20. mars 2025

Sjálfbær nýting hauggas í Stekkjarvík

Orkurannsóknasjóður Landsvirkjunar úthlutaði nýverið styrkjum til 46 rannsóknarverkefna, en þetta er í 18. skipti sem úthlutað er úr sjóðnum. Eimur hlaut þar styrk fyrir verkefnið Sjálfbær nýting hauggass í Stekkjarvík, sem Ragnhildur Friðriksdóttir hjá Eimi leiðir og snýr að því að finna hagkvæma lausn á nýtingu hauggassins sem safnað er í Stekkjarvík. Niðurstöður verkefnisins munu veita hagsmunaaðilum mikilvægar upplýsingar um möguleika til nýtingar á þessari ónýttu auðlind og varpa ljósi á ávinning og tækifæri fyrir nærsamfélög og umhverfið.

Orrkurannsóknasjóður úthlutaði rúmum 72 milljónir til 46 verkefna í ár. Mynd - Landsvirkjun

Hauggas frá urðunarstöðum - Hvað er það og hvernig getum við búið til verðmæti úr gasinu sem nýtist nærsamfélaginu?

Urðunarstaðurinn í Stekkjarvík, norðan við Blönduós, er einn af stærstu urðunarstöðum á landinu. Frá 2011 hefur Stekkjarvík tekið við rúmlega 250 þúsund tonnum af úrgangi frá sveitarfélögum á Norðurlandi, mest blönduðum úrgangi, auk sláturúrgangs. Í rotnandi úrganginum myndast metangas, sem frá árinu 2018 hefur verið safnað saman með sérstöku lagnakerfi og því dælt upp. Um 30-40 rúmmetrar af hauggasi safnast saman á klst í núverandi gassöfnunarkerfi, þar af er 32% metangas. Metanið, sem er allt að 25 sinnum skaðlegri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur, er leitt í sérstaka brennslustöð í Stekkjavík þar sem það er brennt til þess að lágmarka útblástur frá urðunarstaðnum.

Stekkjarvík. Mynd af vef Húnabyggðar

Talsverð vinna hefur verið lögð í umrætt gassöfnunarkerfi í Stekkjarvík en hingað til hefur gasinu verið fargað með brennslu í stað þess að nýta það. Alls voru því um 88 tonn af metangasi brennd árið 2021 og 72 tonn árið 2022. Nýlega var innleitt bann við urðun á lífrænum úrgangi, og er það gert í því skyni að lágmarka umhverfisáhrif frá urðunarstöðum, enda myndast mikið magn gróðurhúsalofttegunda við niðurbrot lífræns úrgangs. Bannið breytir þó ekki þeirri staðreynd að lífrænn úrgangur sem kominn er ofan í jörðu gefur áfram frá sér hauggas. Hauggas kemur því til með að myndast í urðunarhólfinu í Stekkjarvík næstu ár og áratugi, jafnvel þó svo að urðun lífræns úrgangs yrði hætt í dag. Því er ljóst að hér er um að ræða vannýtta auðlind sem mikilvægt er að finna farveg til nýtingar. Dæmi um nýtingarmöguleika gassins er framleiðsla á raforku og varma, sem nýst gæti nærumhverfinu og nærliggjandi byggðarkjörnum. Í því samhengi má m.a. nefna að heitavatnslögn Rarik til Skagastrandar liggur steinsnar frá athafnarsvæðinu og gæti varmi frá bruna metans vel nýst til kyndingar þess vatns sem þar rennur. Slíkt gæti haft jákvæð áhrif á framboð af heitu vatni bæði á Skagaströnd og Húnabyggð, sem skortur hefur verið á undanfarin ár.


Til að finna hagkvæma lausn á nýtingu hauggassins sem safnað er í Stekkjarvík hefur verið stofnað til samstarfs milli Eims, Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og Norðurár bs. Markmið verkefnisins er að greina hagkvæmni og fýsileika raf- og varmaorkuframleiðslu úr metangasinu með tilliti til efnahags og umhverfis, en ekki síður samfélagslegra þátta nærliggjandi sveitarfélaga. Með heilstæðri nálgun sem þessari má vega samfélagslega hagsmuni til jafns við efnahagslega, sem dregur upp aðra mynd en þegar aðeins efnahagslegir hagsmunir veitufyrirtækja eru látnir ráða för. Niðurstöður verkefnisins munu veita hagsmunaaðilum mikilvægar upplýsingar um möguleika til nýtingar á þessari ónýttu auðlind og varpa ljósi á ávinning og tækifæri fyrir nærsamfélög og umhverfið. Verkefnið getur einnig orðið fyrirmynd fyrir aðra staði á Íslandi þar sem metan frá urðunarstöðum er ekki nýtt.


Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Ragnhildur Friðriksdóttir á netfangið ragnhildur@eimur.is


Deila frétt

3. júlí 2025
Eimur kynnir með stolti gagnvirkt olíumælaborð
3. júlí 2025
Akureyrarbær og atNorth hafa undirritað samkomulag um afhendingu glatvarma frá gagnaverinu ICE03 að Hlíðarvöllum í samvinnu við Eim, sem leiddi vinnu við samningsgerðina. Glatvarminn verður afhentur án endurgjalds til þróunarverkefna í samræmi við áherslur Akureyrarbæjar um sjálfbæra þróun og orkunýtingu. Framkvæmdum við 16 milljarða króna stækkun gagnavers atNorth á Akureyri miðar vel og er fyrri áfangi nú tilbúinn í rekstur. Samhliða stækkun gagnavers verður reist þjónustuhús fyrir ört stækkandi hóp starfsmanna félagsins á Akureyri. Fyrsta skóflustungan var tekin í morgun við hátíðlega athöfn. Viðstaddir voru fulltrúar bæjarstjórnar Akureyrar, starfsmenn atNorth, verktakar og aðrir gestir. Nýja þjónustuhúsið verður vestan við núverandi byggingar á athafnasvæði atNorth og er ráðgert að húsið verði tekið í notkun á næsta ári. Anna Kristín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar og nýsköpunar hjá atNorth, hélt um skófluna í morgun og tók fyrstu skóflustunguna ásamt starfsfólki félagsins. „Umsvifin á Akureyri hafa aukist hröðum skrefum og ljóst að við þurfum að reisa nýja þjónustubyggingu til að tryggja framúrskarandi aðstöðu til framtíðar fyrir ört stækkandi starfsmannahóp okkar. Auk mikils fjölda verktaka sem vinna að stækkun rekstursins, erum við með um 80 fasta starfsmenn á Íslandi og þriðjungur þeirra er á Akureyri.“ Samhliða stækkuninni hafa Akureyrarbær og atNorth samið um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu til samfélagsverkefna á Akureyri, m.a. til upphitunar á nýju gróðurhúsi sem reist verður og rekið á samfélagslegum forsendum. Auk bæjarins og atNorth koma Ferro Zink og Gróðrarstöð Akureyrar að verkefninu, en markmiðið er m.a. að skapa lærdómsumhverfi til vistvænnar ræktunar fyrir nemendur á grunn- og framhaldsskólastigi á Akureyri. Vonir standa til að gróðurhúsið verði tilbúið til notkunar strax í haust og ungir Akureyringar fái þá tækifæri til að kynnast sjálfbærri matvælaframleiðslu og betri orkunýtingu í verki. „Við leggjum mikla áherslu á að Akureyri verði leiðandi í orkunýtingu og sjálfbærni,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. „Þetta samstarf við atNorth og Eim er lykilskref í þeirri vegferð og þeir möguleikar sem fylgja samkomulagi um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu eru afar mikilvægir fyrir bæjarfélagið. Sá samningur sem undirritaður var í dag er í takti við þær væntingar sem við höfðum um áhrif þeirra innviðaframkvæmda sem ráðist var í til að tryggja raforkuflutning inn á svæðið.“ Eimur leiddi samningsgerðina fyrir hönd bæjarins. „Við hjá Eimi sjáum þetta sem mikilvægt skref í því að virkja ónýttar auðlindir til raunverulegrar verðmætasköpun á svæðinu. Þessi samningur er einstakur á Íslandi og sýnir greinilega hverju hægt er að ná fram þegar sveitarfélög, fyrirtæki og nýsköpun vinna saman að settum umhverfismarkmiðum“, segir Karen Mist Kristjánsdóttir, forstöðumaður orku og sjálfbærni hjá Eimi. Alls rekur atNorth átta gagnaver á Norðurlöndum, þar af þrjú á Íslandi. Tvö til viðbótar eru í smíðum í Danmörku og Finnlandi, auk þess sem stækkun gagnaversins á Fitjum í Reykjanesbæ er í fullum gangi. Starfsmenn atNorth eru rúmlega 200.
27. júní 2025
Eimur óskar eftir að ráða verkefnastjóra á Norðurlandi Vestra í tímabundið starf út árið 2026, með möguleika á framlengingu. Við leitum að öflugum einstaklingi til að móta og leiða spennandi þróunarverkefni á Norðurlandi vestra á sviði hringrásarhagkerfisins, orkuskipta og nýsköpunar. Verkefnastjóri vinnur náið með framkvæmdastjóra Eims og eftir atvikum öðru starfsfólki og samstarfsaðilum, og ber ábyrgð á framgangi valinna verkefna. Starfsstöð verkefnastjóra er á Norðurlandi vestra, eftir hentugleikum á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd eða Sauðárkróki. Helstu verkefni Verkefnastjórn valinna verkefna Eims með áherslu á innleiðingu hringrásarhagkerfis, orkuskipti, orkunýtni og verðmætasköpun Þróa öflugt samstarf með hagsmunaaðilum, sérstaklega á Norðurlandi vestra Vinna að mótun og fjármögnun nýrra verkefna á starfssvæði Eims Taka virkan þátt í umsóknaskrifum í innlenda og erlenda sjóði Aðstoð við að koma verkefnum Eims á framfæri Teymisvinna með Bláma, Orkídeu og Eygló Hæfnikröfur Háskólamenntun sem nýtist í starfi, raunvísinda- eða tæknimenntun er kostur Frumkvæði, skipulagshæfni og sjálfstæði vinnubrögðum Reynsla af gerð styrkumsókna í innlenda og erlenda sjóði er kostur Reynsla af verkefnastjórn er kostur Rík samskiptahæfni og færni í að koma frá sér efni Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti Eimur er samstarfsverkefni sem snýr að bættri nýtingu auðlinda á Norðurlandi með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Að verkefninu standa Landsvirkjun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur. Með umsókn skal fylgja ferilskrá ásamt kynningarbréfi. Nánari upplýsingar Geirlaug Jóhannsdóttir, geirlaug@hagvangur.is Inga S. Arnardóttir, inga@hagvangur.is