6. júní 2025

Ársskýrsla Eims 2024

Ársskýrsla Eims fyrir starfsárið 2024 er komin út. Í ársskýrslunni er farið yfir starfsemi og helstu verkefni Eims á síðasta ári. 

Smelltu hér til að lesa ársskýrsluna.
 
Ávarp framkvæmdastjóra Eims 2024
Það má með sanni segja að starfsemi Eims hafi vaxið umtalsvert á árinu 2024. Einna hæst ber innganga Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í félagið, en þau bættust í hóp bakhjarla síðasta haust. Nú nær starfssvæði okkar frá vestanverðum Hrútafirði austur til Bakkafjarðar og er það sannarlega gleðileg áskorun að greina möguleika til uppbyggingar og þróunar á forsendum sjálfbærni á Norðurlandi öllu, þar sem aðstæður eru mjög breytilegar.

Fjögur verkefni báru hæst á árinu. Það var RECET verkefnið um orkuskipti sveitarfélaga, Norðanátt sem blés til þriðju fjárfestahátíðarinnar í upphafi árs 2024, Grænir iðngarðar á Bakka sem náði miklum þroska og verkefni um uppbyggingu Líforkugarða á Dysnesi við Eyjafjörð.

Í febrúar stóð Eimur fyrir málþingi í Hofi um orkuskipti undir hatti RECET verkefnisins, sem var vel sótt. Í mars það ár fór hópur í námsferð til eyjunnar Samsø í Danmörku að fræðast um hvernig samfélagið þar umbreytti orkugjöfum frá olíu og gasi yfir í lífmassa, sól og vind. Með í för voru 11 fulltrúar sveitarfélaga frá Norðurlandi eystra og Vestfjörðum. Um haustið héldu Eimur og SSNE fimm vinnustofur með öllum tíu sveitarfélögunum undir hatti SSNE, um aðgerðir til hröðunar orkuskipta sem sveitarfélögin geta fléttað inn í sínar aðgerðaáætlanir fyrir loftslagið. Þá komu út tvær skýrslur á árinu undir hatti verkefnisins. Sú fyrri var Orkuskipti í haftengdri starfsemi á Norðurlandi eystra, sem tekur á væntri raforkuþörf við allar hafnir í landshlutanum tilkomna vegna áætlaðra orkuskipta smærri báta. Sú síðari, Olíunotkun sveitarfélaga á Íslandi, var unnin í góðu samstarfi við EFLU en þar var greind olíusala í öllum sveitarfélögum á Íslandi á árunum 2010-2020 og uppruni sölunnar metinn. Þetta er í fyrsta skiptið sem opinberlega eru birtar upplýsingar um olíunotkun á Íslandi eftir landsvæðum. RECET vinnan heldur svo áfram á nýju ári með áframhaldandi stuðningi við sveitarfélögin, en með aukinni áherslu á atvinnulífið og aðra þætti samfélagsins.
Norðanáttin blés til þriðju fjárfestahátíðarinnar á Siglufirði seinni hluta marsmánaðar. Þar komu saman um 100 manns, frumkvöðlar, fjárfestar og aðrir gestir og tóku þátt í ráðstefnu um frumkvöðlastarf á landsbyggðinni, og hlýddu á kynningar frá sprotafyrirtækjum sem vinna með einum eða öðrum hætti í auðlindahagkerfinu. Hátíðin heppnaðist afar vel og erum við stolt af því að hafa skapað þennan frjóa vettvang fyrir fjárfestingu í auðlindatengdum sprotum. 

Iðnþróun á forsendum sjálfbærni var viðfangsefnið í Grænum iðngörðum á Árbakka við Húsavík. Þar stendur fyrir kísiliðjan PCC Bakki Silicon sem vekur ekki beint hugrenningatengsl með grænni starfsemi, en verkefnið felst m.a. í því að nýta auðlindastrauma frá mengandi iðnaði sem fyrir er á svæðinu. Með því að nýta glataða orku, gas og aðrar afurðir sem við köllum í dag úrgang (því við hirðum ekki um að endurheimta þessi verðmæti í vinnsluferlunum) mætti á grunni þeirra verðmæta byggja upp frekari atvinnustarfsemi og iðnað. Afhverju eru þessar afurðir ekki hirtar, kann einhver að spyrja. Svarið felst alltaf í kostnaði. Sérstaklega verður dýrt að endurheimta orku og aðrar afurðir úr iðnferlum þegar ekki er hugsað fyrir því við hönnun ferlanna, og verðmiðinn á mengun eða glötuðum auðlindum er enn svo lágur að hann hefur lítil áhrif á ákvarðanir um hvernig verksmiðjur eru smíðaðar. Varmi er dæmi um auðlind sem er mikið er sóað á Íslandi, og (glat)varmi frá stóriðju er engin undantekning. Í tilviki kísiliðjunnar á Árbakka við Húsavík skoðuðum við sérstaklega endurheimt á glatvarma frá kælikerfi verksmiðjunnar í góðu samstarfi við fyrirtækið og niðurstaðan var sú að með lægri tilkostnaði m.v. hefðbundnar leiðir til að sækja varma (með borunum á nýjum jarðhitaholum), mátti sækja varma sem dygði til að hita upp öll heimili á Húsavík tvisvar sinnum. Þetta er merkileg niðurstaða því hún sýnir að það getur borgað sig að hirða frekar en henda, eitthvað sem ætti að geta ríkt samhugur um að sé æskilegt. Fyrir utan vinnuna á Árbakka við Húsavík þar sem Eimur hefur mikið unnið með Norðurþingi og Orkuveitu Húsavíkur og fleiri aðilum, hefur Eimur veitt fleiri sveitarfélögum á Norðurlandi ráðgjöf þegar kemur að atvinnuuppbyggingu á forsendum hringrásarhagkerfisins. 

Á árinu var mikil gróska var í málefnum sem sneru að framleiðslu á líforku og starfsfólk Eims tók virkan þátt í að þroska hugmyndir um Líforkugarða á Dysnesi við Eyjafjörð. Í líforkugörðum yrðu starfræktar nokkrar vinnslueiningar þar sem tekið væri á móti lífrænum straumum og úr þeim unnin verðmæti í formi orkugjafa og áburðar. Áformum um uppbyggingu líforkugarða á Dysnesi við Eyjafjörð má skipta upp í þrjá áfanga: Líforkuver, lífdísilver og lífgasver. Fyrsti áfanginn snýr að uppbygginu á vinnslustöð fyrir dýrahræ og annan sláturúrgang sem meðhöndla þarf með sérstökum hætti vegna dýrasjúkdóma. Félagið Líforkuver ehf. leiddi mikla vinnu í þessum efnum sem m.a. sneri að uppbyggingu á slíkri vinnslu, og studdum við hjá Eimi þá vinnu. Mikil samstaða skapaðist á svæðinu um þessa uppbygginu og þáverandi matvælaráðherra lýsti yfir stuðningi við verkefnið. Úr þessu ferli yrði til hráfita sem nýta má til framleiðslu á lífdísli, en félagið Orkey hefur hug á að stórauka framleiðslu sína á lífdísli og nýta til þess hráfituna. Þá fóstruðum við uppbyggingu á þriðja áfanga Líforkugarða, stýrðri vinnslu á metangasi, sem byggir á því að nýta hreinsibúnað fyrir metangas sem þegar er til á svæðinu en það gefur talsvert forskot m.t.t. fjárfestingakostnaðar í slíkri vinnslu. Þessi uppbygging styður markvisst við innleiðingu hringrásarhagkerfisins og afurðirnar eru framlag til orkuskipta á Íslandi.
Þótt við hjá Eimi reynum að vera sýnileg á miðlum og segja frá því sem við gerum þá er stór hluti starfseminnar ósýnilegur öðrum en starfsfólki. Hér á ég sérstaklega við þann mikla tíma sem fer í að sækja styrki. Frá árinu 2022 höfum við tekið þátt í níu styrkumsóknum í annað hvort Horizon Europe eða LIFE styrktaráætlanir ESB og þar af verið leiðandi í vinnu við sjö af þeim. Af þessum níu hafa tvær hlotið náð og er árangurshlutfallið þannig rúm 22%, sem telst mjög gott í þessum bransa. Eitt Evrópuverkefni bættist við á árinu, en það var ICEWATER verkefnið sem byrjaði í janúar 2025 og snýr að innleiðingu á vatnaáætlun á Íslandi. Þá eru ótaldar umsóknir í innlenda sjóði, þar sem árangurshlutfallið er talsvert hærra. 

Með nýju starfsvæði á Norðurlandi vestra koma ný tækifæri. Landshlutinn er mikil matarkista, með framleiðslu á landbúnaðarvörum og öflugri útgerð. Þá er starfsemi Landsvirkjunar umtalsverð á svæðinu og útlit er fyrir aukna orkuvinnslu á Blöndusvæði í náinni framtíð. Nokkrir sprotar eru þegar komnir aðeins á legg, en mikil áhersla verður lögð á verðmætasköpun úr lífmassa og bætta nýtingu varma á svæðinu. Til að sinna verkefnum í landshlutanum voru til þess ráðin á árinu, þau Ragnhildur Friðriksdóttir sem starfar á Sauðárkróki, og Sigurður Líndal Þórisson með aðsetur á Hvammstanga, sannarlega góð viðbót við öflugan starfsmannahóp Eims. Til jafns við að finna nýjar áherslur munum við líka byggja á þeirri reynslu og þekkingu sem við höfum aflað okkur í vinnu um græna iðngarða, líforkumál og orkuskipti og setja þá vinnu í samhengi við aðstæður á Norðurlandi vestra.

Ég gæti sannarlega haldið áfram en læt þetta nægja í bili. Við hlökkum til að takast á við 2025!

Ottó Elíasson
Framkvæmdastjóri Eims.



Deila frétt

20. janúar 2026
Í fréttabréfinu er farið yfir þann árangur sem náðst hefur innan verkefnisins á síðustu misserum og varpað ljósi á fjölbreytt og metnaðarfull verkefni samstarfsaðila víðs vegar um Evrópu. Helstu atriði frá íslensku samstarfsaðilunum: Á Íslandi hafa Eimur, SSNE og Vestfjarðastofa unnið með sveitarfélögum á sínum svæðum að gerð svæðisbundinna áætlana fyrir orkuskipti og loftslagsmál. Á Norðurlandi eystra liggur nú fyrir sam eiginleg loftslagsáætlun allra sveitarfélaga SSNE. Í þeirri vinnu var meðal annars nýttur aðgerðabanki RECET, sem er afrakstur vinnustofa sem Eimur og SSNE héldu haustið 2024. Á Vestfjörðum var farin sú leið að flétta orkuskipta- og loftslagsmál inn í svæðisskipulagsgerð, sem nú er í samráðsferli. Vestfjarðastofa hefur haft forgöngu um innleiðingu græns bókhaldskerfis fyrir sveitarfélög á svæðinu, sem auðveldar eftirfylgni og mat á árangri aðgerða í rauntíma. Á tímabilinu voru haldnir nokkrir viðburðir, þar á meðal: Alþjóðleg ráðstefna í Hofi í maí 2025, skipulögð af Eimi í samstarfi við Íslenska Nýorku, Nordic Energy Research og Umhverfis- og orkustofnun, undir yfirskriftinni Akureyri Energy Seminar. Vefþing um orkuskipti smábáta í apríl 2025, haldið af Eimi og Vestfjarðastofu. Eimur birti einnig olíumælaborð á tímabilinu sem er byggt á greiningu Eims og Eflu á olíusölu eftir landsvæðum á árunum 2010-2020. Á næstu vikum verður aðgerðabanki RECET gerður opinber. 🔗 Hægt er að lesa fréttabréfið á netinu eða sækja PDF-útgáfu hér: https://www.recetproject.eu/recetnewsletter-2 Um RECET RECET er samstarfsverkefni fimm landa og fjölda sveitarfélaga víðs vegar um Evrópu, með Ísland í fararbroddi. Verkefnið miðar að því að efla getu sveitarfélaga og atvinnulífs til að takast á við orkuskipti og móta markvissar orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin. RECET er styrkt af LIFE-styrktaráætlun Evrópusambandsins, sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál.
16. janúar 2026
Eftirfarandi verkefni stóðu uppúr: Grænir iðngarðar á Bakka Eimur leiddi samningaviðræður f.h. Akureyrarbæjar við gagnaver AtNorth um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu við Hlíðarvelli á Akureyri. Afar fjölsótt ráðstefna um framtíðina á Bakka haldin 20. nóvember s.l. með ráðamönnum, fulltrúum þings og sveitarstjórna, atvinnulífsins og áhugasamra fyrirtækja um uppbyggingu á Bakka og almennings á Húsavík. Útkoma skýrslu verkefnastjóra Græns iðngarðs um þróun svæðisins á Bakka, áskoranir og niðurstöður. Sniglarækt og kortlagning hjárennslis í hitaveitum Frábær kynning um sniglarækt og framreiðsla á Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavíka, í september 2025. Afar vel sótt námskeiðaröð um sniglarækt með Peter Monaghan , sem við stóðum fyrir á Norðurlandi vestra og eystra haustið 2025. Samstarf við Mirru Payson SIT nema, Norðurorku, Skagafjarðarveitur um kortlagningu á hjárennsli hitaveitna á Norðurlandi RECET Vefþing í apríl sl. um orkuskipti smábáta í sjávarútvegi haldið með Vestfjarðastofu Alþjóðleg ráðstefna haldin í Hofi í byrjun maí um áskoranir orkuskipta í dreifðum byggðum haldin með Nordic Energy Research, Umhverfis- og orkustofnun og Íslenskri Nýorku Samstarf við SIT nema Inbal Armony, sem kom saman mælaborði um olíusölu eftir landshlutum birt, byggða á greiningu Eims og Eflu á olíusölu eftir landsvæðum á árunum 2010-2020 Þróaður aðgerðabanki í orkuskiptum og loftslagsmálum fyrir sveitarfélög byggðan á reynslu Eims, SSNE og Vestfjarðastofu af vinnustofum um orkuskipti og loftslagsmál. Stofnun orkusamfélags Kelduhverfis. ICEWATER Samningur við Iðnver um leigu á færanlegu hreinsivirki fyrir fráveituvatn Unnið hörðum höndum að hönnun færanlegs hreinsivirkis fyrir fráveituvatn Samkomulag við Kjarnafæði/Norðlenska um uppsetningu á færanlegu hreinsivirki fyrir fráveituvatn við sláturhús þeirra á Húsavík. Metanver á stórum og smáum skala Unnum rekstrar- og fjármögnunarlíkan fyrir metanver, með mögulega staðsetningu á Dysnesi við Eyjafjörð og kynntum fyrir helsta úrgang. Hófum virkt samtal við Akureyrarbæ sem einn helsta úrgangshafa svæðisins um mikilvægi þessarar uppsetningar. Fjölsótt ráðstefna haldin með kollegum okkar í Orkídeu á Hótel Selfossi í júní s.l. um lífgas og áburðarmál. Við höfum rætt við marga kúabændur um þau fjölbreyttu tækifæri til aukinnar rekstarhagkvæmni sem felast í kúamykju, bæði með því að lækka áburðar- og eldsneytiskostnað í gegnum metanvinnslu. Nýting hauggass í Stekkjarvík Unnum mat á leiðum til að nýtingar hauggass frá Stekkjarvík í samstarfi við Norðurá bs. sem rekur urðunarstaðinn í Stekkjarvík, þangað sem mest af okkar heimilissorpi fer til urðunar. Eimur þakkar sínum fjölmörgu samstarfsaðilum fyrir gjöfult ár og hlakkar til að takast á við 2026! - Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri Eims
13. janúar 2026
Eimur hefur hlotið tvo styrki að upphæð 500 þúsund krónur hvorn, annars vegar frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra og hins vegar frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra, til áframhaldandi þróunar sniglaræktarverkefnisins , en næsti áfangi þess er námsferð til Írlands. Verkefnið miðar að því að þróa sniglarækt sem vistvæna og sjálfbæra hliðarbúgrein í íslenskum landbúnaði, með sérstakri áherslu á nýtingu glatvarma og lífrænna hliðarstrauma sem annars fara til spillis. Markmiðið er að byggja upp þekkingu, meta fýsileika ræktunar við íslenskar aðstæður og skapa ný tækifæri til verðmætasköpunar í dreifðum byggðum. Styrkirnir styðja við næsta áfanga verkefnisins sem felur meðal annars í sér staðnám á Írlandi, þar sem íslenskir bændur, ráðgjafar og verkefnisstjóri munu kynnast starfandi sniglabúum og hagnýtum aðferðum í sniglarækt. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og erlenda sérfræðinga og fellur vel að áherslum sóknaráætlana landshlutanna um nýsköpun, sjálfbærni og fjölbreyttara atvinnulíf. Jafnframt hlaut Ísponica styrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra til verkefnisins HringrásHús: Innovating Food Systems , þar sem sniglarækt er skoðuð sem hluti af hringrásarlausnum í matvælaframleiðslu. Í því verkefni er meðal annars unnið með Inis Escargot á Írlandi, sem einnig er samstarfsaðili Eims í sniglaræktarverkefninu og viðkomustaður námsferðarinnar. Verkefnin styðja þannig hvort annað með miðlun þekkingar og þróun sjálfbærra lausna fyrir jákvæða byggðaþróun. Eimur þakkar Uppbyggingarsjóðum Norðurlands vestra og eystra fyrir stuðninginn.