteymanna í huga. Teymin hitta reynslumikla leiðbeinendur, frumkvöðla, fjárfesta og stjórnendur fyrirtækja á Norðurlandi og víða, sitja vinnustofur og fræðslufundi og mynda sterkt tengslanet sín á milli. Hraðallinn fer að mestu leyti fram á netinu en jafnframt hittast teymin fjórum sinnum meðan á hraðlinum stendur á vinnustofum á völdum stöðum á Norðurlandi.

Norðanátt hlakka til samstarfsins og að fá að fylgjast með þessum öflugu frumkvöðlum vaxa með vindinn í bakið.

Þátttakendur eru eftirfarandi:

Mýsköpun
Mýsköpun snýr að tilraunaræktun á smáþörungnum til að þróa og framleiða spirulina duft sem fæðubótaefni.

Plastgarðar
Plastgarðar þróa heyrúllupoka sem hægt er að nota ár eftir ár og skapa þannig hringrásarhagkerfi landbúnaðarplasts.

Íslandsþari
Íslandsþari hyggst nýta jarðhita til að vinna verðmætar afurðir úr stórþara sem vex í miklu magni við Norðurland. Verkefnið byggist á sjálfbærni, fullnýtingu og fullvinnslu hráefnisins í sátt við náttúruna.

Mýsilica
MýSilica  framleiðir hágæða húðvörur úr náttúrulegum kísil ásamt öðrum steinefnum sem fyrirfinnast í nærumhverfinu. Fyrirtækið nýtir auðlindir sem eru í dag ónýttar og skapa þannig verðmæti.


Nægtarbrunnur Náttúrunnar
Nægtarbrunnur náttúrunnar er nýsköpunarfyrirtæki sem hefur það að markmiði að þróa og hefja framleiðslu nýrra drykkjarvara úr staðbundnu hráefni, til dæmis grasöl og rabarbarafreyðivín.

Icelandic Eider
Icelandic Eider sérhæfir sig í fullvinnslu æðardúns og þróun á útivistarvörum. Um er að ræða sjálfbærar vörur þar sem dúnninn fellur til af villtum fuglum og til hreinsunar er notast við jarðvarma af svæðinu.

Austan Vatna
Austan Vatna framleiðir Chimicurri sósur og fullvinnur kjötafurðir. Notast er við staðbundin hráefni og lögð áhersla á mikilvægi samspils náttúru og dýra.

Ektafiskur
Ektafiskur framleiðir næringarríkan saltstein fyrir búfé úr afsalti sem fellur til við söltun á fiski.


Deila frétt

11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi
Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 9. september 2025
Eimur hefur fengið öflugan liðsstyrk í Alessöndru Schnider sem bætist nú í hópinn og mun starfa á Norðurlandi vestra með aðsetur á Sauðárkróki. Alessandra lauk nýverið doktorsnámi í líffræði með áherslu á þróunarvistfræði í sameiginlegu námi Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands. ,,Við erum mjög spennt að fá Alessöndru til liðs við okkur hjá Eimi, og verður hennar þekking og reynsla til að efla starfsemi félagsins enn frekar á Norðurlandi vestra”, segir Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri Eims. Alessandra er með meistarapróf í erfðafræði og líffræðilegri mannfræði frá Háskólanum í Zürich í Sviss og BS próf í líffræði frá sama skóla. Á ferli sínum hefur Alessandra sinnt fjölbreyttum verkefnum tengdum fiskrannsóknum, náttúruvernd og vísindamiðlun, meðal annars með því að stofna og reka miðlunarverkefnið Ice Fish Research og framleiða hlaðvarpið Fiskaspjall sem fjallar um íslenskar fiskrannsóknir. Alessandra hefur kennt við Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands og unnið að fjölmörgum rannsóknarverkefnum og fengið til þess styrki. Hún hefur jafnframt birt vísindagreinar og flutt erindi á fjölda ráðstefna hérlendis og erlendis. ,,Það er dýrmætt að fá tækifæri til að nýta þekkingu mína í samfélagi sem tók vel á móti mér fyrir sex árum. Skagafjörður er orðið heimili mitt og mér þykir mikilvægt að geta unnið að verkefnum sem geta haft raunveruleg áhrif og stuðlað að jákvæðum breytingum. Menntun mín og reynsla hefur gefið mér sterka tengingu við náttúruna og ég vona að geta lagt mitt af mörkum með lausnum sem nýta auðlindir á ábyrgan hátt og vernda um leið hina einstöku náttúru Íslands”, segir Alessandra Schnider. Alessandra mun hefja störf 3. nóvember næstkomandi og bjóðum við hana velkomna til starfa. Starfið var auglýst þann 27. júní s.l. og bárust 18 umsóknir. Ráðningarferlið var unnið í samstarfi við ráðningafyrirtækið Hagvang.
3. júlí 2025
Eimur kynnir með stolti gagnvirkt olíumælaborð