17. mars 2025
Glötuð gufa? – nýting glatvarma frá stóriðju til gufuframleiðslu
Eimur hlýtur styrk úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar
Eimur og PCC BakkiSilicon hlutu nýverið styrk úr Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar
til að kanna hagkvæmni þess að nýta háhita frá iðnaðaferlum PCC BakkiSilicon til gufuframleiðslu. Markmið verkefnisins er að kanna hvernig draga má úr orkukostnaði við gufuframleiðslu fyrir iðnað staðsettan innan Græns Iðngarðs á Bakka og á sama tíma bæta orkunýtingu svæðisins.
Rannsóknin mun sýna fram á hvernig bætt nýting auðlinda getur mögulega leitt til orkusparnaðar, lægri rekstrarkostnaðar og á sama tíma sjálfbærari iðnaðaruppbyggingu. Verkefnið hefur bæði beinan fjárhagslegan ávinning og samfélagslega mikilvægi, þar sem það stuðlar að sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda og dregur úr umhverfisáhrifum. Verkefni af þessu tagi er verulega gagnlegt til að ýta áfram umræðu um bætta auðlindanýtingu á landsvísu og getur orðið fyrirmynd af slíkum verkefnum framtíðarinnar.
Gögn sem munu liggja fyrir að rannsókn lokinni eru:
- Varmagreining frá PCC: Mælingar á hitastigi og magni varmaorku sem losnar við framleiðsluferla PCC frá háhitastrompunum.
- Hagkvæmniútreikningar: Samanburður á kostnaði við gufuframleiðslu með háhita við hefðbundna gufuframleiðslu með raforku (og dreifigjaldi raforku innan utan þéttbýlis).
Árið 2024 var unnin greining á nýtingu glatvarma frá kælikerfi PCC, sem reyndist mjög jákvæð. Nú verður skoðað hvernig háhiti úr strompunum frá framleiðsluferlum PCC getur nýst til gufuframleiðslu.
Verkefnið er samstarfsverkefni PCC BakkiSilicon og Eims. Þá verður verkfræðistofa fengin til að greina varmaflæði og til að meta hagkvæmni og nýtingu glatvarma. Ef verkefnið reynist árangursríkt, getur það orðið fyrirmynd fyrir sjálfbæra iðnaðaruppbyggingu þar sem tækifæri eru í nýtingu háhita.
Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Karen Mist Kristjánsdóttir á netfangið karen@eimur.is
Orkurannsóknasjóður Landsvirkjunar úthlutaði styrkjum til 46 rannsóknarverkefna í ár, en þetta er í 18. skipti sem úthlutað er úr sjóðnum. Nánari upplýsingar um sjóðinn má finna á vefsíðu Landsvirkjunar.
Deila frétt

Yfirskrift viðburðarins er Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri og er liður í að efla umræðu og samstöðu um framtíðarsýn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. Meðal fundarefna verður: • Hvernig orka, varmi og innviðir skapa ný tækifæri á Bakka • Hvernig hringrásarhagkerfi getur stutt við atvinnuþróun og alþjóðlega ímynd Íslands • Hvernig samfélagið getur tekið virkan þátt í sjálfbærri uppbyggingu Dagskrá: Húsið opnar kl. 12:00 – Skráning og súpuhlaðborð fyrir gesti á Fosshótel Húsavík Ráðstefna kl. 13:00 – 17:00 Fundarliður 1: Bakki í sókn – Tækifæri og uppbygging á grænum grunni Fundarliður 2: Grunnstoðir Bakka – orka, innviðir og samkeppnishæfni Fundarliður 3: Hvert stefnum við? – Framtíðarsýn Bakka til næstu kynslóða (Nánari dagskrá verður birt þegar nær dregur) Boðið verður upp á leiðsögn um svæðið á Bakka fyrir hádegi frá kl. 10:30 - 12:00 þann 20. nóvember og er sú ferð opin öllum. Rútan fer frá Fosshótel á Húsavík og er nauðsynlegt að skrá sig því það er takmarkað pláss. Ráðstefnan er opin öllum en skráning er nauðsynleg - www.eimur.is/bakkiradstefna

Um liðna helgi tók Eimur þátt í Hönnunarþingi Hraðsins á Húsavík, sem nú var haldið í þriðja sinn. Hönnunarþing er hátíð hönnunar og nýsköpunar þar sem m.a. skapandi greinar og frumkvöðlastarf mætast á fjölbreyttan hátt, en í ár var sjónum beint sérstaklega að mat og ólíkum snertiflötum hönnunar og matarhandverks. Á dagskránni mátti finna fyrirlestra frumkvöðla og hönnuða, sýningar, sköpunarverk matreiðslufólks, tónlistaratriði og nýstárleg verkefni sem öll vörpuðu ljósi á hvernig hugmyndaflug, hönnun og framtíðarsýn geta skapað einstaka upplifun.







