14. júní 2018

Skordýrarækt bar sigur úr býtum

Úrslit úr matvælasamkeppninni: "Gerum okkur mat úr jarðhitanum" voru kynnt í Hofi í dag. Að samkeppninni stóðu Eimur, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Matarauður Íslands og Íslensk verðbréf. Alls bárust 20 tillögur í samkeppnina um leiðir til að nýta jarðhita við framleiðslu á matvælum og næringarefnum. Hugmyndirnar voru mjög fjölbreyttar, vel unnar og því úr vöndu að ráða fyrir dómnefndina.
Dómnefnd hafði valið fjórar tillögur sem kepptu til úrslita. Hugmyndasmiðirnir komu fram og kynntu tillögurnar fyrir dómnefnd og áhorfendum. Eftir nokkrar bollaleggingar valdi dómnefndin verkefnið: "Rearing Insects on Geothermal Energy- TULCIS – The Insect Farm to Feed the Future" sem þá bestu. Hugmyndasmiðirnir, Torsten Ullrich og Christin Irma Schröder, voru að vonum himinlifandi með sigurinn. Þau hlutu tvær milljónir króna í verðlaun. Í 2. sæti var hugmyndin: "Ræktun á heitsjávarrækju á Hjalteyri við Eyjafjörð" sem Magnús Þ. Bjarnason og Þorgerður Þorleifsdóttir sendu inn. Einnig komust í úrslit Jóhanna María Sigmundsdóttir og Sigmundur Hagalín Sigmundsson með hugmyndina: "Fullnýting á íslenskri yl- og útirækt með aðstoð jarðvarma" og Kristín S. Gunnarsdóttir með "Nýting náttúruafurða í Öxarfirði".

Auk þess mun Nýsköpunarsmiðtöð Íslands bjóða öllum þeim sem sendu inn hugmynd upp á námskeið varðandi þróun viðskiptahugmyndar.  Um er að ræða hagnýtt námskeið um rekstur fyrirtækja með áherslu á þróun hugmynda, markaðssetningu, áætlanagerð og fjármál.   Þátttakendur vinna sjálfstætt að sínum verkefnum en fá handleiðslu í gegnum allt ferlið.

Dómnefnd skipuðu Sigríður Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings, Jón Steindór Árnason frá Íslenskum Verðbréfum, Brynja Laxdal frá Matarauði Íslands og Sæmundur Elíasson frá Matís. Einnig sat Þórir Hrafnsson formaður verkefnastjórnar Matarauðs Íslands í dómnefndinni.

Á meðan dómnefnd réði ráðum sínum kynnti Lilja Kjalarsdóttir starfsemi Keyntaura sem er líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í smáþörungum fyrir fæðubóta og lyfjamarkaðinn. Framleiðsluferli byggir á nýtingu vatns- og jarðvarmaorku ásamt hreinu lofti og vatni.

Óklippta úgáfu af viðburðinum er hægt að sjá hér á youtube  (dagskráin hefst á 19. mínútu).


Deila frétt

11. september 2025
Sniglarækt sem ný aukabúgrein á Íslandi
Eftir Kolfinna María Níelsdóttir 9. september 2025
Eimur hefur fengið öflugan liðsstyrk í Alessöndru Schnider sem bætist nú í hópinn og mun starfa á Norðurlandi vestra með aðsetur á Sauðárkróki. Alessandra lauk nýverið doktorsnámi í líffræði með áherslu á þróunarvistfræði í sameiginlegu námi Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands. ,,Við erum mjög spennt að fá Alessöndru til liðs við okkur hjá Eimi, og verður hennar þekking og reynsla til að efla starfsemi félagsins enn frekar á Norðurlandi vestra”, segir Ottó Elíasson, framkvæmdastjóri Eims. Alessandra er með meistarapróf í erfðafræði og líffræðilegri mannfræði frá Háskólanum í Zürich í Sviss og BS próf í líffræði frá sama skóla. Á ferli sínum hefur Alessandra sinnt fjölbreyttum verkefnum tengdum fiskrannsóknum, náttúruvernd og vísindamiðlun, meðal annars með því að stofna og reka miðlunarverkefnið Ice Fish Research og framleiða hlaðvarpið Fiskaspjall sem fjallar um íslenskar fiskrannsóknir. Alessandra hefur kennt við Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands og unnið að fjölmörgum rannsóknarverkefnum og fengið til þess styrki. Hún hefur jafnframt birt vísindagreinar og flutt erindi á fjölda ráðstefna hérlendis og erlendis. ,,Það er dýrmætt að fá tækifæri til að nýta þekkingu mína í samfélagi sem tók vel á móti mér fyrir sex árum. Skagafjörður er orðið heimili mitt og mér þykir mikilvægt að geta unnið að verkefnum sem geta haft raunveruleg áhrif og stuðlað að jákvæðum breytingum. Menntun mín og reynsla hefur gefið mér sterka tengingu við náttúruna og ég vona að geta lagt mitt af mörkum með lausnum sem nýta auðlindir á ábyrgan hátt og vernda um leið hina einstöku náttúru Íslands”, segir Alessandra Schnider. Alessandra mun hefja störf 3. nóvember næstkomandi og bjóðum við hana velkomna til starfa. Starfið var auglýst þann 27. júní s.l. og bárust 18 umsóknir. Ráðningarferlið var unnið í samstarfi við ráðningafyrirtækið Hagvang.
3. júlí 2025
Eimur kynnir með stolti gagnvirkt olíumælaborð