3. júlí 2025

Nýtt mælaborð um olíusölu á Íslandi: Mikilvægur mælikvarði fyrir orkuskiptin

Eimur kynnir með stolti gagnvirkt olíumælaborð

Olíumælaborð Eims og Eflu er ávöxtur vinnu við gagnasafn um sölu og notkun jarðefnaeldsneytis á Íslandi á árunum 2010–2020. Fyrir stuttu gáfu Eimur og Efla út skýrsluna „Olíunotkun sveitarfélaga á Íslandi“ sem er aðgengileg á heimasíðu Eims. Með þessu nýja mælaborði geta notendur skoðað gögnin sem fjallað er um í skýrslunni á gagnvirkan hátt eftir landshlutum eða sveitarfélögum, eftir tegund eldsneytis og magni – bæði í heild og á höfðatölu. Þá er hægt að vista gröf sem notandinn býr til með mælaborðinu. Vinna við gerð skýrslunnar og mælaborðsins er hluti af RECET verkefninu sem styrkt er af LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál og miðar að því að efla getu sveitarfélaganna og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin.

 

Íslensk stjórnvöld hafa lögfest markmið um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040 og miða að jarðefnaeldsneytislausu Íslandi árið 2050. Í dag eru um 1.000.000 tonn af olíu flutt inn til Íslands á ári hverju.

Yfir 60% Íslendinga búa á höfuðborgarsvæðinu, en orkuskiptin þurfa einnig að ná til annarra landshluta og smærri sveitarfélaga þar sem raunverulegur árangur í loftslagsmálum næst aðeins með víðtækri aðkomu allra samfélagshluta. Olíumælaborðið gerir notendum kleift að skyggnast inn í það hvernig þessi olíusala skiptist eftir greinum og varpa ljósi á það hver staðan er í orkuskiptunum og hvar við erum stödd á vegferðinni að jarðefnaeldsneytislausu Íslandi.


Gögnin sýna meðal annars að:
• Höfuðborgarsvæðið var með hæstu heildarsölu olíu, en lægsta olíunotkun á hvern íbúa.
• Suðurland var með hæstu olíunotkun á hvern íbúa í samgöngum á landi.
• Austurland var með hæstu olíunotkun á hvern íbúa í sjávarútvegi.

Þessi munur milli svæða undirstrikar mikilvægi þess að stefnumótun í orkuskiptum byggi á gögnum og taki tillit til staðbundinna aðstæðna og þarfa. Mælaborðið er hannað með fjölbreytta notendur í huga og býður upp á gagnvirka upplifun þar sem hægt er að velja svæði, tímabil og tegund notkunar og hlaða niður niðurstöðum.

 

Gögnin sem mælaborðið byggir á koma frá flutningsjöfnunarsjóði oíuvara sem var starfræktur á árunum 2010-2020. Í dag er þessum gögnum ekki lengur safnað af íslenskum stjórnvöldum og vill Eimur nota tækifærið til að hvetja Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið sem og Umhverfis- og orkustofnun til að halda áfram söfnun og birtingu nákvæmra gagna um sölu jarðefnaeldsneytis á Íslandi. Að mati Eims eru þessi gögn langbesti mælikvarðinn á framvindu orkuskiptanna og hvernig okkur miðar að markmiðinu um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2050.

 

Olíumælaborðið var þróað af Eimi og verkfræðistofunni Eflu. Forritunin var unnin af Inbal Armony sem hluti af lokaverkefni í námi hjá SIT Study Abroad: Climate Change and the Arctic. 

Um Inbal Armoni:  Inbal Armony er nemi við Macalester College í Minnesota í Bandaríkjunum og stundar nám í loftslagsvísindum, stefnumótun og gagnavísindum. Á árinu 2025 tók Inbal þátt í námsdvöl á vegum School for International Training á Íslandi. Með hópi annarra bandarískra stúdenta dvaldi hún einn önn á Íslandi til að kynna sér einstakt náttúruumhverfi landsins og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. 


Eimur þakkar Inbal Armony og Eflu kærlega fyrir samstarfið.





Nánari upplýsingar um mælaborðið veitir Skúli Gunnar Árnason, forstöðumaður orkuskipta hjá Eimi á netfangið  skuli@eimur.is


Skoða mælaborð

Deila frétt

30. september 2025
Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.
11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi
Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 9. september 2025
Eimur hefur fengið öflugan liðsstyrk í Alessöndru Schnider sem bætist nú í hópinn og mun starfa á Norðurlandi vestra með aðsetur á Sauðárkróki. Alessandra lauk nýverið doktorsnámi í líffræði með áherslu á þróunarvistfræði í sameiginlegu námi Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands. ,,Við erum mjög spennt að fá Alessöndru til liðs við okkur hjá Eimi, og verður hennar þekking og reynsla til að efla starfsemi félagsins enn frekar á Norðurlandi vestra”, segir Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri Eims. Alessandra er með meistarapróf í erfðafræði og líffræðilegri mannfræði frá Háskólanum í Zürich í Sviss og BS próf í líffræði frá sama skóla. Á ferli sínum hefur Alessandra sinnt fjölbreyttum verkefnum tengdum fiskrannsóknum, náttúruvernd og vísindamiðlun, meðal annars með því að stofna og reka miðlunarverkefnið Ice Fish Research og framleiða hlaðvarpið Fiskaspjall sem fjallar um íslenskar fiskrannsóknir. Alessandra hefur kennt við Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands og unnið að fjölmörgum rannsóknarverkefnum og fengið til þess styrki. Hún hefur jafnframt birt vísindagreinar og flutt erindi á fjölda ráðstefna hérlendis og erlendis. ,,Það er dýrmætt að fá tækifæri til að nýta þekkingu mína í samfélagi sem tók vel á móti mér fyrir sex árum. Skagafjörður er orðið heimili mitt og mér þykir mikilvægt að geta unnið að verkefnum sem geta haft raunveruleg áhrif og stuðlað að jákvæðum breytingum. Menntun mín og reynsla hefur gefið mér sterka tengingu við náttúruna og ég vona að geta lagt mitt af mörkum með lausnum sem nýta auðlindir á ábyrgan hátt og vernda um leið hina einstöku náttúru Íslands”, segir Alessandra Schnider. Alessandra mun hefja störf 3. nóvember næstkomandi og bjóðum við hana velkomna til starfa. Starfið var auglýst þann 27. júní s.l. og bárust 18 umsóknir. Ráðningarferlið var unnið í samstarfi við ráðningafyrirtækið Hagvang.