2. október 2023

Grænt í orði og á borði?

Grein í Morgunblaðinu 2. október 2023. 

Karen Mist Kristjánsdóttir og Magnús Ingvi Jósefsson skrifa.

Hugtakið um græna iðngarða (Eco Industrial Parks) grundvallast af markmiðum um hringrásarhagkerfi og lágmörkun neikvæðra umhverfisáhrifa frá iðnaðarstarfsemi. Hugtakið hefur rutt sér til rúms sem leið að vistvænni iðnþróun í sátt við umhverfi og samfélag og er þar beintengt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega markmiði 9 um nýsköpun, iðnað og innviði. Iðnþróunarstofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNIDO) og Alþjóðabankinn með öðrum stofnunum hafa um skeið unnið að því að skilgreina græna iðngarða og hefur sú vinna leitt til dýpri skilnings á hugtakinu.  Sú vinna kann jafnframt að hafa í för með sér nýjar væntingar þegar kemur að styrkjum, ívilnunum og grænum fjárfestingum í kolefnishlutlausum hagkerfum.

Hvað er grænn iðngarður?
Grænn iðngarður tekur til iðnaðarstarfsemi á landfræðilega hentugum stað sem nýtur innviða, t.d., aðgengis að orku, samgöngu- og samskiptakerfum og öðrum efnistökum og innviðum sem gagnast starfsemi iðngarðsins. Oft er ákveðin kjarnastarfsemi aflgjafi garðsins t.d., í vísi að grænum iðngarði í Þorlákshöfn er kjarnastarfsemin laxeldi en hliðarafurðir verða til í lífrænum efnisstraumum frá þeirri starfsemi sem í bland við aðra lífræna efnisstrauma frá landbúnaði verður nýttur til framleiðslu á áburði og metangasi. Annað dæmi er í grænum iðngarði á Bakka við Húsavík þar sem nú er unnið að hagkvæmnismati á metanólframleiðslu frá útblæstri PCC Bakki Silicon í samvinnu við Landsvirkjun. Þar er einnig fyrirhugað að koma á hitaveitukerfi sem meðal annars er byggt á glatvarma frá starfseminni. Á Reykjanesi er svo enn einn vísir í Auðlindagarði með fyrirhuguðu landeldi, orkuvinnslu og meiru. 

Hvers vegna grænn iðngarður?
Ávinningur af grænum iðngarði getur verið margvíslegur t.d. geta fyrirtæki innan iðngarðsins (og eftir aðstæðum utan hans) haft hag af innviðum garðsins t.d, hvað varðar orku, fráveitu, mengunarvarnir, öryggismál og annað sem lög og reglur kveða á um og varða starfsemi fyrirtækjanna. Iðngarðurinn gæti verið bæði stórkaupandi og jafnvel dreifiveita raforku til fyrirtækja innan garðsins, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Fyrirtæki í námunda við iðngarðinn geta mögulega tengst fráveitukerfi hans með ávinning fyrir umhverfi og samfélag. Einnig gæti verið hagkvæmt að fyrirtæki deili tækjum, þungavinnuvélum og ýmsum verkfærum garðsins þar sem því væri við komið. Iðngarðurinn getur líka verið tækifæri fyrir fyrirtæki sem þjónusta iðngarðinn með ýmsum hætti. Þannig má sjá fyrir sér að grænir iðngarðar geti þróast í klasa grósku og nýsköpunar með tilheyrandi ávinningi fyrir atvinnulíf og samfélag. 

Það er mik­il­vægt að við þróun grænna iðngarða sé fylgt vænt­ing­um og alþjóðleg­um regl­um, stöðlum og vott­un­um um vist­væna fram­leiðslu­ferla.

Grunngildi grænna iðngarða er hringrás og samnýting þeirra efnis og orkustrauma sem flæða milli fyrirtækja innan garðsins og eftir aðstæðum til og frá starfsemi utan hans. Þannig hníga rök að því að hringrás og samnýting skuli ávallt höfð til hliðsjónar við stefnumótun og ákvarðanatöku um þróun græns iðngarðs. Mikilvægið felst ekki síst í því að fjármagn mun í auknum mæli flæða til iðnaðarstarfsemi sem fylgir væntingum, ferlum og eftir atvikum alþjóðlegum reglum, stöðlum og vottunum um hringrás og vistvæna framleiðsluferla. Má nefna græna fjárfestingaráætlun ESB sem dæmi um slíkt. Samstarfsverkefnin Orkidea á Suðurlandi og Eimur á Norðurlandi hafa bæði hlotið stóra rannsóknar- og nýsköpunarstyrki úr sjóðum ESB til þróunar á vistvænum iðnaði í sínum umdæmum. Þannig má gera að því skóna að það sé mikilvægt að iðngarðurinn uppfylli væntingar um hringrás og vistvæna framleiðsluferla ella gæti hann orðið af ívilnunum, alþjóðlegum styrkjum og hagstæðum fjármögnunarmöguleikum.

Hér á landi sjá margir tækifæri í grænum iðngörðum til að styðja við jákvæða þróun í byggðum og að efla samkeppnishæfni og viðnámsþrótt þeirra og þar með landsins alls. Í ágætri skýrslu Íslandsstofu o.fl. um græna iðngarða er vísað í Iðnþróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna sem lítur á græna iðngarða sem lykilverkfæri til vistvænna umbreytinga í iðnaði og atvinnulífi. Stofnunin hefur þróað handbækur, leiðbeiningar, verkfæri og greiningarlíkön til að styðja við þróun grænna iðngarða allt frá skilgreiningu, stefnumótun og ákvarðanatöku til framkvæmdar. Verkfærin eru aðgengileg á vef stofnunarinnar, þau eru alþjóðleg, ókeypis, auðveld í meðförum og ættu að vera höfð til hliðsjónar við stefnumótun og þróun grænna iðngarða sem sannarlega eru mikilvægur liður á vegferð okkar til vistvænni framtíðar. 

Höfundar eru verkefnastjórar grænna iðngarða hjá samstarfsverkefnunum Orkídeu og Eimi

 


Deila frétt

27. nóvember 2025
Loftslags- og orkusjóður hefur úthlutað rúmlega 1,3 milljörðum króna til 109 verkefna sem miða að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eða fela í sér nýsköpun á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála. Eimur er meðal þeirra sem hljóta styrk að þessu sinni. Verkefni ber heitið Nýting lífræns efnis úr fráveituvatni til orkuframleiðslu . Það felur í sér uppsetningu færanlegs hreinsibúnaðar við sláturhús Kjarnafæðis/Norðlenska á Húsavík, í samstarfi við Orkuveitu Húsavíkur og Kjarnafæði Norðlenska. Markmið verkefnisins er að sýna fram á kosti þess að koma upp forhreinsivirki fyrir fráveituvatn frá matvælafyrirtækjum, draga úr lífrænu álagi og nýta efni sem annars færu til spillis, meðal annars til framleiðslu á lífdísil og lífgasi í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Gefn . Verkefnið er fyrst og fremst ætlað sem sýnidæmi sem getur orðið stjórnvöldum og fyrirtækjum hvatning til frekari aðgerða í fráveitumálum. Með því að hreinsa vatnið þar sem mengunin fellur til skapast betri möguleikar til að sækja verðmæt efni í fráveituna, auk þess sem álag á innviði sveitarfélaga minnkar verulega. Verkefnið er einnig hluti af ICEWATER verkefninu, sem að hluta er fjármagnað af LIFE styrktarsjóði Evrópusambandsins. Með styrknum frá Loftslags- og orkusjóði er tryggt að hefja uppsetningu búnaðarins fyrir sláturtíð 2026. Við hlökkum til að segja frá framgangi verkefnisins. Nánar um úthlutun Loftslags- og orkusjóðs og þau 109 verkefni sem hlutu styrk má finna á vef sjóðsins.
25. nóvember 2025
Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri
13. nóvember 2025
Undanfarnar vikur hefur Eimur staðið fyrir kynningarstarfi um möguleika sniglaræktar á Íslandi. Verkefnið hefur verið kynnt fyrir fjölmörgum aðilum víða um Norðurland meðal annars á Hönnunarþingi á Húsavík, Vegagerðinni, Landsvirkjun og fleiri stofnunum og fyrirtækjum. Markmiðið hefur verið að vekja athygli á tækifærum til nýsköpunar í landbúnaði og benda á hvernig vistvæn og sjálfbær ræktun gæti orðið áhugaverð viðbót við íslenskan landbúnað. Vinnustofur um sniglarækt sem haldnar voru á Norðurlandi í október vöktu mikla athygli og voru afar ánægjulegar í alla staði. Fjöldi bænda, frumkvöðla og annarra áhugasamra einstaklinga lagði leið sína á kynningarfundi þar sem fjallað var um möguleika sniglaræktar sem nýrrar vistvænnar hliðarbúgreinar á Íslandi. Á fundunum fóru yfir efnið þeir Sigurður Líndal frá Eimi og Peter Monaghan frá írska fyrirtækinu Inis Escargot, sem hefur mikla og farsæla reynslu af sniglarækt sem hágæða matvöru í Evrópu. Þeir kynntu hugmyndir sínar um hvernig hægt er að nýta íslenskar aðstæður, svo sem jarðhita, hrein auðlindakerfi og vannýttan húsakost til sveita, til að skapa sjálfbært rekstrarumhverfi fyrir sniglarækt. Áhugi á viðfangsefninu reyndist mikill og spurningar komu úr öllum áttum, bæði frá bændum sem sjá tækifæri til að renna styrkari stoðum undir búskap sinn og frá frumkvöðlum í leit að nýjum leiðum til að nýta staðbundnar auðlindir á skapandi hátt. Þátttakendur ræddu meðal annars um húsakost, fóðrun, ræktunarlotur, markaði og möguleg notagildi sniglaafurða á Íslandi, auk leiða til meginmarkaða í Evrópu. Sigurður og Peter voru báðir hæstánægðir með móttökurnar og áhugann sem blasti við alls staðar. „Ísland stendur frammi fyrir einstöku tækifæri á heimsvísu þegar kemur að sniglarækt, því stöðugt hitastig og trygg hitastjórnun er lykillinn að árangursríku sniglaeldi. Þar kemur íslenskur jarðhiti með nýja vídd inn á heimsmarkaðinn,“ sagði sniglasérfræðingurinn að loknum fundunum. Næstu skref eru þegar farin að taka á sig mynd, og ljóst er að langtum fleiri munu sækja um þátttöku í staðnámi á Írlandi en sæti verða í boði. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með framhaldinu og fá upplýsingar um næstu skref geta haft samband við Sigurð Líndal hjá Eimi á netfangið s.lindal@eimur.is eða fylgst með fréttum á eimur.is. Vinnustofurnar sýndu glöggt að nýsköpun í landbúnaði lifir góðu lífi á Norðurlandi – og að þó sniglar séu smávaxnir geti þeir orðið stór hluti af framtíðinni.