6. júní 2025
Lífgas og áburður í brennidepli: Fjölmenn ráðstefna Eims og Orkídeu á Selfossi
Eimur og Orkídea stóðu fyrir ráðstefnunni Lífgas- og áburðarframleiðsla: Tækifæri íslensks landbúnaðar, á Hótel Selfossi 5. júní.
Erindin voru fjölbreytt, fjallað var sérstaklega um möguleg lífgas- og áburðarverkefni á Dysnesi við Eyjafjörð, í Reykholti í Biskupstungum og í Þorlákshöfn. Við fengum að heyra af reynslu Svía á uppsetningu smáskala lífgasvera, og af reynslu bænda frá Færeyjum, við notkun á meltu til áburðar. Fulltrúar frá Sorpu sem starfrækja eina lífgasver landsins fóru yfir sína starfsemi, og rektor Landbúnaðarháskólans fjallaði um menntunar- og rannsóknaþörf geirans. Þá var fjallað um fjármögnunarleiðir, og fulltrúi Bændasamtaka Íslands ræddi áherslur þeirra hvað snertir hliðarafurðir landbúnaðar. Margrét Á. Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Bændasamtakana tók að sér fundarstjórn.
Ráðstefnan var vel sótt, en um 140 manns höfðu skráð sig ýmist í staðfund eða streymi. Upptakan að fundinum er aðgengileg á YouTube. Það er augsýnilega mikill áhugi á viðfangsefninu, enda mikil tækifæri fyrir hendi til að efla sjálfbærni landbúnðarins og þar með fæðuöryggi þjóðarinnar með því að draga úr þörf á innfluttum áburði og eldsneyti.
Undir lok fundarins samþykktu fundargestir eftirfarandi ályktun:
Lífgas- og áburðarvinnsla hefur í för með sér fjölþættan ávinning fyrir umhverfi, atvinnulíf, stjórnvöld og samfélagið í heild. Þau lífgasverkefni sem hafa verið í þróun hafa lagt mikið til skilnings á þeim áskorunum og tækifærum sem til staðar eru á Íslandi og yfirfærslugildi þeirra er umtalsvert. Til að hægt sé að raungera þann ávinning sem af þeim hlýst, þarf öflugt samstarf milli atvinnuvegarráðuneytisins og umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytisins við samtök bænda, sveitarfélög og afurðastöðvar.
Eimur og Orkídea þakka öllum sem að fundinum komu fyrir þeirra framlag.
Ráðstefnan var haldin með stuðningi Landsvirkjunar.
Deila frétt

Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og er liður í að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Meðal fundarefna verður: • Hvernig orka, varmi og innviðir skapa ný tækifæri á Bakka • Hvernig hringrásarhagkerfi getur stutt við atvinnuþróun og alþjóðlega ímynd Íslands • Hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í sjálfbærri uppbyggingu Dagskrá: Húsið opnar kl. 12:00 – Skráning og súpuhlaðborð fyrir gesti á Fosshótel Húsavík Ráðstefna kl. 13:00 – 17:00 Fundarliður 1: Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni Fundarliður 2: Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni Fundarliður 3: Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða (Nánari dagskrá verður birt þegar nær dregur) Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið á Bakka fyrir hádegi frá kl. 10:30 - 12:00 þann 20. nóvember og er sú ferð opin öllum. Rútan fer frá Fosshótel á Húsavík og er nauðsynlegt að skrá sig því það er takmarkað pláss. Ráðstefnan er opin öllum en skráning er nauðsynleg - www.eimur.is/bakkiradstefna

Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.







