28. maí 2019

Sumarskólanum slitið

Árlegur sumarskóli Eims var haldinn í annað sinn dagana 20.-25. maí á NA-landi. Nemendur skólans þetta árið voru 29 talsins og koma frá Stuttgart Media University og Listaháskóla Íslands. Við skólaslitin kynntu nemendur hugmyndir sínar að nýjum leiðum til að nýta auðlindir svæðisins með sjálfbærum hætti. Sérstök dómnefnd skipuð bakhjörlum Eims valdi svo bestu hugmyndina og þótti verkefnið MAGMA- Museum About Geothermal Magma Activities standa upp úr.

Skólinn er haldinn í samstarfi við Stuttgart Media University og Listaháskóla Íslands og nefnist á ensku: „Sustainability Innovation and Design Workshop in NE-Iceland“. Markmið sumarskólans er að draga fram tækifæri svæðisins í nýsköpun, sjálfbærum lausnum og atvinnusköpun í samræmi við markmið og tilgang Eims. Lögð var áhersla á að hugmyndir yrðu unnar í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Þátttakendur skólans eru iðn- og vöruhönnunarnemendur á meistarastigi og er skólinn hluti af þeirra námi. Nemendum var skipt niður á fyrirfram ákveðin svæði á Norðausturlandi sem þau könnuðu og í framhaldinu komu með tillögu að verkefnum, vörum eða þjónustu sem þeim fannst vanta eða myndi styrkja viðkomandi svæði. Á meðan á skólanum stóð gisti hópurinn í góðu yfirlæti á Narfastöðum í Reykjadal og hafði starfsaðstöðu í Seiglu á Laugum.

Kósí- project
Að Hveravöllum í Reykjahverfi hefur jarðhiti verið nýttur til matvælaræktunar í meira en öld. Þar eru nú ræktaðir tómatar, gúrkur og paprikur, alls um 500 tonn á ári. Á svæðinu er mikill jarðvarmi og mikil þekking á matvælaframleiðslu og -vinnslu. Hugmyndin sem þar kom fram snýst um að byggja á þessum auðlindum og útvíkka starfsemina með ræktun á sveppum, svömpum(loofah) og hreindýramosa. Þessar tegundir er hægt að nýta í framleiðslu á matvælum, snyrtivörum og heilsuvörum. Sveppina væri einnig hægt blanda við lífrænan úrgang úr grænmetisframleiðslunni til að rækta umhverfisvænar umbúðir. Einnig voru settar fram hugmyndir að vörum sem hægt væri að vinna úr þessum nýju hráefnum til að selja á staðnum.

Volcanic Oasis
Við Bjarnarflag í Mývantssveit kom fram hugmynd að því að byggja upp og þróa athvarf fyrir heimamenn og gesti, „Volcanic Oasis“. Þar væri blandað saman þörungarækt og slakandi upplifun þar sem jarðhitinn og svartur eldfjallasandur eru í meginhlutverkum. Hugmyndin gekk út á að nýta mannvirki sem áður hýstu kísiliðjuna undir starfsemina og glæða þau nýju lífi. Þörungar geta verið mjög verðmæt afurð sem m.a. er hægt að nýta til framleiðslu fæðubótaefna og í lyfjaiðnaði.

Sym-bakki
Iðnaðarsvæðið á Bakka og starfsemi kísilvers PCC bjóða upp á ýmsa möguleika til þróunar á grænum iðnaði á svæðinu. Sett var fram hugmynd um að byggja upp samverkandi iðnaðarferla, undir nafninu „Sym-bakki“, þar sem úrgangur og hliðarafurðir nýtast sem hráefni. Þannig verða til ferlar sem skila samfélags-, efnahags- og umhverfislegum ávinningi og úr verður grænt iðnaðarsvæði (Eco-industrial park) á Bakka. Meginhugmyndin gekk út á að nýta kolefnisútblástur og varma frá kísilverinu, ásamt aðgangi að nægu ferksvatni og sjó til að rækta sjávarþörunga sem nýttir yrðu til framleiðslu á heilsuvörum og í lyfjaiðnaði. Hópurinn sem vann að verkefninu lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að efla nýtingu umverfisvænna orkugjafa, sérstaklega rafmagns, til að knýja umferð um svæðið, bæði fyrir starfsfólk sem og ferðamenn.

Húsavík Community Greenhouse
Á Húsavík var unnið með hugmyndir um hvernig efla mætti ræktun matvæla með jarðhita til eflingar lýðheilsu árið um kring og einnig bjóða upp á fjölbreyttari mat úr nærumhverfinu fyrir ferðamenn. Ein hugmyndin gekk út á að breyta vöruskemmunni við Vallholtsveg 10 í samfélagsvettvang þar sem gróðurhús, samfélagseldhús, kaffihús og útivistarsvæði mynda eina heild undir nafninu „Greenhood“. Þar hefði almenningur og aðilar í veitingaþjónustu aðstöðu til ræktunar í fyrsta flokks umhverfi. Önnur hugmynd snerist um uppbyggingu smáræktunar þar sem fiðrildi og önnur skordýr eru í aðalhlutverki ásamt gróðurræktun.

MAGMA- Museum About Geothermal and Magma Activities
Jarðhitasvæðið í og í nágrenni Kröflu laðar að sér fjölmarga ferðamenn ár hvert. Þar þótti nemendum skorta meiri fræðslu og afþreyingu þar sem sérstaða svæðisins fengi að njóta sín. Því settu þau fram hugmynd að safni þar sem gestum býðst m.a. að ganga niður hringstiga í átt að kvikunni sem þar kraumar undir. Hugmyndin fól einnig í sér að læra hvernig rafmagn verður til úr gufu sem og að hlusta á tónlist svæðisins í gegnum gufuorgel sem gengur fyrir orku svæðisins. Hugmyndin fól einnig í sér að útbúa app sem gestir geta sótt sér og notað til að læra meira um svæðið og ekki síður til að forða þeim frá hættum sem þar leynast.

Húsa-Torg
Á starfssvæði Eims stunda fjölmargir aðilar fjölbreytta matvælaframleiðslu. Til að auka aðgengi heimafólks og ferðamanna að þessu góðgæti væri tilvalið að setja upp markaðstorg á Húsavík eða „HúsaTorg“. Torgið myndi nýtast öllum þeim sem þegar stunda matvælaframleiðslu sem og þeim hugmyndum sem settar hafa verið fram í sumarskólanum og gætu orðið að veruleika í framtíðinni. Einnig kom fram hugmynd um að bjóða upp pizzur sem bakaðar eru á upphitaðri hraunhellu undir nafninu „Lavastone Pizza“. 

Niðurstaðan
Þegar hóparnir höfðu kynnt hugmyndir sínar lagðist dómnefnd undir feld og valdi að lokum verkefnið MAGMA- Museum About Geothermal Magma Activities sem það besta. Að því loknu var skólanum slitið og undirbúningur hafinn fyrir skólann að ári.  

Í dómnefnd sátu Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings, Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir alþingismaður og fyrrum framkvæmdastjóri Eims, Guðrún Ólafía Brynleifsdóttir viðskiptaþróunarstjóri hjá Landsvirkjun, Reinhard Reynisson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Silja Jóhannesdóttir verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og Christin Schröder forstöðumaður Húsavíkustofu og skordýrafrumkvöðull.

Frekari upplýsingar um sumarskólann, sem og kynningarnar sjálfar má finna hér.


Deila frétt

27. nóvember 2025
Loftslags- og orkusjóður hefur úthlutað rúmlega 1,3 milljörðum króna til 109 verkefna sem miða að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eða fela í sér nýsköpun á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála. Eimur er meðal þeirra sem hljóta styrk að þessu sinni. Verkefni ber heitið Nýting lífræns efnis úr fráveituvatni til orkuframleiðslu . Það felur í sér uppsetningu færanlegs hreinsibúnaðar við sláturhús Kjarnafæðis/Norðlenska á Húsavík, í samstarfi við Orkuveitu Húsavíkur og Kjarnafæði Norðlenska. Markmið verkefnisins er að sýna fram á kosti þess að koma upp forhreinsivirki fyrir fráveituvatn frá matvælafyrirtækjum, draga úr lífrænu álagi og nýta efni sem annars færu til spillis, meðal annars til framleiðslu á lífdísil og lífgasi í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Gefn . Verkefnið er fyrst og fremst ætlað sem sýnidæmi sem getur orðið stjórnvöldum og fyrirtækjum hvatning til frekari aðgerða í fráveitumálum. Með því að hreinsa vatnið þar sem mengunin fellur til skapast betri möguleikar til að sækja verðmæt efni í fráveituna, auk þess sem álag á innviði sveitarfélaga minnkar verulega. Verkefnið er einnig hluti af ICEWATER verkefninu, sem að hluta er fjármagnað af LIFE styrktarsjóði Evrópusambandsins. Með styrknum frá Loftslags- og orkusjóði er tryggt að hefja uppsetningu búnaðarins fyrir sláturtíð 2026. Við hlökkum til að segja frá framgangi verkefnisins. Nánar um úthlutun Loftslags- og orkusjóðs og þau 109 verkefni sem hlutu styrk má finna á vef sjóðsins.
25. nóvember 2025
Framtíðin á Bakka – Samvinna, sjálfbærni og sóknarfæri
13. nóvember 2025
Undanfarnar vikur hefur Eimur staðið fyrir kynningarstarfi um möguleika sniglaræktar á Íslandi. Verkefnið hefur verið kynnt fyrir fjölmörgum aðilum víða um Norðurland meðal annars á Hönnunarþingi á Húsavík, Vegagerðinni, Landsvirkjun og fleiri stofnunum og fyrirtækjum. Markmiðið hefur verið að vekja athygli á tækifærum til nýsköpunar í landbúnaði og benda á hvernig vistvæn og sjálfbær ræktun gæti orðið áhugaverð viðbót við íslenskan landbúnað. Vinnustofur um sniglarækt sem haldnar voru á Norðurlandi í október vöktu mikla athygli og voru afar ánægjulegar í alla staði. Fjöldi bænda, frumkvöðla og annarra áhugasamra einstaklinga lagði leið sína á kynningarfundi þar sem fjallað var um möguleika sniglaræktar sem nýrrar vistvænnar hliðarbúgreinar á Íslandi. Á fundunum fóru yfir efnið þeir Sigurður Líndal frá Eimi og Peter Monaghan frá írska fyrirtækinu Inis Escargot, sem hefur mikla og farsæla reynslu af sniglarækt sem hágæða matvöru í Evrópu. Þeir kynntu hugmyndir sínar um hvernig hægt er að nýta íslenskar aðstæður, svo sem jarðhita, hrein auðlindakerfi og vannýttan húsakost til sveita, til að skapa sjálfbært rekstrarumhverfi fyrir sniglarækt. Áhugi á viðfangsefninu reyndist mikill og spurningar komu úr öllum áttum, bæði frá bændum sem sjá tækifæri til að renna styrkari stoðum undir búskap sinn og frá frumkvöðlum í leit að nýjum leiðum til að nýta staðbundnar auðlindir á skapandi hátt. Þátttakendur ræddu meðal annars um húsakost, fóðrun, ræktunarlotur, markaði og möguleg notagildi sniglaafurða á Íslandi, auk leiða til meginmarkaða í Evrópu. Sigurður og Peter voru báðir hæstánægðir með móttökurnar og áhugann sem blasti við alls staðar. „Ísland stendur frammi fyrir einstöku tækifæri á heimsvísu þegar kemur að sniglarækt, því stöðugt hitastig og trygg hitastjórnun er lykillinn að árangursríku sniglaeldi. Þar kemur íslenskur jarðhiti með nýja vídd inn á heimsmarkaðinn,“ sagði sniglasérfræðingurinn að loknum fundunum. Næstu skref eru þegar farin að taka á sig mynd, og ljóst er að langtum fleiri munu sækja um þátttöku í staðnámi á Írlandi en sæti verða í boði. Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með framhaldinu og fá upplýsingar um næstu skref geta haft samband við Sigurð Líndal hjá Eimi á netfangið s.lindal@eimur.is eða fylgst með fréttum á eimur.is. Vinnustofurnar sýndu glöggt að nýsköpun í landbúnaði lifir góðu lífi á Norðurlandi – og að þó sniglar séu smávaxnir geti þeir orðið stór hluti af framtíðinni.