24. júní 2025

Sniglarækt og sjálfbær nýting glatvarma – nýtt verkefni Eims hlýtur styrk úr Lóu

Eimur hefur hlotið styrk úr Lóu – nýsköpunarstyrkjum fyrir nýtt tilraunaverkefni sem miðar að því að innleiða sniglarækt sem sjálfbæra aukabúgrein á íslenskum sveitabæjum. Nýttur verður glatvarmi úr hitaveitukerfum og verðmæti sköpuð úr vannýttum hliðarstraumum. 

Sniglarækt hefur víða í Evrópu sannað sig sem vistvæn og arðbær búgrein með fjölbreyttum afurðum – allt frá lúxusmatvöru til hráefna í snyrtivöruiðnað. Nýnæmi verkefnisins felst í að aðlaga slíka ræktun að íslenskum aðstæðum með áherslu á sjálfbæra auðlindanýtingu og kolefnislágan rekstur. 

Verkefnið er þróað í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) og írsku sniglaræktina Inis Escargot. 

Á árinu 2025 verður lögð sérstök áhersla á fræðslu og vitundarvakningu: 
  • Haldnir verða fundir á Norðurlandi með írskum sérfræðingi um tækifærin í sniglarækt með nýtingu glatvarma; 
  • Skipulagt staðnám fyrir bændur og aðra áhugasama aðila ásamt fulltrúum stuðningsumhverfis landbúnaðar og nýsköpunar á Norðurlandi á sniglabýli á Írlandi snemma árs 2026;
  • Gefin út skýrsla um niðurstöður verkefnisins með það að markmiði að styðja áframhaldandi þróun greinarinnar hérlendis. 
Verkefnið tengist beint fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna: 
  • Góð atvinna og hagvöxtur 
  • Ábyrg neysla og framleiðsla 
  • Nýsköpun og uppbygging 
  • Aðgerðir í loftslagsmálum 
Eimur leggur sérstaka áherslu á að styðja við nýsköpun í dreifbýli og virkja staðbundnar auðlindir til að styðja sjálfbæra verðmætasköpun. Verkefnið er viðleitni til þess að virkja nýja krafta á grunni staðbundinnar sérstöðu og alþjóðlegrar þekkingar. 

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Sigurður Líndal hjá Eimi á netfangið s.lindal@eimur.is

Deila frétt

17. október 2025
Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og er liður í að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Meðal fundarefna verður: • Hvernig orka, varmi og innviðir skapa ný tækifæri á Bakka • Hvernig hringrásarhagkerfi getur stutt við atvinnuþróun og alþjóðlega ímynd Íslands • Hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í sjálfbærri uppbyggingu Dagskrá: Húsið opnar kl. 12:00 – Skráning og súpuhlaðborð fyrir gesti á Fosshótel Húsavík Ráðstefna kl. 13:00 – 17:00 Fundarliður 1: Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni Fundarliður 2: Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni Fundarliður 3: Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða (Nánari dagskrá verður birt þegar nær dregur) Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið á Bakka fyrir hádegi frá kl. 10:30 - 12:00 þann 20. nóvember og er sú ferð opin öllum. Rútan fer frá Fosshótel á Húsavík og er nauðsynlegt að skrá sig því það er takmarkað pláss. Ráðstefnan er opin öllum en skráning er nauðsynleg - www.eimur.is/bakkiradstefna
30. september 2025
Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.
11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi