19. október 2023

Gjöfult sumarsamstarf um bætta nýtingu hliðarafurða í fiskeldi

Eimur tók í sumar þátt gjöfulu samstarfi við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri í tveimur verkefnum um verðmætasköpun í fiskeldi sem Nýsköpunarsjóður námsmanna hjá Rannís styrkti. Alls fengu fimm stúdentar styrk til að sinna þessum verkefnum. Annað verkefnið sneri að nýtingu blóðs úr eldislaxi, og hitt um auðlindamál og fóðrun í tengslum við uppbyggingu nýs styrjueldis í Ólafsfirði.

„Bæði verkefnin voru mikilvægur liður í að styrkja öflugt samstarf við atvinnulíf, með áherslu á aukna verðmætasköpun og bætta nýtingu auðlinda,“ segir Rannveig Björnsdóttir, dósent við Auðlindadeild sem var leiðbeinandi í báðum verkefnum.

Blóðið — verðmæt hliðarafurð
Önnur rannsóknin laut að söfnun og nýtingu á blóði úr eldislaxi og var unnin með HA í samvinnu við Slippinn-DNG, Samherja fiskeldi í Öxarfirði og Matís. Í verkefninu voru framkvæmdar tilraunir með þurrblæðingu laxa og söfnum á blóði eldislaxa við slátrun, með búnaði sem var sérstaklega hannaður og smíðaður fyrir verkefnið. Næringargildi blóðsins voru rannsökuð ásamt því að gæði og geymsluþol flaka var metið með mismunandi aðferðum, því mikilvægt er að gæði fisksins rýrni ekki í ferlinu.

Stúdentar við Auðlindadeild HA, þau Friðbjörg María Björnsdóttir og Kasper Jan S. Róbertsson unnu tvö verkefni tengd rannsókninni og þriðji hluti verkefnisins var unninn af Helenu Þórdísi Svavarsdóttur meistaranema við Háskóla Íslands. Friðbjörg, sem er á þriðja ári í sjávarútvegsfræði kortlagði þurrblæðingu fiska eftir aflífun. Kasper, sem er á þriðja ári í líftækni, rannsakaði efnainnihald laxablóðs með áherslu á helstu næringarefni. Þá voru einnig rannsökuð áhrif þess að bæta and-storknunarefnum í blóðið við söfnun og að kæla það áður en frekari vinnsla fór fram. Hann tók þátt í þurrblæðingu fiska en hans rannsóknir fóru þó að mestu fram á rannsóknastofum HA. Helena Þórdís rannsakaði gæði flaka þurrblædds fisks samanborið við fisk sem blætt var í kældu ísvatni eins og jafnan er gert. Hún vann hluta verkefnisins í nánu samstarfi við Matís.


Blóðgunarrennan sem var smíðuð í tengslum við rannsóknina.

Slippurinn-DNG hannaði og smíðaði blóðgunarrennu sérstaklega fyrir rannsóknina og starfsfólk Silfurstjörnunnar aðstoðaði við framkvæmd tilrauna. Samstarfið reyndist afar gott og er mikilvægt til áframþróunar hvað varðar nýtingu á blóði úr eldislaxi sem í dag er ónýtt hliðarafurð framleiðslu eldisfisks. Í blóðinu má finna næringarefni sem nýta mætti til dæmis sem bætiefni í fóður og jafnvel matvæli.

Eldi á fiski hefur aukist gríðarlega undanfarin ár og endurspeglar þann vöxt sem hefur átt sér stað um allan heim undanfarna áratugi og hefur lagareldi farið fram úr sjávarútvegi sem helsta framleiðsluaðferð sjávarfangs á heimsvísu. Talið er að um 1000 tonn af blóði falli til árlega á Íslandi og sé enn ekki nýtt og mun það magn halda áfram að aukast ef áfrom landeldisfyrirtækja ná fram að ganga.

Framtíðin í styrjueldi?
Hin rannsóknin snerist um nýtingu vatns við styrjueldi. Ákveðnar tegundir styrju eru í útrýmingarhættu þó svo að þær skili af sér verðmætari afurðum en nokkur önnur fiskitegund. Því er gleðiefni að hafið sé eldi á þessari dýrmætu tegund hér á landi og til mikils að vinna að unnt sé að þróa framleiðsluna með hagkvæmum og sjálfbærum hætti.

Katrín Axelsdóttir og Guðdís Benný Eiríksdóttir, stúdentar í sjávarútvegsfræði nýttu sumarið í að rannsaka í samvinnu við nýstofnað styrjueldi í Ólafsfirði um hvort hægt væri að auka vöxt seiða með auðgun fóðurs og einnig hvernig hámarka mætti nýtingu vatns- og varmaauðlinda á svæðinu við eldið og kom Eimur sérstaklega að þessum þætti.

 
Styrjuseiði að stækka

Niðurstöður benda til þess að hægt sé að auka vöxt seiða með því að auðga fóðrið með íslensku lýsi blandað próteinhrati sem fæst úr þörungum sem framleiddir eru á Íslandi. Þá leiddi skoðun á vatni og varma á svæðinu í ljós að með öflugum varmaskipti væri hægt að nýta affallsvatn frá sundlaugum, fyrirtækjum og íbúðarhúsum til upphitunar á vatni sem hentar eldinu.

Eimur þakkar öllum fyrir gott samstarf í verkefninu og við hlökkum til næstu skrefa. 

Hér má lesa frétt á vefsíðu Háskólans á Akureyri.

 


Deila frétt

27. nóvember 2025
Loftslags- og orkusjóður hefur úthlutað rúmlega 1,3 milljörðum króna til 109 verkefna sem miða að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eða fela í sér nýsköpun á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála. Eimur er meðal þeirra sem hljóta styrk að þessu sinni. Verkefni ber heitið Nýting lífræns efnis úr fráveituvatni til orkuframleiðslu . Það felur í sér uppsetningu færanlegs hreinsibúnaðar við sláturhús Kjarnafæðis/Norðlenska á Húsavík, í samstarfi við Orkuveitu Húsavíkur og Kjarnafæði Norðlenska. Markmið verkefnisins er að sýna fram á kosti þess að koma upp forhreinsivirki fyrir fráveituvatn frá matvælafyrirtækjum, draga úr lífrænu álagi og nýta efni sem annars færu til spillis, meðal annars til framleiðslu á lífdísil og lífgasi í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Gefn . Verkefnið er fyrst og fremst ætlað sem sýnidæmi sem getur orðið stjórnvöldum og fyrirtækjum hvatning til frekari aðgerða í fráveitumálum. Með því að hreinsa vatnið þar sem mengunin fellur til skapast betri möguleikar til að sækja verðmæt efni í fráveituna, auk þess sem álag á innviði sveitarfélaga minnkar verulega. Verkefnið er einnig hluti af ICEWATER verkefninu, sem að hluta er fjármagnað af LIFE styrktarsjóði Evrópusambandsins. Með styrknum frá Loftslags- og orkusjóði er tryggt að hefja uppsetningu búnaðarins fyrir sláturtíð 2026. Við hlökkum til að segja frá framgangi verkefnisins. Nánar um úthlutun Loftslags- og orkusjóðs og þau 109 verkefni sem hlutu styrk má finna á vef sjóðsins.
25. nóvember 2025
Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri
13. nóvember 2025
Undanfarnar vikur hefur Eimur staðið fyrir kynningarstarfi um möguleika sniglaræktar á Íslandi. Verkefnið hefur verið kynnt fyrir fjölmörgum aðilum víða um Norðurland meðal annars á Hönnunarþingi á Húsavík, Vegagerðinni, Landsvirkjun og fleiri stofnunum og fyrirtækjum. Markmiðið hefur verið að vekja athygli á tækifærum til nýsköpunar í landbúnaði og benda á hvernig vistvæn og sjálfbær ræktun gæti orðið áhugaverð viðbót við íslenskan landbúnað. Vinnustofur um sniglarækt sem haldnar voru á Norðurlandi í október vöktu mikla athygli og voru afar ánægjulegar í alla staði. Fjöldi bænda, frumkvöðla og annarra áhugasamra einstaklinga lagði leið sína á kynningarfundi þar sem fjallað var um möguleika sniglaræktar sem nýrrar vistvænnar hliðarbúgreinar á Íslandi. Á fundunum fóru yfir efnið þeir Sigurður Líndal frá Eimi og Peter Monaghan frá írska fyrirtækinu Inis Escargot, sem hefur mikla og farsæla reynslu af sniglarækt sem hágæða matvöru í Evrópu. Þeir kynntu hugmyndir sínar um hvernig hægt er að nýta íslenskar aðstæður, svo sem jarðhita, hrein auðlindakerfi og vannýttan húsakost til sveita, til að skapa sjálfbært rekstrarumhverfi fyrir sniglarækt. Áhugi á viðfangsefninu reyndist mikill og spurningar komu úr öllum áttum, bæði frá bændum sem sjá tækifæri til að renna styrkari stoðum undir búskap sinn og frá frumkvöðlum í leit að nýjum leiðum til að nýta staðbundnar auðlindir á skapandi hátt. Þátttakendur ræddu meðal annars um húsakost, fóðrun, ræktunarlotur, markaði og möguleg notagildi sniglaafurða á Íslandi, auk leiða til meginmarkaða í Evrópu. Sigurður og Peter voru báðir hæstánægðir með móttökurnar og áhugann sem blasti við alls staðar. „Ísland stendur frammi fyrir einstöku tækifæri á heimsvísu þegar kemur að sniglarækt, því stöðugt hitastig og trygg hitastjórnun er lykillinn að árangursríku sniglaeldi. Þar kemur íslenskur jarðhiti með nýja vídd inn á heimsmarkaðinn,“ sagði sniglasérfræðingurinn að loknum fundunum. Næstu skref eru þegar farin að taka á sig mynd, og ljóst er að langtum fleiri munu sækja um þátttöku í staðnámi á Írlandi en sæti verða í boði. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með framhaldinu og fá upplýsingar um næstu skref geta haft samband við Sigurð Líndal hjá Eimi á netfangið s.lindal@eimur.is eða fylgst með fréttum á eimur.is. Vinnustofurnar sýndu glöggt að nýsköpun í landbúnaði lifir góðu lífi á Norðurlandi – og að þó sniglar séu smávaxnir geti þeir orðið stór hluti af framtíðinni.