2. október 2023

Grænt í orði og á borði?

Grein í Morgunblaðinu 2. október 2023. 

Karen Mist Kristjánsdóttir og Magnús Ingvi Jósefsson skrifa.

Hugtakið um græna iðngarða (Eco Industrial Parks) grundvallast af markmiðum um hringrásarhagkerfi og lágmörkun neikvæðra umhverfisáhrifa frá iðnaðarstarfsemi. Hugtakið hefur rutt sér til rúms sem leið að vistvænni iðnþróun í sátt við umhverfi og samfélag og er þar beintengt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega markmiði 9 um nýsköpun, iðnað og innviði. Iðnþróunarstofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNIDO) og Alþjóðabankinn með öðrum stofnunum hafa um skeið unnið að því að skilgreina græna iðngarða og hefur sú vinna leitt til dýpri skilnings á hugtakinu.  Sú vinna kann jafnframt að hafa í för með sér nýjar væntingar þegar kemur að styrkjum, ívilnunum og grænum fjárfestingum í kolefnishlutlausum hagkerfum.

Hvað er grænn iðngarður?
Grænn iðngarður tekur til iðnaðarstarfsemi á landfræðilega hentugum stað sem nýtur innviða, t.d., aðgengis að orku, samgöngu- og samskiptakerfum og öðrum efnistökum og innviðum sem gagnast starfsemi iðngarðsins. Oft er ákveðin kjarnastarfsemi aflgjafi garðsins t.d., í vísi að grænum iðngarði í Þorlákshöfn er kjarnastarfsemin laxeldi en hliðarafurðir verða til í lífrænum efnisstraumum frá þeirri starfsemi sem í bland við aðra lífræna efnisstrauma frá landbúnaði verður nýttur til framleiðslu á áburði og metangasi. Annað dæmi er í grænum iðngarði á Bakka við Húsavík þar sem nú er unnið að hagkvæmnismati á metanólframleiðslu frá útblæstri PCC Bakki Silicon í samvinnu við Landsvirkjun. Þar er einnig fyrirhugað að koma á hitaveitukerfi sem meðal annars er byggt á glatvarma frá starfseminni. Á Reykjanesi er svo enn einn vísir í Auðlindagarði með fyrirhuguðu landeldi, orkuvinnslu og meiru. 

Hvers vegna grænn iðngarður?
Ávinningur af grænum iðngarði getur verið margvíslegur t.d. geta fyrirtæki innan iðngarðsins (og eftir aðstæðum utan hans) haft hag af innviðum garðsins t.d, hvað varðar orku, fráveitu, mengunarvarnir, öryggismál og annað sem lög og reglur kveða á um og varða starfsemi fyrirtækjanna. Iðngarðurinn gæti verið bæði stórkaupandi og jafnvel dreifiveita raforku til fyrirtækja innan garðsins, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Fyrirtæki í námunda við iðngarðinn geta mögulega tengst fráveitukerfi hans með ávinning fyrir umhverfi og samfélag. Einnig gæti verið hagkvæmt að fyrirtæki deili tækjum, þungavinnuvélum og ýmsum verkfærum garðsins þar sem því væri við komið. Iðngarðurinn getur líka verið tækifæri fyrir fyrirtæki sem þjónusta iðngarðinn með ýmsum hætti. Þannig má sjá fyrir sér að grænir iðngarðar geti þróast í klasa grósku og nýsköpunar með tilheyrandi ávinningi fyrir atvinnulíf og samfélag. 

Það er mik­il­vægt að við þróun grænna iðngarða sé fylgt vænt­ing­um og alþjóðleg­um regl­um, stöðlum og vott­un­um um vist­væna fram­leiðslu­ferla.

Grunngildi grænna iðngarða er hringrás og samnýting þeirra efnis og orkustrauma sem flæða milli fyrirtækja innan garðsins og eftir aðstæðum til og frá starfsemi utan hans. Þannig hníga rök að því að hringrás og samnýting skuli ávallt höfð til hliðsjónar við stefnumótun og ákvarðanatöku um þróun græns iðngarðs. Mikilvægið felst ekki síst í því að fjármagn mun í auknum mæli flæða til iðnaðarstarfsemi sem fylgir væntingum, ferlum og eftir atvikum alþjóðlegum reglum, stöðlum og vottunum um hringrás og vistvæna framleiðsluferla. Má nefna græna fjárfestingaráætlun ESB sem dæmi um slíkt. Samstarfsverkefnin Orkidea á Suðurlandi og Eimur á Norðurlandi hafa bæði hlotið stóra rannsóknar- og nýsköpunarstyrki úr sjóðum ESB til þróunar á vistvænum iðnaði í sínum umdæmum. Þannig má gera að því skóna að það sé mikilvægt að iðngarðurinn uppfylli væntingar um hringrás og vistvæna framleiðsluferla ella gæti hann orðið af ívilnunum, alþjóðlegum styrkjum og hagstæðum fjármögnunarmöguleikum.

Hér á landi sjá margir tækifæri í grænum iðngörðum til að styðja við jákvæða þróun í byggðum og að efla samkeppnishæfni og viðnámsþrótt þeirra og þar með landsins alls. Í ágætri skýrslu Íslandsstofu o.fl. um græna iðngarða er vísað í Iðnþróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna sem lítur á græna iðngarða sem lykilverkfæri til vistvænna umbreytinga í iðnaði og atvinnulífi. Stofnunin hefur þróað handbækur, leiðbeiningar, verkfæri og greiningarlíkön til að styðja við þróun grænna iðngarða allt frá skilgreiningu, stefnumótun og ákvarðanatöku til framkvæmdar. Verkfærin eru aðgengileg á vef stofnunarinnar, þau eru alþjóðleg, ókeypis, auðveld í meðförum og ættu að vera höfð til hliðsjónar við stefnumótun og þróun grænna iðngarða sem sannarlega eru mikilvægur liður á vegferð okkar til vistvænni framtíðar. 

Höfundar eru verkefnastjórar grænna iðngarða hjá samstarfsverkefnunum Orkídeu og Eimi

 


Deila frétt

3. júlí 2025
Eimur kynnir með stolti gagnvirkt olíumælaborð
3. júlí 2025
Akureyrarbær og atNorth hafa undirritað samkomulag um afhendingu glatvarma frá gagnaverinu ICE03 að Hlíðarvöllum í samvinnu við Eim, sem leiddi vinnu við samningsgerðina. Glatvarminn verður afhentur án endurgjalds til þróunarverkefna í samræmi við áherslur Akureyrarbæjar um sjálfbæra þróun og orkunýtingu. Framkvæmdum við 16 milljarða króna stækkun gagnavers atNorth á Akureyri miðar vel og er fyrri áfangi nú tilbúinn í rekstur. Samhliða stækkun gagnavers verður reist þjónustuhús fyrir ört stækkandi hóp starfsmanna félagsins á Akureyri. Fyrsta skóflustungan var tekin í morgun við hátíðlega athöfn. Viðstaddir voru fulltrúar bæjarstjórnar Akureyrar, starfsmenn atNorth, verktakar og aðrir gestir. Nýja þjónustuhúsið verður vestan við núverandi byggingar á athafnasvæði atNorth og er ráðgert að húsið verði tekið í notkun á næsta ári. Anna Kristín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar og nýsköpunar hjá atNorth, hélt um skófluna í morgun og tók fyrstu skóflustunguna ásamt starfsfólki félagsins. „Umsvifin á Akureyri hafa aukist hröðum skrefum og ljóst að við þurfum að reisa nýja þjónustubyggingu til að tryggja framúrskarandi aðstöðu til framtíðar fyrir ört stækkandi starfsmannahóp okkar. Auk mikils fjölda verktaka sem vinna að stækkun rekstursins, erum við með um 80 fasta starfsmenn á Íslandi og þriðjungur þeirra er á Akureyri.“ Samhliða stækkuninni hafa Akureyrarbær og atNorth samið um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu til samfélagsverkefna á Akureyri, m.a. til upphitunar á nýju gróðurhúsi sem reist verður og rekið á samfélagslegum forsendum. Auk bæjarins og atNorth koma Ferro Zink og Gróðrarstöð Akureyrar að verkefninu, en markmiðið er m.a. að skapa lærdómsumhverfi til vistvænnar ræktunar fyrir nemendur á grunn- og framhaldsskólastigi á Akureyri. Vonir standa til að gróðurhúsið verði tilbúið til notkunar strax í haust og ungir Akureyringar fái þá tækifæri til að kynnast sjálfbærri matvælaframleiðslu og betri orkunýtingu í verki. „Við leggjum mikla áherslu á að Akureyri verði leiðandi í orkunýtingu og sjálfbærni,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. „Þetta samstarf við atNorth og Eim er lykilskref í þeirri vegferð og þeir möguleikar sem fylgja samkomulagi um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu eru afar mikilvægir fyrir bæjarfélagið. Sá samningur sem undirritaður var í dag er í takti við þær væntingar sem við höfðum um áhrif þeirra innviðaframkvæmda sem ráðist var í til að tryggja raforkuflutning inn á svæðið.“ Eimur leiddi samningsgerðina fyrir hönd bæjarins. „Við hjá Eimi sjáum þetta sem mikilvægt skref í því að virkja ónýttar auðlindir til raunverulegrar verðmætasköpun á svæðinu. Þessi samningur er einstakur á Íslandi og sýnir greinilega hverju hægt er að ná fram þegar sveitarfélög, fyrirtæki og nýsköpun vinna saman að settum umhverfismarkmiðum“, segir Karen Mist Kristjánsdóttir, forstöðumaður orku og sjálfbærni hjá Eimi. Alls rekur atNorth átta gagnaver á Norðurlöndum, þar af þrjú á Íslandi. Tvö til viðbótar eru í smíðum í Danmörku og Finnlandi, auk þess sem stækkun gagnaversins á Fitjum í Reykjanesbæ er í fullum gangi. Starfsmenn atNorth eru rúmlega 200.
27. júní 2025
Eimur óskar eftir að ráða verkefnastjóra á Norðurlandi Vestra í tímabundið starf út árið 2026, með möguleika á framlengingu. Við leitum að öflugum einstaklingi til að móta og leiða spennandi þróunarverkefni á Norðurlandi vestra á sviði hringrásarhagkerfisins, orkuskipta og nýsköpunar. Verkefnastjóri vinnur náið með framkvæmdastjóra Eims og eftir atvikum öðru starfsfólki og samstarfsaðilum, og ber ábyrgð á framgangi valinna verkefna. Starfsstöð verkefnastjóra er á Norðurlandi vestra, eftir hentugleikum á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd eða Sauðárkróki. Helstu verkefni Verkefnastjórn valinna verkefna Eims með áherslu á innleiðingu hringrásarhagkerfis, orkuskipti, orkunýtni og verðmætasköpun Þróa öflugt samstarf með hagsmunaaðilum, sérstaklega á Norðurlandi vestra Vinna að mótun og fjármögnun nýrra verkefna á starfssvæði Eims Taka virkan þátt í umsóknaskrifum í innlenda og erlenda sjóði Aðstoð við að koma verkefnum Eims á framfæri Teymisvinna með Bláma, Orkídeu og Eygló Hæfnikröfur Háskólamenntun sem nýtist í starfi, raunvísinda- eða tæknimenntun er kostur Frumkvæði, skipulagshæfni og sjálfstæði vinnubrögðum Reynsla af gerð styrkumsókna í innlenda og erlenda sjóði er kostur Reynsla af verkefnastjórn er kostur Rík samskiptahæfni og færni í að koma frá sér efni Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti Eimur er samstarfsverkefni sem snýr að bættri nýtingu auðlinda á Norðurlandi með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Að verkefninu standa Landsvirkjun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur. Með umsókn skal fylgja ferilskrá ásamt kynningarbréfi. Nánari upplýsingar Geirlaug Jóhannsdóttir, geirlaug@hagvangur.is Inga S. Arnardóttir, inga@hagvangur.is