6. júní 2025
Lífgas og áburður í brennidepli: Fjölmenn ráðstefna Eims og Orkídeu á Selfossi
Eimur og Orkídea stóðu fyrir ráðstefnunni Lífgas- og áburðarframleiðsla: Tækifæri íslensks landbúnaðar, á Hótel Selfossi 5. júní.
Erindin voru fjölbreytt, fjallað var sérstaklega um möguleg lífgas- og áburðarverkefni á Dysnesi við Eyjafjörð, í Reykholti í Biskupstungum og í Þorlákshöfn. Við fengum að heyra af reynslu Svía á uppsetningu smáskala lífgasvera, og af reynslu bænda frá Færeyjum, við notkun á meltu til áburðar. Fulltrúar frá Sorpu sem starfrækja eina lífgasver landsins fóru yfir sína starfsemi, og rektor Landbúnaðarháskólans fjallaði um menntunar- og rannsóknaþörf geirans. Þá var fjallað um fjármögnunarleiðir, og fulltrúi Bændasamtaka Íslands ræddi áherslur þeirra hvað snertir hliðarafurðir landbúnaðar. Margrét Á. Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Bændasamtakana tók að sér fundarstjórn.
Ráðstefnan var vel sótt, en um 140 manns höfðu skráð sig ýmist í staðfund eða streymi. Upptakan að fundinum er aðgengileg á YouTube. Það er augsýnilega mikill áhugi á viðfangsefninu, enda mikil tækifæri fyrir hendi til að efla sjálfbærni landbúnðarins og þar með fæðuöryggi þjóðarinnar með því að draga úr þörf á innfluttum áburði og eldsneyti.
Undir lok fundarins samþykktu fundargestir eftirfarandi ályktun:
Lífgas- og áburðarvinnsla hefur í för með sér fjölþættan ávinning fyrir umhverfi, atvinnulíf, stjórnvöld og samfélagið í heild. Þau lífgasverkefni sem hafa verið í þróun hafa lagt mikið til skilnings á þeim áskorunum og tækifærum sem til staðar eru á Íslandi og yfirfærslugildi þeirra er umtalsvert. Til að hægt sé að raungera þann ávinning sem af þeim hlýst, þarf öflugt samstarf milli atvinnuvegarráðuneytisins og umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytisins við samtök bænda, sveitarfélög og afurðastöðvar.
Eimur og Orkídea þakka öllum sem að fundinum komu fyrir þeirra framlag.
Ráðstefnan var haldin með stuðningi Landsvirkjunar.
Deila frétt

Eimur hefur fengið öflugan liðsstyrk í Alessöndru Schnider sem bætist nú í hópinn og mun starfa á Norðurlandi vestra með aðsetur á Sauðárkróki. Alessandra lauk nýverið doktorsnámi í líffræði með áherslu á þróunarvistfræði í sameiginlegu námi Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands. ,,Við erum mjög spennt að fá Alessöndru til liðs við okkur hjá Eimi, og verður hennar þekking og reynsla til að efla starfsemi félagsins enn frekar á Norðurlandi vestra”, segir Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri Eims. Alessandra er með meistarapróf í erfðafræði og líffræðilegri mannfræði frá Háskólanum í Zürich í Sviss og BS próf í líffræði frá sama skóla. Á ferli sínum hefur Alessandra sinnt fjölbreyttum verkefnum tengdum fiskrannsóknum, náttúruvernd og vísindamiðlun, meðal annars með því að stofna og reka miðlunarverkefnið Ice Fish Research og framleiða hlaðvarpið Fiskaspjall sem fjallar um íslenskar fiskrannsóknir. Alessandra hefur kennt við Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands og unnið að fjölmörgum rannsóknarverkefnum og fengið til þess styrki. Hún hefur jafnframt birt vísindagreinar og flutt erindi á fjölda ráðstefna hérlendis og erlendis. ,,Það er dýrmætt að fá tækifæri til að nýta þekkingu mína í samfélagi sem tók vel á móti mér fyrir sex árum. Skagafjörður er orðið heimili mitt og mér þykir mikilvægt að geta unnið að verkefnum sem geta haft raunveruleg áhrif og stuðlað að jákvæðum breytingum. Menntun mín og reynsla hefur gefið mér sterka tengingu við náttúruna og ég vona að geta lagt mitt af mörkum með lausnum sem nýta auðlindir á ábyrgan hátt og vernda um leið hina einstöku náttúru Íslands”, segir Alessandra Schnider. Alessandra mun hefja störf 3. nóvember næstkomandi og bjóðum við hana velkomna til starfa. Starfið var auglýst þann 27. júní s.l. og bárust 18 umsóknir. Ráðningarferlið var unnið í samstarfi við ráðningafyrirtækið Hagvang.