6. júní 2025
Ársskýrsla Eims 2024

Ársskýrsla Eims fyrir starfsárið 2024 er komin út. Í ársskýrslunni er farið yfir starfsemi og helstu verkefni Eims á síðasta ári.
Smelltu hér til að lesa ársskýrsluna.
Ávarp framkvæmdastjóra Eims 2024
Það má með sanni segja að starfsemi Eims hafi vaxið umtalsvert á árinu 2024. Einna hæst ber innganga Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í félagið, en þau bættust í hóp bakhjarla síðasta haust. Nú nær starfssvæði okkar frá vestanverðum Hrútafirði austur til Bakkafjarðar og er það sannarlega gleðileg áskorun að greina möguleika til uppbyggingar og þróunar á forsendum sjálfbærni á Norðurlandi öllu, þar sem aðstæður eru mjög breytilegar.
Fjögur verkefni báru hæst á árinu. Það var RECET verkefnið um orkuskipti sveitarfélaga, Norðanátt sem blés til þriðju fjárfestahátíðarinnar í upphafi árs 2024, Grænir iðngarðar á Bakka sem náði miklum þroska og verkefni um uppbyggingu Líforkugarða á Dysnesi við Eyjafjörð.
Í febrúar stóð Eimur fyrir málþingi í Hofi um orkuskipti undir hatti RECET verkefnisins, sem var vel sótt. Í mars það ár fór hópur í námsferð til eyjunnar Samsø í Danmörku að fræðast um hvernig samfélagið þar umbreytti orkugjöfum frá olíu og gasi yfir í lífmassa, sól og vind. Með í för voru 11 fulltrúar sveitarfélaga frá Norðurlandi eystra og Vestfjörðum. Um haustið héldu Eimur og SSNE fimm vinnustofur með öllum tíu sveitarfélögunum undir hatti SSNE, um aðgerðir til hröðunar orkuskipta sem sveitarfélögin geta fléttað inn í sínar aðgerðaáætlanir fyrir loftslagið. Þá komu út tvær skýrslur á árinu undir hatti verkefnisins. Sú fyrri var Orkuskipti í haftengdri starfsemi á Norðurlandi eystra, sem tekur á væntri raforkuþörf við allar hafnir í landshlutanum tilkomna vegna áætlaðra orkuskipta smærri báta. Sú síðari, Olíunotkun sveitarfélaga á Íslandi, var unnin í góðu samstarfi við EFLU en þar var greind olíusala í öllum sveitarfélögum á Íslandi á árunum 2010-2020 og uppruni sölunnar metinn. Þetta er í fyrsta skiptið sem opinberlega eru birtar upplýsingar um olíunotkun á Íslandi eftir landsvæðum. RECET vinnan heldur svo áfram á nýju ári með áframhaldandi stuðningi við sveitarfélögin, en með aukinni áherslu á atvinnulífið og aðra þætti samfélagsins.
Norðanáttin blés til þriðju fjárfestahátíðarinnar á Siglufirði seinni hluta marsmánaðar. Þar komu saman um 100 manns, frumkvöðlar, fjárfestar og aðrir gestir og tóku þátt í ráðstefnu um frumkvöðlastarf á landsbyggðinni, og hlýddu á kynningar frá sprotafyrirtækjum sem vinna með einum eða öðrum hætti í auðlindahagkerfinu. Hátíðin heppnaðist afar vel og erum við stolt af því að hafa skapað þennan frjóa vettvang fyrir fjárfestingu í auðlindatengdum sprotum.
Iðnþróun á forsendum sjálfbærni var viðfangsefnið í Grænum iðngörðum á Árbakka við Húsavík. Þar stendur fyrir kísiliðjan PCC Bakki Silicon sem vekur ekki beint hugrenningatengsl með grænni starfsemi, en verkefnið felst m.a. í því að nýta auðlindastrauma frá mengandi iðnaði sem fyrir er á svæðinu. Með því að nýta glataða orku, gas og aðrar afurðir sem við köllum í dag úrgang (því við hirðum ekki um að endurheimta þessi verðmæti í vinnsluferlunum) mætti á grunni þeirra verðmæta byggja upp frekari atvinnustarfsemi og iðnað. Afhverju eru þessar afurðir ekki hirtar, kann einhver að spyrja. Svarið felst alltaf í kostnaði. Sérstaklega verður dýrt að endurheimta orku og aðrar afurðir úr iðnferlum þegar ekki er hugsað fyrir því við hönnun ferlanna, og verðmiðinn á mengun eða glötuðum auðlindum er enn svo lágur að hann hefur lítil áhrif á ákvarðanir um hvernig verksmiðjur eru smíðaðar. Varmi er dæmi um auðlind sem er mikið er sóað á Íslandi, og (glat)varmi frá stóriðju er engin undantekning. Í tilviki kísiliðjunnar á Árbakka við Húsavík skoðuðum við sérstaklega endurheimt á glatvarma frá kælikerfi verksmiðjunnar í góðu samstarfi við fyrirtækið og niðurstaðan var sú að með lægri tilkostnaði m.v. hefðbundnar leiðir til að sækja varma (með borunum á nýjum jarðhitaholum), mátti sækja varma sem dygði til að hita upp öll heimili á Húsavík tvisvar sinnum. Þetta er merkileg niðurstaða því hún sýnir að það getur borgað sig að hirða frekar en henda, eitthvað sem ætti að geta ríkt samhugur um að sé æskilegt. Fyrir utan vinnuna á Árbakka við Húsavík þar sem Eimur hefur mikið unnið með Norðurþingi og Orkuveitu Húsavíkur og fleiri aðilum, hefur Eimur veitt fleiri sveitarfélögum á Norðurlandi ráðgjöf þegar kemur að atvinnuuppbyggingu á forsendum hringrásarhagkerfisins.
Á árinu var mikil gróska var í málefnum sem sneru að framleiðslu á líforku og starfsfólk Eims tók virkan þátt í að þroska hugmyndir um Líforkugarða á Dysnesi við Eyjafjörð. Í líforkugörðum yrðu starfræktar nokkrar vinnslueiningar þar sem tekið væri á móti lífrænum straumum og úr þeim unnin verðmæti í formi orkugjafa og áburðar. Áformum um uppbyggingu líforkugarða á Dysnesi við Eyjafjörð má skipta upp í þrjá áfanga: Líforkuver, lífdísilver og lífgasver. Fyrsti áfanginn snýr að uppbygginu á vinnslustöð fyrir dýrahræ og annan sláturúrgang sem meðhöndla þarf með sérstökum hætti vegna dýrasjúkdóma. Félagið Líforkuver ehf. leiddi mikla vinnu í þessum efnum sem m.a. sneri að uppbyggingu á slíkri vinnslu, og studdum við hjá Eimi þá vinnu. Mikil samstaða skapaðist á svæðinu um þessa uppbygginu og þáverandi matvælaráðherra lýsti yfir stuðningi við verkefnið. Úr þessu ferli yrði til hráfita sem nýta má til framleiðslu á lífdísli, en félagið Orkey hefur hug á að stórauka framleiðslu sína á lífdísli og nýta til þess hráfituna. Þá fóstruðum við uppbyggingu á þriðja áfanga Líforkugarða, stýrðri vinnslu á metangasi, sem byggir á því að nýta hreinsibúnað fyrir metangas sem þegar er til á svæðinu en það gefur talsvert forskot m.t.t. fjárfestingakostnaðar í slíkri vinnslu. Þessi uppbygging styður markvisst við innleiðingu hringrásarhagkerfisins og afurðirnar eru framlag til orkuskipta á Íslandi.
Þótt við hjá Eimi reynum að vera sýnileg á miðlum og segja frá því sem við gerum þá er stór hluti starfseminnar ósýnilegur öðrum en starfsfólki. Hér á ég sérstaklega við þann mikla tíma sem fer í að sækja styrki. Frá árinu 2022 höfum við tekið þátt í níu styrkumsóknum í annað hvort Horizon Europe eða LIFE styrktaráætlanir ESB og þar af verið leiðandi í vinnu við sjö af þeim. Af þessum níu hafa tvær hlotið náð og er árangurshlutfallið þannig rúm 22%, sem telst mjög gott í þessum bransa. Eitt Evrópuverkefni bættist við á árinu, en það var ICEWATER verkefnið sem byrjaði í janúar 2025 og snýr að innleiðingu á vatnaáætlun á Íslandi. Þá eru ótaldar umsóknir í innlenda sjóði, þar sem árangurshlutfallið er talsvert hærra.
Með nýju starfsvæði á Norðurlandi vestra koma ný tækifæri. Landshlutinn er mikil matarkista, með framleiðslu á landbúnaðarvörum og öflugri útgerð. Þá er starfsemi Landsvirkjunar umtalsverð á svæðinu og útlit er fyrir aukna orkuvinnslu á Blöndusvæði í náinni framtíð. Nokkrir sprotar eru þegar komnir aðeins á legg, en mikil áhersla verður lögð á verðmætasköpun úr lífmassa og bætta nýtingu varma á svæðinu. Til að sinna verkefnum í landshlutanum voru til þess ráðin á árinu, þau Ragnhildur Friðriksdóttir sem starfar á Sauðárkróki, og Sigurður Líndal Þórisson með aðsetur á Hvammstanga, sannarlega góð viðbót við öflugan starfsmannahóp Eims. Til jafns við að finna nýjar áherslur munum við líka byggja á þeirri reynslu og þekkingu sem við höfum aflað okkur í vinnu um græna iðngarða, líforkumál og orkuskipti og setja þá vinnu í samhengi við aðstæður á Norðurlandi vestra.
Ég gæti sannarlega haldið áfram en læt þetta nægja í bili. Við hlökkum til að takast á við 2025!
Ottó Elíasson
Framkvæmdastjóri Eims.
Deila frétt

Loftslags- og orkusjóður hefur úthlutað rúmlega 1,3 milljörðum króna til 109 verkefna sem miða að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eða fela í sér nýsköpun á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála. Eimur er meðal þeirra sem hljóta styrk að þessu sinni. Verkefni ber heitið Nýting lífræns efnis úr fráveituvatni til orkuframleiðslu . Það felur í sér uppsetningu færanlegs hreinsibúnaðar við sláturhús Kjarnafæðis/Norðlenska á Húsavík, í samstarfi við Orkuveitu Húsavíkur og Kjarnafæði Norðlenska. Markmið verkefnisins er að sýna fram á kosti þess að koma upp forhreinsivirki fyrir fráveituvatn frá matvælafyrirtækjum, draga úr lífrænu álagi og nýta efni sem annars færu til spillis, meðal annars til framleiðslu á lífdísil og lífgasi í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Gefn . Verkefnið er fyrst og fremst ætlað sem sýnidæmi sem getur orðið stjórnvöldum og fyrirtækjum hvatning til frekari aðgerða í fráveitumálum. Með því að hreinsa vatnið þar sem mengunin fellur til skapast betri möguleikar til að sækja verðmæt efni í fráveituna, auk þess sem álag á innviði sveitarfélaga minnkar verulega. Verkefnið er einnig hluti af ICEWATER verkefninu, sem að hluta er fjármagnað af LIFE styrktarsjóði Evrópusambandsins. Með styrknum frá Loftslags- og orkusjóði er tryggt að hefja uppsetningu búnaðarins fyrir sláturtíð 2026. Við hlökkum til að segja frá framgangi verkefnisins. Nánar um úthlutun Loftslags- og orkusjóðs og þau 109 verkefni sem hlutu styrk má finna á vef sjóðsins.

Undanfarnar vikur hefur Eimur staðið fyrir kynningarstarfi um möguleika sniglaræktar á Íslandi. Verkefnið hefur verið kynnt fyrir fjölmörgum aðilum víða um Norðurland meðal annars á Hönnunarþingi á Húsavík, Vegagerðinni, Landsvirkjun og fleiri stofnunum og fyrirtækjum. Markmiðið hefur verið að vekja athygli á tækifærum til nýsköpunar í landbúnaði og benda á hvernig vistvæn og sjálfbær ræktun gæti orðið áhugaverð viðbót við íslenskan landbúnað. Vinnustofur um sniglarækt sem haldnar voru á Norðurlandi í október vöktu mikla athygli og voru afar ánægjulegar í alla staði. Fjöldi bænda, frumkvöðla og annarra áhugasamra einstaklinga lagði leið sína á kynningarfundi þar sem fjallað var um möguleika sniglaræktar sem nýrrar vistvænnar hliðarbúgreinar á Íslandi. Á fundunum fóru yfir efnið þeir Sigurður Líndal frá Eimi og Peter Monaghan frá írska fyrirtækinu Inis Escargot, sem hefur mikla og farsæla reynslu af sniglarækt sem hágæða matvöru í Evrópu. Þeir kynntu hugmyndir sínar um hvernig hægt er að nýta íslenskar aðstæður, svo sem jarðhita, hrein auðlindakerfi og vannýttan húsakost til sveita, til að skapa sjálfbært rekstrarumhverfi fyrir sniglarækt. Áhugi á viðfangsefninu reyndist mikill og spurningar komu úr öllum áttum, bæði frá bændum sem sjá tækifæri til að renna styrkari stoðum undir búskap sinn og frá frumkvöðlum í leit að nýjum leiðum til að nýta staðbundnar auðlindir á skapandi hátt. Þátttakendur ræddu meðal annars um húsakost, fóðrun, ræktunarlotur, markaði og möguleg notagildi sniglaafurða á Íslandi, auk leiða til meginmarkaða í Evrópu. Sigurður og Peter voru báðir hæstánægðir með móttökurnar og áhugann sem blasti við alls staðar. „Ísland stendur frammi fyrir einstöku tækifæri á heimsvísu þegar kemur að sniglarækt, því stöðugt hitastig og trygg hitastjórnun er lykillinn að árangursríku sniglaeldi. Þar kemur íslenskur jarðhiti með nýja vídd inn á heimsmarkaðinn,“ sagði sniglasérfræðingurinn að loknum fundunum. Næstu skref eru þegar farin að taka á sig mynd, og ljóst er að langtum fleiri munu sækja um þátttöku í staðnámi á Írlandi en sæti verða í boði. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með framhaldinu og fá upplýsingar um næstu skref geta haft samband við Sigurð Líndal hjá Eimi á netfangið s.lindal@eimur.is eða fylgst með fréttum á eimur.is. Vinnustofurnar sýndu glöggt að nýsköpun í landbúnaði lifir góðu lífi á Norðurlandi – og að þó sniglar séu smávaxnir geti þeir orðið stór hluti af framtíðinni.






