9. nóvember 2023
Fyrsti verkefnafundur RECET í Slóveníu

Fyrsti verkefnisfundur í LIFE-verkefninu RECET (Rural Europe for the Clean Energy Transition), var haldinn í Postojna í Slóveníu, 7. og 8. nóvember. Fyrri daginn lögðu þátttakendur saman línurnar fyrir verkefnið og þann seinni leiddu starfmenn Energiakademiet á Samsö í Danmörku hópinn saman í þjálfun um leiðir til að virkja fólk til þátttöku í vinnu um orku- og loftslagsmarkmið og við smíði loftslagsáætlana á svæðum þátttakenda.
Hópurinn samanstendur af níu þátttakendum frá fimm Evrópulöndum. Frá Íslandi eru það Íslensk NýOrka
og Eimur ásamt Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra - SSNE
og Vestfjarðastofa
, frá Danmörku Samsø Energiakademi, frá Slóveníu byggðaþróunarskrifstofan Zavod Iskriva,
og sveitarfélgið Občina Postojna
, frá Spáni eyjaráðið Consell Insular de Menorca
, og frá Svíþjóð Energikontor Syd.
Takk fyrir frábæra daga, við snúum aftur full innblásturs!
Deila frétt

Eimur hefur hlotið tvo styrki að upphæð 500 þúsund krónur hvorn, annars vegar frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra og hins vegar frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra, til áframhaldandi þróunar sniglaræktarverkefnisins , en næsti áfangi þess er námsferð til Írlands. Verkefnið miðar að því að þróa sniglarækt sem vistvæna og sjálfbæra hliðarbúgrein í íslenskum landbúnaði, með sérstakri áherslu á nýtingu glatvarma og lífrænna hliðarstrauma sem annars fara til spillis. Markmiðið er að byggja upp þekkingu, meta fýsileika ræktunar við íslenskar aðstæður og skapa ný tækifæri til verðmætasköpunar í dreifðum byggðum. Styrkirnir styðja við næsta áfanga verkefnisins sem felur meðal annars í sér staðnám á Írlandi, þar sem íslenskir bændur, ráðgjafar og verkefnisstjóri munu kynnast starfandi sniglabúum og hagnýtum aðferðum í sniglarækt. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og erlenda sérfræðinga og fellur vel að áherslum sóknaráætlana landshlutanna um nýsköpun, sjálfbærni og fjölbreyttara atvinnulíf. Jafnframt hlaut Ísponica styrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra til verkefnisins HringrásHús: Innovating Food Systems , þar sem sniglarækt er skoðuð sem hluti af hringrásarlausnum í matvælaframleiðslu. Í því verkefni er meðal annars unnið með Inis Escargot á Írlandi, sem einnig er samstarfsaðili Eims í sniglaræktarverkefninu og viðkomustaður námsferðarinnar. Verkefnin styðja þannig hvort annað með miðlun þekkingar og þróun sjálfbærra lausna fyrir jákvæða byggðaþróun. Eimur þakkar Uppbyggingarsjóðum Norðurlands vestra og eystra fyrir stuðninginn.

Eimur hefur skrifað undir samning við Iðnver ehf. um leigu á færanlegum hreinsibúnaði fyrir fráveituvatn frá iðnaði. Fyrsta verkefnið verður hreinsun á iðnaðarvatni frá sláturhúsi á Norðurlandi, en búnaðinn má einnig nýta við hreinsun fráveitu frá öðrum fyrirtækjum. Samningurinn er liður í verkefninu LIFE ICEWATER , sem er eitt stærsta styrkta umhverfisverkefni sem Ísland hefur tekið þátt í. Eimur mun setja upp og reka færanlegt hreinsivirki sem meðhöndlar fráveituvatn frá matvælavinnslu. Búnaðurinn er sérstaklega hannaður fyrir iðnaðarvatn og gerir kleift að sýna í verki ávinning af bættri hreinsun fráveitu frá sláturhúsum eða annarri matvælavinnslu, bæði með tilliti til umhverfisáhrifa og verðmætasköpunar. Í samstarfi við Orkuveitu Húsavíkur og Gefn verður sótt lífrænt efni úr fráveitu frá matvælaiðnaði og það greint nánar. Fita sem fellur til við hreinsunina verður nýtt af Gefn til framleiðslu á lífdísli, en annað lífrænt efni verður tekið til frekari greiningar. Þar verður meðal annars metið orkugildi efnisins og skoðaðir möguleikar á metanframleiðslu. Samningurinn við Iðnver felur jafnframt í sér tæknilega samvinnu við uppsetningu, gangsetningu og rekstur búnaðarins, sem mun skila dýrmætum gögnum og reynslu fyrir áframhaldandi þróun lausna á sviði hreinsunar iðnaðarfráveitu á Íslandi.

Undanfarin ár hefur Eimur sinnt þróun græns iðngarðs á Bakka í samstarfi við Norðurþing, Landsvirkjun, Orkuveitu Húsavíkur og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Í þeirri vinnu voru dregnir saman helstu styrkleikar og tækifæri svæðisins, þar á meðal um kosti Bakka fyrir varmasækinn iðnað, möguleika í nýtingu glatvarma og mikilvægi samhæfðrar uppbyggingar iðnaðar og samfélags. Nú stendur yfir ráðning á nýjum verkefnastjóra sem tekur við keflinu af Eimi sem mun starfa undir hatti þróunarfélagsins Grænn iðngarður á Bakka ehf. Á þessum tímamótum hefur fyrrum verkefnastjóri græns iðngarðs tekið saman skýrslu um afrakstur verkefnisins hingað til. Skýrsluna má nálgast undir útgefið efni hér á vefsíðu Eims. Í skýrslunni er dregin upp mynd af stöðu mála, áskorunum, tækifærum og forsendum fyrir áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu, ásamt heildstæðri framtíðarsýn fyrir Bakka. Skýrslan markar jafnframt þáttaskil fyrir þróun svæðisins þar sem farið er frá hugmyndavinnu og stefnumótun yfir í markvissa framkvæmd, í kjölfar stofnunar þróunarfélagins.






