27. september 2023

Skúli Gunnar ráðinn til Eims

Skúli Gunnar Árnason hefur verið ráðinn til starfa hjá Eimi og mun þar leiða Evrópuverkefni um orkuskipti í dreifðum byggðum.

Verkefnið Rural Europe for the Clean Energy Transition (RECET) hlaut nýverið styrk sem nemur um 1,5 milljónum evra (225 M ISK) úr LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. RECET er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi. RECET miðar að því að efla getu sveitarfélaganna og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. Skúli Gunnar mun leiða þetta verkefni.

 ,,Orkuskiptin eru mikilvægt og gríðarstórt verkefni sem snertir okkur öll og gegna sveitarfélögin þar lykilhlutverki. RECET verkefnið er nauðsynlegur stuðningur við alla hagsmunaaðila, svo hægt sé að ná markmiðum um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040“, segir Skúli Gunnar.

Skúli er vélaverkfræðingur og útskrifaðist með BSc gráðu frá Háskóla Íslands árið 2009 og með MSc gráðu frá DTU árið 2013. Skúli vann við rannsóknir og þróun hjá Siemens Turbomachinery í Danmörku frá 2014. Árið 2017 keypti Howden Turbo fyrirtækið og tók Skúli þar við hlutverki deildarstjóra í þessari sömu deild. Þar stýrði hann alþjóðlegum verkefnum við þróun og framleiðslu á vörum sem sneru að skólphreinsun, reykhreinsun og að því að draga úr mengun og eldsneytiseyðslu skemmtiferðaskipa og gámaskipa.

Skúli flutti til Íslands árið 2021 eftir 10 ára búsetu í Danmörku með eiginkonu sinni Sigríði Katrínu Magnúsdóttur, heilbrigðisverkfræðingi og þremur börnum. Þá hóf hann störf hjá Eflu þar sem hann hefur sinnt m.a. þróunarverkefnum, hönnun á búnaði fyrir virkjanir og lagna-, dælu- og kerfishönnun fyrir margvíslegan iðnað.

,,Ég hef fylgst með því mikilvæga og spennandi starfi sem Eimur hefur verið að vinna að undanfarin misseri og hlakka mikið til að vera hluti af teyminu“, segir Skúli Gunnar Árnason.

 Skúli mun hefja störf 1. nóvember næstkomandi.

 Starfið var auglýst þann 4. júlí sl og voru tuttugu umsækjendur um starfið. Ráðningarferlið var unnið í samstarfi við ráðningarþjónustuna Mögnum á Akureyri.

 


Deila frétt

Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 10. apríl 2025
RECET verkefnið og Net Zero Islands Network standa fyrir þessum viðburði, þar sem sérfræðingar, stefnumótendur og hagsmunaaðilar koma saman til að ræða og stuðla að orkuskiptum á eyjum og í dreifðum byggðum. Ráðstefnan er einstakt tækifæri til að miðla þekkingu, skoða nýjar lausnir og efla tengslanet. Dagskráin samanstendur af framsöguerindum og umræðum sem miða að því að styðja við sjálfbæra þróun og grænna samfélag. Ókeypis er á ráðstefnuna sem fer einnig fram í streymi - skráning fer fram hér: https://www.recetproject.eu/events/akureyrienergyseminar Um RECET: RECET (Rural Europe for the Clean Energy Transition) er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi. Verkefnið miðar að því að efla getu sveitarfélaga í dreifðum byggðum í Evrópu og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. RECET er styrkt af LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Um Net Zero Islands Network: Net Zero Islands Network gegnir lykilhlutverki í þróun grænna og sjálfbærra orkulausna fyrir eyjar og afskekkt svæði. Markmið netsins er meðal annars að auðvelda miðlun þekkingar milli eyja og afskekktra svæða, skapa fleiri atvinnutækifæri og kanna möguleika á kolefnisneikvæðum lausnum. Norræna orkurannsóknarstofnunin (Nordic Energy Research) hefur umsjón með verkefninu. 
9. apríl 2025
Nýtt evrópskt samstarf um nýsköpun og þekkingarmiðlun
2. apríl 2025
Um 80 manns tóku þátt í fyrsta fundi í ICEWATER verkefninu, sem haldinn var dagana 24. og 25. mars 2025 í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur í Elliðaárdalnum. Fundurinn markaði upphaf þessa metnaðarfulla verkefnis, sem miðar að því að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi.