3. júlí 2025

Nýtt mælaborð um olíusölu á Íslandi: Mikilvægur mælikvarði fyrir orkuskiptin

Eimur kynnir með stolti gagnvirkt olíumælaborð

Olíumælaborð Eims og Eflu er ávöxtur vinnu við gagnasafn um sölu og notkun jarðefnaeldsneytis á Íslandi á árunum 2010–2020. Fyrir stuttu gáfu Eimur og Efla út skýrsluna „Olíunotkun sveitarfélaga á Íslandi“ sem er aðgengileg á heimasíðu Eims. Með þessu nýja mælaborði geta notendur skoðað gögnin sem fjallað er um í skýrslunni á gagnvirkan hátt eftir landshlutum eða sveitarfélögum, eftir tegund eldsneytis og magni – bæði í heild og á höfðatölu. Þá er hægt að vista gröf sem notandinn býr til með mælaborðinu. Vinna við gerð skýrslunnar og mælaborðsins er hluti af RECET verkefninu sem styrkt er af LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál og miðar að því að efla getu sveitarfélaganna og atvinnulífsins til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin.

 

Íslensk stjórnvöld hafa lögfest markmið um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040 og miða að jarðefnaeldsneytislausu Íslandi árið 2050. Í dag eru um 1.000.000 tonn af olíu flutt inn til Íslands á ári hverju.

Yfir 60% Íslendinga búa á höfuðborgarsvæðinu, en orkuskiptin þurfa einnig að ná til annarra landshluta og smærri sveitarfélaga þar sem raunverulegur árangur í loftslagsmálum næst aðeins með víðtækri aðkomu allra samfélagshluta. Olíumælaborðið gerir notendum kleift að skyggnast inn í það hvernig þessi olíusala skiptist eftir greinum og varpa ljósi á það hver staðan er í orkuskiptunum og hvar við erum stödd á vegferðinni að jarðefnaeldsneytislausu Íslandi.


Gögnin sýna meðal annars að:
• Höfuðborgarsvæðið var með hæstu heildarsölu olíu, en lægsta olíunotkun á hvern íbúa.
• Suðurland var með hæstu olíunotkun á hvern íbúa í samgöngum á landi.
• Austurland var með hæstu olíunotkun á hvern íbúa í sjávarútvegi.

Þessi munur milli svæða undirstrikar mikilvægi þess að stefnumótun í orkuskiptum byggi á gögnum og taki tillit til staðbundinna aðstæðna og þarfa. Mælaborðið er hannað með fjölbreytta notendur í huga og býður upp á gagnvirka upplifun þar sem hægt er að velja svæði, tímabil og tegund notkunar og hlaða niður niðurstöðum.

 

Gögnin sem mælaborðið byggir á koma frá flutningsjöfnunarsjóði oíuvara sem var starfræktur á árunum 2010-2020. Í dag er þessum gögnum ekki lengur safnað af íslenskum stjórnvöldum og vill Eimur nota tækifærið til að hvetja Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið sem og Umhverfis- og orkustofnun til að halda áfram söfnun og birtingu nákvæmra gagna um sölu jarðefnaeldsneytis á Íslandi. Að mati Eims eru þessi gögn langbesti mælikvarðinn á framvindu orkuskiptanna og hvernig okkur miðar að markmiðinu um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2050.

 

Olíumælaborðið var þróað af Eimi og verkfræðistofunni Eflu. Forritunin var unnin af Inbal Armony sem hluti af lokaverkefni í námi hjá SIT Study Abroad: Climate Change and the Arctic. 

Um Inbal Armoni:
Inbal Armony er nemi við Macalester College í Minnesota í Bandaríkjunum og stundar nám í loftslagsvísindum, stefnumótun og gagnavísindum. Á árinu 2025 tók Inbal þátt í námsdvöl á vegum School for International Training á Íslandi. Með hópi annarra bandarískra stúdenta dvaldi hún einn önn á Íslandi til að kynna sér einstakt náttúruumhverfi landsins og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.


Eimur þakkar Inbal Armony og Eflu kærlega fyrir samstarfið.


Nánari upplýsingar um mælaborðið veitir Skúli Gunnar Árnason, forstöðumaður orkuskipta hjá Eimi á netfangið skuli@eimur.is

Skoða mælaborð

Deila frétt

3. júlí 2025
Akureyrarbær og atNorth hafa undirritað samkomulag um afhendingu glatvarma frá gagnaverinu ICE03 að Hlíðarvöllum í samvinnu við Eim, sem leiddi vinnu við samningsgerðina. Glatvarminn verður afhentur án endurgjalds til þróunarverkefna í samræmi við áherslur Akureyrarbæjar um sjálfbæra þróun og orkunýtingu. Framkvæmdum við 16 milljarða króna stækkun gagnavers atNorth á Akureyri miðar vel og er fyrri áfangi nú tilbúinn í rekstur. Samhliða stækkun gagnavers verður reist þjónustuhús fyrir ört stækkandi hóp starfsmanna félagsins á Akureyri. Fyrsta skóflustungan var tekin í morgun við hátíðlega athöfn. Viðstaddir voru fulltrúar bæjarstjórnar Akureyrar, starfsmenn atNorth, verktakar og aðrir gestir. Nýja þjónustuhúsið verður vestan við núverandi byggingar á athafnasvæði atNorth og er ráðgert að húsið verði tekið í notkun á næsta ári. Anna Kristín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar og nýsköpunar hjá atNorth, hélt um skófluna í morgun og tók fyrstu skóflustunguna ásamt starfsfólki félagsins. „Umsvifin á Akureyri hafa aukist hröðum skrefum og ljóst að við þurfum að reisa nýja þjónustubyggingu til að tryggja framúrskarandi aðstöðu til framtíðar fyrir ört stækkandi starfsmannahóp okkar. Auk mikils fjölda verktaka sem vinna að stækkun rekstursins, erum við með um 80 fasta starfsmenn á Íslandi og þriðjungur þeirra er á Akureyri.“ Samhliða stækkuninni hafa Akureyrarbær og atNorth samið um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu til samfélagsverkefna á Akureyri, m.a. til upphitunar á nýju gróðurhúsi sem reist verður og rekið á samfélagslegum forsendum. Auk bæjarins og atNorth koma Ferro Zink og Gróðrarstöð Akureyrar að verkefninu, en markmiðið er m.a. að skapa lærdómsumhverfi til vistvænnar ræktunar fyrir nemendur á grunn- og framhaldsskólastigi á Akureyri. Vonir standa til að gróðurhúsið verði tilbúið til notkunar strax í haust og ungir Akureyringar fái þá tækifæri til að kynnast sjálfbærri matvælaframleiðslu og betri orkunýtingu í verki. „Við leggjum mikla áherslu á að Akureyri verði leiðandi í orkunýtingu og sjálfbærni,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. „Þetta samstarf við atNorth og Eim er lykilskref í þeirri vegferð og þeir möguleikar sem fylgja samkomulagi um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu eru afar mikilvægir fyrir bæjarfélagið. Sá samningur sem undirritaður var í dag er í takti við þær væntingar sem við höfðum um áhrif þeirra innviðaframkvæmda sem ráðist var í til að tryggja raforkuflutning inn á svæðið.“ Eimur leiddi samningsgerðina fyrir hönd bæjarins. „Við hjá Eimi sjáum þetta sem mikilvægt skref í því að virkja ónýttar auðlindir til raunverulegrar verðmætasköpun á svæðinu. Þessi samningur er einstakur á Íslandi og sýnir greinilega hverju hægt er að ná fram þegar sveitarfélög, fyrirtæki og nýsköpun vinna saman að settum umhverfismarkmiðum“, segir Karen Mist Kristjánsdóttir, forstöðumaður orku og sjálfbærni hjá Eimi. Alls rekur atNorth átta gagnaver á Norðurlöndum, þar af þrjú á Íslandi. Tvö til viðbótar eru í smíðum í Danmörku og Finnlandi, auk þess sem stækkun gagnaversins á Fitjum í Reykjanesbæ er í fullum gangi. Starfsmenn atNorth eru rúmlega 200.
27. júní 2025
Eimur óskar eftir að ráða verkefnastjóra á Norðurlandi Vestra í tímabundið starf út árið 2026, með möguleika á framlengingu. Við leitum að öflugum einstaklingi til að móta og leiða spennandi þróunarverkefni á Norðurlandi vestra á sviði hringrásarhagkerfisins, orkuskipta og nýsköpunar. Verkefnastjóri vinnur náið með framkvæmdastjóra Eims og eftir atvikum öðru starfsfólki og samstarfsaðilum, og ber ábyrgð á framgangi valinna verkefna. Starfsstöð verkefnastjóra er á Norðurlandi vestra, eftir hentugleikum á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd eða Sauðárkróki. Helstu verkefni Verkefnastjórn valinna verkefna Eims með áherslu á innleiðingu hringrásarhagkerfis, orkuskipti, orkunýtni og verðmætasköpun Þróa öflugt samstarf með hagsmunaaðilum, sérstaklega á Norðurlandi vestra Vinna að mótun og fjármögnun nýrra verkefna á starfssvæði Eims Taka virkan þátt í umsóknaskrifum í innlenda og erlenda sjóði Aðstoð við að koma verkefnum Eims á framfæri Teymisvinna með Bláma, Orkídeu og Eygló Hæfnikröfur Háskólamenntun sem nýtist í starfi, raunvísinda- eða tæknimenntun er kostur Frumkvæði, skipulagshæfni og sjálfstæði vinnubrögðum Reynsla af gerð styrkumsókna í innlenda og erlenda sjóði er kostur Reynsla af verkefnastjórn er kostur Rík samskiptahæfni og færni í að koma frá sér efni Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti Eimur er samstarfsverkefni sem snýr að bættri nýtingu auðlinda á Norðurlandi með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Að verkefninu standa Landsvirkjun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur. Með umsókn skal fylgja ferilskrá ásamt kynningarbréfi. Nánari upplýsingar Geirlaug Jóhannsdóttir, geirlaug@hagvangur.is Inga S. Arnardóttir, inga@hagvangur.is
Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 24. júní 2025
Sniglarækt hefur víða í Evrópu sannað sig sem vistvæn og arðbær búgrein með fjölbreyttum afurðum – allt frá lúxusmatvöru til hráefna í snyrtivöruiðnað. Nýnæmi verkefnisins felst í að aðlaga slíka ræktun að íslenskum aðstæðum með áherslu á sjálfbæra auðlindanýtingu og kolefnislágan rekstur. Verkefnið er þróað í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) og írsku sniglaræktina Inis Escargot. Á árinu 2025 verður lögð sérstök áhersla á fræðslu og vitundarvakningu: Haldnir verða fundir á Norðurlandi með írskum sérfræðingi um tækifærin í sniglarækt með nýtingu glatvarma; Skipulagt staðnám fyrir bændur og aðra áhugasama aðila ásamt fulltrúum stuðningsumhverfis landbúnaðar og nýsköpunar á Norðurlandi á sniglabýli á Írlandi snemma árs 2026; Gefin út skýrsla um niðurstöður verkefnisins með það að markmiði að styðja áframhaldandi þróun greinarinnar hérlendis. Verkefnið tengist beint fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna: Góð atvinna og hagvöxtur Ábyrg neysla og framleiðsla Nýsköpun og uppbygging Aðgerðir í loftslagsmálum Eimur leggur sérstaka áherslu á að styðja við nýsköpun í dreifbýli og virkja staðbundnar auðlindir til að styðja sjálfbæra verðmætasköpun. Verkefnið er viðleitni til þess að virkja nýja krafta á grunni staðbundinnar sérstöðu og alþjóðlegrar þekkingar. Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Sigurður Líndal hjá Eimi á netfangið s.lindal@eimur.is