27. september 2023

Skúli Gunnar ráðinn til Eims

Skúli Gunnar Árnason hefur verið ráðinn til starfa hjá Eimi og mun þar leiða Evrópuverkefni um orkuskipti í dreifðum byggðum.

Verkefnið Rural Europe for the Clean Energy Transition (RECET) hlaut nýverið styrk sem nemur um 1,5 milljónum evra (225 M ISK) úr LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. RECET er samstarfsverkefni fimm landa og tuga sveitarfélaga um alla Evrópu, með Ísland í fararbroddi. RECET miðar að því að efla getu sveitarfélaganna og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. Skúli Gunnar mun leiða þetta verkefni.

 ,,Orkuskiptin eru mikilvægt og gríðarstórt verkefni sem snertir okkur öll og gegna sveitarfélögin þar lykilhlutverki. RECET verkefnið er nauðsynlegur stuðningur við alla hagsmunaaðila, svo hægt sé að ná markmiðum um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040“, segir Skúli Gunnar.

Skúli er vélaverkfræðingur og útskrifaðist með BSc gráðu frá Háskóla Íslands árið 2009 og með MSc gráðu frá DTU árið 2013. Skúli vann við rannsóknir og þróun hjá Siemens Turbomachinery í Danmörku frá 2014. Árið 2017 keypti Howden Turbo fyrirtækið og tók Skúli þar við hlutverki deildarstjóra í þessari sömu deild. Þar stýrði hann alþjóðlegum verkefnum við þróun og framleiðslu á vörum sem sneru að skólphreinsun, reykhreinsun og að því að draga úr mengun og eldsneytiseyðslu skemmtiferðaskipa og gámaskipa.

Skúli flutti til Íslands árið 2021 eftir 10 ára búsetu í Danmörku með eiginkonu sinni Sigríði Katrínu Magnúsdóttur, heilbrigðisverkfræðingi og þremur börnum. Þá hóf hann störf hjá Eflu þar sem hann hefur sinnt m.a. þróunarverkefnum, hönnun á búnaði fyrir virkjanir og lagna-, dælu- og kerfishönnun fyrir margvíslegan iðnað.

,,Ég hef fylgst með því mikilvæga og spennandi starfi sem Eimur hefur verið að vinna að undanfarin misseri og hlakka mikið til að vera hluti af teyminu“, segir Skúli Gunnar Árnason.

 Skúli mun hefja störf 1. nóvember næstkomandi.

 Starfið var auglýst þann 4. júlí sl og voru tuttugu umsækjendur um starfið. Ráðningarferlið var unnið í samstarfi við ráðningarþjónustuna Mögnum á Akureyri.

 


Deila frétt

17. október 2025
Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og er liður í að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Meðal fundarefna verður: • Hvernig orka, varmi og innviðir skapa ný tækifæri á Bakka • Hvernig hringrásarhagkerfi getur stutt við atvinnuþróun og alþjóðlega ímynd Íslands • Hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í sjálfbærri uppbyggingu Dagskrá: Húsið opnar kl. 12:00 – Skráning og súpuhlaðborð fyrir gesti á Fosshótel Húsavík Ráðstefna kl. 13:00 – 17:00 Fundarliður 1: Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni Fundarliður 2: Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni Fundarliður 3: Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða (Nánari dagskrá verður birt þegar nær dregur) Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið á Bakka fyrir hádegi frá kl. 10:30 - 12:00 þann 20. nóvember og er sú ferð opin öllum. Rútan fer frá Fosshótel á Húsavík og er nauðsynlegt að skrá sig því það er takmarkað pláss. Ráðstefnan er opin öllum en skráning er nauðsynleg - www.eimur.is/bakkiradstefna
30. september 2025
Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.
11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi