3. júlí 2025
atNorth og Akureyrarbær semja um nýtingu glatvarma

Semja um nýtingu glatvarma og byggja þjónustuhús á Akureyri
Akureyrarbær og atNorth hafa undirritað samkomulag um afhendingu glatvarma frá gagnaverinu ICE03 að Hlíðarvöllum í samvinnu við Eim, sem leiddi vinnu við samningsgerðina. Glatvarminn verður afhentur án endurgjalds til þróunarverkefna í samræmi við áherslur Akureyrarbæjar um sjálfbæra þróun og orkunýtingu.
Framkvæmdum við 16 milljarða króna stækkun gagnavers atNorth á Akureyri miðar vel og er fyrri áfangi nú tilbúinn í rekstur. Samhliða stækkun gagnavers verður reist þjónustuhús fyrir ört stækkandi hóp starfsmanna félagsins á Akureyri. Fyrsta skóflustungan var tekin í morgun við hátíðlega athöfn. Viðstaddir voru fulltrúar bæjarstjórnar Akureyrar, starfsmenn atNorth, verktakar og aðrir gestir. Nýja þjónustuhúsið verður vestan við núverandi byggingar á athafnasvæði atNorth og er ráðgert að húsið verði tekið í notkun á næsta ári.
Anna Kristín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar og nýsköpunar hjá atNorth, hélt um skófluna í morgun og tók fyrstu skóflustunguna ásamt starfsfólki félagsins. „Umsvifin á Akureyri hafa aukist hröðum skrefum og ljóst að við þurfum að reisa nýja þjónustubyggingu til að tryggja framúrskarandi aðstöðu til framtíðar fyrir ört stækkandi starfsmannahóp okkar. Auk mikils fjölda verktaka sem vinna að stækkun rekstursins, erum við með um 80 fasta starfsmenn á Íslandi og þriðjungur þeirra er á Akureyri.“
Samhliða stækkuninni hafa Akureyrarbær og atNorth samið um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu til samfélagsverkefna á Akureyri, m.a. til upphitunar á nýju gróðurhúsi sem reist verður og rekið á samfélagslegum forsendum. Auk bæjarins og atNorth koma Ferro Zink og Gróðrarstöð Akureyrar að verkefninu, en markmiðið er m.a. að skapa lærdómsumhverfi til vistvænnar ræktunar fyrir nemendur á grunn- og framhaldsskólastigi á Akureyri. Vonir standa til að gróðurhúsið verði tilbúið til notkunar strax í haust og ungir Akureyringar fái þá tækifæri til að kynnast sjálfbærri matvælaframleiðslu og betri orkunýtingu í verki.
„Við leggjum mikla áherslu á að Akureyri verði leiðandi í orkunýtingu og sjálfbærni,“
segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. „Þetta samstarf við atNorth og Eim er lykilskref í þeirri vegferð og þeir möguleikar sem fylgja samkomulagi um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu eru afar mikilvægir fyrir bæjarfélagið. Sá samningur sem undirritaður var í dag er í takti við þær væntingar sem við höfðum um áhrif þeirra innviðaframkvæmda sem ráðist var í til að tryggja raforkuflutning inn á svæðið.“
Eimur leiddi samningsgerðina fyrir hönd bæjarins.
„Við hjá Eimi sjáum þetta sem mikilvægt skref í því að virkja ónýttar auðlindir til raunverulegrar verðmætasköpun á svæðinu. Þessi samningur er einstakur á Íslandi og sýnir greinilega hverju hægt er að ná fram þegar sveitarfélög, fyrirtæki og nýsköpun vinna saman að settum umhverfismarkmiðum“, segir Karen Mist Kristjánsdóttir, forstöðumaður orku og sjálfbærni hjá Eimi.
Alls rekur atNorth átta gagnaver á Norðurlöndum, þar af þrjú á Íslandi. Tvö til viðbótar eru í smíðum í Danmörku og Finnlandi, auk þess sem stækkun gagnaversins á Fitjum í Reykjanesbæ er í fullum gangi. Starfsmenn atNorth eru rúmlega 200.
Deila frétt

Undanfarnar vikur hefur Eimur staðið fyrir kynningarstarfi um möguleika sniglaræktar á Íslandi. Verkefnið hefur verið kynnt fyrir fjölmörgum aðilum víða um Norðurland meðal annars á Hönnunarþingi á Húsavík, Vegagerðinni, Landsvirkjun og fleiri stofnunum og fyrirtækjum. Markmiðið hefur verið að vekja athygli á tækifærum til nýsköpunar í landbúnaði og benda á hvernig vistvæn og sjálfbær ræktun gæti orðið áhugaverð viðbót við íslenskan landbúnað. Vinnustofur um sniglarækt sem haldnar voru á Norðurlandi í október vöktu mikla athygli og voru afar ánægjulegar í alla staði. Fjöldi bænda, frumkvöðla og annarra áhugasamra einstaklinga lagði leið sína á kynningarfundi þar sem fjallað var um möguleika sniglaræktar sem nýrrar vistvænnar hliðarbúgreinar á Íslandi. Á fundunum fóru yfir efnið þeir Sigurður Líndal frá Eimi og Peter Monaghan frá írska fyrirtækinu Inis Escargot, sem hefur mikla og farsæla reynslu af sniglarækt sem hágæða matvöru í Evrópu. Þeir kynntu hugmyndir sínar um hvernig hægt er að nýta íslenskar aðstæður, svo sem jarðhita, hrein auðlindakerfi og vannýttan húsakost til sveita, til að skapa sjálfbært rekstrarumhverfi fyrir sniglarækt. Áhugi á viðfangsefninu reyndist mikill og spurningar komu úr öllum áttum, bæði frá bændum sem sjá tækifæri til að renna styrkari stoðum undir búskap sinn og frá frumkvöðlum í leit að nýjum leiðum til að nýta staðbundnar auðlindir á skapandi hátt. Þátttakendur ræddu meðal annars um húsakost, fóðrun, ræktunarlotur, markaði og möguleg notagildi sniglaafurða á Íslandi, auk leiða til meginmarkaða í Evrópu. Sigurður og Peter voru báðir hæstánægðir með móttökurnar og áhugann sem blasti við alls staðar. „Ísland stendur frammi fyrir einstöku tækifæri á heimsvísu þegar kemur að sniglarækt, því stöðugt hitastig og trygg hitastjórnun er lykillinn að árangursríku sniglaeldi. Þar kemur íslenskur jarðhiti með nýja vídd inn á heimsmarkaðinn,“ sagði sniglasérfræðingurinn að loknum fundunum. Næstu skref eru þegar farin að taka á sig mynd, og ljóst er að langtum fleiri munu sækja um þátttöku í staðnámi á Írlandi en sæti verða í boði. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með framhaldinu og fá upplýsingar um næstu skref geta haft samband við Sigurð Líndal hjá Eimi á netfangið s.lindal@eimur.is eða fylgst með fréttum á eimur.is. Vinnustofurnar sýndu glöggt að nýsköpun í landbúnaði lifir góðu lífi á Norðurlandi – og að þó sniglar séu smávaxnir geti þeir orðið stór hluti af framtíðinni.

Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og er liður í að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Meðal fundarefna verður: • Hvernig orka, varmi og innviðir skapa ný tækifæri á Bakka • Hvernig hringrásarhagkerfi getur stutt við atvinnuþróun og alþjóðlega ímynd Íslands • Hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í sjálfbærri uppbyggingu Dagskrá: Húsið opnar kl. 12:00 – Skráning og súpuhlaðborð fyrir gesti á Fosshótel Húsavík Ráðstefna kl. 13:00 – 17:00 Fundarliður 1: Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni Fundarliður 2: Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni Fundarliður 3: Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið á Bakka fyrir hádegi frá kl. 10:30 - 12:00 þann 20. nóvember og er sú ferð opin öllum. Rútan fer frá Fosshótel á Húsavík og er nauðsynlegt að skrá sig því það er takmarkað pláss. Ráðstefnan er opin öllum en skráning er nauðsynleg - www.eimur.is/bakkiradstefna

Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.






