Orkuskipti á jaðarsvæðum í brennidepli á ráðstefnu í Hofi

„Orkuskiptin verða að ná til allra – líka eyja og fjarliggjandi svæða.“
Þannig hóf Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, ráðstefnuna Akureyri Energy Seminar: Sustainable Solutions for Remote Areas, sem haldin var þann 6. maí í Hofi, Akureyri.
Ráðstefnan var haldin í samstarfi við RECET (Rural Europe for the Clean Energy Transition) verkefnið og Net Zero Islands Network, þar sem sérfræðingar og stefnumótendur víðs vegar að – frá Norðurlöndunum, Evrópu og Kanada – komu saman til að ræða lausnir í orkuskiptum sem nýtast á dreifbýlum svæðum og eyjum. Orkuskiptin eru margslungið samfélagslegt verkefni og á þessum svæðum er sérstaklega brýnt að vel takist til að flétta samfélagið inn í aðgerðir til þess að skapa sátt og ávinning fyrir alla.
Á dagskrá voru fjölbreyttar kynningar og pallborðsumræður þar sem fjallað var meðal annars um:
Samsø (Danmörk): Fulltrúar frá Samsø Energy Academy sögðu frá því hvernig samfélagið á eyjunni hefur náð orkusjálfbærni með virkri þátttöku íbúa og eignarhaldi þeirra í endurnýjanlegri orku, en það síðara var einnig mikilvægt stef í erindi fulltrúa Equitable Energy Resarch frá Shetlandseyjum.
Ísland: Sigurður Friðleifsson frá Umhverfis- og orkustofnun fjallaði um orkuskipti á landsvísu og tækifæri í orkuskiptum í samgöngum. Skúli Gunnar Árnason frá Eimi greindi frá áhrifum olíugjalda á landsbyggðina og nauðsyn réttlátrar stefnumótunar.
Blekinge (Svíþjóð) og Skotland: Fulltrúar frá Blekinge Energy Agency í sýndu fram á mikilvægi svæðisbundinnar orkuáætlunargerðar og hvernig samræma má stefnu milli sveitarfélaga.
Álandseyjar (Finnland): Yvonne Østerlund kynnti heildstæða stefnu Álandseyja í sjálfbærri þróun, með áherslu á orkunýtingu og vistvænar lausnir.
Kanada : Michael Ross frá Yukon-háskóla ræddi vegferðina í átt að sjálfbærri orku í Nunavut, með áherslu á áskoranir og sérstöðu norðurslóða og það hversu miklu dýrari orkubreytingar eru fyrir dreifbýlli svæði.
Verkefnafundur RECET þátttakenda
Daginn áður, 5. maí, hittust samstarfsaðilar RECET-verkefnisins í vinnufundi þar sem þau deildu framgangi verkefnisins ásamt reynslu og lausnum frá sínum heimahögum – allt frá Vestfjörðum og Norðurlandi á Íslandi til Blekinge í Svíþjóð, Menorca á Spáni, Postojna í Slóveníu og Samsö í Danmörku. Þar var dýrmæt reynsla dregin fram:
„Við lærum ekki bara af fyrirmyndarsvæðum eins og Samsø – heldur líka af áskorunum og reynslu minni samfélaga í orkuskiptum.“
Víða í Evrópu eru ríki komin lengra með loftlags- og orkuskiptaáætlanir en á Íslandi. Þegar rýnt er í muninn á milli Íslands og Evrópu, þá sést að í Evrópu er oft meiri samheldni milli ólíkra stiga stjórnkerfisins og meira aðhald við aðgerðir sveitarfélaganna og innleiðingu á þeim. Þessum þrýstingi fylgir líka leiðsögn og aðstoð sem gerir svæðisbundnar tengdari yfirlýstum markmið stjórnvalda. Hér á Íslandi vantar mun meiri samhæfingu milli ríkis og sveitar í þessum málum.
Samvinna í þágu orkuskipta
Ráðstefnan sýndi vel hversu mikilvægt það er að huga vel að samfélagslegum þáttum þegar kemur að árangursríkum orkuskiptum á dreifbýlum svæðum. Til að ná árangri þarf að flétta saman uppbyggingu fyrir orkuskipti og framtíðarsýn fyrir þróun og atvinnuuppbyggingu í samfélaginu.
Eimur þakkar samstarfsaðilum sínum, sérstaklega Nordic Energy Research og Umhverfis- og orkustofnun, fyrir öfluga samvinnu – og öllum sem tóku þátt í bæði ráðstefnunni og vinnufundinum.
📺 Hér er hægt að horfa á upptöku frá ráðstefnunni: https://www.youtube.com/watch?v=06zaieIfMek&t=481s

Deila frétt


