Eimur á Tonik og Iceland Innovation Week

Nýsköpun, orkuskipti og svæðisbundin samvinna í forgrunni
Í maí tók Eimur þátt í tveimur áhrifamiklum nýsköpunarviðburðum – Tonik í Þórshöfn í Færeyjum og Iceland Innovation Week í Reykjavík.
Tonik – skapandi og tengjandi nýsköpunarhátíð á Norðurlöndum
Tonik, sem fór fram þann 9. maí í Þórshöfn, sameinar frumkvöðla, listamenn, fjárfesta og tæknisérfræðinga frá Norðurlöndum og víðar. Hátíðin er einstakur vettvangur fyrir samtal, innblástur og samstarf – þar sem nýjar hugmyndir fæðast og skapandi lausnir spretta fram.
Eimur var á staðnum ásamt SSNE, SSNV og Hraðinu á Húsavík, til að tengjast öðrum þátttakendum og eiga samtöl um sameiginlegar áskoranir og tækifæri í orkuskiptum og nýsköpun. Hátíðin fór fram í SILO – skapandi fimm hæða rými í hjarta Þórshafnar – þar sem boðið var upp á fjölbreytta dagskrá með fyrirlestrum, vinnustofum og listviðburðum í opnu og hlýlegu umhverfi.
Iceland Innovation Week – tengslamyndun og samtal um orku og nýsköpun
Á Iceland Innovation Week tók Eimur þátt í viðburðinum Regional Power: Igniting Innovation in Iceland’s Energy Landscape, sem haldinn var í samstarfi við Landsvirkjun og samstarfsverkefni okkar Bláma, Eygló og Orkídeu.
Viðburðurinn var fyrst og fremst vettvangur tengslamyndunar og samræðu – þar sem við hittum fjölbreyttan hóp fólks úr nýsköpunarumhverfinu, ræddum um svæðisbundin tækifæri og hvernig virkja má krafta samfélaga, auðlinda og nýsköpunar í þágu orkuskipta og sjálfbærni.
Þátttaka okkar í þessum viðburðum endurspeglar þá nálgun Eims að vera brú milli samfélaga, nýsköpunar og orkumála. Með samvinnu sköpum við jarðveg fyrir lausnir sem nýtast fólki og svæðum um land allt.
Deila frétt
