21. maí 2024

Rafmögnuð stemming á Iceland Innovation Week

Nýsköpunarvikan eða Iceland Innovation Week var haldin hátíðlega í Reykjavík um miðjan maí, þar sem frumkvöðlastarfsemi á Íslandi var fagnað.

Viðburðurinn er mikilvægur vettvangur þar sem stofnunum, fyrirtækjum og frumkvöðlum gefst kostur á að standa fyrir nýsköpunartengdum viðburðum fyrir innlenda, jafnt sem erlenda aðila sem vilja kynnast starfsemi og nýsköpun á Íslandi, tengjast sprotum, fjárfestum og frumkvöðlum og mynda ný sóknarfæri og sambönd.

Eimur hefur frá upphafi tekið virkan þátt á hátíðinni með einum eða öðrum hætti og í ár var engin breyting þar á. 

Sjálfbærir neistar – Nýsköpun í orkulandslagi á Íslandi

Samstarfsverkefnin (Eimur, Blámi , Orkídea og Eygló) stóðu fyrir sameiginlegum viðburði í samstarfi við Landsvirkjun og Umhverfis- orku-, og loftslagsráðuneytið, miðvikudaginn 15. maí sl. við frábærar undirtektir.

Hópur fólks sem stendur við hlið hvors annars fyrir framan skilti.
Mynd: Sigurður Bogason, Kolfinna María Níelsdóttir, Ottó Elíasson og Skúli Gunnar Árnason, starfsfólk hjá Eimi.

Á viðburðinum, sem bar yfirskriftina "Sustainable Sparks: Igniting Innovation in Iceland's Energy Landscape, var athygli vakin á samstarfsverkefnunum og þeim áföngum sem þau hafa þegar náð og voru spennandi sóknarfæri og frjóar hugmyndir um orku- og loftslagstengda nýsköpun dregnar fram í samtali við gesti viðburðarins.

Þá var Landsvirkjun einnig með til sýnis módel sem gaf innsýn í raforkuframleiðslu í vatnsaflsvirkjunum. Búið var að gera glugga á módelið til þess að hægt væri að sjá hvernig vatnið lendir á og snýr túrbínuhjóli sem snýr rafali og framleiðir rafmagn til þess að kveikja á tveimur ljósaperum.

Maður í jakkafötum bendir á vél í herbergi.
Mynd: Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfisráðherra kveikir á sýnis módelinu

Þrír í jakkafötum sitja fyrir á mynd fyrir framan mannfjöldann.
Á mynd: Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfisráðherra og Haraldur Hallgrímsson,
forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun.

Tvær konur sitja fyrir á mynd fyrir framan blátt skilti sem á stendur „k“.
Á mynd: Eva Eiríksdóttir frá samskiptasviði Landsvirkjunar og Dóra Júlía Þrándardóttir, nýsköpunarstjóri Landsvirkjunar

Karl og kona sitja fyrir á mynd fyrir framan skilti sem á stendur value4farm. Karl og kona sitja fyrir á mynd fyrir framan skjávarpa. Kona stendur fyrir framan skilti sem á stendur eygló
Á myndum: Starfsmenn samstarfsverkefnanna hjá Orkídeu, Bláma og Eygló

Sjá fleiri myndir frá viðburðinum á Facebook síðu Eims

Blá nýsköpun í Sjávarklasanum
Á fjórða tug frum­kvöðlafyr­ir­tækja í bláa hag­kerf­inu kynntu ný­sköp­un sína á opnu húsi Íslenska Sjávarklasans í tilefni af Nýsköpunarvikunni. Eimur tók þar þátt í þriðja sinn með kynningarbás. Viðburðurinn var fjölsóttur og frábær vettvangur fyrir Eim til að kynna starfsemina og verkefnin fyrir gestum og gangandi.

Kona stendur fyrir framan skilti sem á stendur eimur.
Kolfinna María, verkefnastjóri hjá Eimi stóð vaktina í Sjávarklasanum
 Tvær konur standa við hlið hvor annarrar fyrir framan borð.
Fyrirtækið  Nanna Lín frá Norðurlandi var með kynningarbás í Sjávarklasanum, en verkefnið hefur t.a.m. tekið þátt í hröðlum á vegum Norðanátt og tók síðast þátt á Fjárfestahátíð Norðanáttar í mars sl.

Karl og kona tala saman fyrir framan skilti sem á stendur orkidea
Helga Gunnlaugsdóttir hjá Orkídeu var einnig með kynningarbás í Sjávarklasanum.

Brasað á Bransadögum

Samhliða Nýsköpunarvikunni var fræðsluviðburðurinn  Bransadagar Iðunnar á dagskrá í Vatnagörðum í Reykjavík, en þeir eru helgaðir nýsköpun í iðnaði. Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri hjá Eimi fór þar með erindi um snjallar lausnir til orkuskipta en í ár deildu hátt í þrjátíu sérfræðingar þekkingu sinni og reynslu, ýmist með kynningarbásum eða fyrirlestrum.

Maður er að halda kynningu fyrir framan stóran skjá.

Maður stendur fyrir framan skilti í herbergi.
Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri hjá Eimi á Bransadögum 2024


Deila frétt

27. nóvember 2025
Loftslags- og orkusjóður hefur úthlutað rúmlega 1,3 milljörðum króna til 109 verkefna sem miða að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eða fela í sér nýsköpun á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála. Eimur er meðal þeirra sem hljóta styrk að þessu sinni. Verkefni ber heitið Nýting lífræns efnis úr fráveituvatni til orkuframleiðslu . Það felur í sér uppsetningu færanlegs hreinsibúnaðar við sláturhús Kjarnafæðis/Norðlenska á Húsavík, í samstarfi við Orkuveitu Húsavíkur og Kjarnafæði Norðlenska. Markmið verkefnisins er að sýna fram á kosti þess að koma upp forhreinsivirki fyrir fráveituvatn frá matvælafyrirtækjum, draga úr lífrænu álagi og nýta efni sem annars færu til spillis, meðal annars til framleiðslu á lífdísil og lífgasi í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Gefn . Verkefnið er fyrst og fremst ætlað sem sýnidæmi sem getur orðið stjórnvöldum og fyrirtækjum hvatning til frekari aðgerða í fráveitumálum. Með því að hreinsa vatnið þar sem mengunin fellur til skapast betri möguleikar til að sækja verðmæt efni í fráveituna, auk þess sem álag á innviði sveitarfélaga minnkar verulega. Verkefnið er einnig hluti af ICEWATER verkefninu, sem að hluta er fjármagnað af LIFE styrktarsjóði Evrópusambandsins. Með styrknum frá Loftslags- og orkusjóði er tryggt að hefja uppsetningu búnaðarins fyrir sláturtíð 2026. Við hlökkum til að segja frá framgangi verkefnisins. Nánar um úthlutun Loftslags- og orkusjóðs og þau 109 verkefni sem hlutu styrk má finna á vef sjóðsins.
25. nóvember 2025
Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri
13. nóvember 2025
Undanfarnar vikur hefur Eimur staðið fyrir kynningarstarfi um möguleika sniglaræktar á Íslandi. Verkefnið hefur verið kynnt fyrir fjölmörgum aðilum víða um Norðurland meðal annars á Hönnunarþingi á Húsavík, Vegagerðinni, Landsvirkjun og fleiri stofnunum og fyrirtækjum. Markmiðið hefur verið að vekja athygli á tækifærum til nýsköpunar í landbúnaði og benda á hvernig vistvæn og sjálfbær ræktun gæti orðið áhugaverð viðbót við íslenskan landbúnað. Vinnustofur um sniglarækt sem haldnar voru á Norðurlandi í október vöktu mikla athygli og voru afar ánægjulegar í alla staði. Fjöldi bænda, frumkvöðla og annarra áhugasamra einstaklinga lagði leið sína á kynningarfundi þar sem fjallað var um möguleika sniglaræktar sem nýrrar vistvænnar hliðarbúgreinar á Íslandi. Á fundunum fóru yfir efnið þeir Sigurður Líndal frá Eimi og Peter Monaghan frá írska fyrirtækinu Inis Escargot, sem hefur mikla og farsæla reynslu af sniglarækt sem hágæða matvöru í Evrópu. Þeir kynntu hugmyndir sínar um hvernig hægt er að nýta íslenskar aðstæður, svo sem jarðhita, hrein auðlindakerfi og vannýttan húsakost til sveita, til að skapa sjálfbært rekstrarumhverfi fyrir sniglarækt. Áhugi á viðfangsefninu reyndist mikill og spurningar komu úr öllum áttum, bæði frá bændum sem sjá tækifæri til að renna styrkari stoðum undir búskap sinn og frá frumkvöðlum í leit að nýjum leiðum til að nýta staðbundnar auðlindir á skapandi hátt. Þátttakendur ræddu meðal annars um húsakost, fóðrun, ræktunarlotur, markaði og möguleg notagildi sniglaafurða á Íslandi, auk leiða til meginmarkaða í Evrópu. Sigurður og Peter voru báðir hæstánægðir með móttökurnar og áhugann sem blasti við alls staðar. „Ísland stendur frammi fyrir einstöku tækifæri á heimsvísu þegar kemur að sniglarækt, því stöðugt hitastig og trygg hitastjórnun er lykillinn að árangursríku sniglaeldi. Þar kemur íslenskur jarðhiti með nýja vídd inn á heimsmarkaðinn,“ sagði sniglasérfræðingurinn að loknum fundunum. Næstu skref eru þegar farin að taka á sig mynd, og ljóst er að langtum fleiri munu sækja um þátttöku í staðnámi á Írlandi en sæti verða í boði. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með framhaldinu og fá upplýsingar um næstu skref geta haft samband við Sigurð Líndal hjá Eimi á netfangið s.lindal@eimur.is eða fylgst með fréttum á eimur.is. Vinnustofurnar sýndu glöggt að nýsköpun í landbúnaði lifir góðu lífi á Norðurlandi – og að þó sniglar séu smávaxnir geti þeir orðið stór hluti af framtíðinni.