15. febrúar 2024

Nýtt ár, ný teymi - Átta verkefni valin á Fjárfestahátíð Norðanáttar

Átta fyrirtæki hafa verið valin til þátttöku á Fjárfestahátíð Norðanáttar sem fer fram á Siglufirði þann 20. mars næstkomandi. 

Fjárfestahátíð Norðanáttar var haldin fyrst árið 2022 við frábærar undirtektir fjárfesta og annarra lykilaðila í vistkerfi nýsköpunar víðsvegar af landinu. Fyrsta árið voru verkefni af Norðurlandi sem tóku þátt, en vegna hversu vel tókst til ákváðu aðstandendur hátíðarinnar að opna viðburðinn fyrir fyrirtæki og frumkvöðla af öllu landinu. Í ár verður engin breyting þar á.

Hátíðin er vettvangur fyrir frumkvöðla og fyrirtæki sem leita eftir fjármagni og eru tilbúnir að fá fjárfesta að borðinu. Þá er markmið hátíðarinnar einnig að draga fram tækifæri til uppbyggingar á atvinnuvegum og efla nýsköpun í kringum auðlindir landsbyggðanna, en þarna gefst gott tækifæri til þess að mynda tengingar og eiga fyrsta skrefið í átt að framtíðarsamvinnu. 

Áhersla hátíðarinnar í ár eru orkuskipti, hringrásarhagkerfið, fullnýting auðlinda og aðrar grænar lausnir en fyrirtækin sem munu kynna verkefni sín í ár á hátíðinni snerta öll á þessum áherslum með einum eða öðrum hætti. 

Umsóknarfrestur var til og með 31. janúar sl. og bárust umsóknir úr öllum landshlutum. Sérstök valnefnd mat umsóknir meðal annars út frá því hversu vel verkefnin falla að áherslum hátíðarinnar og fjárfestatækifæri verkefnisins.

Fimmtán umsóknir bárust í ár frá öllum landshlutum, en verkefnin sem valin voru til þátttöku á Fjárfestahátíð Norðanáttar 2024 eru: 

  • Aurora Abalone - The future solution for on-land sustainable shellfish production (Suðurnes)
  • Circula/Recoma - Recoma gefur sorpi nýtt líf (Suðurland)
  • FoodSmart Nordic- FoodSmart Nordic framleiðir hágæða vatnsrofið prótein úr sjávarfangi, m.a. kollagen og sæbjúgnaduft. Fersk hráefnin koma úr nærumhverfi sem styður við gæði, sjálfbærni og hringrásarhagkerfið. (N-vestra)
  • Humble - Minnkaðu matarsóun með humble! (Höfuðborgarsvæði og Sandgerði)
  • Munasafn - We provide infrastructure for municipalities and communities to manage and share items. (Höfuðborgarsvæði)
  • Nanna Lín - Nanna Lín varan er leður úr laxaroði í metravís, roðið er brotið niður og endurmótað í breiður áður en það er sútað yfir í leður. (N-eystra)
  • Surova - Making tech to grow veggies that are good for you and for the planet. (Höfuðborgarsvæði)
  • Skógarafurðir - Stækkun vinnslustöðvar fyrir umhverfisvænar íslenskar viðarafurðir (Austurland)

 Í valnefnd sátu Ragnheiður H. Magnúsdóttir hjá Nordic Ignite, Hólmfríður Sveinsdóttir hjá Háskólanum á Hólum, Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir hjá Klak Icelandic Startups, Hreinn Þór Hauksson hjá Íslenskum Verðbréfum, Edda Konráðsdóttir hjá Iceland Innovation Week og Marta Hermannsdóttir hjá Eyri Ventures.

Að verkefninu Norðanátt standa EIMUR og landshlutasamtökin á Norðurlandi SSNE og SSNV með stuðningi frá Umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytinu.  Bakhjarlar Fjárfestahátíðarinnar 2024 eru Tækniþróunarsjóður , KPMG , Nýsköpunarsjóður og KEA .

Nánari upplýsingar um Fjárfestahátíð Norðanáttar veitir Kolfinna María ( kolfinna@eimur.is ) eða í síma 670-1111

 


Deila frétt

17. október 2025
Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og er liður í að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Meðal fundarefna verður: • Hvernig orka, varmi og innviðir skapa ný tækifæri á Bakka • Hvernig hringrásarhagkerfi getur stutt við atvinnuþróun og alþjóðlega ímynd Íslands • Hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í sjálfbærri uppbyggingu Dagskrá: Húsið opnar kl. 12:00 – Skráning og súpuhlaðborð fyrir gesti á Fosshótel Húsavík Ráðstefna kl. 13:00 – 17:00 Fundarliður 1: Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni Fundarliður 2: Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni Fundarliður 3: Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða (Nánari dagskrá verður birt þegar nær dregur) Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið á Bakka fyrir hádegi frá kl. 10:30 - 12:00 þann 20. nóvember og er sú ferð opin öllum. Rútan fer frá Fosshótel á Húsavík og er nauðsynlegt að skrá sig því það er takmarkað pláss. Ráðstefnan er opin öllum en skráning er nauðsynleg - www.eimur.is/bakkiradstefna
30. september 2025
Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.
11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi