27. september 2023

Skúli Gunnar ráðinn til Eims

Skúli Gunnar Árnason hefur verið ráðinn til starfa hjá Eimi og mun þar leiða Evrópuverkefni um orkuskipti í dreifðum byggðum.

Verkefnið Rural Europe for the Clean Energy Transition (RECET) hlaut nýverið styrk sem nemur um 1,5 milljónum evra (225 M ISK) úr LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. RECET er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi. RECET miðar að því að efla getu sveitarfélaganna og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. Skúli Gunnar mun leiða þetta verkefni.

 ,,Orkuskiptin eru mikilvægt og gríðarstórt verkefni sem snertir okkur öll og gegna sveitarfélögin þar lykilhlutverki. RECET verkefnið er nauðsynlegur stuðningur við alla hagsmunaaðila, svo hægt sé að ná markmiðum um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040“, segir Skúli Gunnar.

Skúli er vélaverkfræðingur og útskrifaðist með BSc gráðu frá Háskóla Íslands árið 2009 og með MSc gráðu frá DTU árið 2013. Skúli vann við rannsóknir og þróun hjá Siemens Turbomachinery í Danmörku frá 2014. Árið 2017 keypti Howden Turbo fyrirtækið og tók Skúli þar við hlutverki deildarstjóra í þessari sömu deild. Þar stýrði hann alþjóðlegum verkefnum við þróun og framleiðslu á vörum sem sneru að skólphreinsun, reykhreinsun og að því að draga úr mengun og eldsneytiseyðslu skemmtiferðaskipa og gámaskipa.

Skúli flutti til Íslands árið 2021 eftir 10 ára búsetu í Danmörku með eiginkonu sinni Sigríði Katrínu Magnúsdóttur, heilbrigðisverkfræðingi og þremur börnum. Þá hóf hann störf hjá Eflu þar sem hann hefur sinnt m.a. þróunarverkefnum, hönnun á búnaði fyrir virkjanir og lagna-, dælu- og kerfishönnun fyrir margvíslegan iðnað.

,,Ég hef fylgst með því mikilvæga og spennandi starfi sem Eimur hefur verið að vinna að undanfarin misseri og hlakka mikið til að vera hluti af teyminu“, segir Skúli Gunnar Árnason.

 Skúli mun hefja störf 1. nóvember næstkomandi.

 Starfið var auglýst þann 4. júlí sl og voru tuttugu umsækjendur um starfið. Ráðningarferlið var unnið í samstarfi við ráðningarþjónustuna Mögnum á Akureyri.

 


Deila frétt

11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi
Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 9. september 2025
Eimur hefur fengið öflugan liðsstyrk í Alessöndru Schnider sem bætist nú í hópinn og mun starfa á Norðurlandi vestra með aðsetur á Sauðárkróki. Alessandra lauk nýverið doktorsnámi í líffræði með áherslu á þróunarvistfræði í sameiginlegu námi Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands. ,,Við erum mjög spennt að fá Alessöndru til liðs við okkur hjá Eimi, og verður hennar þekking og reynsla til að efla starfsemi félagsins enn frekar á Norðurlandi vestra”, segir Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri Eims. Alessandra er með meistarapróf í erfðafræði og líffræðilegri mannfræði frá Háskólanum í Zürich í Sviss og BS próf í líffræði frá sama skóla. Á ferli sínum hefur Alessandra sinnt fjölbreyttum verkefnum tengdum fiskrannsóknum, náttúruvernd og vísindamiðlun, meðal annars með því að stofna og reka miðlunarverkefnið Ice Fish Research og framleiða hlaðvarpið Fiskaspjall sem fjallar um íslenskar fiskrannsóknir. Alessandra hefur kennt við Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands og unnið að fjölmörgum rannsóknarverkefnum og fengið til þess styrki. Hún hefur jafnframt birt vísindagreinar og flutt erindi á fjölda ráðstefna hérlendis og erlendis. ,,Það er dýrmætt að fá tækifæri til að nýta þekkingu mína í samfélagi sem tók vel á móti mér fyrir sex árum. Skagafjörður er orðið heimili mitt og mér þykir mikilvægt að geta unnið að verkefnum sem geta haft raunveruleg áhrif og stuðlað að jákvæðum breytingum. Menntun mín og reynsla hefur gefið mér sterka tengingu við náttúruna og ég vona að geta lagt mitt af mörkum með lausnum sem nýta auðlindir á ábyrgan hátt og vernda um leið hina einstöku náttúru Íslands”, segir Alessandra Schnider. Alessandra mun hefja störf 3. nóvember næstkomandi og bjóðum við hana velkomna til starfa. Starfið var auglýst þann 27. júní s.l. og bárust 18 umsóknir. Ráðningarferlið var unnið í samstarfi við ráðningafyrirtækið Hagvang.
3. júlí 2025
Eimur kynnir með stolti gagnvirkt olíumælaborð