19. október 2023

Gjöfult sumarsamstarf um bætta nýtingu hliðarafurða í fiskeldi

Eimur tók í sumar þátt gjöfulu samstarfi við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri í tveimur verkefnum um verðmætasköpun í fiskeldi sem Nýsköpunarsjóður námsmanna hjá Rannís styrkti. Alls fengu fimm stúdentar styrk til að sinna þessum verkefnum. Annað verkefnið sneri að nýtingu blóðs úr eldislaxi, og hitt um auðlindamál og fóðrun í tengslum við uppbyggingu nýs styrjueldis í Ólafsfirði.

„Bæði verkefnin voru mikilvægur liður í að styrkja öflugt samstarf við atvinnulíf, með áherslu á aukna verðmætasköpun og bætta nýtingu auðlinda,“ segir Rannveig Björnsdóttir, dósent við Auðlindadeild sem var leiðbeinandi í báðum verkefnum.

Blóðið — verðmæt hliðarafurð
Önnur rannsóknin laut að söfnun og nýtingu á blóði úr eldislaxi og var unnin með HA í samvinnu við Slippinn-DNG, Samherja fiskeldi í Öxarfirði og Matís. Í verkefninu voru framkvæmdar tilraunir með þurrblæðingu laxa og söfnum á blóði eldislaxa við slátrun, með búnaði sem var sérstaklega hannaður og smíðaður fyrir verkefnið. Næringargildi blóðsins voru rannsökuð ásamt því að gæði og geymsluþol flaka var metið með mismunandi aðferðum, því mikilvægt er að gæði fisksins rýrni ekki í ferlinu.

Stúdentar við Auðlindadeild HA, þau Friðbjörg María Björnsdóttir og Kasper Jan S. Róbertsson unnu tvö verkefni tengd rannsókninni og þriðji hluti verkefnisins var unninn af Helenu Þórdísi Svavarsdóttur meistaranema við Háskóla Íslands. Friðbjörg, sem er á þriðja ári í sjávarútvegsfræði kortlagði þurrblæðingu fiska eftir aflífun. Kasper, sem er á þriðja ári í líftækni, rannsakaði efnainnihald laxablóðs með áherslu á helstu næringarefni. Þá voru einnig rannsökuð áhrif þess að bæta and-storknunarefnum í blóðið við söfnun og að kæla það áður en frekari vinnsla fór fram. Hann tók þátt í þurrblæðingu fiska en hans rannsóknir fóru þó að mestu fram á rannsóknastofum HA. Helena Þórdís rannsakaði gæði flaka þurrblædds fisks samanborið við fisk sem blætt var í kældu ísvatni eins og jafnan er gert. Hún vann hluta verkefnisins í nánu samstarfi við Matís.


Blóðgunarrennan sem var smíðuð í tengslum við rannsóknina.

Slippurinn-DNG hannaði og smíðaði blóðgunarrennu sérstaklega fyrir rannsóknina og starfsfólk Silfurstjörnunnar aðstoðaði við framkvæmd tilrauna. Samstarfið reyndist afar gott og er mikilvægt til áframþróunar hvað varðar nýtingu á blóði úr eldislaxi sem í dag er ónýtt hliðarafurð framleiðslu eldisfisks. Í blóðinu má finna næringarefni sem nýta mætti til dæmis sem bætiefni í fóður og jafnvel matvæli.

Eldi á fiski hefur aukist gríðarlega undanfarin ár og endurspeglar þann vöxt sem hefur átt sér stað um allan heim undanfarna áratugi og hefur lagareldi farið fram úr sjávarútvegi sem helsta framleiðsluaðferð sjávarfangs á heimsvísu. Talið er að um 1000 tonn af blóði falli til árlega á Íslandi og sé enn ekki nýtt og mun það magn halda áfram að aukast ef áfrom landeldisfyrirtækja ná fram að ganga.

Framtíðin í styrjueldi?
Hin rannsóknin snerist um nýtingu vatns við styrjueldi. Ákveðnar tegundir styrju eru í útrýmingarhættu þó svo að þær skili af sér verðmætari afurðum en nokkur önnur fiskitegund. Því er gleðiefni að hafið sé eldi á þessari dýrmætu tegund hér á landi og til mikils að vinna að unnt sé að þróa framleiðsluna með hagkvæmum og sjálfbærum hætti.

Katrín Axelsdóttir og Guðdís Benný Eiríksdóttir, stúdentar í sjávarútvegsfræði nýttu sumarið í að rannsaka í samvinnu við nýstofnað styrjueldi í Ólafsfirði um hvort hægt væri að auka vöxt seiða með auðgun fóðurs og einnig hvernig hámarka mætti nýtingu vatns- og varmaauðlinda á svæðinu við eldið og kom Eimur sérstaklega að þessum þætti.

 
Styrjuseiði að stækka

Niðurstöður benda til þess að hægt sé að auka vöxt seiða með því að auðga fóðrið með íslensku lýsi blandað próteinhrati sem fæst úr þörungum sem framleiddir eru á Íslandi. Þá leiddi skoðun á vatni og varma á svæðinu í ljós að með öflugum varmaskipti væri hægt að nýta affallsvatn frá sundlaugum, fyrirtækjum og íbúðarhúsum til upphitunar á vatni sem hentar eldinu.

Eimur þakkar öllum fyrir gott samstarf í verkefninu og við hlökkum til næstu skrefa. 

Hér má lesa frétt á vefsíðu Háskólans á Akureyri.

 


Deila frétt

3. júlí 2025
Eimur kynnir með stolti gagnvirkt olíumælaborð
3. júlí 2025
Akureyrarbær og atNorth hafa undirritað samkomulag um afhendingu glatvarma frá gagnaverinu ICE03 að Hlíðarvöllum í samvinnu við Eim, sem leiddi vinnu við samningsgerðina. Glatvarminn verður afhentur án endurgjalds til þróunarverkefna í samræmi við áherslur Akureyrarbæjar um sjálfbæra þróun og orkunýtingu. Framkvæmdum við 16 milljarða króna stækkun gagnavers atNorth á Akureyri miðar vel og er fyrri áfangi nú tilbúinn í rekstur. Samhliða stækkun gagnavers verður reist þjónustuhús fyrir ört stækkandi hóp starfsmanna félagsins á Akureyri. Fyrsta skóflustungan var tekin í morgun við hátíðlega athöfn. Viðstaddir voru fulltrúar bæjarstjórnar Akureyrar, starfsmenn atNorth, verktakar og aðrir gestir. Nýja þjónustuhúsið verður vestan við núverandi byggingar á athafnasvæði atNorth og er ráðgert að húsið verði tekið í notkun á næsta ári. Anna Kristín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar og nýsköpunar hjá atNorth, hélt um skófluna í morgun og tók fyrstu skóflustunguna ásamt starfsfólki félagsins. „Umsvifin á Akureyri hafa aukist hröðum skrefum og ljóst að við þurfum að reisa nýja þjónustubyggingu til að tryggja framúrskarandi aðstöðu til framtíðar fyrir ört stækkandi starfsmannahóp okkar. Auk mikils fjölda verktaka sem vinna að stækkun rekstursins, erum við með um 80 fasta starfsmenn á Íslandi og þriðjungur þeirra er á Akureyri.“ Samhliða stækkuninni hafa Akureyrarbær og atNorth samið um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu til samfélagsverkefna á Akureyri, m.a. til upphitunar á nýju gróðurhúsi sem reist verður og rekið á samfélagslegum forsendum. Auk bæjarins og atNorth koma Ferro Zink og Gróðrarstöð Akureyrar að verkefninu, en markmiðið er m.a. að skapa lærdómsumhverfi til vistvænnar ræktunar fyrir nemendur á grunn- og framhaldsskólastigi á Akureyri. Vonir standa til að gróðurhúsið verði tilbúið til notkunar strax í haust og ungir Akureyringar fái þá tækifæri til að kynnast sjálfbærri matvælaframleiðslu og betri orkunýtingu í verki. „Við leggjum mikla áherslu á að Akureyri verði leiðandi í orkunýtingu og sjálfbærni,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. „Þetta samstarf við atNorth og Eim er lykilskref í þeirri vegferð og þeir möguleikar sem fylgja samkomulagi um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu eru afar mikilvægir fyrir bæjarfélagið. Sá samningur sem undirritaður var í dag er í takti við þær væntingar sem við höfðum um áhrif þeirra innviðaframkvæmda sem ráðist var í til að tryggja raforkuflutning inn á svæðið.“ Eimur leiddi samningsgerðina fyrir hönd bæjarins. „Við hjá Eimi sjáum þetta sem mikilvægt skref í því að virkja ónýttar auðlindir til raunverulegrar verðmætasköpun á svæðinu. Þessi samningur er einstakur á Íslandi og sýnir greinilega hverju hægt er að ná fram þegar sveitarfélög, fyrirtæki og nýsköpun vinna saman að settum umhverfismarkmiðum“, segir Karen Mist Kristjánsdóttir, forstöðumaður orku og sjálfbærni hjá Eimi. Alls rekur atNorth átta gagnaver á Norðurlöndum, þar af þrjú á Íslandi. Tvö til viðbótar eru í smíðum í Danmörku og Finnlandi, auk þess sem stækkun gagnaversins á Fitjum í Reykjanesbæ er í fullum gangi. Starfsmenn atNorth eru rúmlega 200.
27. júní 2025
Eimur óskar eftir að ráða verkefnastjóra á Norðurlandi Vestra í tímabundið starf út árið 2026, með möguleika á framlengingu. Við leitum að öflugum einstaklingi til að móta og leiða spennandi þróunarverkefni á Norðurlandi vestra á sviði hringrásarhagkerfisins, orkuskipta og nýsköpunar. Verkefnastjóri vinnur náið með framkvæmdastjóra Eims og eftir atvikum öðru starfsfólki og samstarfsaðilum, og ber ábyrgð á framgangi valinna verkefna. Starfsstöð verkefnastjóra er á Norðurlandi vestra, eftir hentugleikum á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd eða Sauðárkróki. Helstu verkefni Verkefnastjórn valinna verkefna Eims með áherslu á innleiðingu hringrásarhagkerfis, orkuskipti, orkunýtni og verðmætasköpun Þróa öflugt samstarf með hagsmunaaðilum, sérstaklega á Norðurlandi vestra Vinna að mótun og fjármögnun nýrra verkefna á starfssvæði Eims Taka virkan þátt í umsóknaskrifum í innlenda og erlenda sjóði Aðstoð við að koma verkefnum Eims á framfæri Teymisvinna með Bláma, Orkídeu og Eygló Hæfnikröfur Háskólamenntun sem nýtist í starfi, raunvísinda- eða tæknimenntun er kostur Frumkvæði, skipulagshæfni og sjálfstæði vinnubrögðum Reynsla af gerð styrkumsókna í innlenda og erlenda sjóði er kostur Reynsla af verkefnastjórn er kostur Rík samskiptahæfni og færni í að koma frá sér efni Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti Eimur er samstarfsverkefni sem snýr að bættri nýtingu auðlinda á Norðurlandi með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Að verkefninu standa Landsvirkjun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur. Með umsókn skal fylgja ferilskrá ásamt kynningarbréfi. Nánari upplýsingar Geirlaug Jóhannsdóttir, geirlaug@hagvangur.is Inga S. Arnardóttir, inga@hagvangur.is