27. júní 2025

Laust starf hjá Eimi

Eimur leitar að liðsfélaga á Norðurlandi vestra

Eimur óskar eftir að ráða verkefnastjóra á Norðurlandi Vestra í tímabundið starf út árið 2026, með möguleika á framlengingu.

Við leitum að öflugum einstaklingi til að móta og leiða spennandi þróunarverkefni á Norðurlandi vestra á sviði hringrásarhagkerfisins, orkuskipta og nýsköpunar. Verkefnastjóri vinnur náið með framkvæmdastjóra Eims og eftir atvikum öðru starfsfólki og samstarfsaðilum, og ber ábyrgð á framgangi valinna verkefna. Starfsstöð verkefnastjóra er á Norðurlandi vestra, eftir hentugleikum á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd eða Sauðárkróki.

Helstu verkefni
  • Verkefnastjórn valinna verkefna Eims með áherslu á innleiðingu hringrásarhagkerfis, orkuskipti, orkunýtni og verðmætasköpun
  • Þróa öflugt samstarf með hagsmunaaðilum, sérstaklega á Norðurlandi vestra
  • Vinna að mótun og fjármögnun nýrra verkefna á starfssvæði Eims
  • Taka virkan þátt í umsóknaskrifum í innlenda og erlenda sjóði
  • Aðstoð við að koma verkefnum Eims á framfæri
  • Teymisvinna með Bláma, Orkídeu og Eygló

Hæfnikröfur
  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi, raunvísinda- eða tæknimenntun er kostur
  • Frumkvæði, skipulagshæfni og sjálfstæði vinnubrögðum
  • Reynsla af gerð styrkumsókna í innlenda og erlenda sjóði er kostur
  • Reynsla af verkefnastjórn er kostur
  • Rík samskiptahæfni og færni í að koma frá sér efni
  • Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti
 
Eimur er samstarfsverkefni sem snýr að bættri nýtingu auðlinda á Norðurlandi með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Að verkefninu standa Landsvirkjun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur.

Með umsókn skal fylgja ferilskrá ásamt kynningarbréfi. 

Nánari upplýsingar
Geirlaug Jóhannsdóttir, geirlaug@hagvangur.is
Inga S. Arnardóttir, inga@hagvangur.is
SÆKJA UM STARF

Deila frétt

17. október 2025
Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og er liður í að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Meðal fundarefna verður: • Hvernig orka, varmi og innviðir skapa ný tækifæri á Bakka • Hvernig hringrásarhagkerfi getur stutt við atvinnuþróun og alþjóðlega ímynd Íslands • Hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í sjálfbærri uppbyggingu Dagskrá: Húsið opnar kl. 12:00 – Skráning og súpuhlaðborð fyrir gesti á Fosshótel Húsavík Ráðstefna kl. 13:00 – 17:00 Fundarliður 1: Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni Fundarliður 2: Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni Fundarliður 3: Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða (Nánari dagskrá verður birt þegar nær dregur) Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið á Bakka fyrir hádegi frá kl. 10:30 - 12:00 þann 20. nóvember og er sú ferð opin öllum. Rútan fer frá Fosshótel á Húsavík og er nauðsynlegt að skrá sig því það er takmarkað pláss. Ráðstefnan er opin öllum en skráning er nauðsynleg - www.eimur.is/bakkiradstefna
30. september 2025
Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.
11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi